27.7.2002

Skólastarf í þágu nemenda - vettvangur í Morgunblaðinu

Einhverjum kann að þykja sérkennilegt að setja þá skoðun í fyrirsögn, að skólastarf skuli vera í þágu nemenda. Þegar hugað er að umræðum um skólamál, er þó full ástæða til að árétta þetta sérstaklega, því að oft má ætla, að skólarnir starfi í þágu skólamanna, stofnanaveldis eða stjórnmálamanna.

Í Reykjavíkurbréfi Morgunblaðsins síðastliðinn sunnudag var sagt frá skýrslu, sem Mogens Kamp Jensen samdi fyrir Adam Smith-stofnunina í London um hollenska og danska skólakerfið, til að Bretar geti lært af Evrópuþjóðum, hvernig unnt er að reka skólakerfi, án þess að það lúti hinu miðstýrða stjórnmála- og stofnanavaldi, sem hefur starfsemi breskra skóla í hendi sér.

Í upphafi skýrslunnar segir, að talsmenn breska kerfisins telji það sanngjarnt og skila árangri. Fari eitthvað úrskeiðis sé það vegna skorts á fé og starfsliði. Besta leiðin til að bæta skólastarf sé að hækka fjárveitingar til þess innan ramma stjórnmála- og stofnanaveldisins. Höfundurinn segir þann eina vanda við þessa kenningu, að það sé ekkert, sem sýni örugg tengsl milli fjárveitinga og árangurs, sé hann mældur í einkunnum í lestri og stærðfræði. Vandinn felist ekki í fjárskorti heldur stjórnkerfinu sjálfu. Lausnin ráðist ekki af því, hvort skólar fái nóg fé frá skattgreiðendum eða ekki heldur hinu, hvort stjórnmála- og stofnanaveldið veiti skólunum nægilegt svigrúm.

Svarið við vandanum sé að bæta menntun með því að leyfa markaðslögmálum að njóta sín innan skólakerfsisins með staðbundnu sjálfstæði, samkeppni og vali.***

Í umræðum um skólamál komast menn stundum ekki lengra en að nefna orðið „samkeppni“, því að það vekur svo sterkar tilfinningar, að frekari rökræður verða tilgangslausar. Andstaða við markaðslögmálin er sterk hjá mörgum, sem líta á sig sem málsvara öflugra skóla. Hér hefur í góðri sátt tekist að leyfa þessum lögmálum að skjóta rótum á háskóla- og framhaldsskólastigi.

Með háskólalögum frá 1. janúar 1998 var heimilað, að auk ríkisrekinna háskóla, sem væru sjálfstæðar ríkisstofnanir samkvæmt sérstökum lögum um hvern skóla, gætu starfað háskólar sem væru sjálfseignastofnanir auk þess gætu einkaaðilar stofnað háskóla að fengnu samþykki menntamálaráðherra. Síðan hafa þrír einkareknir háskólar komið til sögunnar: Viðskiptaháskólinn á Bifröst, Háskólinn í Reykjavík og Listaháskóli Íslands. Fjórir ríkisreknir háskólar starfa undir handarjaðri menntamálaráðuneytisins samkvæmt sérstökum lögum um hvern og einn: Háskóli Íslands, Kennaraháskóli Íslands, Háskólinn á Akureyri og Tækniháskóli Íslands. Áttundi háskólinn er á vegum landbúnaðarráðuneytisins á Hvanneyri.

Er ekki nokkur vafi á því, að þessi fjölgun háskóla og hið góða framtak einkaaðila, að stofna þrjá háskóla og ýta þeim myndarlega úr vör á fáeinum árum, hefur skapað nemendum ný og spennandi tækifæri. Skólarnir leggja sig nú meira fram en áður gagnvart nemendum, enda fá þeir opinbert fé í samræmi við þann fjölda nemenda, sem fer í próf. Auk þess hafa nýjar námsleiðir skapast með nýrri markaðsrekinni tölvu- og fjarskiptatækni og fjarnámi, en þar hefur Kennaraháskóli Íslands haft forystu.

Breytingin hefur í raun ekki orðið minni á framhaldsskólastiginu með þeirri ákvörðun að gera landið allt að einu skólahverfi og láta fé fylgja nemendum, sem þreyta próf. Sýnilegasta merkið um þetta eru auglýsingar framhaldsskólanna á innritunartímanum í lok maí og byrjun júní. Nokkur ótti var við afnám hverfaskiptingarinnar en framkvæmdin hefur sýnt, að hann var ástæðulaus. Fjölbreytni hefur aukist og skólarnir höfða til nemenda með öðrum hætti en áður var gert.

Er ekki vafi á því, að tekist hefur að auka sveigjanleika í þágu nemenda á háskóla- og framhaldsskólastigi. Aukin samkeppni milli skóla hefur leitt til þess, að þeim er meira í mun en áður að veita nemendum góða þjónustu.

