16.9.2016

Flóðbylgja farandfólks frá Nígeríu

Morgunblaðið 16. september 2016

Um síðustu mánaðamót var Lilja Alfreðsdóttir utanríkisráðherra í Nígeríu. Hún ræddi meðal annarra við fjóra ráðherra landsins um samskipti ríkjanna. Í tilkynningu utanríkisráðuneytisins sagði að koma ætti á fót formlegum samstarfsvettvangi vegna viðskipta milli Íslands og Nígeríu Markmiðið væri að styrkja viðskiptasamband ríkjanna, auka gagnkvæm viðskipti og kanna möguleika á útflutningi á íslensku hugviti til Nígeríu, m.a. tæknilausnum í fiskvinnslu og útgerð.

Fagnaðarefni er ef tekst að tryggja snurðulaus viðskipti milli Íslands og Nígeríu, fjölmennasta ríkis Afríku og áttunda fjölmennasta ríkis heims með 184 milljónir íbúa. Sé litið til stærðar hagkerfa er nýmarkaðsríkið Nígería nr. 20 í heiminum, stærst í Afríku. Fóru Nígeríumenn efnahagslega fram úr Suður-Afríkumönnum árið 2014

Fleira þarf að ræða við stjórnvöld í Nígeríu en verslun og viðskipti því að skuggahlið er á samskiptum Nígeríumanna og Evrópubúa.

 

Skipulagt mansal

 

Í ágúst birti stofnun Sameinuðu þjóðanna sem ber enska heitið International Organisation for Migration (IOM), Alþjóðafólksflutningastofnunin, skýrslu þar sem segir að mansal á konum frá Nígeríu sé á „hættustigi“. Lýst er því sem gerst hefur í þessu efni á fyrstu sex mánuði ársins 2016. Fordæmt er hve mikill fjöldi stúlkna frá Nígeríu er afhentur, stundum með aðstoð fjölskyldna þeirra, glæpagengjum sem starfa á evrópska kynlífsmarkaðnum. „Þetta er ógnvekjendi; þetta er til skammar fyrir þjóðina,“ segir fjölmiðill í Nígeríu.

IOM lýsir flutningi stúlknanna í kynlífsþrælkun í Evrópu um Vestur-Afríku til Líbíu þar sem þeim er oft misþyrmt illilega. Í raun séu þær seldar til Evrópu fyrir 600.000 til 1,5 milljón ísl. kr. og þangað komnar skuldi þær kannski allt að 6 milljónir króna vegna ferðarinnar.  Kostnaðinn verði þær að endurgreiða með tekjum af vændi. Megináhersla sé lögð á að koma þeim til Bretlands, Spánar en þó einkum Ítalíu.

Segir í skýrslunni að í áratugi hafi kynlífsviðskipti blómstrað milli Nígeríumanna og Ítala og nú hafi verið hleypt nýju lífi í þau. Á fyrstu sex mánuðum ársins hafi 3.600 konur frá Nígeríu komist ólöglega til Ítalíu, fjórum sinnum fleiri en árið 2014 og tvisvar sinnum fleiri en árið 2015.

Ástandið er álíka hræðilegt í Bretlandi. Kevin Hyland, yfirmaður breskrar nefndar sem vinnur gegn þrælasölu, segir að Nígeríumenn séu stærsti einstaki hópurinn meðal 13.000 þræla í Bretlandi. Árið 2009 var vændi í fyrsta sinn skráð sem atvinnugrein í hagtölum í Bretlandi og var talið að veltan þar væri 5,3 milljarðar punda á ári. Bandarísk stofnun telur að um 42 milljónir stundi vændi um heim allan, veltan sé 186 milljarðar dollara, vændi og þar með mansal sé ein arðbærasta glæpaiðja í Bandaríkjunum.

