13.11.2015

Meiri öryggiskröfur auka álag á Keflavíkurflugvelli

Grein í Morgunblaðinu 13. nóvember 2015

Fyrir tæpum tveimur vikum fórust 224 farþegar og áhöfn um borð í rússneskri flugvél á leið frá Sharm el-Sheikh á Sinaí-skaga í Egyptalandi til St. Pétursborgar í Rússlandi. Yfirgnæfandi líkur benda til að sprengju hafi verið laumað í vélina. Strax eftir sprenginguna sögðu fulltrúar hryðjuverkasamtakanna Ríkis íslams að þau hefðu staðið að baki árásinni. Í fyrstu höfnuðu Egyptar og Rússar að um hryðjuverk væri að ræða. Nú þykir hins vegar nær fullsannað að svo hafi verið.

Hryðjuverkinu er af sumum lýst sem hinu alvarlegasta frá því að árásin var gerð á New York og Washington 11. september 2001. Ráðamenn og sérfræðingar í öryggismálum minna á að Ríki íslams (RÍ) hafi nú skotið rótum í 12 löndum. Í því felist auk þess stefnubreyting hjá samtökunum að fara á þennan hátt inn á alþjóðavettvang. Bregðast verði af þunga um heim allan við þeirri breytingu. 

Philip Hammond, utanríkisráðherra Breta, sagði sunnudaginn 8. nóvember að kæmi í ljós að um sprengju frá RÍ væri að ræða eða frá einhverjum aðdáanda samtakanna kallaði það á endurmat á öryggiskröfum á flugvöllum þar sem RÍ gæti látið að sér kveða. Breska ríkisstjórnin ákvað fyrst allra, miðvikudaginn 4. nóvember, að banna flug til og frá Sharm el-Sheikh. Skyndileg ákvörðun um það sætti gagnrýni Egypta og Rússa en föstudaginn 6. nóvember tóku rússnesk yfirvöld einnig ákvörðun um flugbann.

Hans Christian Stigaard, danskur sérfræðingur í flugöryggismálum og fyrrverandi yfirmaður á Kastrup-flugvelli, sagði við Jyllands-Posten að upplýsingarnar um sprengju um borð í rússnesku vélinni yrðu til þess að flugvallarstjórar um heim allan  neyddust enn og aftur til að fara yfir öryggisráðstafanir á flugvöllum sínum. Þeir yrðu að sannreyna að allt, farangur, starfsfólk eða fragt sem kæmi í gámum, væri nægilega vel skoðað og gegnumlýst.

Sprengjunni kynni að hafa verið smyglað um borð í tösku en einnig hefði mátt lauma henni með matvælum, í gámi eða starfsmaður hefði tekið hana með sér inn á flugvallarsvæðið. Óhjákvæmilegt væri að fara yfir öryggisreglur flugvalla um allan heim.

Þróunin á Keflavíkurflugvelli

Nýlega var skýrt frá spám Isavia ohf., rekstraraðila Keflavíkurflugvallar, um framtíðarvöxt umferðar um völlinn.

Árið 2007 fóru 2,5 milljón farþega um Keflavíkurflugvöll, árið 2014 voru þeir 3,8 milljónir og verða yfir 4 milljónir í ár. Farþegum hefur fjölgað um 200 þúsund á ári, 8%. Aukningin síðustu tvö ár hefur reyndar verið gríðarleg. Ástæðulaust er þó að gleyma því að árið 2010 fækkaði farþegum á vellinum niður í rúma milljón.

Um Kastrup-völl við Kaupmannahöfn fara árlega 25 milljón farþegar, Arlanda við Stokkhólm um 22 milljón farþegar og Landvettern við Gautaborg 5 milljónir svo að dæmi séu tekin. Nú spáir Isavia að 25 milljónir farþegar fari um Keflavíkurflugvöll eftir 25 ár og ætlar að vinna eftir þeirri áætlun. 

