24.6.2016

Afstaða Breta til ESB hefur áhrif á stöðu Íslands

Morgunblaðið 24. júní 2016


Bretar greiddu í gær atkvæði um aðildina að ESB. Úrslitin eru ekki kunn þegar þetta er skrifað. Hver sem niðurstaðan er skiptir hún okkur Íslendinga máli. Ákvarðanir Breta um eigin stöðu í heiminum hafa óhjákvæmilega áhrif á allar þjóðir við Norður-Atlantshaf. Framtíð Evrópusambandsins skiptir höfuðmáli fyrir öll Evrópuríki.

Sess í Íslandssögunni

Englendingar hafa frá aldaöðli átt sess í sögu Íslands. Dr. Björn Þorsteinsson sagnfræðingur vakti með doktorsritgerð sinni vorið 1971 rækilega athygli á ensku öld Íslandssögunnar. Hún stóð næstum alla 15. öldina (1415 til 1475) þegar Englendingar voru umsvifamiklir í veiðum við landið og verslun við landsmenn. Englendingar höfðu þá um langt skeið siglt til Íslands, einkum þó til Vestmannaeyja. Á 15. öld sóttust þeir einkum eftir skreið hér á landi. Gamlar enskar tollskýrslur sýna að  Englendingar fluttu hingað matvæli, korn, hunang og smjör en auk þess skeifur, skartgripi og bjór. Hér keyptu þeir skreið, brennistein og vaðmál.

Þýska öldin sigldi í kjölfar ensku aldarinnar í Íslandssögunni en þá höfðu Hansakaupmenn sótt frá Eystrasalti út á N-Atlantshaf og vildu að Englendingar drægju sig í hlé. Í Napóleonsstríðunum í upphafi 19. aldar lögðu Bretar hafnbann á Danmörku en stunduðu viðskipti við Íslendinga og um skeið ríkti Jörundur hundadagakonungur hér í skjóli þeirra.

Eftir Napaóleonsstríðin gerðu Svíar og Danir friðarsáttmála í Kiel 14. janúar 1814. Þar er sérstaklega tekið fram í 4. grein að Grænland, Færeyjar og Ísland fylgi ekki með Noregi í hendur Svíum. Sú skoðun hefur ríkt að þetta ákvæði sýni að sænski samningamaðurinn hafi látið leika á sig, hann hafi ekki vitað að gömlu skattlöndin tilheyrðu Noregi og þess vegna fallist fúslega á ósk Dana um að setja þetta ákvæði í 4. greinina.

Nú þykir sú skoðun sennilegri að Bretar hafi átt mun meiri þátt í efni þessa samnings en áður var talið. Þeir hafi ekki talið þjóna hagsmunum sínum að veldi Svía teygði sig út á breskt áhrifasvæði á Norður-Atlantshafi. Auk þess hafi Karl Jóhann Svíakonungur ekki haft áhuga á að veikja ríkisheildina frá landfræðilegu og hernaðarlegu sjónarmiði með því að eyjarnar féllu undir hana. Svíar hafi aldrei sýnt áhuga á að eignast N-Atlantshafseyjarnar.

Átök síðari tíma

Í fyrri heimsstyrjöldinni „hernámu“ Bretar Ísland með einum, ungum ræðismanni, Eric Cable, sem átti síðasta orðið um marga þætti í stjórn landsins. Í hinni seinni sendu Bretar hernámslið til landsins. Sumarið 1941 tók bandarískt lið við af því á grundvelli samnings.

Eftir að Íslendingar urðu sjálfstæð þjóð tók um þrjá áratugi að ýta breskum fiskiskipum af Íslandsmiðum. Kostaði það átök á hafinu og slit á stjórnmálasambandi ríkjanna. 

Í upphafi sjöunda áratugarins var aðild Breta að Efnahagsbandalagi Evrópu (EBE) á döfinni þar til Charles de Gaulle Frakklandsforseti hafnaði henni. Kallaði hann Breta „eyjaskeggja“, hagsmunir þeirra tengdust meira hafinu en meginlandi Evrópu.

