Bati í stað samdráttar - vettvangur í Morgunblaðinu
Bati í stað samdráttar
SÍÐASTA sumar og haust höfðu margir vaxandi áhyggjur af þróun efnahagsmála okkar Íslendinga. Krónan lækkaði jafnt og þétt og háværari raddir heyrðust um það en áður, að við ættum einfaldlega að kasta henni fyrir róða og taka upp evruna. Okkur væri betur komið innan þess efnahagsramma, sem þá skapaðist. Á hinn bóginn lá einnig í loftinu, að margir töldu að hverfa ætti aftur til þess tíma, þegar stjórnvöld hlutuðust til um stjórn efnahagsmála með sértækum aðgerðum og íhlutun á einstökum sviðum til þess að ná að minnsta kosti skammtímaárangri.
Af hálfu Davíðs Oddssonar forsætisráðherra, en höfuðábyrgð á stjórn efnahagsmála hvílir á hans herðum, var lögð áhersla á að fara að lögbundnum leikreglum, til dæmis nýlega samþykktum lögum um að stjórnendur Seðlabankans tækju ákvarðanir um vaxtastigið en ríkisstjórn eða einstakir ráðherrar væru ekki að grípa fram fyrir hendurnar á þeim. Lá bankinn undir miklum og sívaxandi þrýstingi um að lækka vexti.
Í umræðum um evru í stað krónu hefur Davíð snúist gegn slíkum skiptum af meiri hörku en flestir aðrir íslenskir stjórnmálamenn. Hefur hann að sjálfsögðu sætt ámæli fyrir skorinorða afstöðu sína í því efni af hálfu þeirra, sem telja grasið grænna hjá Evrópusambandinu en í okkar eigin garði, en aðild að því er forsenda þess, að evran verði gjaldmiðill okkar.
Á fyrsta fundi Alþingis í upphafi þessa árs stofnaði Össur Skarphéðinsson, formaður Samfylkingarinnar, til umræðna um efnahagsmál og svaraði Davíð Oddsson honum meðal annars með þessum orðum, þegar hann hafði lýst þeirri skoðun, að betur horfði um efnahag þjóðarinnar en áður:
"Auðvitað hefur skipt mestu máli í þessu sambandi nákvæmlega þriðja spurningin sem hv. þm. Össur Skarphéðinsson spurði um: Hvað er það sem ríkisstjórnin er að gera? Það eru nákvæmlega verk ríkisstjórnarinnar sem hafa ráðið úrslitum: Það að ríkissjóður er rekinn með afgangi í mörg herrans ár og skuldir eru greiddar niður skiptir máli. Það að skattar eru lækkaðir með þeim hætti sem við höfum verið að gera, sem styrkir atvinnu til frambúðar, skiptir máli. Ég tel að vaxtalækkanir séu ekki langt undan heldur skammt undan. Ég tel að við munum sjá fram á vaxtalækkanir þegar í næsta mánuði. Þegar eftir næstu mælingu á vísitölunni munum við sjá fram á vaxtalækkanir til viðbótar öðrum hlutum: skattalækkanir, vaxtalækkanir, styrking á gengi, lækkandi verðbólga, lítið atvinnuleysi, traustur kaupmáttur. Hver mundi ekki vera ánægður með þess háttar efnahagsástand í landi sínu?"
***
Þessi orð forsætisráðherra við upphaf ársins hafa gengið eftir. Vextir hafa lækkað, gengi krónunnar hefur styrkst og síðast en ekki síst hefur verið unnt með samstilltu átaki með Alþýðusamband Íslands í fararbroddi að ná tökum á verðlagsþróuninni með það að markmiði, að kjarasamningar haldi. Tókst að ná því marki í maí. Atvinnustigið hefur verið hátt en þó gætir atvinnuleysis hjá hópum sem ekki hafa kynnst því áður. Má þar til dæmis nefna félaga í Verslunarmannafélagi Reykjavíkur og tölvunarfræðinga en fyrir fáeinum misserum gafst þeim varla tóm til að ljúka námi, svo fast var sóst eftir þeim út á vinnumarkaðinn.
Viðskiptahallinn hefur minnkað örar en efnahagsstofnanir spáðu. Var viðskiptahallinn við útlönd 1,5 milljarðar króna á fyrsta fjórðungi ársins, samkvæmt bráðabirgðauppgjöri Seðlabanka Íslands. Á sama tíma í fyrra var viðskiptahallinn 18,5 milljarðar króna. Á föstu gengi minnkaði hallinn um 19,5 milljarða króna.
