21.5.2002

Meiri tengsl við borgarana





Morgunblaðið
Þriðjudaginn 21. maí, 2002

Meiri tengsl við borgarana





Nú er lokavika kosningabaráttunnar vegna sveitarstjórnarkosninganna næsta laugardag hafin. Undanfarnar vikur höfum við frambjóðendur Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík átt þess kost, að hitta þúsundir í hópi kjósenda til að kynna þeim stefnu okkar. Við höfum haft mikla ánægju af þessum fundum, enda höfum við lagt áherslu á að kynna stefnuna og önnur málefni með jákvæðum hætti og ekki í þeim tilgangi að hallmæla andstæðingum okkar, þar sem þeir eru ekki til andsvara.
Við höfum sannfærst um það á þessum fundum og í viðræðum við kjósendur, að á undanförnum árum hafi myndast of langt bil á milli hins almenna borgara og meirihlutans í borgarstjórn. Mörgum okkar hefur komið þetta mjög á óvart, því að forsenda góðs árangurs í stjórn sveitarfélaga er, að stjórnendur þeirra leggi sig fram um að taka mið af hagsmunum íbúanna.

Við höfum einnig orðið vör við mikinn stuðning við markmið okkar í skólamálum, sem miða að því að dreifa valdi. Hverfa frá því að eitt fræðsluráð með einum áheyrnarfulltrúa milli 30 og 40.000 foreldra fari með stjórn 45 grunnskóla. Þessi ráðstöfun felur í sér vel skilgreinda dreifingu valds til skólahverfa, þar sem leikskólinn og grunnskólinn mynda kjarnann.

Reynsla af fundum með fólki úr öllum hverfum borgarinnar og á Kjalarnesi segir okkur, að jafnt í gamalgrónum hverfum sem þeim yngri, er við ákvarðanir í skipulagsmálum komið aftan að borgarbúum. Fólk mótmælir, svo að dæmi séu tekin, fyrirhugðum landfyllingum við Eiðisgranda og Ánanaust, nýbyggingu í Suðurhlíðum, Laugarnesi, á Landssímalóð í Grafarvogi og Alaskalóð í Breiðholti vegna þess að ætlun R-listans er að raska forsendum, sem íbúar hafa talið, að beri að virða. Gagnrýni er annaðhvort ekki svarað eða seint og án vilja til raunverulegs samráðs. Í Grafarvogi var niðurstöðum vindafarsathugunar haldið leyndum fyrir íbúunum.

Við ætlum að breyta um stjórnarhætti, hverfa frá biðlista- og skömmtunarstefnunni, sem hvílir eins og mara á mörgum Reykvíkingum, og opna samskiptin við borgarbúa með auknu samráði og samvinnu við úrlausn viðfangsefna, sem snerta þá og hverfi þeirra.

Í þessu efni er Reykjavík ekki í fyrsta sæti. Við ætlum að setja Reykjavík í fyrsta sæti með meiri tengslum við borgarbúa.