3.2.2002

Morgunblaðsviðtal um borgarmálefni.

Ragnhildur Sverrisdóttir blaðamaður tók þetta viðtal við mig og birtist það í Morgunblaðinu 3. febrúar 2002.

„ÞAÐ skiptir mestu fyrir framtíð
Reykjavíkurborgar að hún, og raun-
ar höfuðborgarsvæðið allt, sé þróuð
með það að leiðarljósi að borgin
sé samkeppnisfær í alþjóðlegu sam-
hengi. Þróunin hér á landi hefur
lengi verið sú að fólk flytur úr sveit
til borgar og bæja, en sú þróun hefur
haldið áfram og nú leitar fólk út fyrir
landsteinana í ríkari mæli. Við verð-
um að hafa metnað til að skapa sam-
bærilegar aðstæður hér og bestar
gerast erlendis,“ segir Björn
Bjarnason, menntamálaráðherra og
oddviti Sjálfstæðisflokksins í kom-
andi borgarstjórnarkosningum.
Björn segir að hann hafi haft
þessa þróun í huga í starfi sínu sem
menntamálaráðherra. „Við erum að
keppa í alþjóðlegu þekkingarsam-
félagi, þar sem menntun og menning
skiptir miklu. Borgarsamfélagið þarf
að vera samkeppnisfært og við verð-
um að leggja alla áherslu á að skapa
þær forsendur fyrir mannlífi í borg-
inni að fólk kjósi að búa hér fjölskyld-
unum líði vel.“

Björn segir að einn liður í slíkri
uppbyggingu borgarinnar sé að
byggja tónlistarhús, enda hafi hann
beitt sér fyrir því máli í menntamála-
ráðherratíð sinni. „Ég bendi líka á
væntanlega uppbyggingu þekkingarþorps
í næsta nágrenni Háskóla Íslands í Vatnsmýr-
inni sem menntamálaráðuneyti
hefur átt frumkvæði að. Með slíkum framkvæmdum eru treystar
forsendur fyrir því, að efla íslenskt sam-
félag, það sé samkeppnisfært á sviði
þekkingar og menningar. Við verð-
um að gera okkur grein fyrir eftir
hverju við sækjumst við uppbygg-
ingu kjarna borgarinnar. Fólk er al-
veg örugglega ekki að sækjast eftir
að búa í borg þar sem miðborgin er
að drabbast niður. Það hefur hins
vegar gerst. Það ber að setja
ákveðin markmið og skapa
skýra heildarsýn, þar sem Reykjavík
verður iðandi af mannlífi og öflugri
atvinnustarfsemi á skömmum tíma.“

Finnst þér koma til greina að sam-
eina sveitarfélög á höfuðborgar-
svæðinu? Myndi slík sameining ýta
undir að borgin yrði samkeppnis-
fær?

„Að sjálfsögðu er nauðsynlegt að
velta fyrir sér stöðu Reykjavíkur
gagnvart öðrum sveitarfélögum,
hvort sem rætt er um sameiningu,
aukið samstarf eða skipulag sem
miðar að því að sameina kraftana
sem best í þessu skyni. Markmiðið er
auðvitað að búa til umhverfi sem
kallar á fólk; umhverfi þar sem það
vill búa sér og fjölskyldu sinni heim-
ili. Fyrir Reykvíkinga er áhyggjuefni í
þessu tilliti, að borgin þeirra hefur undir
stjórn vinstrisinna að ýmsu leyti orðið
undir í samkeppni við nágrannasveitarfélögin,
þegar litið er til íbúaþróunar, atvinnulífs og dagvistarmála.“

Lítur þú frekar til samstarfs en
sameiningar?

„Sameining er auðvitað ekkert
nema staðfesting á samstarfi, ef
menn vilja ganga svo langt. Reykja-
vík á ekki að hafa það markmið að
leggja undir sig nágrannasveitar-
félög, heldur stuðla að samstarfi.
Eftir því sem samstarfið verður nán-
ara verður eðlilegra, þegar fram líða
stundir, að sameina ákveðna þætti í
starfseminni.“

Björn telur ýmsa kosti vænlega, ef til
einhverrar sameiningar sveitarfé-
laga á höfuðborgarsvæðinu kæmi,
en ákvarðanir um þetta ráðist að sjálfsögðu
af vilja íbúanna og því umboði, sem þeir veita.

