1.4.2016

Jaðarhópar fórnarlömb öfgahyggju

Morgunblaðsgrein 1. apríl 2016Menn leita skýringa á undirrót hryðjuverkanna í París í nóvember 2015 og í Brussel 22. mars 2016. Öfgahyggjumenn múslima standa að baki voðaverkunum. Ósvarað er hvers vegna ungir menn snúast gegn samborgurum sínum á þennan hátt. Hryðjuverkamennirnir laumast til Sýrlands til fundar við illvirkja og kveikja síðan á sjálfsmorðssprengjunum á heimavelli. Engin skýring er einhlít.


Hér verður vitnað til þriggja ólíkra manna sem hafa undanfarna daga lýst skoðun sinni á því sem að baki býr.


StjórnmálamaðurinnSósíalistinn Patrick Kanner, ráðherra borgarmála í Frakklandi, sagði í sjónvarpsviðtali á páskadag að „sum hverfi í Frakklandi“ gætu tekið á sig svipaða mynd og Molenbeek í Brussel. Frá því að hryðjuverkamenn réðust á þrjá staði í París 13. nóvember 2015 hefur Molenbeek verið í heimsfréttunum og lýst sem fátæku samfélagi múslima, kjörlendi fyrir íslamska vígamenn. Athyglin á hverfið minnkaði ekki eftir að belgíska lögreglan fann Salah Abdeslam þar 18. mars 2016, eina eftirlifandi hryðjuverkamanninn frá París. Franski ráðherrann lýsti Molenbeek sem hverfi fátæktar og atvinnuleysis utan belgíska samfélagsins þar sem mafía stjórnaði neðanjarðarhagkerfi. Hverfið væri að mestu án opinberrar þjónustu og kjörnir fulltrúar létu það sig engu skipta.


PrófessorinnFranska blaðið Le Figaro birti þriðjudaginn 22. mars, dag hryðjuverkaárásanna í Brussel, viðtal við Pierre Vermeren, prófessor í nútímasögu Norður-Afríku við Sorbonne-háskóla. Spyr blaðið hvernig Salah Abdeslam hafi tekist að fara huldu höfði í fjóra mánuði þrátt fyrir mikið eftirlit í Molenbeek-hverfinu.  Prófessorinn segir að hann hefði ekki getað falist án samverkamanna í hverfinu og samstöðu heimamanna.  Svo virðist sem hryðjuverkahópar í Brussel hafi búið um sig með fjölskyldum og hópum sem kenndir séu við Rif (strandhérað við Miðjarðarhaf í Marokkó) og tengist þar með skipulögðum glæpahópum þaðan. „Í þessum fjallabyggðum skammt frá Miðjarðarhafi og einkum meðal íbúa þaðan sem flust hafa til annarra landa hafa menn tamið sér þagmælsku, að spyrja einskis, að verjast í skjóli þagnar,“ segir prófessorinnHann telur aðlíta megi á mafíu-netið í Marokkó sem flytur út og dreifir hassi sem sprota fyrir sellur og síðan kerfi herskárra ofsatrúarmanna. Ungu mennirnir sem stundi glæpaverkin hafi ekki aðeins beðið guð fyrirgefningar á óhæfuverkum sínum heldur gengið öfgahyggjunni á vald. Við afbrotastarfsemina á jaðri samfélagsins hafi þeir hagnast og tileinkað sér þekkingu á vopnum og hvernig laumast megi milli landa og innan Evrópu. „ Þeir sveifla sér stöðugt milli síma, netsins og beinna samskipta, maður á mann, þar sem það jafngildir dauðadómi að standa ekki við orð sín,“ segir prófessorinn. Lögregla og leyniþjónustur í Frakklandi  hafi skilgreint hættuna af þessari starfsemi til fullnustu. Á hinn bóginn láti franskir stjórnmálamenn sér þetta í léttu rúmi liggja, af vanþekkingu, af áhugaleysi eða vegna hugmyndafræði. Af þessum sökum hafi svo lítið miðað frá árásunum árið 1993 (Marrakech), 1995 (Kelkal), 1996 ( Roubaix-gengið), 2003 (Casablanca), 2004  (Madrid), 2012 (Merah) og 2015 (París í janúar og nóvember). Í öllum þessum tilvikum hafi verið tengsl milli hópa hryðjuverkamanna og mafíunnar.


