Þjóðaröryggi - skortur á greiningu og áhættumati
Grein í Morgunblaðinu 7. ágúst 2015
Í skýrslunni er að finna skilgreiningu á því sem fellur undir almannaöryggi annars vegar og þjóðaröryggi hins vegar. Þar segir: „Almannaöryggi lýtur að öryggi einstaklinga og þjóðfélagshópa, gildum og grunnvirkjum samfélagsins. Til samanburðar er á hinn bóginn litið svo á að þjóðaröryggi snúist um mat á öryggi og fullveldi landsins. Er þá einkum horft til hugsanlegra ógna frá öðrum ríkjum eða ríkjabandalögum, auk skipulagðra glæpasamtaka og hryðjuverkasamtaka.“
Um svipað leyti og hin greinargóða stefna um almannaöryggi birtist veltu þingmenn í utanríkismálanefnd alþingis fyrir sér hvort þeir ættu að afgreiða úr nefndinni tillögu utanríkisráðherra til þingsályktunar um þjóðaröryggisstefnu fyrir Ísland. Niðurstaða þeirra var að gera það ekki.
Á opinberum vettvangi hefur ekki verið skýrt hvers vegna tillagan um þjóðaröryggisstefnu liggur óafgreidd. Nærtæk skýring er að nefndarmönnum hafi þótt áhættumatið að baki henni, það er frá árinu 2009, úr sér gengið miðað við framvindu öryggismála og vaxandi spennu vegna áreitis Rússa í garð Úkraínumanna og innlimunar Krímskaga í Rússland.
Enginn her
Skilgreina má þjóðaröryggi á þann veg að þar líti menn einkum til hervarna en við almannavarnir sé stuðst við borgaralegar stofnanir. Skapist hættuástand tvinnast þetta þó saman eins og sést af samvinnu yfirvalda lögreglu og hers í átökum við hryðjuverkamenn eða þegar her er kallaður til aðstoðar í stórfelldum náttúruhamförum.
Íslenska ríkið ræður ekki yfir her heldur styðst alfarið við borgaralegar stofnanir til að gæta almannaöryggis og þjóðaröryggis. Þátttakan í NATO er á „borgaralegum forsendum“ eins og segir í tillögunni að þjóðaröryggisstefnu og þar er treyst á að varnarsamningur Íslands og Bandaríkjanna frá 1951 „tryggi áfram varnir Íslands“, það er að bandarískur her komi landi og þjóð til varnar.
Óljós ábyrgð
Um svipað leyti og núverandi ríkisstjórn var mynduð í maí 2013 sendi ríkisendurskoðun frá sér skýrslu til alþingis. Ber hún heitið Verkefni fyrrum Varnarmálastofnunar og þar er forsætisráðuneytið meðal annars hvatt til að „beita sér fyrir lausn á ágreiningi utanríkisráðuneytis og innanríkisráðuneytis um fyrirkomulag þeirra verkefna sem Varnarmálastofnun sinnti áður, einkum þess hluta þeirra sem Landhelgisgæsla Íslands sinnir nú.“
Ríkisendurskoðun segir einnig:
„Mikilvægt er að stjórnsýsluleg, fjárhagsleg og fagleg ábyrgð fari saman og að valdmörk séu skýr. Það stuðlar að betri og einfaldari stjórnunarháttum og er m.a. nauðsynlegt skilyrði fyrir markvissa stjórnun verkefnanna, hagkvæma og skilvirka framkvæmd þeirra og öflugt eftirlit með þeim.“
Árið 2014 var formlegur samningur undirritaður á milli innanríkis- og utanríkisráðuneytisins um ráðstöfun verkefna og samráðsferli ráðuneyta í öryggis- og varnarmálum. Í umsögn Nexus, rannsóknarvettvangs fyrir öryggis- og varnarmál, til utanríkismálanefndar vegna þjóðaröryggisstefnunar, segir að samningurinn hafi hvorki verði birtur almenningi né borinn undir alþingi. Telja höfundar umsagnarinnar þetta óviðunandi. Til þess að tryggja að ný þjóðaröryggisstefna Íslands sé framkvæmanleg og árangursrík þurfi að finna þverpólítíska sátt um ábyrgð og ráðstöfun verkefna, alþingi verði að leggja blessun sína yfir þá sátt.
Hér skal áréttað sem segir í umsögninni frá Nexus að gagnrýnisvert sé að „pólitískt forræði, og þar með ábyrgð, skuli liggja hjá öðrum ráðherra en þeim sem fer með framkvæmdina“. Þarna er vikið að mörkum milli utanríkisráðherra og innanríkisráðherra og bætt við: „Það hlýtur að kalla á vandkvæði við stjórnun fjárveitinga og ber ekki vott um vandaða stjórnsýslu þar sem framkvæmd og ábyrgð ber að haldast í hendur.“
Skortur á greiningu
Ef til vill veldur ekki einungis gamalt áhættumat þingmönnum vandræðum við afgreiðslu þjóðaröryggisstefnunnar heldur einnig hin óljósa stjórnsýslulega ábyrgð. Skortur á skýrum ákvæðum um ábyrgð er jafnan til vandræða í stjórnsýslunni. Þegar öryggi þjóðarinnar er annars vegar er nauðsynlegt að vanda sérstaklega til verka.
Borgaralegar stofnanir ríkisins á sviði öryggismála styðjast við greiningardeildir. Lögregla við greiningardeild ríkislögreglustjóra og almannavarnir við hóp vísindamanna. Nýlega var til dæmis minnt á ábendingu Páls Einarssonar jarðeðlisfræðings vegna hættu frá Heklugosi fyrir flugumferð. Samgöngustofa virðist að vísu hafa þau ráð að engu.
Hið einkennilega er að innan stjórnkerfisins er tómarúm þegar kemur að mati á hættum sem falla undir þjóðaröryggi. Utanríkisráðuneytið býr ekki yfir neinni sérþekkingu á því sviði. Úr þessum vanda verður ekki leyst með því að stofna eitthvert þjóðaröryggisráð heldur ber mat á þessu sviði að vera hluti af starfi almanna- og öryggismálaráðs og pólitíska ábyrgðin að hvíla á innanríkisráðherra.