18.11.2016

Trump, NATO, Pútín og Píratar

Morgunblaðsgrein 18. nóvember 2016

Þegar rætt er um kosningaúrslitin í Bandaríkjunum 8. nóvember 2016 og sigur Donalds Trumps yfir Hillary Clinton segja gamalreyndir bandarískir álitsgjafar og fræðimenn að þeir minnist sigurs Ronalds Reagans árið 1980 og áfallsins sem margir demókratar urðu fyrir þá. 

Einn vitnaði í Corettu Scott King, ekkju Martins Luthers Kings. Þegar hún heyrði að Reagan hefði sigrað sagði hún: „Við munum sjá meira af Ku Klux Klan og Nasistaflokkurinn sprettur fram að nýju.“ Sagðist álitsgjafinn vitna til þessara orða til að róa félaga sína í röðum demókrata og hann minnti þá einnig á að Richard Neustadt, hæstskrifaði sérfræðingurinn í sögu bandaríska forsetaembættisins, hefði komist að þessari klassísku stjórnmálafræðilegu niðurstöðu: „Vald forsetans er áhrifavald“. 

Það var ekki fyrr en eftir að Ronald Reagan lét af embætti forseta í ársbyrjun 1989 sem „heimsveldi hins illa“, eins og hann kallaði Sovétríkin, hrundi. Hann lagði vissulega sitt af mörkum til þess og sat meðal annars undir stöðugum ásökunum um að ætla að steypa mannkyni út í kjarnorkustríð. Hræðsluáróðurinn bar stundum árangur. Ótti ýmissa hér birtist til dæmis í kröfu um að minnka nýja flugstöð á Keflavíkurflugvelli, annars væri hætta á að menn Reagans settu þar upp stjórnstöð fyrir kjarnorkustríð.

Spennuþrungin óreiða

Þótt spenna ríkti í heimsmálum á níunda áratugnum var hún allt annars eðlis en spennuþrungna óreiðan sem nú ríkir á alþjóðavettvangi. Það er varlega til orða tekið þegar sagt er að sigur Trumps dragi ekki úr óvissunni – að minnsta kosti ef marka má allt sem sagt er af því tilefni um kollsteypu í samskiptum Bandaríkjamanna við aðrar þjóðir.

Í tilefni af sigri Trumps sagði ESB-þingmaðurinn Guy Verhofstadt, einn ákafasti talsmaður ESB-sambandsríkis:

„Trump hefur alls ekki leynt þeirri skoðun sinni að forgangsmál hans í utanríkismálum ná ekki til evrópsks öryggis. Hann viðurkennir ekki strategíska nauðsyn NATO og hann sýnir aðeins áhuga á Atlantshafssamskiptunum þegar hann ýjar að ógreiddum reikningum. Með Trump sem forseta verða söguleg geópólitísk umskipti: í fyrsta sinn síðan 1941 getur Evrópa ekki treyst á varnarhlíf Bandaríkjanna; álfan stendur nú ein.“

Lausn Verhofstadts er einföld: meiri evrópsk samvinna og aukin áhersla á sameiginlegan ESB-herafla. Innan ESB vilja ákafamennirnir ávallt leysa allan vanda með minna fullveldi ríkja og meiri miðstýringu.

Trump og NATO

Spár um slit á samvinnu Evrópu og Bandaríkjanna innan NATO við valdatöku Donalds Trumps rætast ekki.

Barack Obama efndi í byrjun vikunnar til blaðamannafundar fyrir ferð sína til Evrópu. Þegar ferðin var ákveðin bjuggust allir við að Hillary Clinton yrði arftaki Obama. Þá hefði tilgangur hans verið að kveðja forystumenn í Evrópu í fullvissu þess að forsetaembættið væri í öruggum höndum.

Við sigur Trumps breyttist tilgangur Evrópufarar Obama. Nú er efst á blaði hjá forsetanum að fullvissa viðmælendur sína um að ný ríkisstjórn Bandaríkjanna standi fast við skuldbindingar sínar gagnvart NATO þrátt fyrir sigur Trumps. Obama vísar til einkasamtals við Trump sem hafi mikinn áhuga á að viðhalda strategískum lykiltengslum Bandaríkjanna við önnur ríki.

