7.10.2016

Norðurslóðir, varnarmál, Höfðafundur á döfinni í Reykjavík

Morgunblaðsgrein föstudag 7. október 2016



Á  dögunum sem nú líða eru óvenjulega margar ráðstefnur um alþjóðamál í Reykjavík. Stærsti viðburðurinn er Arctic Circle eða Hringborð norðurslóða sem Ólafur Ragnar Grímsson, þáverandi forseti Íslands, beitti sér fyrst fyrir árið 2013. Nú þegar menn koma saman við þetta hringborð í fjórða sinn er augljóst að ráðstefnan hefur fest sig í sessi sem stærsti alþjóðlegi samráðsvettvangur þeirra sem hafa áhuga á að ræða málefni norðurslóða. Nú hafa 2000 þátttakendur frá yfir 40 löndum skráð sig á þingið. Alls verða þar rúmlega 90 málstofur með um 400 ræðumönnum og fyrirlesurum.      


Ólafur Ragnar sagði í samtali á sjónvarpsstöðinni ÍNN í vikunni að ýmsar ástæður væru fyrir því að tekist hefði að vekja þennan mikla áhuga. Mætti þar nefna landið sjálft, árstímann, greiðar samgöngur og síðast en ekki síst frábæra aðstöðu til ráðstefnuhalds í Hörpu. Taldi hann að ekkert hús á norðlægum slóðum og þótt víðar væri leitað hentaði jafnvel til ráðstefnu af þessu tagi og Harpa. Þá væri næsta nágrenni hennar við gömlu höfnina og inn í miðborgina skemmtileg umgjörð fyrir ráðstefnugesti.

Óvinnandi er að gera grein fyrir öllu sem rætt verður á Arctic Circle að þessu sinni. Allir sem áhuga hafa á framvindu mála á norðurslóðum geta svalað honum annað hvort á stórum eða litlum fundum í Hörpu. Ráðstefnubókin sem lýsir því sem gerist er 52 blaðsíður.

Á engan er hallað þótt sagt sé að Arctic Circle sé verk Ólafs Ragnars Grímssonar og merk arfleifð hans sem forseta Íslands. Hann hafði ekki setið mörg ár í forsetaembætti þegar hann tók að ræða norðurslóðamál og varð eftirsóttur fyrirlesari um þau. Þá áttaði hann sig á að menn ræddu þetta hver í sínu horni og án þess að ná nægilegri pólitískri athygli. Hann vann hugmyndinni um nýjan umræðuvettvang fylgi og á undanförnum árum hefur pólitíska athyglin á norðurslóðum stóraukist.

Hillary Clinton varð á sínum tíma fyrst utanríkisráðherra Bandaríkjanna til að sækja ráðherrafund í Norðurskautsráðinu þegar hann var haldinn á Grænlandi í maí 2011 en þá hafði ráðið starfað í 15 ár.  Segir Ólafur Ragnar að embættismenn hennar hefðu talið óþarft fyrir hana að sinna þessu jaðarráði. Nú sé þetta gjörbreytt. Vladimír Pútín Rússlandsforseti hefur nú allt annan og meiri áhuga á Norður-Íshafinu heldur en þegar Ólafur Ragnar ræddi málefni norðurslóða við hann í fyrsta sinn í upphafi aldarinnar. Hann vísi ekki lengur á héraðshöfðingja þegar rætt sé um heimskautamál.

Í fyrra notaði François Hollande Frakklandsforseti Arctic Circle ráðstefnuna til að kynna markmið sín í loftslagsmálum vegna Parísarráðstefnunnar um þau sem þá var á næsta leiti. Í ár flytur Ban Ki-moon, fráfarandi aðalritari Sameinuðu þjóðanna, fyrirlestur á ráðstefnunni þar sem hann lítur yfir árangur í loftslagsmálum í tíð sinni sem aðalritari og lýsir framtíðarsýn sinni.

Endurmat öryggismála

Í gær efndu Varðberg, samtök um vestræna samvinnu, Nexus, rannsóknarvettvangur á sviði öryggis- og varnarmála, og Alþjóðamálastofnun Háskóla Íslands, til fyrstu ráðstefnu af þremur til að minna á að í ár er áratugur liðinn frá brottför bandaríska varnarliðsins frá Íslandi. Litið var til þess tíma og framvindunnar síðan

Þrjár konur ræddu utanríkis- og öryggismálin frá íslenskum sjónarhóli: Lilja D. Alfreðsdóttir utanríkisráðherra, Anna Jóhannsdóttir sendiherra, fastafulltrúi Íslands hjá NATO, og Hanna Birna Kristjánsdóttir, formaður utanríkismálanefndar alþingis. 