Sú skoðun hafi rutt sér til rúms undanfarna áratugi meðal ráðamanna (til hægri og vinstri) að verslun með hass sé ekki eins slæm og áður hafi verið talið. Elíturnar telji að í hassi felist leið til að kaupa samfélagsfrið hjá ungu fólki, til að auðga fátæka og draga úr byltingarþrá annarra. Menntunarleysið, ofbeldið, geðveikin, umferðarslysin skipti minna máli í þessu samhengi en afkoma mafíunnar sem yrði enn ofbeldisfyllri gæti hún ekki stundað þessi viðskipti. Í stuttu máli þá telji margir miklu skipta að ekkert sé gert á hlut hinna umfangsmiklu fíkniefnasmyglara, þeir verndi samfélagsfrið í Marokkó en einnig í úthverfum franskra borga og rói unga fólkið.


LögfræðingurinnEftir árásirnar í Brussel leitaði belgíska blaðið DH álits svissnesks lögfræðings Philippes Kenels, formanns svissnesk-belgíska verslunarráðsins og birtist viðtal við hann fimmtudaginn 24. mars. Hann segist oft hafa talið þróunina í Sviss og Belgíu sambærilega þótt Sviss hafi aldrei verið nýlenduveldi. Fjöldi verkamanna frá Ítalíu, Spáni og Portúgal hafi komið til Sviss en aldrei neinir frá Marokkó eða Túnis eins og til Belgíu á sjöunda og áttunda áratugunum. Norður-Afríkubúarnir hafi fljótt fengið belgískan ríkisborgararétt og aldrei hafi verið hugað sérstaklega að aðlögun þeirra.Þetta hafi leitt af sér  sérstök hverfi í Belgíu eins og Molenbeek. Íbúarnir þar beri belgískan ríkisborgararétt og njóti gæða samfélagsins þótt þeir hafi aldrei lagað sig að hefðum þess og siðum.  „Sósíalistaflokkurinn hefur árum saman notið þar [í  Molenbeek] verulegs fylgis meðal kjósenda. Það er hart að þurfa að segja það en Belgar borga það nú dýru verði að hafa ekki fylgt markvissari stefnu,“ segir Kenel.Sjálfur hafi hann sætt ámæli og verið stimplaður hægri maður fyrir að minna á að Evrópa sé að grunni kristin álfa.


„En hvers vegna að hræðast að segja það? Þetta er einfaldlega staðreynd og felur alls ekki  í sér andstöðu við neinn annan. Ég hef ávallt talið að best sé að taka á móti útlendingum með óbrenglaða sjálfsmynd. Í mínum huga er ekkert land án eigin sjálfsmyndar, væri málum ekki þannig háttað þyrfti ekki að ræða nauðsyn þess að aðrir löguðu sig að einhverju. Í Belgíu hafa menn dregið um of að átta sig á þessu og gefið of mikið eftir í stað þess að beita sama strangleika og Svisslendingar gagnvart þriðju ríkjum – er of seint að snúa nú við blaðinu?“ spyr svissneski lögfræðingurinn og lýkur samtalinu á þeim orðum að í Belgíu kunni að reynast sérstaklega erfitt að berjast fyrir aðlögun múslima að belgísku samfélagi, þeir hugsi kannski einfaldlega með sér að eftir hálfa öld myndi þeir meirihluta í landinu.


Flókinn veruleikiNokkur samhljómur er í orðum þessara manna:  það hafi orðið til hópur á jaðri evrópskra samfélaga þar sem öfgahyggja undir merkjum íslams hafi tekist að fylla tómarúm.  Tekist hafi að virkja smáglæpamenn og fíkniefnaneytendur, oft með hörmulegum afleiðingum. Ósanngjarnt er þó að setja alla í umræddum hverfum undir sama hatt, þar eru einnig dugmiklir, friðsamir og löghlýðnir borgarar landa sinna. Í samtímanum hefur skírskotun til aðkomufólks sem lagar sig ekki að siðum og hefðum nýrra heimalanda meiri hljómgrunn en áður vegna hins mikla fjölda sem streymir til Evrópu. Hér á landi skiptir miklu eins og annars staðar að tómlæti og skortur á markvissri stefnu geti ekki af sér jaðarhópa, kjörin fórnarlömb öfgahyggju.