19.2.2002

Miðborg Reykjavíkur



Miðborg
Reykjavíkur
19. febrúar, 2002.

Fundarstjóri, góðir fundarmenn.

Við komum hér saman í dag, af því að við viljum efla Reykjavík, borgina okkar. Tryggja að hún standist kröfur alþjóðlegrar samkeppni og sæki fram á öllum sviðum. Hún verður að vaxa og dafna eins og tré með djúpar rætur og veita íbúum sínum, gestum og gangandi, skjól og öryggi.

Þessar djúpu rætur Reykjavíkur liggja hér í miðborginni., sé vegið að þeim visnar borgarsamfélagið og hrörnar eins og hoggið tré.

Hér festi fyrsti landnámsmaðurinn, Ingólfur Arnarson, sér búsetu.

Hér er Dómkirkjan.

Hér hófst iðnbyltingin á Íslandi.

Og hér hefur aðsetur æðstu stjórnar þjóðarinnar verið frá endurreisn alþingis.

Hér hóf Háskóli Íslands starfsemi sína – og hér er vagga íslenskrar leiklistar, tónlistar og myndlistar.

Til að Reykjavík blómstri verðum við að hlú að þessum rótum hennar. Sjálfsvirðing okkar og metnaður sem Reykvíkinga og Íslendinga krefst þess, að komið sé í veg fyrir, að miðborgin kalli fram öryggisleysi í hugum okkar eða glati virðulegum, mikilvægum og lifandi sessi sínum.

Reykjavík á betra skilið en að vera hirðulaus, hún á að vera í fararbroddi á meðal höfuðborga. Það tryggjum við best með því að haga skipulagi þannig að hingað í miðborgina flytji fleira fólk heimili sitt. Með því er ekki aðeins verið að styrkja miðborgarsvæðið heldur draga úr ásókn í úthverfin.

Við eigum að sýna minjum um upphaf Íslandsbyggðar virðingu. Í miðborg Reykjavíkur gefst ómetanlegt tækifæri til að sameina sögu, samtíð og framtíð. Það er einstakt, að í hjarta borgar sé unnt að benda á, hvar fyrsti landnámsmaður þjóðar átti heimili sitt. Þessa sérstöðu ber að nýta til að styrkja svipmót borgarinnar og gildi hennar fyrir Íslandssöguna.

Við eigum að skapa Menntaskólanum í Reykjavík viðunandi aðstöðu í miðborginni. Fyrir um það bil hálfri öld var ákveðið, að hann yrði áfram hér á sínum gamla stað. Það er þó ekki fyrr en á síðustu árum, að skipulega hefur verið hafist handa við að skapa nemendum skólans nútímalega starfsaðstöðu. Reykjavíkurborg á möglunarlaust að taka þátt í því að móta góða ytri umgjörð þessa fjölmennasta vinnustaðar í miðborginni.

Við eigum að styrkja Laugaveginn sem vinsæla verslunar- og menningargötu. Sýna gömlum byggingum fulla virðingu án friðunarstefnu, sem hneppir miðborg Reykjavíkur í fortíðarfjötra.

Við eigum að skipuleggja lifandi umhverfi og tengingu milli norður- og suðurvængs miðborgarinnar frá höfninni með Tjörninni um Hljómskálagarðinn í Vatnsmýrina.

Síðastliðinn laugardag var 600 manna vinnustaður, vitnisburður um hið nýja þekkingarþjóðfélag, formlega opnaður í glæsilegri nýbyggingu í Vatnsmýrinni. Íslensk erfðagreining hefur kosið að reisa höfuðstöðvar sínar í nágrenni Háskóla Íslands. Þarna mun á næstu árum rísa þekkingarþorp auk þess sem Landsspítalinn – háskólasjúkrahús þróast þar áfram.

Við eigum að reisa tónlistarhús, ráðstefnumiðstöð og hótel við höfnina og tengja þessi miklu mannvirki sem best við miðborgina. Þau verða ekki aðeins til að efla Reykjavík, heldur munu eins og vísindastarfsemin í Vatnsmýrinni skapa nýja vídd í þjóðlífinu öllu og styrkja samkeppnisstöðu þjóðarinnar á alþjóðavettvangi.

Við eigum að nýta til hins ítrasta þá sérstöðu, að eiga lifandi höfn í hjarta Reykjavíkur. Fáar borgir hefur mér þótt skemmtilegra að heimsækja en Höfðaborg í Suður-Afríku og Sydney í Ástralíu. Hvers vegna? Jú, vegna þess að þar hafa menn nýtt einstakt hafnarsvæði til að gefa miðborgum nýjan svip, nýtt líf og nýjan kraft.

Þetta gerist einnig hér í Reykjavík, sé rétt á málum haldið. Spennandi hugmyndir vakna, þegar litið er á þetta einstæða svæði og tenginguna milli hafnarinnar og Tjarnarinnar.


Góðir fundarmenn!

Ég þakka ykkur fyrir komuna á fundinn. Hér ætlum við sjálfstæðismenn að kynna viðhorf okkar til miðborgarinnar. Hér lítum við ótrauð til framtíðar á sterkum rótum Reykjavíkur - verði þær áfram traustar eflist borgarlífið allt