2.4.2002

Yfirheyrsla DV um kosningastefnuskrá

Brýnt að hverfa frá stefnu aðgerðaleysis
Yfirheyrsla Ólafs Teits Guðnasonar blaðamanns.


Þið talið um að eyða biðlistum við leikskóla. Er til einhvers konar framkvæmdaáætlun um hvernig það verður gert, til dæmis um hvað þurfi að byggja marga nýja leikskóla?

Við setjum okkur skýr markmið í þessu efni og ætlum að standa við þau, Hér í Reykjavík á að veita þjónustu á þessu sviði, sem stenst samanburð við nágranna okkar. og við eigum að ná því marki eins fljótt og kostur er. Við munum eyða biðlistunum, fyrst fyrir tveggja ára börn á næstu mánuðum og síðan 18 mánaða. Ef nauðsynlegt reynist munum við endurskoða áætlanir, sem gera ráð fyrir 520 nýjum leikskólaplássum á næstu þremur árum. Í þessu efni viljum við einnig eiga samstarf við einkaaðila en þeir standa víða vel að rekstri leikskóla.

Þið heitið því að afnema holræsagjaldið. Hvað verður borgarsjóður af miklum tekjum vegna þessa?

Holræsagjaldið er núna 860 milljónir króna á ári og við hyggjumst afnema það í áföngum. Við ætlum ekki að strika það út með einu pennastriki heldur í áföngum á kjörtímabilinu.

Þið ætlið að lækka fasteignaskatta eldri borgara og öryrkja. Hvað kostar það?

Það kostar það á bilinu 200 til 250 milljónir króna á ári, sem er innan við 1% af skatttekjum borgarinnar en bætir verulega hag hópsins, sem á hlut að máli, og hvetur fólk til að nýta eigið húsnæði til búsetu lengur en ella væri. Hagræði af því verður seint metið til fjár.

Þið heitið því að tryggja næg bílastæði í miðborginni en líka að afnema stöðugjöld þegar lagt er í skamman tíma. Orkar ekki tvímælis að kippa burt megintekjulindinni fyrir þessum framkvæmdum sem þið lofið?

Varðandi bílastæðin í miðborginni þá er það staðreynd að það hefur ekki verið reist eitt einasta bílastæðahús síðustu átta ár eða síðan R-listinn kom til valda. Hann lagði upp með þá stefnu að menn ættu helst að vera fótgangandi, í almenningsvagni eða á hjóli þegar þeir nálgast miðbæinn afleiðingar hennar eru meðal annars þessar. Varðandi kostnaðinn þá sé ég þetta ekki fyrir mér sem óvinnandi verk. Það er þvert á móti áhyggjuefni ef eðlileg þjónusta við almenning og verslunareigendur snýst upp í andhverfu sína vegna tekjuþarfar borgarsjóðs. . Við viljum auka umsvifin í miðbænum og auðvelda fólki að búa þar og að reka sín erindi . Ég er þeirrar skoðunar, að lækkun eða niðurfelling ósanngjarnra gjalda vegna einkabílsins í miðborginni eigi eftir að auka tekjur borgarinnar vegna aukinna umsvifa á öðrum sviðum. Við erum ekki sammála því að afskrifa miðborgina sem verslunarsvæði. Spurning þín á vissulega rétt á sér en það er auðvelt að sameina þessi sjónarmið og mjög brýnt að hverfa frá þeirri stefnu sem fylgt hefur verið, sem er að gera ekki neitt.

Þið ætlið að eyða biðlistum eftir hjúkrunarrými fyrir eldri borgara. Nú greiðir ríkið fyrir þennan rekstur og einnig stóran hluta stofnkostnaðarins. Eru ekki efndir þessa loforðs algjörlega undir ríkisvaldinu komnar?

Að sjálfsögðu er hægt að líta svo á að þetta sé alfarið verkefni ríkisins. En mín reynsla er sú að þegar sveitarfélögin knýja á með hagsmuni sinna borgara að leiðarljósi sé auðveldara að fá ríkið til samstarfs. Við teljum ekki að það eigi að líta á þessi verkefni með því hugarfari að þau séu á hendi ríkisins og borgin eigi þess vegna ekki að gera neitt. Frá 1987 til 1994 ráðstöfuðu sjálfstæðismenn 3,6 milljörðum króna í þjónuststofnanir og hjúkrunarrými fyrir aldraða en á árunum 1995 til 2002 hefur R-listinn aðeins látið 600 milljónir króna renna til þessa málaflokks, enda hefur skapast algjörlega óviðunandi ástand í þessum málum í Reykjavík að mati heilbrigðis- og tryggingaráðuneytisins. Við ætlum að snúa af þessari aðgerðaleysisbraut með 250 milljón kr. framlagi á ári. Hér stöndum við enn frammi fyrir vali. Ég tel þetta skynsamlegra verkefni en að verja til dæmis hundruðum milljóna króna til að grafa upp Víkurkirkjugarð í því skyni að gera inngang að fornminjum við Aðalstræti, eða kaupa Áburðarverksmiðjuna fyrir 300 til 400 milljóna króna yfirverð.