 

Öllum í opna skjöldu

 

Reynslan frá Ítalíu er að 80% af konum frá Nígeríu sem smyglað er inn í landið leggi fyrir sig vændi á Ítalíu eða annars staðar í Evrópu. Það kemur í raun öllum sem reyna að sporna við þessum ófögnuði í opna skjöldu hve konunum fjölgar mikið á þessu ári. Simona Moscarelli, sérfræðingur í mansali hjá IOM, segir að glæpahópar og skipuleggjendur mansals hafi fært sig mjög upp á skaftið undanfarið.

Mafíu-hóparnir í Nígeríu nota blekkingar eins og loforð um lögmæt störf auk hefðbundinna aðferða galdramanna til að lokka til sín stúlkur og ná sálrænu valdi yfir þeim. Konunum er talin trú um að eitthvað hræðilegt gerist í lífi þeirra og fjölskyldu ef þær standi ekki í skilum. Þær eru síðan neyddar til að stunda vændi í Evrópu á götum úti eða í vændishúsum. Fyrir skömmu var Franca Asemota, 38 ára kona frá Nígeríu, dæmd í 22 ára fangelsi í Bretlandi fyrir að flytja kynlífsstarfsmenn um Evrópu. Sagt var að hún hefði lofað konunum menntun og störfum í Evrópu.

Europol, Evrópulögreglan, sendi í maí 2016 frá sér frétt um aðgerð í mörgum löndum sem leiddi í ljós mansal og glæpastarfsemi hópa frá Vestur-Afríku í Evrópu. Rannsóknir sýndu að þessir hópar væru einstaklega vel tengdir og næðu til þjófa, mansals, peningaþvættis og skjala- og vegabréfafalsara. Eftir að náð hefði verið tangarhaldi á fórnarlömbum í heimalöndum þeirra væri þeim laumað til Evrópu til starfa í vændishúsum eða á götum úti með fölsuð skilríki. Viðkomandi dveldist ef til vill í stuttan tíma á hverjum stað. Þess vegna telur Europol miklu skipta að lögregla fylgist oft og náið með einstaklingum í þessum hópum til að auðvelda upprætingu mansalshópa og uppljóstrun mála.

 

Fjölgun hér á landi

 

Líklegt er að þessarar stóru bylgju af kynlífsþrælum sem nú er smyglað frá Nígeríu til Evrópu gæti hér á landi. Til þess kynni að koma á næsta ári. Í ár hefur hælisleitendum fækkað á meginlandi Evrópu en fjölgað hér á landi. Í fyrra voru hælisleitendur alls 354 en sunnudaginn 11. september í ár voru þeir orðnir 443, alls 99 fleiri en allt árið í fyrra.

Enn á ný vekur athygli hve fjölmennur hópur hælisleitenda kemur frá Albaníu og Makedóníu. Þarna er um farandfólk í leit að betri kjörum að ræða, fólk sem réttir upp hönd og krefst hælis þegar athugun á landamærum sýnir að það á engan rétt á að koma til landsins. Öflugasta hindrunin felst í að útiloka þetta fólk frá að komast um borð í flugvél til landsins. Almennt séð væru Nígeríumenn ekki komnir hingað hálf bjargarlausir með sérkennileg skilríki nema vegna aðstoðar smyglara eða jafnvel manseljenda.

Afgreiða ber mál hvers hælisleitanda hratt og örugglega. Málshraði hefur aukist hjá Útlendingastofnun. Meðferð mála fyrir kærunefnd og framkvæmd brottvísunar á vegum ríkislögreglustjóra tekur sinn tíma. Kostnaðurinn leggst á skattgreiðendur. Sífellt meira og dýrara húsnæði þarf til að hýsa þá sem koma ólöglega til landsins. Allt kostar þetta mörg hundruð milljónir ár hvert.

Í Albaníu, Makedóníu og Nígeríu eru fullburða stjórnkerfi. Borgarar þaðan misnota alþjóðareglur um hælisleitendur með því að dveljast hér á opinberu framfæri. Markmiðið hlýtur að vera að minnka kostnað skattgreiðenda vegna þeirra sem eru ólöglega í landinu og færa útgjöldin til þeirra sem gæta landamæranna svo að efla megi starf þeirra.