4.11.2016

Fylgislaus Samfylking og misheppnaðir Píratar

Morgunblaðið, föstudagur, 4. nóvember 2016

Í kosningunum 29. október hrundi fylgið af Samfylkingunni, jafnaðarmannaflokknum á Íslandi. Samfylkingin hefur verið þátttakandi í alþjóðasamstarfi jafnaðarmanna. Hún er ekki eini flokkur jafnaðarmanna í heiminum sem á undir högg að sækja. Þó má fullyrða að enginn bræðraflokka hennar hafi fengið sambærilega útreið hjá kjósendum. 

Á falli Samfylkingarinnar er engin einhlít skýring. Fylgishrun jafnaðarmanna eða sósíalista í Frakklandi um þessar mundir er auðveldara að skýra með vísan til þess hve illa hefur gengið hjá François Hollande Frakklandsforseta og stjórn hans. Forsetakosningar verða í Frakklandi á næsta ári. 

Enn er óvíst hvort Hollande gefur kost á sér til endurkjörs. Spenna eykst innan flokks hans. Fyrir viku lýsti Manuel Valls, forsætisráðherra Frakklands, vanþóknun sinni á því sem haft er eftir forsetanum í nýrri bók þar sem hann gagnrýnir dómara, landslið Frakka í knattspyrnu og jafnvel stefnu eigin ríkisstjórnar. Bent er á að Valls vilji ekki drukkna í óvinsældum með forsetanum. 

Jafnaðarstefnan höfðar ekki til Frakka frekar en Íslendinga. Jafnaðarmenn eru á mörkum þess að þurrkast út í Frakklandi. Franskir fjölmiðlar ættu frekar að ræða örlög Samfylkingarinnar hér og skýra þau fyrir lesendum sínum en innistæðulausar tölur um vinsældir Pírata.

Panama-spjald Birgittu

Ákveðið var í byrjun apríl 2016 að alþingi skyldi rofið og gengið til kosninga nú í haust. Þetta gerðist eftir að Panama-skjölin svonefndu voru birt og mikil hneykslunarbylgja fór um heim allan. Hún skall af miklum þunga á Sigmund Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra. Hann missti traust þingflokks síns og sagði af sér 5. apríl. Sigmundur Davíð lagðist gegn haustkosningum en varð undir í formannskosningu í flokki sínum 2. október. 

Píratar undir forystu Birgittu Jónsdóttur reyndu að halda lífi í umræðum um Panama-skjölin með því meðal annars að kalla á fyrrverandi rannsóknardómara frá Frakklandi, Evu Joly, til að benda á spillingu meðal stjórnmálamanna og fleiri á opinberum fundi 17. október, 12 dögum fyrir kosningar. Kastljós sjónvarpsins tók Joly, ESB-þingmann franskra græningja, einnig upp á sína arma.

Þetta alþjóðlega átak til að blása lífi í Panama-umræðurnar á lokadögum kosningabaráttunnar misheppnaðist. Sást það best á því að Birgitta treysti sér ekki til að hreyfa málinu í loka-umræðuþætti stjórnmálaforingja í sjónvarpinu að kvöldi föstudags 28. október á annan hátt en veifa þar litlu Panama-spjaldi þar sem minnst var á Panama. 

Spjaldið og misheppnaðar viðræður að frumkvæði Birgittu um stjórnarmyndun fyrir kosningar opnuðu augu fleiri en ella fyrir undarlegheitum flokksins. Fylgið minnkaði dag frá degi. Alþjóðatilraun til að koma Pírötum í valdastöðu rann út í sandinn. Erlendir blaðamenn sem ætluðu að verða vitni að stórsigri Pírata sneru vonsviknir til heimalanda sinna. Það varð engin bylting.

Í samtölum við erlendu fjölmiðlamennina lýsti Birgitta sér sem Hróa hetti. Hún hefði ekki gert upp við sig hvort hún ætti að verða forseti alþingis til að knýja fram breytingu á stjórnarskránni eða forsætisráðherra til að færa framkvæmdavaldið í hendur alþingis. Hún mundi hins vegar örugglega sitja skamman tíma í háu embætti og síðan snúa sér að ljóðagerð. Hér þyrfti hvorki Marine Le Pen (leiðtoga Þjóðfylkingarinnar í Frakklandi) né Donald Trump til að hrista upp í hlutunum, Íslendingar hefðu Pírata.