Öryggis- og varnarmálin ber ekki hátt í kosningabaráttunni um þessar mundir. Að huga að þeim málaflokki er brýnt engu að síður. Fyrir nokkrum vikum samþykkti alþingi lög um þjóðaröryggisráð. Innan þess á að tengja alla þræði sem varða gæslu öryggis þjóðarinnar út á við. Skeytingarleysi á þessu sviði getur reynst þjóðinni afdrifaríkt, stjórnmálamenn bera þar mikla ábyrgð og verða að vera með á nótunum hvort sem þeim líkar betur eða verr.

Fyrir utan konurnar þrjár sem nefndar eru hér að ofan fluttu tveir erlendir gestir erindi á varnarmálaráðstefnunni: Robert Loftis, prófessor við Boston-háskóla, og Ojars Eriks Kalnins, formaður utanríkismálanefndar þings Lettlands.

Loftis starfaði á sínum tíma í bandarísku utanríkisþjónustunni sem sendiherra og formaður viðræðunefnda við ríkisstjórnir margra annarra landa, þeirra á meðal Íslands þegar rætt var um brottflutning bandaríska varnarliðsins héðan en segja má að hann hafi verið á döfinni allt frá 1993 til 2006. 

Á fyrri hluta tíunda áratugarins var unnin stefnumótandi skýrsla um stöðu Íslands í öryggismálum eftir lok kalda stríðsins þar sem litið var á aðildina að NATO og varnarsamninginn við Bandaríkin sem hornsteina. Sama grunnstef er í þjóðaröryggisstefnunni sem alþingi samþykkti. Viðræðurnar við Bandaríkin um Keflavíkurstöðina snerust um framkvæmd þessarar stefnu.

Þar til fyrir aldarfjórðungi lá þungamiðja varnarkerfis NATO í miðhluta Evrópu. Nú hefur hún færst norðar og inn á Eystrasaltssvæðið. Í því tilliti er fróðlegt að kynnast viðhorfum formanns utanríkismálanefndar þings Lettlands. Allt sem gerist í öryggismálum á hans slóðum hefur áhrif á þróun mála á Norður-Atlantshafi. 

Vegna aukinnar spennu í samskiptum við Rússa undir forystu Pútíns er óhjákvæmilegt að endurmeta stöðuna í öryggismálum eins og gert hefur verið innan NATO og birtist meðal annars í viðhorfum til þess sem gerist á N-Atlantshafi. Það reyndist mikil skammsýni að ímynda sér að aðstaða á Íslandi yrði ekki áfram hernaðarlega mikilvæg. Íslendingar verða enn að huga að eigin öryggi einir og í samvinnu við aðra.


Þrjátíu ár frá Höfðafundinum


Þess verður minnst í dag og næstu daga að 30 ár eru liðin frá því að Ronald Reagan Bandaríkjaforseti og Mikhaíl Gorbatsjov Sovétleiðtogi hittust í Höfða. Af því tilefni mun starfsemi Höfða, friðarseturs Reykjavíkurborgar og Háskóla Íslands, hefjast og efnt verður til málþings um hlutverk borga, smáríkja og borgara í „að stuðla að friði og mikilvægi upplýstrar og lýðræðislegrar samræðu í nútímasamfélagi“ eins og segir í kynningu á vefsíðu Háskóla Íslands.  Þá verður fjallað sérstaklega um áhrifamátt miðlunar og hvernig kvikmyndir geta haft áhrif til breytinga í heiminum. 

Friðarsetrið gefur Alþjóðamálastofnun Háskóla Íslands færi á að víkka út rannsóknarsvið sitt. Er boðað að í framhaldinu beini hún sjónum í auknum mæli að þeim áskorunum sem nútímasamfélög stendur frammi fyrir, eins og aukinni þjóðernishyggju og lýðskrumi í samfélagsumræðu, loftslagsbreytingum og málefnum flóttamanna. Þá verði rætt um hlutverk borga, smáríkja og almennra borgara í að stuðla að friði og friðarmenningu. 

Í næstu viku efnir Alþjóðlega friðarstofnunin (International Peace Institute) og utanríkisráðuneytið síðan til málþings í Höfða um áhrif leiðtogafundarins 11. og 12. október 1986 á umræður um afvopnun og leiðir til að draga úr spennu. Sérfróðir menn velta fyrir sér hvort unnt sé að nýta reynsluna af fundinum í Höfða, aðdraganda hans og eftirleiks til að minnka ágreining og spennu milli Rússa og Bandaríkjamanna á líðandi stundu.

Nú síðustu daga hafa samskipti þjóðanna versnað vegna stríðsins í Sýrlandi og segja sérfræðingar þau ekki hafa verið verri í aldarfjórðung. Vladimír Pútín gekk meira að segja svo langt mánudaginn 3. október að slíta samningi ríkjanna frá árinu 2000 um geymslu og eyðingu á plútóníum sem nota má við gerð kjarnorkuvopna.

Ófriðurinn í suðri við Miðjarðhaf hefur áhrif í norðri við Norður-Atlantshaf.