21.10.2016

Spenna gagnvart Rússum - sundrung innan ESB

Morgunblaðið, föstudagur, 21. október 2016

Frank-Walter Steinmeier, utanríkisráðherra Þýskalands, sagði við blaðið Bild laugardaginn 8. október að spennan milli Rússa og Vesturlandabúa væri „hættulegri“ núna en í kalda stríðinu. Sama dag birtust fréttir um að Rússar flyttu skotflaugar fyrir kjarnavopn til hólmlendurnar Kaliningrad. Tveimur dögum fyrr höfðu rússneskar orrustuþotur ögrað Finnum.

Jussi Niinistö, varnarmálaráðherra Finnlands, var ekki sammála þessum dómi Steinmeiers en sagði um síðustu helgi að þýski utanríkisráðherrann hefði vafalaust átt við að staðan núna væri á margan hátt óræð. Niinistö sagði: „Í kalda stríðinu var jafnvægi haldið með einhvers konar hræðilegu détente [spennuslökun] nú á tímum er ástandið sérstakt að því leyti að Rússar haga sér á þann hátt að enginn veit hvað þeir gera næst. Þeir gengu til dæmis fram af öllum með því að ráðast inn á Krímskaga og hafa síðan stundað blendingsstríð [hybrid warfare] í Austur-Úkraínu.“

Í þessum orðaskiptum felst áminning um válynda tíma. Steinmeier hefur lagt áherslu á nauðsyn þess að tekin verði upp slökunarstefna gagnvart Rússum en finnski ráðherrann talar um hana sem „hræðilega“ og vísar þar vafalaust til reynslu Finna af því að verða sætta sig við pólitíska íhlutun af hálfu Rússa á þessum árum.

Deilur vegna Sýrlands

Deilur Rússa og Bandaríkjamanna vegna borgarastríðsins í Sýrlandi hafa magnast dag frá degi. Ásakanir í garð Bashars al-Assads Sýrlandsforseta um stríðsglæpi og svipuð ummæli um loftárásir rússneskra flugvéla á almenna borgara í Aleppo leiddu meðal annars að Vladimír Pútín Rússlandsforseti hætti við ferð til Parísar í vikunni. Hann hefur ráðist á frönsku ríkisstjórnina og segir hana ekkert annað en handbendi Bandaríkjamanna. 

Boris Johnson, utanríkisráðherra Bretlands, flutti fyrstu þingræðu sína sem ráðherra þriðjudaginn 11. október og sagði Rússland vera á mörkum þess að verða „úrhraks-ríki“ og Alþjóðasakamáladómstóllinn ætti að rannsaka Pútín vegna umsátursins um Aleppo. Johnson hvatti einnig til mótmæla við sendiráð Rússlands í London og um heim allan. „Talið er að hvert einasta sjúkrahús í austurhluta Aleppo hafi orðið fyrir loftárás, sum oftar en einu sinni og nokkur hafa verið gerð óstarfhæf. Svo oft og markvisst hefur verið skotið á sjúkrahús að erfitt er að komast hjá að álykta að um ásetning hafi verið að ræða,“ sagði breski utanríkisráðherrann.

Rússar sökuðu Johnson um Rússafælni og gripu til svipaðra raka og starfsmenn rússneska sendiráðsins í Reykjavík sem sögðu um sama leyti og Johnson flutti ræðu sína að tilgangur frétta af flugi rússneskra hervéla undir íslenska farþegavél yfir Norður-Atlantshafi fimmtudaginn 29. september væri að vekja upp Rússagrýluna til að auðvelda Bandaríkjamönnum að koma hingað að nýju með herafla sinn.

Marklítill samanburður

Sagt er að hershöfðingjar tali aldrei öðru vísi um stríð en í ljósi orrustu sem þeir hafi áður háð. Þetta þykir ekki endilega skynsamlegt því að aðstæður og óvinurinn breytist. Ástæða er til að vara við sífelldum samanburði við kalda stríðið þegar rætt er um samskipti Rússa við aðrar þjóðir nú á tímum. Samanburðurinn leysir engan vanda og að máta sig við kalda stríðið á ekki við vilji menn skilja stöðuna eins og hún er.

