27.5.2016

Ný og náin tengsl innsigluð í Washington

Morgunblaðsgrein 27. maí 2016.

Bandaríkjaforseti tók vel á móti forseta Finnlands og forsætisráðherrum Danmerkur, Íslands, Noregs og Svíþjóðar í Hvíta húsinu föstudaginn 13. maí. Einstakt er að forsetinn bjóði hópi ríkisoddvita í opinbera heimsókn. Gamanyrði féllu á milli manna í opinberum ræðum en að baki var alvarlegur undirtónn. Þetta var í annað sinn sem ríkisoddvitar landanna fimm og Bandaríkjaforseti hittust á sameiginlegum fundi. Fyrra skiptið var í Stokkhólmi í september 2013.

Mikið vatn hefur runnið til sjávar á þessum misserum og margt breyst í utanríkis- og öryggismálum. Í okkar heimshluta ber hæst hernaðarbrölt Rússa í austurhluta Úkraínu og innlimun þeirra á Krímskaga í mars 2014. Valdbeitingin braut gegn alþjóðalögum og sérstökum samningi sem Rússar gerðu í Búdapest árið 1994 um að virða landamæri Úkraínu gegn því að Úkraínumenn afsöluðu sér kjarnorkuvopnum. Vladimír Pútín Rússlandsforseti rökstuddi stefnu sína gagnvart Úkraínu meðal annars með orðum um skyldu Rússa til að gæta arfleifðar rússneska „móðurríkisins“ sem ætti rætur í Kænugarði. Verja yrði rétt fólks af rússneskum uppruna þar sem það væri ofríki beitt.

Þáttaskil í öryggismálum

Málflutningur af þessu tagi vekur ótta meðal nágranna Rússa. Þeir minnast þess að fyrir tæpri hálfri öld, árið 1968, kynnti Leonid Brezhnev, leiðtogi sovéska kommúnistaflokksins, kenninguna um að Sovétmenn hefðu rétt til að hlutast til um innri málefni ríkja á áhrifasvæði sínu til að verja ávinning og framtíð sósíalismans. Því til áréttingar sendi hann skriðdreka inn í Prag til að brjóta þá á bak aftur sem stóðu að vorinu þar.

Rússneska íhlutunin í Úkraínu hefur valdið þáttaskilum í evrópskum öryggismálum. Áhrifanna gætir ekki síst við Eystrasalt en ríkisstjórnir Norðurlanda hafa í fjölmörgum yfirlýsingum heitið Eystrasaltsríkjunum stuðningi sínum. Rússar eru gráir fyrir járnum á hólmlendu sinni Kaliningrad sem er við Eystrasaltið milli Litháens og Póllands. Þeim er mikið í mun að minna á hernaðarmátt sinn þar.

Bandaríkjamönnum ögrað

Fyrir nokkrum vikum (11. apríl og 12. apríl) ögruðu rússneskar orrustuþotur bandaríska tundurspillinum Donald Cook tvisvar sinnum þegar hann var um 70 mílur frá Kaliningrad og skömmu síðar tóku rússneskar þotur ógnandi dýfur skammt frá bandarískri RC-135 eftirlitsflugvél á sömu slóðum.

 John Kerry, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, sagði að flugmennirnir hefðu hagað sér á hættulegan og ögrandi hátt þegar þeir æfðu árás með bandaríska herskipið sem skotmark. „Við fordæmum hegðun af þessu tagi. Hún er ófyrirleitin. Hún er hættuleg. Miðað við reglur um heimild til beitingar vopna hefði verið unnt að gefa fyrirmæli um að granda vélunum,“ sagði Kerry.

Svíum ögrað

Rússar ögra Svíum með skotflaugum sem geta borið kjarnorkuvopn.

Varaformaður varnarmálanefndar efri deildar rússneska þingsins sagði 29. apríl að Rússar leggðu nú lokahönd á nýja gerð skotflauga sem líklega yrðu settar á skotpalla í norðurhluta Rússlands gengju Svíar í NATO. Þingmaðurinn sagði einnig að herafli Rússa við landamæri þeirra í norðri og norðvestri og þar með Norðurflotinn yrði efldur færu Svíar í NATO.

