4.5.2002

Skuldir í nesti

Skuldir í nesti
Morgunblaðið 4. maí 2002.


Talsmenn R-listans telja sérstakt afrek við stjórn Reykjavíkurborgar, að tekist hafi að áttfalda hreinar skuldir borgarinnar. Hafa þeir meira að segja orðað þetta svo, að hér sé ekki um skuldabagga að ræða heldur "nestispakka" æskufólks á vit framtíðar.

Þessi afstaða til opinberrar fjármálastjórnar stangast á við öll almenn viðhorf, einkum í góðæri, því að þá búa stjórnvöld almennt í haginn fyrir mögru árin, grynnka á skuldum og treysta innviði öflugra fyrirtækja. Hið gagnstæða hefur gerst í Reykjavík. Eigið fé Orkuveitunnar hefur minnkað úr 44 milljörðum króna í 34 milljarða, og hún var á síðasta ári rekin með rúmlega 500 milljóna króna tapi.

Mikil einföldun og blekking felst í fögnuði R-listans vegna eignaaukningar í krafti hinnar einstæðu skuldsetningar. Vegna þess hve fögnuðurinn er á veikum grunni sveiflast tölur á milli milljarða og jafnvel tugmilljarða í þeim útreikningum öllum. Með þessu sýndartali losar R-listinn engan undan því að greiða skuldirnar - hann sýnir Reykvíkingum hins vegar, að blygðunarlaust verður haldið áfram að hækka skuldir á þeim um sífellt fleiri milljónir króna á dag, fái R-listinn endurnýjað umboð.

Áætlanagerð og fjármálastjórn R-listans er í molum, skuldirnar í nestið hækka óðfluga: Í fjárhagsáætlun Reykjavíkur fyrir árið 2001 var gert ráð fyrir, að í lok ársins yrðu hreinar skuldir borgarinnar um rúmir 24 milljarðar króna. Þegar upp er staðið eru þær tæpir 34 milljarðar og jukust á einu ári, 2001, um 9,5 milljarða umfram áætlun, eða 26 milljónir króna á dag á árinu. Hér skeikar um 40%!

R-listaframbjóðendur sveiflast einnig á milli milljarða og milljarðatuga, þegar þeir leggja mat á kosningastefnuskrá okkar sjálfstæðismanna. Þá líta þeir ekki á útgjaldaáætlanir Reykjavíkurborgar, eins og í fjárhagslegu mati á eigin stefnu, heldur láta eins og alls staðar þurfi að byrja frá grunni. Þetta gera þeir til að búa til sem hæstar tölur en ekki í því skyni að hafa það, sem sannara reynist.

Að hreykja sér af skuldasöfnun í góðæri og 10 milljarða króna rýrnun á eigin fé öflugasta borgarfyrirtækisins eru skrýtnar áherslur í kosningabaráttu - í raun óvæntari en að bera andstæðing sinn röngum sökum með tilbúnum tölum.