Staðreynd er að Pútín og hans menn eru óútreiknanlegir og hika ekki við að taka áhættu sjái þeir færi á að efla vinsældir sínar með skírskotun til rússneskrar ættjarðarástar og þjóðerniskenndar. Að lokum kunna heitar tilfinningar af því tagi að vera huggun Rússa á tímum efnahagsþrenginga. Pútín spilar á þessar tilfinningar með því að þenja út herinn og beita honum til að hækka risið á Rússlandi.

Í fyrrnefndu samtali við finnska varnarmálaráðherrann sagði hann hættumerki hve kæruleysislega  talað væri um kjarnorkuvopn og beitingu þeirra nú á tímum. Ráðherrann hefði getað bent á mörg dæmi máli sínu til stuðnings, til dæmis hótun rússneska sendiherrans í Kaupmannahöfn í garð Dana um að kjarnorkuvopnum yrði beitt gegn þeim tækju skip þeirra þátt í eldflaugavarnarkerfi Bandaríkjanna og NATO.

Harka vegna Brexit

Hvað sem líður hörku í samskiptum Rússa við nágranna sína er ástæða til að þakka fyrir að ekki er hætta á að vopnum verði beitt í átökum Breta og Brusselmanna vegna úrsagnar Breta úr ESB. 

Sorg setti svip sinn á ummæli margra ráðamanna í Bretlandi og innan ESB eftir Brexit-áfallið 23. júní 2016. Reiði nær yfirhöndinni nú fjórum mánuðum síðar. Ræðan sem Theresa May, forsætisráðherra Breta, flutti í upphafi þings flokks síns á dögunum mótaðist af þjóðernislegri afstöðu. Bretar gætu staðið á eigin fótum, þeir mundu leggja net sín um heim allan og semja af styrk við fulltrúa Evrópusambandsins. 

Donald Tusk, forseti leiðtogaráðs ESB, flutti ræðu fimmtudaginn 13. október og sagði „grimman sannleika“ að allir myndu tapa á Brexit, útgöngu Breta. Enginn fengi neina kökusneið, aðeins yrði edik og salt í boði. Eina leiðin til að komast hjá „harðneskjulegu Brexit“ væri „ekkert Brexit“. Af hálfu ESB yrði samið í góðri trú, staðinn vörður um hagsmuni ríkjanna 27, unnið gegn tjóni og leitað að bestri niðurstöðu fyrir alla. Hvorugur aðili gæti þó hrósað sigri að lokum. Hann varpaði allri ábyrgð á hendur Bretum, þeir yrðu að lokum að meta hvort Brexit yrði þeim í hag. Hann minnti á það sem Hannah Arendt sagði að aðeins væri unnt að breyta óbreytanlegum straumi sögunnar ef menn skildu til fulls afleiðingar framvindu stjórnmálanna.

Því ber að fagna að íslensk stjórnvöld hafi ekki skipað sér í lið með öðrum hvorum aðila deilunnar vegna Brexit. Í raun yrði það rof á samhengi sögu alþjóðasamskipta Íslendinga frá upphafi vega ef tengslin við Breta tækju á sig annan svip en þann að þar skiptust á skin og skúrir eins og venja er milli næstu nágranna. 

Hér hefur áður verið sagt að besta Brexit-leiðin fyrir Breta sé leið í anda EES-samstarfsins. Líkur á að hún verði farin minnka. Til verður þriðja leið ESB til náins samstarfs við Evrópuríki við hlið EES-samningsins og tvíhliða samninga Svisslendinga. Tilraun verður örugglega gerð til að fella öll nánu evrópsku samstarfsríkin undir sama hatt.

Hvort sem litið er til samskipta austurs og vesturs eða samskipta ESB við náin evrópsk samstarfsríki stöndum við á krossgötum. Íslensk stjórnvöld verða að fylgjast náið með öllum hræringum í þessum efnum. Kosningabaráttan nú einkennist ekki af neinni ævintýramennsku í utanríkismálum. Þar gætir þó tímsaskekkju hjá þeim sem trúa á slitinn viðræðuþráð við ESB.