Viðbúnaður eykst á norðurvæng NATO
Morgunblaðið 18. september 2015
Í London flutti Work erindi hjá RUSI, rannsóknar- og umræðustofnun breska heraflans. Þar greindi hann frá stefnu og aðgerðum Bandaríkjamanna til að efla fælingarmátt venjulegs herafla síns. Telja þeir þetta svipað skref til nútímavæðingar herstyrksins og stigið var með kjarnorkuvopnavæðingunni á sjötta áratugnum og langdrægum vopnabúnaði á þeim áttunda. Kalla Bandaríkjamenn þetta „þriðju mótvægisaðgerðir“ sínar á sviði varnarmála. Ætlunin er að innleiða nýjustu tækni, vélmenni við hlið venjulegra hermanna og hátæknibúnað á öllum sviðum.
Work skoðaði mannvirki á öryggissvæðinu á Keflavíkurflugvelli og fullvissaði sig um að þau gætu nýst nýjustu kafbátaleitarvélum Bandaríkjanna, Boeing P-8 þotum sem eru að grunni af gerðinni Boeing 737-800 (árið 1989 urð 737-408 þotur hluti af íslenskri flugsögu). Stélið á P-8 þotunum sem bandaríski flotinn tók formlega í notkun í nóvember 2013 er 1 m hærra en á P-3 Orion skrúfuvélunum sem komu til sögunnar 1959 og settu svip á starfsemi varnarliðsins í Keflavíkurstöðinni fram á miðjan tíunda áratuginn.
Í Osló fundaði Work með starfsbræðrum á Norðurlöndunum, þar á meðal frá Svíþjóð og Finnlandi, löndum utan NATO. Var áréttað að þetta væri í fyrsti fundur af þessu tagi í sögunni. Þá hélt Work til Þrándheims en í nágrenni bæjarins eru miklar jarðhvelfingar sem geyma bandarísk hergögn fyrir hermenn sem sendir yrðu til Noregs á hættustundu. Fullvissaði Work sig um allt væri þar í stakasta lagi og boðaði fjölgun heræfinga bandarískra landgönguliða í Noregi.
Söguleg tímamót
Forvitnilegt er að fylgjast með hvernig áhugi á öryggi á norðurslóðum vaknar að nýju innan bandaríska stjórnkerfisins.
Mánudaginn 31. ágúst hélt Barack Obama fyrstur Bandaríkjaforseta norður fyrir heimskautsbaug í Alaska og boðaði eflingu strandgæslunnar á norðurslóðum með áherslu á smíði nýrra ísbrjóta. Nokkrum dögum síðar birtist mynd af Bandaríkjamönnum og rannsóknarskipi þeirra sem sigldi fyrst bandarískra skipa án aðstoðar og fylgdar á norðurpólinn. Síðan fór Robert O. Work í ferð sína og sagðist ætla að helga sig norðrinu. Hann sannfærðist um að bandaríski herinn gæti nýtt mannvirki á Íslandi og í Noregi auk þess að hlusta á lýsingar stjórnmálamanna á gjörbreyttum aðstæðum í öryggismálum.
Hvað gerist næst? Augljóst er að meðal stjórnvalda á Norðurlöndunum er ekki andstaða við aukin hernaðarleg umsvif Bandaríkjanna. Þau eru talin æskilegt mótvægi við hernaðarlega tilburði Rússa sem hafa verið ögrandi gagnvart öllum löndunum, einkum á Eystrasalti þar sem Rússar hafa æft sprengjuárásir á Borgundarhólm, Gotland og jafnvel Stokkhólm.
Hinn 10. apríl 2015 rituðu varnarmálaráðherrar fjögurra Norðurlands og utanríkisráðherra Íslands sameiginlega grein þar sem sagði meðal annars: „Rússneski herinn hegðar sér á ögrandi hátt við landamæri okkar (og margoft hefur verið brotið á fullveldi landamæra ríkjanna við Eystrasalt). Það er sérstakt áhyggjuefni að flug rússneskra herflugvéla hefur valdið beinni hættu fyrir almenna flugumferð.“ Ráðherrarnir boðuðu nánara samstaf meðal annars við ríkin handan Atlantshafs, Bandaríkin og Kanada.
Öruggur samstarfsrammi
Í tilefni af brottför varnarliðsins samþykkti ríkisstjórn Íslands hinn 26. september 2006 yfirlýsingu um ný verkefni íslenskra stjórnvalda. Þar segir meðal annars: „Jafnframt verður skilgreint sérstakt svæði á [Keflavíkur]flugvellinum, undir yfirstjórn utanríkisráðherra, sem verður til afnota vegna æfinga á vegum Bandaríkjamanna og annarra ríkja Atlantshafsbandalagsins eða annarra hernaðarþarfa.“
Þetta svæði hefur síðan verið nefnt öryggissvæðið og fer Landhelgisgæsla Íslands þar sem daglega stjórn í umboði utanríkis- og innanríkisráðherra.
Varnarsamningurinn við Bandaríkin frá 1951 er í fullu gildi og við brottför varnarliðsins var í október 2006 ritað undir samkomulag milli stjórnvalda Íslands og Bandaríkjanna. Þar segir meðal annars: „Ísland og Bandaríkin hafa átt samráð um varnaráætlun fyrir Ísland sem Bandaríkin hafa samið. Ísland samþykkir áætlunina sem gerir ráð fyrir að varnir Íslands séu tryggðar með öflugum og hreyfanlegum viðbúnaði og liðsafla og að hún sé studd bandarískum hernaðarmætti eftir því sem þörf krefur.“
Úrelt áhættumat
Í mars 2009 gaf utanríkisráðuneytið út Áhættumatsskýrslu fyrir Ísland um hnattræna, samfélagslega og hernaðarlega þætti. Sjónarmiðin sem lögð eru til grundvallar við mat á hernaðarlegum þáttunum eru því miður úreld. Þar segir meðal annars (bls. 41): „Loks bendir ýmislegt til þess eftir valdaskiptin í Washington [janúar 2009 Obama varð forseti] að samskipti Bandaríkjanna og Rússlands séu að færast í betra horf.“ Hið gagnstæða hefur gerst.
Utanríkismálanefnd alþingis lauk ekki afgreiðslu á tillögu utanríkisráðherra um þjóðaröryggisstefnu á síðasta þingi. Rökin fyrir tillögunni taka mið af áhættumatinu frá 2009. Það sem segir hér að ofan sýnir í hnotskurn þá breytingu sem orðið hefur í viðhorfum til öryggismála á norðurslóðum eftir að Rússar innlimuðu Krím og hófu markvissar ögranir í garð nágrannaþjóða sinna á árinu 2014.
Haustið 2006 samþykkti ríkisstjórn Íslands áætlun Bandaríkjastjórnar um ráðstafanir til að tryggja öryggi Íslands. Nú er þörf á nýrri áætlun um þetta efni. Við gerð hennar ber að taka mið af auknu samstarfi Norðurlanda í varnarmálum og nýrri áherslu innan NATO á sameiginlegar varnir.