19.2.2016

Breyting á flugskýli 831 veldur uppnámi á vinstri vængnum

Morgunblaðið 19. febrúar

Ákvörðun bandaríska varnarmálaráðuneytisins um að setja endurnýjun flugskýlis 831 á Keflavíkurflugvelli í fjárlagabeiðni sína í frumvarpi fyrir árið 2017 vakti gamalkunn viðbrögð þeirra sem vilja ekki að Íslendingar leggi neitt af mörkum til eigin varna og nágranna sinna. 

Fyrir rúmum 30 árum lék allt á reiðiskjálfi í umræðum um öryggismál Íslands vegna þess að ákveðið var að hætta almennum notum á flugstöðvarbyggingunni á Keflavíkurflugvelli sem reist var rúmum 30 árum áður og reisa nýja byggingu. Með því var skilið á milli borgaralegrar og hernaðarlegrar starfsemi á flugvellinum. Til sögunnar kom ný flugstöð með fjárhagslegri þátttöku Bandaríkjastjórnar.

Samsæriskenningarnar vegna nýju byggingarinnar voru undarlegar. Því var meira að segja haldið fram að þar ætti að verða einhvers konar miðstöð vegna kjarnorkuárásar á Sovétríkin. Þótt einkennilegt sé létu íslensk stjórnvöld undan öfgaöflunum og minnkuðu flugstöðvarbygginguna. Sögu þess máls alls ætti að skrá, þó ekki væri nema vegna þeirra sem mest beittu sér gegn nýju flugstöðinni. 

Öryggissvæðið

Hér hefur í tveimur greinum 18. september 2015 og  5. febrúar 2016 verið vakið máls á áhuga innan NATO og í Bandaríkjunum á að efla varnir NATO í Evrópu með aukinni viðveru bandarísks herafla þar, tækjum og mönnum.  Þetta er gert vegna gjörbreyttra aðstæðna í öryggismálum sem snerta Íslendinga ekki síður en aðrar NATO-þjóðir. Bandaríkjastjórn tekur ekki ákvarðanir um aukinn herafla á meginlandi Evrópu án þess að huga að öryggi á leiðinni yfir N-Atlantshaf og þar ræður úrslitum að Íslendingar leggi sitt af mörkum. Í því efni skipta afnot af landi sköpum eins og jafnan áður hvað sem allri hernaðatækni líður. 

Við brottför varnarliðsins gaf ríkisstjórn Íslands yfirlýsingu 26. september 2006 um að á Keflavíkurflugvelli yrði skilgreint sérstakt svæði undir yfirstjórn utanríkisráðherra og yrði það til afnota vegna æfinga á vegum Bandaríkjanna og annarra ríkja Atlantshafsbandalagsins eða annarra hernaðarþarfa. 

Þetta er hið svonefnda öryggissvæði á Keflavíkurflugvelli þar sem starfsmenn landhelgisgæslunnar sinna daglegri umsýslu. Gæslan er til dæmis rekstraraðili flugskýlis 831 sem þarf að breyta fyrir nýjustu kafbátaleitarvélar Bandaríkjanna, Boeing P-8 þotur sem eru að grunni af gerðinni Boeing 737-800. Stélið á P-8 þotunum, sem bandaríski flotinn tók formlega í notkun í nóvember 2013, er 1 m hærra en á P-3 Orion skrúfuvélunum sem komu til sögunnar 1959 og settu svip á starfsemi varnarliðsins í Keflavíkurstöðinni fram á miðjan tíunda áratuginn.

Uppnám innan VG

Stars and Stripes, blað bandaríska hersins, birti þriðjudaginn 9. febrúar frétt um fjárlagatillögu varnarmálaráðuneytisins til endurnýjunar á flugskýli 831. Fimmtudaginn 11. febrúar kom utanríkismálanefnd alþingis saman til fundar og var kallað á utanríkisráðherra og tvo embættismenn ráðuneytis hans til að svara spurningum í tilefni fréttarinnar. Hanna Birna Kristjánsdóttir (S) nefndarformaður og Össur Skarphéðinsson (SF), fyrrverandi utanríkisráðherra, voru sammála um að fundurinn hefði snúist um „storm í vatnsglasi“. Endurnýjun á flugskýli skipti ekki sköpum þótt nauðsynleg væri fyrir þá sem notuðu skýlið.