Á Norðurlöndum fjölgar farþegum á flugvöllum að meðaltali um 3-4% á ári. Yrði þróunin sambærileg á Keflavíkurflugvelli yrði fjöldinn um 8,5 milljónir eftir 25 ár – útreikningar Isavia um 25 milljón farþega virðast gera ráð fyrir 8 til 10% vexti farþegafjölda til frambúðar.

Margar spurningar vakna vegna vaxtar á borð við þann sem felst í þessum spám Isavia. Hvernig verður öryggismálum háttað? Allt öryggiseftirlit á Keflavíkurflugvelli er nú þegar að sligast undan hinu gífurlega álagi þegar 1,1 milljón ferðamenn koma til landsins og að auki fara þrjár til fjórar milljónir „gegnumfarþega“ um völlinn.


Mikið í húfi

Ísland er Schengen-hlið gagnvart Bandaríkjunum, Kanada og Bretlandi. Vöxtinn í farþegafjölda á Keflavíkurflugvelli má ekki síst rekja til þeirra sem fara út og inn um Schengen-hliðið á leið til og frá Norður-Ameríku. Þessi gegnumumferð eykst væntanlega enn rætist áform WOW Air um flug til nýrra áfangastaða í Bandaríkjunum. Mikilvægur liður viðskiptaáætlana vegna N-Ameríkuflugsins er að viðdvöl „gegnumfarþega“ sé sem skemmst á Keflavíkurflugvelli.

Vegna hruns Schengen-eftirlitsins á suður landamærum Evrópu er ástæða til aukinnar aðgæslu á innri landamærum svæðisins og hafa ríki gripið til ýmissa ráðstafana vegna þess. Þetta leiðir einnig til þarfar á meiri varúð við ytri landamærin í norðri.

Á hinum skamma afgreiðslutíma á milli fluga frá Evrópu til N-Ameríku ber að fullnægja ströngum öryggiskröfum. Bandaríska heimavarnarráðuneytið hefur boðað að þessar kröfur kunni enn að verða hertar eftir ódæðið yfir Sinaí-skaga. Minnsta frávik frá virðingu fyrir bandarísku skilyrðunum getur leitt til þess að félög séu svipt leyfi til flugs til Bandaríkjanna eða lokað sé á viðkomandi flugvöll.

Aukið alhliða álag

Greiningardeild ríkislögreglustjóra birti hinn 5. október 2015 áhættumat og greiningu vegna komu flóttafólks og aukins álags á landamærum Íslands. Af skýrslunni má ráða að grípa verður til markvissra og skjótra aðgerða á sviði löggæslu og landamæravörslu, sem er í höndum lögreglu, til að bregðast við hinu auknu álagi.

Greiningin var gerð áður en rússnesku flugvélinni var grandað laugardaginn 31. október 2015. Kröfur sem gerðar verða um aukið öryggi vegna þess ódæðis ná til Íslands ekki síður en annarra landa. Flugvellir sem standast ekki alþjóðlegar öryggiskröfur verða einfaldlega settir í skammarkrókinn.

Ísland hefur þá sérstöðu að fjölgun hælisleitenda eykur álag á landamæravörslu á eina alþjóðaflugvelli landsins, í öðrum ríkjum er gripið til sérstakra ráðstafana vegna straums farand- og flóttafólks á landi. Í skýrslu greiningardeildarinnar segir: „Aukið álag vegna fjölgunar hælisleitenda mun gera starfsmönnum lögreglu erfiðara að halda uppi hefðbundnu eftirliti og þjónustu.“

Brýnasta verkefni líðandi stundar í öryggismálum þjóðarinnar er að efla lög- toll- og öryggisgæslu á Keflavíkurflugvelli. Samhliða áætlunum um öra fjölgun farþega ber að gera heildstæða áætlun um öryggismálin og framkvæma hana – án öryggisins er allt annað unnið fyrir gýg.