18.3.2016

Makedóníumenn verja Evrópu gegn sjálfu ESB

Morgunblaðsgrein 18. mars 2016

Stóru þýsku stjórnmálaflokkarinir fengu alvarlega viðvörun í kosningum til þriggja sambandslandsþinga sunnudaginn 13. mars. Þótt þeir standi af sér höggið hafa leiðtogar flokkanna laskast, ekki síst Sigmar Gabriel, formaður jafnaðarmanna. Kjósendur vita í raun ekki fyrir hvað jafnaðarflokkar standa. Þeim hefur mistekist að laga stefnu sína að takti tímans. 

Angela Merkel Þýskalandskanslari gekk á hólm við þýska þjóðernistilfinningu með því að opna faðminn fyrir flótta- og farandfólki á liðnu ári þegar meira en ein milljón aðkomumanna óskaði eftir leyfi til að setjast að í Þýskalandi. Flokkurinn sem helst hefur beitt sér gegn þessari stefnu Merkel, Alternative für Deutschland (AfD), var sigurvegari kosninganna 13. mars.

Í gær og í dag reynir Merkel að fá leiðtogaráð Evrópusambandsins til að létta hinni pólitísku byrði af sér með samningum við Tyrki.  Þeir hafa í raun sett Merkel og ESB afarkosti, fjárhagslega og pólitíska. 

Eftir að allt var komið í óefni vegna fjöldans sem streymdi með aðstoð smyglara frá Tyrklandi til Grikklands og þaðan norður eftir Balkanlöndunum til Austurríkis og Þýskalands var gripið til þess ráðs að loka þessari leið við landamæri Makedóníu og Grikklands.

Landamærum Makedóníu lokað


Makedónía er landlukt tæplega 30.000 ferkílómetra 2,1 milljón manna ríki sem á land að Grikklandi, Búlgaríu, Kosóvó, Serbíu og Albanínu. Það varð sjálfstætt árið 1991 við upplausn Júgóslavíu fyrrverandi en hefur átt undir högg að sækja í alþjóðasamstarfi af því að grísk stjórnvöld neita að viðurkenna nafn ríkisins. Þau segja að Makedónía sé hérað í Grikklandi, enginn annar geti hrifsað það nafn til sín. Þess vegna er ríkið Makedónía oft aðeins nefnt FYROM, skammstöfun fyrir Former Yugoslav Republic of Macedonia, fyrrverandi júgóslavneska lýðveldið Makedónía. Vegna deilunnar um heiti ríkisins hafa Grikkir beitt neitunarvaldi gegn umsókn frá Makedóníu um aðild að ESB og NATO.

Eftir að ríkisstjórn Makedóníu lokaði, í febrúar 2016, landamærum sínum gagnvart Grikklandi og stöðvaði þannig straum flótta- og farandfólks á leið til Norður-Evrópu hafa orðið þáttaskil í umræðum um hvernig tekið skuli á málefnum þessa fólks. 

Gjorge Ivanov, forseti Makedóníu, skrifaði grein sem birtist víða til að skýra rökin að baki ákvörðun stjórnar landsins. Sagði hann að Makedóníumenn hefðu neyðst til að verja Evrópu gegn sjálfu ESB.

Í Makedóníu hefðu stjórnvöld staðið frammi fyrir ólögmætum straumi fólks, eyðileggingu á eignum ríkis og einstaklinga, notkun falsaðra vegabréfa og ofbeldi gagnvart þeim sem gættu landamæranna. Allt þetta hefði mátt rekja til farandfólks sem vildi komast hjá skráningu og staðfestingu á því hver í raun ætti rétt á hæli. Þetta hefði gerst þótt Makedónía stæði utan ESB. Vandann mætti rekja til yfirráðasvæðis Grikkja – Schengen-ríkis. Makedónía hefði þess vegna orðið að verja Evrópu fyrir sjálfu ESB.

Forseti Makedóníu sakaði ráðamenn í Evrópu um að hafa gleymt því sem þeir lærðu í landafræði og sögu og þar með þeirri staðreynd að Balkanríkin hefðu löngum verið meginæðin milli Evrópu, Mið-Austurlanda og Norður-Afríku. Nú hefði þurft eina milljón aðkomumanna til að minna ESB á þessa staðreynd. Óhjákvæmilegt væri að vita deili á þessu fólki. Í fyrstu hefði sú blekking ráðið að líta bæri mannúðaraugum á hvern og einn sem ferðaðist til Evrópu. Eftir árásina í París í nóvember 2015 hefði viðhorfið breyst, nú væri frekar litið á komumenn sem öryggisógn.