Um þetta sama leyti var í fyrsta sinn alvarlega rætt um aðild Íslands að EBE. Hugmyndin varð endanlega að engu þegar Bretum var hafnað. Tæpum áratug síðar urðu Íslendingar aðilar að EFTA, Fríverslunarsamtökum Evrópu, þar sem Bretar gegndu forystuhlutverki þar til þeir gengu í EBE árið 1973 ásamt Írum og Dönum.

Bresk stjórnvöld sýndu Íslendingum einstæða óvild í bankahruninu í október 2008. Stjórn breska Verkamannaflokksins lokaði tveimur breskum bönkum í eigu Íslendinga 8. október 2008. Sama dag beitti hún hryðjuverkalögum á Landsbankann og felldi það sem þá var eftir af íslenska bankakerfinu. Ekki hefur fengist fullnægjandi skýring á því hvers vegna svo harkalega var vegið að Íslendingum.  Icesave-málið er af sama meiði. Þar var sótt fram með pólitísku valdi og látið eins og ekki þyrfti að virða lög og rétt.

Norður-Atlantshafsþjóð

Í þessari hröðu ferð yfir samskipti Breta og Íslendinga er hlaupið yfir mennta- og menningarþáttinn í samskiptum þjóðanna. Þar hafa myndast náin og djúpstæð tengsl. Fjölgun ferðamanna hér síðustu ár má auk þess að stórum hluta rekja til Breta.

Áður en Bandaríkjamenn komu í stað breska hernámsliðsins sumarið 1941 áttu Bretar síðasta orðið um öryggismál á Norður-Atlantshafi. Nú er hlutur þeirra svipur hjá sjón í því tilliti.  Breski herskipaflotinn hefur minnkað og þeir eiga ekki lengur neinar flugvélar sem geta sinnt virkri kafbátaleit. Hefur orðið að kalla á bandarískar kafbátaleitarvélar til að finna grunsamlega kafbáta undan strönd Skotlands, breskir kjarnorkukafbátar eiga heimahöfn í firði skammt vestur af Glasgow.

Ákveði Bretar að standa utan við ESB mun hlutur þeirra sem N-Atlantshafsþjóðar styrkjast. Þeir hefja nýja vegferð utan sáttmála ESB. Þeir eiga kost á ganga að nýju í EFTA og endurnýja  náið samstarf við Svisslendinga, Liechtensteina, Norðmenn og Íslendinga. Milliliðalaus samskipti þeirra við Bandaríkjamenn og Kanadamenn aukast, leiðin til að efla þau liggur ekki lengur um Brussel. Ný tækifæri skapa nýjar lausnir.

Næstu skref

Baráttan um atkvæðin með og á móti ESB-aðildinni hefur verið hörð í Bretlandi. Elítan innan Bretlands og utan varar Breta við hættunni af úrsögn. Er með nokkrum ólíkindum hve margir áhrifamenn utan Bretlands hafa blandað sér í umræðurnar. Ákveði Bretar að segja sig úr ESB sannar það að áhrif elítunnar á almenning er minni en á fjölmiðlamennina sem flytja okkur skoðanir hennar. 

Nú í morgunsárið mun David Cameron, forsætisráðherra Breta, boða næstu skref ríkisstjórnar sinnar. Sé aðild að ESB hafnað mælir hann með því að 50. grein sáttmála ESB sé virkjuð og nýttur verði tveggja ára frestur til að ganga frá úrsögn Breta úr ESB. 

Forystumenn ESB koma saman í Brussel. Hver sem niðurstaða Breta er munu fimm forsetar ESB leitast við að sporna gegn því að aðrar ESB-þjóðir fari sömu leið. Hrakspár um áhrif úrsagnar Breta eru öðrum þræði varnaðarorð til annarra þjóða. Um alla Evrópu vex vantrú í garð Brusselmanna. Nýleg könnun sýndi að 48% Ítala vilja úr ESB. Þá vilja 58% Frakka þjóðaratkvæðagreiðslu um aðild sína og 41% sögðust vilja úrsögn úr ESB.

Meginástæðu vantrúarinnar á Brusselmenn má rekja til þess að þá skortir lýðræðislegt umboð. Þeir stjórnast af eigin hagsmunum og stofnana ESB á kostnað aðildarþjóðanna.  Verði ekki snúist gegn lýðræðisskortinum innan ESB fara fleiri þjóðir að fordæmi Breta hvort sem þeir hafna aðild eða ekki.