Steinunn Þóra Árnadóttir (VG) bað um að málið yrði rætt á fundi utanríkismálanefndarinnar og að fundinum loknum lagði hún út af umræðunum í kalda stríðs stíl samsærissmiðanna í samtali við fréttamann ríkisútvarpsins að kvöldi 11. febrúar. Hún sagði meðal annars:

,,Bandaríkin eru búin að tryggja sér fjármagn og ætla að fara hér í að stækka þessi flugskýli”. 

Í þessari einu setningu eru staðreyndir lítt virtar eins og Eiður Svanberg Guðnason, fyrrv. þingmaður Alþýðuflokksins, ráðherra og sendiherra, sagði á FB-síðu sinni þar sem stóð 12. febrúar:

„Við þessi ummæli þingmannsins er þrennt að athuga:

1. Sótt hefur verið um fjárveitingu til að lagfæra flugskýli. Ekki hefur komið fram í fréttum að sú beiðni hafi verið samþykkt.

2. Hvergi hefur komið fram í fréttum að stækka eigi þetta gamla flugskýli. Það á að laga dyraumbúnað þannig að stélhærri nýjar kafbátaleitarvélar komist inn í skýlið. Þar er sennilega rými fyrir eina slíka vél.

3. Hér er um eitt flugskýli að ræða, ekki mörg eins og þingmaðurinn sagði , ekki ,,þessi flugskýli", eins og þingmaðurinn orðaði það.“ 


Þá sagði Steinunn Þóra að hér hefði verið nokkur þúsund manna herlið árið 2006 þegar varnarliðið hvarf af landi brott. Eiður bendir á að einföld netleit leiði í ljós, að 1350 bandarískir hermenn voru hér á árinu 2006 og um hundrað bandarískir borgaralegir starfsmenn.

Tilgangur þingmannsins með þessum fullyrðingum var að kynda undir andstöðu við að íslensk stjórnvöld stæðu við skuldbindingar sínar.


Samfylking í kreppu

Í tíð Össurar Skarphéðinssonar sem utanríkisráðherra var skipuð nefnd með fulltrúum allra flokka til að móta þjóðaröryggisstefnu. Á grundvelli samhljóða skýrslu nefndarinnar hefur Gunnar Bragi Sveinsson utanríkisráðherra nú í annað sinn flutt tillögu til þingsályktunar um þjóðaröryggistefnu. Þar er lagt til grundvallar að Ísland verði áfram í NATO og ekki verði hnikað við varnarsamningnum við Bandaríkin.

Þrátt fyrir þessa samstöðu flytja þingmenn VG alltaf öðru hverju tillögu sína gegn NATO, nú í þeim búningi um að efnt verði til þjóðaratkvæðagreiðslu um NATO-aðildina. Birgitta Jónsdóttir pírati er nú meðflutningsmaður.  Vilja þau að atkvæðagreiðslan um hina tæpleg 70 ára gömlu aðild fari fram eigi síðar en um mitt ár 2017. Ekki er ráð nema í tíma sé tekið.

Samfylkingin hefur til þessa staðið að baki NATO-aðildinni. Umræðan um dyrabúnað flugskýlis 831 varð hins vegar til þess að Sema Erla Serdar, formaður framkvæmdastjórnar Samfylkingarinnar og formaður flokksins í Kópavogi, hallaði sér til vinstri að VG og pírötum og sagði í útvarpsþætti laugardaginn 13. febrúar að hún vildi „sjá þjóðaratkvæðagreiðslu“ um aðildina að NATO enda væri það hernaðarbandalag. Hún sagði:

„Ég vil nú samt [þrátt fyrir framgöngu Rússa í Úkraínu og Sýrlandi] meina að okkur standi nú ekkert rosaleg ógn af Rússunum, en hvort að sú ógn sé kannski frekar viðskiptalega séð heldur en hernaðarlega séð, ég sé enga ástæðu til þess að fara að koma með einhvern her hingað aftur. Mér finnst það alveg fráleitt.“

Ef til vill á að líta á þetta útspil forystumanns Samfylkingarinnar sem lið í björgun flokksins úr úlfakreppu. Líklegra er þó að viðhorf sem þetta leiði flokkinn í enn meiri kreppu.