Fleira í stefnuskránni kostar mikið fé. Hvernig ætlið þið að fara að því að fjármagna þetta?

Þegar litið er almennt á fjárhagsstöðu borgarinnar og þá stefnu okkar sjálfstæðismanna að setja Reykjavík í fyrsta sæti, felst í því það markmið að fjölga borgarbúum og fyrirtækjum í borginni með því að bjóða nægar lóðir, styrkja þannig fjárhagsgrundvöllinn og auka tekjur án hærri skatta. Við ætlum líka að hætta fjáraustri í Línu.net, sem hefur kostað borgarbúa nærri 2 milljarða króna, og setjum okkur það markmið að draga úr skriffinnsku og fækka milliliðum..


Í stefnuskránni talið þið einmitt um að draga megi úr skuldasöfnun með hagræðingu og sparnaði. Mun það einkum koma fram í fækkun embættismanna?

Það hefur orðið mikil útþensla í ákveðnu stjórnstigi borgarinnar á undanförnum árum og það birtist borgarbúum þannig að það er miklu erfiðara að nálgast pólitíska stjórnendur borgarinnar en áður og fá ákvarðanir, sem stjórnmálamenn verða að taka í stað þess að láta mál sigla á millli embættismanna og stjórnstiga. Til marks um öfugþróun á þessu sviði má nefna að eftir ákveðið var fyrir nokkrum misserum, að einn staðarhaldari hætti forystu í Viðey hefur ferjumaður til eyjarinnar þurft að standa í bréfaskiptum og efna til funda með fjórum eða fimm embættismönnum ólíkra sviða í borgarkerfinu til að ganga frá samningi um starfsemi sína! Svipaða sögu hafa alltof margir viðskiptavinir Reykjavíkurborgar að segja og ráðslag af þessu tagi kostar bæði tíma og peninga og hér er hægt að hagræða. Óánægja vegna þessa kemur meðal annars fram í mjög neikvæðu viðhorfi Reykvíkinga til félagslegrar þjónustu í borginni. Í stefnuskránni víkjum við að auknu svigrúmi einstaklinga og varðandi hagræðingu innan kerfisins nefnum við sem dæmi að fella mætti saman þjónustuverkefni vegna starfsemi annars vegar í leikskólunum og hins vegar grunnskólunum. .

Þið viljið afnema uppboð á lóðum. Er ekki hins vegar eðilegt að lóðir séu seldar hæstbjóðanda í stað þess að þeim sé úthlutað með aðferðum sem kunna að reynast hæpnar, eins og nýleg dæmi úr Garðabæ sýna?

Ef þú fylgir skömmtunarstefnu er kannski eðlilegt að selja lóðirnar hæstbjóðanda. En ef þú fylgir þeirri stefnu að lóðaframboðið haldi í við eftirspurnina stendurðu ekki í þeim sporum að vera með skömmtunarkerfi. Þetta er það sem við erum að boða. Að farið verði á sömu braut og þegar Grafarvogurinn var skipulagður, að staðið verði af stórhug að skipulagningu íbúðarsvæða þannig að hægt verði að úthluta mörgum lóðum hverju sinni. Ástæðan fyrir vandræðunum er gríðarlegur lóðaskortur. Og uppboðin hafa hækkað íbúðaverðið svo mjög að eignirnar sem reistar hafa verið ganga ekki út. En þau skilaboð hafa verið send - og það er hægt að finna þau ummæli frá stjórnendum Reykjavíkurborgar - að það sé bara svo dýrt að taka á móti nýjum íbúum að það sé alveg eins gott að þeir flytjist í önnur sveitarfélög. Við ætlum ekki að hafa þá stefnu.

Þið talið um að Reykjavík hafi tapað forystuhlutverki sínu. Hvaða sveitarfélag er að þínu mati í forystu?

Það fer eftir mælikvarðanum. Ef miðað er við að íbúafjölgun á höfuðborgarsvæðinu undanfarin átta ár hefur verið um 15% í heild, í Kópavogi hefur íbúum fjölgað um 41% en 10% í Reykjavík á sama tíma, þá er greinilegt að Kópavogur er í meiri sókn. Við sjáum líka hvernig Garðabæ hefur tekist að laða til sín nýsköpunar- og hugbúnaðarfyrirtæki. Á sama tíma hefur Háskóli Íslands frumkvæði að þekkingarþorpi í Vatnsmýrinni og ríkrisstjórnin hefur leitt undirbúnings- og þróunarstarf vegna ráðstefnumiðstöðvar og tónlistarhúss . Í þessum efnum hafa Háskóli Íslands og ríkið dregið vagninn í Reykjavík Listaháskólinn leitaði hér að nýrri aðstöðu og var boðið land á Miklatúni sem aldrei var raunhæft og verður aldrei raunhæft. Þannig að maður verður ekki var við að Reykjavíkurborg leggi sig í líma við að koma til móts við atvinnustarfsemi. Og nú er farið að tala um miðborg Reykjavíkur sem úreldingarvandamál og menn velta því fyrir sér að það sé sérstök upplifun að koma í miðborgina af því að það sé ekkert að gerast þar í verlsun og atvinnulífi.