Rudy Guiliani, fyrrv. borgarstjóri í New York, er í hópi helstu stuðningsmanna Trumps. Hann sat fyrir svörum í CNN-sjónvarpsstöðinni sunnudaginn 13. nóvember. Guiliani taldi Trump frekar vilja styrkja NATO en veikja, auðvitað ættu þó allir að standa við fjárhagsskuldbindingar sínar. Trump vildi efla herinn úr 420.000 hermönnum í 550.000, alls yrðu 350 skip í flotanum, í flughernum yrðu 1.200 nútíma flugvélar og herfylkjum landgönguliða yrði fjölgað úr 27 í 36.

Guiliani minnti á að repúblikanar væru almennt eindregnir talsmenn öflugra varna Bandaríkjanna og því einarðir stuðningsmenn samstarfsins innan NATO. Guiliani er talinn líklegur til að verða utanríkisráðherra Trumps standist hann bakgrunnspróf. 

Trump og Pútín

Trump hringdi mánudaginn 14. nóvember í Vladimír Pútín. Sögðu liðsmenn Trumps að hann hefði lýst áhuga á nánum tengslum Bandaríkjanna og Rússlands. Frá Kreml bárust fregnir um að í símtalinu hefðu þeir báðir lýst megnustu óánægju með hvernig samskiptum ríkjanna væri nú háttað. 

Ursula von der Leyen, varnarmálaráðherra Þýskalands, sagði þriðjudaginn 15. nóvember að ekki spillti að hafa samband við Rússa. Donald Trump yrði þó að muna að Vesturlönd virtu alþjóðalög sem Pútín hefði brotið með innlimun Krímskaga. Þá mætti ekki gleyma ástandinu í Aleppó, þar bæru Rússar ábyrgð á að um 250.000 manns sætu við dauðans dyr vegna hungurs.

Ekki er nýmæli að nýr Bandaríkjaforseti boði bætt samskipti við Rússa. Á sínum tíma vakti heimsathygli þegar Barack Obama sagðist ætla að „reset“ eða endurræsa tengslin við Rússa. Við blasir að Obama mistókst þetta. John McCain, áhrifamikill öldungadeildarþingmaður repúblikana, minnti í vikunni á að Pútín hefði fært sig upp á skaftið gagnvart Úkraínumönnum og í Mið-Austurlöndum skömmu eftir að Obama vildi vinmælast við hann. Menn skyldu gæta sín.

Í Le Figaro er vitnað í franskan stjórnarerindreka sem sagði: „Án bandaríska óvinarins heyrðist mun minna í Rússum á alþjóðavettvangi. Andstaðan við Bandaríkin er ein af meginstoðunum undir kerfi Pútíns.“

Pútín notar andstöðuna við Bandaríkjamenn til heimabrúks og vegna sífellt verri stöðu í efnahagsmálum vex þörf hans fyrir ógn til að sameina þjóðina að baki sér. 

Símtöl Trumps og Pútíns kunna að vekja vonir um nýtt andrúmsloft á æðstu stöðum í Hvíta húsinu og Kremlarkastala. Raunveruleikinn er annar. Repúblíkanar á Bandaríkjaþingi eru hörðustu gagnrýnendur Pútíns og sumir segja hann stríðsglæpamann. 

Rússar eru í liði með Íran og Hezbollah-samtökunum í stuðningi sínum við Bashar el-Assad Sýrlandsforseta. Í kosningabaráttunni vildi Trump rifta kjarnorkusamningnum við Írana. Bandalag við þá til bjargar el-Assad er stór biti, meira að segja fyrir Trump.

Íslensk aðgerðaáætlun

Píratar vilja gera sig gildandi eftir þingkosningarnar 29. október. Nú finna þeir haldreipi í sigri Trumps.

Birgitta Jónsdóttir, leiðtogi Pírata, sagði þriðjudaginn 15. nóvember þegar Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, stöðvaði stjórnarmyndunarviðræðurnar við Bjarta framtíð og Viðreisn, að áramót nálguðust og ríkisstjórn þyrfti að koma saman. „Við þurfum að heyra um aðgerðaáætlun varðandi tíðindin í vestri [sigur Trumps].“

Smári McCarthy, þingmaður Pírata, vildi sama dag flýta viðræðum um stjórnarmyndun því að kalla ætti saman utanríkismálanefnd  alþingis vegna forsetakosninganna í Bandaríkjunum.

Óljóst er hvað Píratar hafa í huga. Fyrir þingkosningar líkti Birgitta sér og Pírötum við Trump. Það er nýmæli að þingnefndir eða alþingi ræði val á forseta í öðrum löndum. Skuggi Trumps nær svo langt að krafist er aðgerðaáætlunar á íslenskum stjórnmálavettvangi.