5.8.2016

Evrópa: Róðurinn gegn hryðjuverkamönnum þyngist

Morgunblaðið föstudagur 5. ágúst 2016

Ný könnun á viðhorfum um 31.000 manns í 34 Evrópuríkjum sýnir að svarendur telja að útlendingamál og hryðjuverk eigi að vera efst á verkefnalista ráðamanna innan ESB. Efnahagsmál og atvinnuleysi falla í skuggann af þessum tveimur málefnum sem snerta almannaöryggi í álfunni.

Um sama leyti og þessi niðurstaða birtist undir lok fyrri viku sýndi könnun í Þýskalandi megna óánægju Þjóðverja með yfirlýsingu Angelu Merkel Þýskalandskanslara um að Þjóðverjum muni takast að leysa útlendingavandann sem skapaðist í fyrra þegar hún opnaði landamæri Þýskalands fyrir flótta- og farandfólki. 

Fimmtudaginn 28. júlí 2016 gerði Angela Merkel hlé á sumarleyfi sínu og efndi til blaðamannafundar í Berlín. Tíu dagana á undan hafði verið ráðist á lestarfarþega í Würzburg með exi, skotárás gerð í München, ráðist var á konu með sveðju í Reutlingen og sjálfsmorðsprenging varð í Ansbach. Alls lágu 13 í valnum, þar af þrír ódæðismenn, og tugir voru sárir. Þrír af fjórum ódæðismönnunum voru hælisleitendur, hryðjuverkasamtökin Ríki íslams eigna sér tvo þeirra.

Á blaðamannafundinum endurtók Merkel setninguna: „Okkur tekst þetta.“ Könnun á vegum YouGov fyrir fréttastofuna dps sýnir að 66% Þjóðverja eru annað hvort óánægðir eða mjög óánægðir með þessa yfirlýsingu. Þeir vilja að Merkel stöðvi straum aðkomufólks til landsins.

Talan sýnir meiri óánægju en nokkru sinni með opna flóttamannastefnu kanslarans frá því að hún sagði setninguna frægu í fyrsta sinn, 15. ágúst 2015.

Horst Seehofer er leiðtogi kristilegra sósíalista (CSU) í Bæjarlandi, flokksins sem að jafnaði myndar meirihluta á þýska sambandsþinginu að baki ríkisstjórn kristilegra. Gengið verður til kosninga til sambandsþingsins árið 2017. Í sjónvarpsviðtali sunnudaginn 31. júlí sagði Seehofer of snemmt að svara hvort CSU mundi ganga til kosninganna í bandalagi við CDU. Hik hans má rekja til margra mánaða gagnrýni Seehofers og félaga hans í CSU á stefnu Merkel í útlendingamálum. Þeir telja að verði haldið  áfram á sömu braut, eins og Merkel vill, takist alls ekki að ráða við vandann.

Frakkar líta til Ísraela

Hryðjuverk í Þýskalandi hafa ekki kostað eins mörg mannslíf og í  Frakklandi þar sem neyðarlög hafa verið í gildi síðan í nóvember 2015 þegar 130 féllu fyrir hendi hryðjuverkamanna í París. Alls lágu 84 í valnum í Nice á þjóðhátíðardaginn 14. júlí 2016. Þar var bifreið ekið inn í mannþröng til að verða sem flestum barnafjölskyldum að bana.  Síðan var gamall kaþólskur prestur skorinn á háls við messugjörð í kirkju í Normandie.

Eftir hryðjuverkin á árinu 2015 stóð franska þjóðin tiltölulega vel saman að baki stjórnvöldum. Nú hefur reiðin splundrað samstöðunni. Ríkisstjórnin er sökuð um aðgerða- og úrræðaleysi.

Í frönskum blöðum hafa ráð Ísraelsstjórnar gegn hryðjuverkum verið kynnt og spurt hvort franska stjórnin eigi að fara í smiðju þangað. Lýst er hvernig her, lögregla og um 200.000 almennir borgarar taka höndum saman í Ísrael til að sporna gegn hryðjuverkum (jafngildi tveggja milljón manna liðsafla í Frakklandi). 