Seðlabankinn hefur lækkað vexti fjórum sinnum frá því 26. mars sl. og eru stýrivextir hans nú 8,5% en voru hæstir 11,4% í árslok 2000. Birgir Ísleifur Gunnarsson boðaði í vikunni frekari vaxtabreytingar í tengslum við næstu verðbólguspá, sem kemur 1. ágúst, en áður hefur bankinn spáð því að verðbólga verði 2,8% frá upphafi til loka þessa árs. Undanfarnir þrír mánuðir benda til 2% verðbólgu á ári að sögn Hagstofu Íslands. Verðbólga þannig mæld náði hámarki í janúar 2002, þegar hún var 9,4%, sem var mesta verðbólga sem mælst hafði frá október 1990.
Hinn 11. júlí 2001 var miðgengi krónunnar 101,87 á móti dollar en var 11. júlí 2002 86,73 - flestar krónur voru greiddar fyrir dollar 23. nóvember 2001 eða 110,39.
Til marks um umskiptin í efnahagslífinu er frétt, sem lét lítið yfir sér, hér í blaðinu síðastliðinn miðvikudag um að Íslandsbanki auglýsi nú eftir lántakendum. Byggist það á mati sérfræðinga hans en þennan sama dag sagði greining bankans:
"Samdráttur í íslensku efnahagslífi nú virðist ætla að verða mun grynnri og skammvinnari og á þann hátt mildari en samdráttarskeiðið á fyrri hluta síðasta áratugar. Líkur eru á hagvexti á ný á næsta ári. Rekstrarumhverfi fyrirtækja í innlendri starfsemi fer því batnandi en talsverð óvissa er um hversu hratt batinn skilar sér í afkomu þeirra. Rekstrarskilyrði fyrirtækja í útflutningi hafa verið framúrskarandi en gengishækkun krónunnar undanfarið er líkleg til að hafa neikvæð áhrif á afkomu þeirra á síðari hluta ársins. Enn verða þó skilyrði útflutningsfyrirtækja að teljast góð í sögulegu samhengi.
Greining Íslandsbanka spáir 32,5 milljarða króna hagnaði hjá 27 fyrirtækjum í Kauphöll Íslands fyrir árið 2002 í heild sem jafngildir tæplega þreföldun hagnaðar milli ára. Hagnaður fyrir afskriftir er rúmir 40 milljarðar króna samkvæmt spánni og eykst um 23% á milli ára."
***
Staðfesta við stjórn efnahagsmála hefur skilað góðum almennum árangri. Sviptingar eins og þær, sem orðið hafa, skilja jafnan eftir sig fórnarlömb og vissulega standa ekki öll fyrirtæki jafntraustum fótum. Hið háa vaxtastig þrengdi að og stór en skuldug fyrirtæki hafa lagt upp laupana eða glíma við mikinn vanda.
Ný fyrirtæki eru einnig að láta að sér kveða í íslensku efnahagslífi . Er athyglisvert í öllum umræðunum um mikilvægi góðra fjármála- og viðskiptatengsla við Evrópu, að stærstu erlendu fjárfestarnir koma frá Norður-Ameríku. ALCAN, nýr eigandi ÍSAL, kemur frá Kanada. Bandaríkjamaðurinn Kenneth Peterson, eigandi Columbia Ventures Corporation, móðurfyrirtækis Norðuráls á Grundartanga, sem vill enn stækka álver sitt, hefur eignast meirihluta í símafyrirtækinu Halló! - Frjálsum fjarskiptum.
Nú er ljóst, að það verða framhaldsviðræður fyrirtækisins ALCOA, fulltrúa ríkisstjórnarinnar og Landsvirkjunar um byggingu álvers og virkjunar á Austurlandi. Samkvæmt fyrri ákvörðunum ætti Landsvirkjun þess vegna að hefja undirbúningsframkvæmdir á Austurlandi vegna byggingar Kárahnjúkavirkjunar. Þar með verða söguleg þáttaskil í efnahags- og atvinnulífi þjóðarinnar. Í fyrsta sinn eru að skapast öruggar forsendur fyrir stórvirkjun og stóriðju utan höfuðborgarsvæðisins.
Bati blasir við í stað samdráttar í efnahagslífinu. Enn hefur þó ekki komið að fullu í ljós, hvaða fyrirtæki þoldu ekki áraun samdráttarins. Hitt er skýrt, að af hálfu stjórnvalda var ekki hvikað frá almennum, gagnsæjum aðferðum við stjórn efnahagsmálanna