***

Með flutningi grunnskóla frá ríki til sveitarfélaga var lagður grunnur að því að draga úr miðstýrðu stofnana- og stjórnmálavaldi á skyldunámsstiginu. Hefur það tekist, þegar litið er til þess, hve mjög mörg sveitarfélög leggja sig fram um að búa skólum sínum sem bestar aðstæður í samkeppni um íbúa með fyriheiti um gott skólastarf. Með ákvörðun um birtingu á niðurstöðum samræmdra prófa, var foreldrum auðveldað að átta sig á gæðum skóla, þótt þær tölur segi að sjálfsögðu ekki allt um innra starf í skólum.

Í fyrrnefndu Reykjavíkurbréfi var vakið máls á því, að ekki væri nóg gert til að auka fjölbreytni á grunnskólastiginu, til dæmis með því að fjölga einkaskólum eða sjálfstæðum skólum, eins og þeir eru gjarnan nefndir, þegar í Evrópu er rætt um aðra skóla en þá, sem ríki eða sveitarfélög eiga og reka. Vinstrisinnar hér á landi, hvort heldur R-listinn í Reykjavík, eða þingmenn vinstri flokkanna hafa horn í síðu einkarekinna skóla. Telja þeir rök hníga til þess, að nemendum þeirra fylgi minna opinbert fé en nemendum opinberra skóla og skattgreiðendum sé þannig mismunað, eftir því hvar börn þeirra stunda nám.

Valddreifing á grunnskólastigi stirðnaði í höndum R-listans í Reykjavík, þar sem yfirstjórn 45 skóla er enn á einni hendi. Hefur R-listinn ekki viljað stíga hið lögheimilaða skref, að skipta Reykjavík í fleiri en eitt skólahverfi. Stendur hann þannig vörð um óbreytt, miðstýrt stjórnmála- og stofnanavald yfir grunnskólunum, þrátt fyrir að flutningur skólanna til sveitarfélaga miði að aukinni fjölbreytni með meiri beinum tengslum við næsta umhverfi sitt. Var tekist á um þetta í borgarstjórnarkosningunum í vor, því að sjálfstæðismenn sögðust vilja skipta borginni í 4 til 5 skólahverfi. Þessi skipting mundi ýta undir samkeppni milli grunnskóla í Reykjavík og auðvelda foreldrum að eiga hlut að yfirstjórn skólanna með fjölgun skólaráða, en nú er einn áheyrnarfulltrúi talsmaður 30 til 40 þúsund foreldra í Reykjavík gagnvart einu fræðsluráði.

Í stóru skólaumdæmi eins og Reykjavík er hætta á því, að stofnanavaldið íþyngi skólastarfi og beini því frá þjónustu við nemendur til að þóknast kerfinu sjálfu frekar en nemendum. Leið til að sporna gegn þessari þróun er að tryggja, að kerfið mismuni ekki nemendum með því að láta ólíkar fjárhæðir fylgja þeim úr sveitarsjóði eftir því, hver rekur skyldunámsskólann. Í Reykjavík fá einkaskólar minni fjárhæð með hverjum nemanda úr borgarsjóði en borgarreknir skólar. Þegar hugað er að þessum fjármunum skiptir mestu að tryggja eftirlit með skólastarfi, þannig að nemandanum sé veitt viðunandi þjónusta og hið opinbera fé sé nýtt með umsömdum hætti, hver sem á og rekur skólann.

***

Ekki er síður rætt um aukinn hlut markaðslögmálanna til að bæta grunnskólastarf í Bandaríkjunum en Evrópu, þegar leitað er leiða til að bæta skólastarf í þágu nemenda.

Hinn 27. júní felldi hæstiréttur Bandaríkjanna sögulegan dóm um lögmæti ávísana úr opinberum sjóðum til foreldra eða forráðamanna grunnskólabarna, en ávísanirnar geta þeir notað til að greiða þeim skóla, sem þeir velja börnunum. Er þessi dómur talinn mikilvægasta ákvörðun réttarins varðandi bandaríska skólakerfið síðan 1954, þegar hann lýsti aðskilnað hvítra og svartra barna innan skólakerfisins í andstöðu við stjórnarskrána. Nú hafi hann þurrkað út mörkin milli ríkra og fátækra skólabarna.

Ávísanakerfið svonefnda hefur lengi verið baráttumál á bandarískum stjórnmálavettvangi. Þar hafa samtök kennara snúist gegn því með stuðningi öflugra þingmanna á borð við Edvard Kennedy. Fyrsta þingmál George W. Bush eftir að hann varð Bandaríkjaforseti snerist um menntamál, til að ná samstöðu um skjóta afgreiðslu þess, féll hann frá tillögu um ávísanakerfi. Hæstiréttur hefur nú opnað því leið og þar með meiri áhrifum nemenda og foreldra á skólastarf en áður hefur þekkst í Bandaríkjunum.

Skynsamlegustu leiðirnar til að efla skólastarf í þágu nemenda eru hinar sömu og hvarvetna hafa reynst best til að bæta þjónustu, að ýta undir val og ráðstafa fjármunum í samræmi við þarfir neytenda.