Yfirlýsingar af þessu tagi vöktu forvitni og áhuga fjölmiðlamanna sem nefndu þó flestir, að minnsta kosti í framhjáhlaupi, að hér hefði náðst undraverður árangur í efnahagsmálum og lítill áhugi væri á ESB þótt einhverjir flokkar hefðu aðildarmál á dagskrá sinni.

ESB, víti til að varast

Nú reynir á hvernig fer fyrir ESB-aðildarmálinu að loknum kosningum. Sjálfur holdgervingur aðildarumsóknarinnar á alþingi, Össur Skarphéðinsson, situr þar ekki lengur eftir að hafa fallið í kosningunum með öðrum frambjóðendum Samfylkingarinnar á höfuðborgarsvæðinu.

Klukkan 21.00 föstudagskvöldið 28. október á meðan leiðtogar flokkanna ræddu saman í sjónvarpssal setti Össur þetta á Facebook-síðu sína:

„Sérkennileg opnun VG

Steinsofandi spyrlar tóku ekki eftir stórtíðindum úr munni Katrínar Jakobsdóttur í leiðtogaþættinum rétt áðan.

Hún sagðist vilja þjóðaratkvæði um framhald viðræðna við ESB en tók svo óvænt skref í áttina til Sjálfstæðisflokksins með því að taka undir með Bjarna um að um leið yrði spurt um aðild.

Er VG að opna á ríkisstjórn með Sjálfstæðisflokknum? Það sýnist mér.“

Þetta er rétt hjá Össuri. Katrín Jakobsdóttir steig hliðarskref með þessum orðum sínum. Hún gerði það til að friða stóran hóp VG-fólks sem blöskrar hvernig flokksforystan hefur svikið fyrirheitin frá því fyrir kosningar vorið 2009 um að ekki skuli rætt um aðild við ESB. 

Yfirlýsing Katrínar var loðin. Hún vildi ekki loka dyrum á Samfylkinguna fyrir kjördag. Áhyggjur af Samfylkingunni sem pólitísku afli eru nú úr sögunni. Formaðurinn hættur og framkvæmdastjórinn. Spurning hvort flokkurinn breytist í kaffihús eins og Magnús Orri Schram, frambjóðandi til formanns, vildi. 

Færi Katrín með flokk sinn í stjórnarsamstarf við Sjálfstæðisflokkinn tækist henni að rétta kúrs VG í ESB-málinu. Steingrímur J. Sigfússon, forveri Katrínar, tók óheillavænlega U-beygju í ESB-málum til að þóknast Samfylkingunni og Jóhönnu Sigurðardóttur í þágu eigin valda.

Pólitísk örlög Össurar Skarphéðinssonar ættu að verða þeim víti til varnaðar sem hafa í huga að feta í ESB-spor hans og reyna að þvinga Íslendinga inn í ESB. 

Össur taldi sig vera með ESB-pálmann í höndunum sumarið 2009, ekki tæki nema 12 til 18 mánuði að semja um aðild Íslands að ESB með aðstoð Carls Bildts, þáv. utanríkisráðherra Svíþjóðar. Í janúar 2013 neyddist Össur að fresta viðræðunum við ESB vegna ágreinings sem hann vildi ekki að yrði ræddur þá fyrir þingkosningarnar. 

Samfylkingin hlaut illa útreið í kosningunum 2013 en Össur náði þó endurkjöri og hefur hamrað á nauðsyn þess að taka upp ESB-þráðinn að nýju. Laugardaginn 29. október höfnuðu kjósendur ESB, Össuri og Samfylkingunni.

Tilvistarkreppa ESB

Krísan innan ESB magnast og enginn veit hvernig sambandið verður eftir brottför Breta. Þeir kveðja ESB líklega á árinu 2020 eða um sama leyti og nýbyrjuðu kjörtímabili alþingis lýkur. 

Sé ESB-aðild gerð að ágreiningsmáli við stjórnarmyndun nú með kröfu um atkvæðagreiðslu um framhald ónýtra aðildarviðræðna er ljóst að kröfugerðarmennirnir eru jarðsambandslausir þegar ESB á í hlut. 

Nærtækasta skýringin á falli Samfylkingarinnar er að hún glataði trausti kjósenda vegna boðskapar flokksins um að leita yrði til Brussel til að fá lausn allra innlendra mála.