Daginn áður sagði Sergei Lavrov, utanríkisráðherra Rússa, í samtali við Dagens Nyheter að rússneska ríkisstjórnin mundi grípa til „hertæknilegra ráða“ við norður landamæri sín gengju Svíar í NATO.  Svíar hefðu sýnt Rússum kulda eftir að þeir innlimuðu Krímskaga í mars 2014. Utanríkisráðherrann sagði: „Hver þjóð hefur rétt til að ákveða hvernig hún hagar öryggismálum sínum en menn verða að átta sig á að færist hernaðarlegir innviðir nær landamærum Rússlands verðum við að sjálfsögðu að grípa til nauðsynlegra hertæknilegra aðgerða. Ástæðulaust er að taka þessu persónulega, hlutirnir ganga bara svona fyrir sig.“

Stefan Löfven, forsætisráðherra Svíþjóðar, brást illa við orðum Lavrovs og sagði í samtali við sænsku TT-fréttastofuna að þau hefðu verið „ónauðsynleg“. Svíar tækju eigin ákvarðanir um varnir sínar og öryggisstefnu. „Við krefjumst þess að sá réttur sé virtur á sama hátt og við virðum ákvarðanir annarra ríkja um öryggi þeirra og varnarmálastefnu,“ sagði forsætisráðherrann. Rússar vissu mætavel að Svíar stæðu utan hernaðarbandalaga og hefðu lengi gert það.

Finnar meta stöðuna

Í lok apríl var birt skýrsla sem unnin var að ósk finnsku ríkisstjórnarinnar um áhrif af hugsanlegri NATO-aðild Finna. Niðurstaða skýrsluhöfunda er að Finnum beri að halda áfram á þeirri braut að eiga náið samstarf við NATO án þess að ganga í bandalagið. Þá er lögð áhersla á samleið Finna og Svía gagnvart NATO.

Hernaðarlegt samstarf Finna við NATO er náið og vaxandi. Þeir munu til dæmis  taka þátt í miklum heræfingum í Póllandi 7. til 17. júní ásamt samstarfsaðilum sínum í NATO. Rúmlega 25.000 hermenn verða í Póllandi við æfingar skömmu áður en leiðtogafundur NATO verður haldinn í Varsjá í júlí. Þá hafa bandarískir hermenn úr landher og flugher verið við víðtækar æfingar í Finnlandi á þessu ári.

Hlutdeild innsigluð í Washington

Hlutdeild Finna og Svía í umræðum um öryggismál og þátttaka þeirra í hernaðarlegu samstarfi með NATO eykst stig af stigi. Þetta er nýmæli í samskiptum ríkisstjórna Norðurlanda við Bandaríkjastjórn. Voru þessi nýju og nánu tengsl innsigluð á fundunum í Washington 13. maí.

Ekki er unnt að staðfesta gildi þessara tengsla í reynd nema tryggt sé öryggi á Norður-Atlantshafi. Samhliða vaxandi spennu á Eystrasalti hafa umsvif rússneska herflotans stóraukist í nágrenni Íslands.

Magnus Nordenman, vara-forstöðumaður Brent Scowcroft alþjóðamálastofnunarinnar hjá Atlantic Council í Washington, hvatti nýlega til að gæsla yrði aukin í GIUK-hliðinu, á svæðinu frá Grænlandi um Ísland til Bretlands. Nú væri floti evrópskra kafbátaleitarvéla nær orðinn að engu og Bandaríkjamenn héldu aðeins úti fimm vélum til kafbátaleitar og eftirlits á hafinu. Þeir hefðu horfið með öllu frá Keflavíkurstöðinni árið 2006, lykilstað til eftirlits í GIUK-hliðinu. Úr þessu yrði að bæta.

Íslensk stjórnvöld verða að móta skýra stefnu vegna hinnar nýju stöðu í öryggismálum. Hún verði innan ramma þjóðaröryggisstefnunnar sem var nýlega samþykkt en taki mið af augljósum váboðum og nauðsyn hlutdeildar okkar í að tryggja öryggi Norðurlanda, Eystrasaltsríkjanna og Norður-Atlantshafsins.