Hættan af „einmana úlfum“ er vissulega fyrir hendi í Ísrael. Flestir árásarmannanna sem hafa orðið 34 Ísraelum að bana undanfarna tíu mánuði eru ekki félagar í einhverjum samtökum sem lúta reglulegu eftirliti. Þetta eru einstaklingar úr röðum Palestínumanna sem beita hnífum, bifreiðum og stundum skotvopnum gegn fórnarlömbum sínum.

Skyndiárásir af þessu tagi komu ísraelskum öryggisstofnunum í opna skjöldu en nú hafa þær tekið til við að fylgjast náið með samfélagsmiðlum, einkum Facebook, til að greina grunsamleg boð sem þar kunna að birtast. Hugbúnaðargerð er háþróuð í Ísrael. Stjórnvöld hafa virkjað fremstu hugbúnaðarmenn til að þróa forrit til greiningar á váboðum í netheimum. Þetta er ekki neitt smáverkefni: um ein milljón Palestínumanna á aldrinum 16 til 30 ára eru taldir „í hópi hættulegra“.

Arieh Amit, fyrrverandi lögreglustjóri í Jerúsalem, segir í Le Figaro að atburður á borð við þann sem varð í Nice geti ekki gerst í Ísrael. Komi mikill mannfjöldi saman þar sé öllum nálægum götum lokað með því að leggja stórum bílum þvert yfir þær. „Hver venjulegur lögreglumaður veit að þetta er nauðsynlegt,“ sagði hann um leið og hann viðurkenndi að vissulega væri ekki unnt að tryggja 100% öryggi.

Viðvörun til Breta

Sir Bernard Hogan-Howe, lögreglustjóri í London, greip til þess óvenjulega ráðs sunnudaginn 31. júlí að vara við því opinberlega að borgarbúar kynnu að verða fyrir hryðjuverki. Hann sagði:

„Hættustig okkar hefur verið „hátt“ í tvö ár – svo er enn. Það gefur til kynna að árás sé mjög líkleg – má segja að málið snúist um hvenær en ekki hvort.“

Árið 2005 voru fjórar sjálfsmorðsárásir gerðar í London, þá féllu 52 og rúmlega 700 særðust. Tveimur árum síðar var komið í veg fyrir hryðjuverk í borginni en árið 2013 var hermaður drepinn af hryðjuverkamanni.

Lögreglustjórinn telur einkum tvennt Bretum til hagsbóta: ströng vopnalög, þeir búa á eyju. Engu síður sé „hættan mjög raunveruleg“. Miðvikudaginn 3. ágúst var viðvörun lögreglustjórans fylgt eftir með stóraukinni sýnilegri löggæslu í London. Hefur vopnuðum lögreglumönnum á götum borgarinnar fjölgað úr 600 í 2.800.

Trúin á hið góða

Hér hefur verið vitnað til hryðjuverkaumræðna í þremur öflugustu ríkjum Evrópu. Alls staðar ríkir óvissa sem skapar óhjákvæmilega ótta.

Í innsetningarræðu sinni mánudaginn 1. ágúst tæpti Guðni Th. Jóhannesson forseti Íslands á þessum málum. Hann hvatti til bjartsýni en sló einnig varnagla þegar hann sagði:

„Við þurfum ekki að vera tortryggin eða óttaslegin um hag okkar á nýrri öld; hún er vonbjört og full af fyrirheitum. Vissulega geta ógnir leynst víða, það sanna dæmin því miður. Vissulega er gott að vera á varðbergi og hart þarf að mæta hörðu þegar nauðsyn krefur. En trú á hið góða verðum við að varðveita.“

Vonin í orðunum er í góðu samræmi við skoðunina sem ráðið hefur í Evrópu um að frelsi og mannréttindi tryggi best frið. Öll viljum við trúa á hið góða en skuggi hins illa er oftar en ekki nálægur. Því fyrr sem tekst að greina hann og snúast til varnar eykst öryggið. Öryggisráðstafanir eru nauðsynlegar til að hart mæti hörðu þegar þess er þörf – best er þó að greina hættuna til að hindra að ódæðisverkið sé framið.