13.4.2002

Rauðar rósir vegna tónlistarhúss

Rauðar rósir
vegna tónlistarhúss
Morgunblaðsgrein 13. apríl, 2002


Á eftirminnilegum tónleikum Sinfóníuhljómsveitar Íslands á fimmtudagskvöldið, þar sem Vladimir Ashkenazy stjórnaði Draumi Gerontíusar eftir Edward Elgar, kom kona til mín og sagðist þá um daginn hafa farið með rauðar rósir á leiði manns síns vegna þess að fyrr þennan dag hafði verið ritað undir samkomulag ríkis og Reykjavíkurborgar um byggingu tónlistarhúss og ráðstefnumiðstöðvar við Austurbakka í Reykjavík.

Þetta atvik er til marks um, hve mörgum er annt um að hér rísi fullbúið tónlistarhús. Það minnir einnig á óeigingjarnt starf fjölmargra tónlistarunnenda á síðustu áratugum til að halda hugmyndinni um húsið á lofti, meðal annars innan Samtaka um tónlistarhús. Tveir menn veittu mér sem menntamálaráðherra ómetanlega aðstoð í málinu, þeir Stefán Pétur Eggertsson verkfræðingur og Ólafur B. Thors forstjóri. Ólafur tók að sér fyrir mín orð að leiða samninganefndina um kostnaðarskiptingu milli ríkisins og Reykjavíkurborgar, en hún lauk farsælum störfum með undirritun samkomulagsins fimmtudaginn 11. apríl.

Eftir að hafa haft hönd á þessu máli síðan 1996, er skýrt í mínum huga, að næsta skref, fjármögnun og framkvæmdir, hefur verið vel undirbúið. Öllum spurningum hefur verið velt fyrir sér oftar en einu sinni, þannig að ekkert ætti að koma á óvart. Er brýnt, að vel og skipulega sé unnið áfram og innan þess tímaramma, að einkaframkvæmdarútboð verði í lok þessa árs og framkvæmdir hefjist í ársbyrjun 2004.

Ekki má slaka á neinum kröfum vegna hljómburðar í tónlistarhúsinu en að ráði Vladimirs Ashkenazys á sínum tíma óskaði ég eftir því, að leitað yrði til Artec í New York, þess fyrirtækis í heiminum, sem skarar fram úr við hönnun hljómgæða. Síðan höfum við notið ráðgjafar þess við allan undirbúning og kröfur vegna hljómburðar.

Á fyrstu stigum málsins átti ég fundi með erlendum ferðamálasérfræðingum, sem lögðu mat á gildi þess að sameina með þessum hætti tónlistarhús, ráðstefnumiðstöð og hótel. Þeir sögðu, að væri staðið þannig að hönnun tónlistarsalarins, að hann fullnægði ströngustu kröfum, myndi hann ekki síður hafa aðdráttarafl fyrir ferðamenn til landsins en góð ráðstefnuaðstaða.

Síðan hef ég sannreynt þessi orð með því að kynna mér aðsókn að sölum, sem hafa verið hannaðir af þeim Artec-mönnum og nefni ég þá hús í Lathi í Finnlandi, Luzern í Sviss og Birmingham í Bretlandi. Hvarvetna hafa hinir einstæðu salir gjörbreytt viðhorfi fólks langt út fyrir þessi bæjarfélög á tónlistarflutningi þar og þeir eru aðdráttarafl fyrir heimskunna listamenn og vandláta áheyrendur.

Með þeim framkvæmdum, sem nú hafa verið staðfestar með samningi, sköpum við nýja vídd í íslensku þjóðlífi og styrkjum stöðu Reykjavíkur sérstaklega sem menningar- og ferðamannaborgar.