ESB úrræðalaust


Forsetinn sagði að á friðar- og velmegunartímum gengi ESB eins og vel smurð vél en á hættustundu væri því ekki að heilsa. Traustið í garð stjórnkerfis ESB minnkaði dag frá degi. Innleiðing yfirþjóðlegs valds á kostnað fullveldis ríkja væri keypt of dýru verði. Núverandi vandi yrði ekki leystur með pólitískum yfirlýsingum og skriffinnsku. Kalla yrði til öryggisverði til að halda uppi lögum og reglu. 

Að mati forsetans er óhjákvæmilegt að líta á fjárhagslega hlið málsins. Um 90% aðkomumanna í Evrópu á árinu 2015 hafi nýtt sér lögbrjóta, smyglara á fólki. Skipulögð glæpasamtök hafi haft 3 til 6 milljarða evra í tekjur af fólksflutningunum árið 2015. Hins vegar hafi evrópsk miðstöð gegn smygli á fólki (European Migrant Smuggling Centre) ekki verið opnuð fyrr en um miðjan febrúar 2016.

Þessi síðbúnu viðbrögð bendi til þess að ESB hafi verið tekið í bólinu. Ekki megi hins vegar láta eins og öryggisráðstafanir séu óþarfar. Europol. Evrópulögreglan, telji að um þessar mundir séu 3.000 til 5.000 öfga- og hryðjuverkamenn í Evrópu. Þeir hafi nýtt sér skort á samvinnu milli öryggisstofnana í Evrópu og misnotað skjólið sem flótta- og farandfólki var skapað. Sá tími sé löngu liðinn að verja megi Evrópu á ytri landamærum hennar gagnvart Mið-Austurlöndum og Norður-Afríku. Nú verði að gæta evrópsks öryggis innan Evrópu sjálfrar.

Gjorge Ivanov Makedóníuforseti segir að þjóð sín vilji vinna að sameiginlegri evrópskri lausn á þessum vanda. Hún taki á honum í samræmi við evrópskar reglur en sæti jafnvel gagnrýni fyrir það. Greininni lýkur hann á þessum orðum:

„Sagt er að keðja sé ekki sterkari en veikasti hlekkur hennar. ESB og Schengen-samstarfið eru ekki sterkara en Grikkland. Að því er öryggið varðar er Evrópa sem álfa ekki sterkari en Makedónía. Þess vegna þarf að veita bæði Grikkjum og Makedóníumönnum aðstoð. Skilvirkni af hálfu ESB mun móta framtíð álfu okkar.“

Andstaða Kýpverja


Smáríkið Makedónía, utan ESB, hefur tekið á sig ábyrgðarmikið hlutverk eins og forseti þess lýsir hér að ofan. Hvort dregur úr þeirri ábyrgð eftir fund leiðtogaráðs ESB sem lýkur í dag kemur í ljós.

Innan leiðtogaráðsins er lagst af miklum þunga á smáríki innan ESB, Kýpur. Forseti og stjórn Kýpur vilja ekki að gengið sé að neinum kröfum Tyrkja vegna flóttamannavandans nema ríkisstjórn Tyrklands viðurkenndi sjálfstæði lýðveldisins Kýpur. Deilan um sjálfstæðið hefur staðið í rúm 40 ár eða síðan 1974 þegar Tyrkir hertóku norðurhluta Kýpur og stofnuðu þar ríki sem þeir einir viðurkenna. 

Donald Tusk, forseti leiðtogaráðs ESB, var á Kýpur þriðjudaginn 15. mars til að afla stuðnings við samkomulagið við Tyrki. Eftir fundinn sagði Nicos Anastasiades Kýpurforseti:„Það er ósanngjarnt, gagnslaust svo að ekki sé sagt með öllu óviðunandi að kasta ábyrgðinni vegna flóttamannavandans á mínar herðar eða á herðar lýðveldisins Kýpur.“

Hvort sem smáríki í Evrópu eru utan eða innan ESB getur afstaða þeirra skipt sköpum á örlagatímum. Makedóníumenn fara sinu fram hvað sem afstöðu annarra líður. Spurning er hve lengi Kýpverjar standast þrýstinginn innan ESB.