24.5.2002

Hvað vilja Reykvíkingar?


Morgunblaðið
Föstudaginn 24. maí, 2002

Hvað vilja Reykvíkingar?



Kosningabarátta snýst um það að kynna kjósendum skýra kosti. Leggja mál fyrir þá á þann veg, að ljóst sé, hvað unnið verður í umboði þeirra næstu fjögur árin.
Fyrir páska kynntum við sjálfstæðismenn þá stefnu okkar, að fjölga þyrfti hjúkrunarrýmum fyrir aldraða í Reykjavík, og lögðum til, að 250 milljónum króna yrði varið ár hvert, næstu fjögur ár, til að fjölga hjúkrunarrýmum í Reykjavík. Sumardaginn fyrsta kynnti R-listinn stefnuskrá sína og þar er ekki að finna neitt sambærilegt áform um framkvæmdir í þágu aldraðra. Er það í samræmi við aðgerðarleysi R-listans á þessu sviði undafarin 8 ár. Hann hefur haldið að sér höndum og sagt, að hann þurfi ekki að gera neitt, því að frumkvæðið eigi að koma frá ríkinu. Það þarf ekki að rifja upp fyrir neinum, sem fylgst hefur með kosningabaráttunni til hvaða örþrifaráða R-listinn greip síðan í þessu máli - einn glöggur fréttamaður lýsti þeirri aðgerð sem gildru í viðtali við mig í beinni útsendingu. Mér er kappsmál, að gamla fólkið í Reykjavík lendi ekki í þeirri gildru, því að undir forystu R-listans verður haldið áfram að gera ekki neitt í málefnum aldraðra Reykvíkinga.

Ég hef sagt margsinnis á undanförnum dögum og endurtek það enn, að mér hefur komið mest á óvart í þessari kosningabaráttu, hve margir eru í næsta bjargarlausri stöðu gagnvart borgaryfirvöldum en þora ekki að segja frá því opinberlega. Á þetta ekki síst við þá, sem þurfa á félagslegri þjónustu að halda. Skýringin á þögninni er einöld. Fólk óttast skömmtunar- og biðlistastjórana á vegum borgaryfirvalda og stjórnmálamennina á bak við þá.

Biðlistar eru eftir þjónustu af öllu tagi. Sérstaklega slæmt ástand er í húsnæðismálum og eru dæmin, sem rakin eru í samtölum, með ólíkindum. Tekið er á móti húsnæðislausum, einstæðum mæðrum með tvö börn með þeim orðum, að þær verði settar á biðlista og geti hugsanlega vænst úrlausnar eftir 5 ár! Frásögn Morgunblaðsins í gær af fundi Geðhjálpar segir mikla sögu um stöðuna hjá geðfötluðum. Í Morgunblaðinu hefur fyrr komið fram, að um 300 manns eru í raun heimilislausir í borginni.

Síðan er því blákalt haldið fram, að fólk eigi að kjósa R-listann, af því að hann sé eina andstöðuafl félagshyggjunnar við Sjálfstæðisflokkinn. Þannig talar að minnsta kosti samfylkingarfólkið undir forystu Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur á R-listanum og gerir vísvitandi lítið úr vinstri/grænum og framsóknarmönnum. Hugur Samfylkingarinnar í garð framsóknarmanna kemur ekki síður vel fram í Hafnarfirði eða ómaklegum árásum á sveitarstjórnir í Kópavogi og Reykjanesbæ.

Sigurður Geirdal, framsóknarmaður og bæjarstjóri í Kópavogi, svaraði ummælum Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur um skipulagsmál í Kópavogi með því að minna á, að um 1.000 ný fyrirtæki hefðu komið til sögunnar í Kópavogi á síðustu sjö árum og flest flust frá Reykjavík, það tefði mest fyrir meiri fjölgun fyrirtækja úr Reykjavík, að erfitt væri fyrir þau að losna við eignir sínar þar!

Í gær var ég á vinnustaðafundi í hátæknifyrirtækinu Marel, þar sem á þriðja hundrað manns starfa, en það flytur 6. júlí næstkomandi í Garðabæ. Annað hátæknifyrirtæki, Tölvumyndir, er flutt í Kópavog. Bæði þessi fyrirtæki eins og hundruð annarra gefa sveitarfélögum sínum miklar tekjur, en af hálfu R-listans er látið eins og fyrirtækjaflutningurinn sé óhjákvæmilegur og eigi ekkert skylt við ákvarðanir sveitarstjórnar. Annað vita þeir sveitarstjórnamenn, sem taka allri nýrri atvinnustarfsemi fagnandi.

Hvort sem rætt er um viðmót borgaryfirvalda R-listans við þá einstaklinga, sem minna mega sín, eða stjórnendur fyrirtækja, öllum er sýnd sama kuldalega afstaðan eða hrokinn eins og kom fram í upphafi kosningabaráttunnar í garð kaupmanna á Laugaveginum, þegar þeir kynntu málstað sinn og gagnrýni á R-listann.

Eftir kynni mín af þessum þætti borgarlífsins - það er samskiptum R-listans við borgarbúa - eru þessar spurningar ofarlega í huga mínum: Vilja Reykvíkingar, að áfram verði farið sömu höndum um málefni þeirra? Vilja þeir áfram una því að búa í biðlista- og skömmtunarborg? Vilja þeir áfram sömu lausatökin á fjármálum borgarinnar? Vilja þeir áfram, að gengið sé í sjóði Orkuveitunnar og vegið að innviðum hennar? Vilja þeir áfram að hundruð fyrirtækja flytji frá Reykjavík? Vilja þeir áfram búa við uppboðskerfi í lóðamálum?

Með jákvæðum og markvissum hætti höfum við sjálfstæðismenn kynnt kosningastefnu okkar og nú höfum við einnig lagt fram tímasetta verkáætlun um framkvæmd stefnunnar. Ég skora á þig, lesandi góður, að kynna þér stefnu okkar og verkáætlun. Þá verður valið auðvelt í kjörklefanum á morgun.