„Hvert sveitarfélag hefur sinn svip og það
er hollt, að þau keppi sín á milli, þótt
í ýmsum málum eins og
skipulagsmálum sé litið á allt svæðið,
en ekki afmörkuð hverfi eða sveit-
arfélög. Ég held að íbúar
á þessu svæði kæri sig ekki um að
boðleiðir verði of langar. Stjórnvöld
sveitarfélaganna verða að vera nærri
íbúunum.“

Þú nefndir væntanlegt þekking-
arþorp í Vatnsmýrinni. Hver er af-
staða þín til flugvallarins þar?

„Spurningunni um hvort flugvöll-
urinn á að fara eða vera á að svara á
þann hátt að við náum að sameina
hagsmuni þeirra sem treysta á
greiðar samgöngur til og frá höfuð-
borginni, hagsmuni þeirra sem búa í
borginni og þeirra sem sækja hana
heim. Það er auðvitað kappsmál fyrir
borgina að halda bestu kostunum í þessu efni opnum og það verður að vera leiðarljósið
í umræðum um flugvöllinn í Reykja-
vík. Við verðum að ná sátt um sjón-
armið borgarbúa og annarra lands-
manna. Ef það verður ekki gert á
hagkvæman hátt nema með því að
hafa flugvöll í Vatnsmýrinni þá verð-
um við að miða við að hann verði þar
áfram. Jafnframt þurfum við að leita
leiða til að þróa byggð í nágrenni
flugvallarins. Ég skil ekki hvernig
unnt er að flytja flugvöll „í áföngum“
eins og er stefna R-listans.“

Björn segir ef til vill ekki fullrætt hvort
hægt sé að byggja upp flugvöll ann-
ars staðar. „Mér sýnist þó sem við
stöndum frammi fyrir tveimur kost-
um, að annað hvort verði flugvöllur
fyrir innanlandsflugið hér eða í
Keflavík. Markmiðið hlýtur að vera
að tryggja sem bestar samgöngur
við borgina.“

Verður flugvallarmálið kosninga-
mál í vor?

„Ég hef ekki trú á því. Núna liggja
ákveðnar forsendur ljósar fyrir í því
máli, en kjósendur geta ekki gengið
að því sem vísu að kjósi þeir einn
lista fari flugvöllurinn, en kjósi þeir
annan verði flugvöllurinn í Vatns-
mýrinni um ókomna tíð. Innan R--
listans eru skoðanir til dæmis skipt-
ar, þar er Framsóknarflokkurinn á
móti því að hróflað verði við vellin-
um.“

Hverjar eru helstu hugmyndir þínar
um hvernig blása megi lífi í miðborgina á
ný?

„Við getum myndað ramma um
miðborgina, þar sem tónlistarhús,
ráðstefnumiðstöð og hótel verður við
hafnarsvæðið í norðri, þekkingar-
þorpið í Vatnsmýrinni í suðri og öll
starfsemi Landspítala - háskóla-
sjúkrahúss við Hringbraut í suðaustri,
en nú hefur verið lagt til að öll fram-
tíðarstarfsemi sjúkrahússins verði
byggð upp þar. Allri þessari starf-
semi hefur verið beint inn á miðborg-
arsvæðið að frumkvæði ríkisins, ekki
borgaryfirvalda. Svo þurfum við að
efla annað atvinnulíf í miðborginni,
um leið og við hugum að samgöngu-
leiðum. Það er til dæmis mjög brýnt að
hefja framkvæmdir við flutning Hring-
brautarinnar.“

Aðspurður um skoðanir Péturs
Ármannsonar arkitekts, sem segir
verðlaunahugmynd um tónlistarhús
ekki skapa flæði frá húsinu inn í mið-
borgina segir Björn að hann sé ein-
dregið þeirrar skoðunar að tónlistar-
húsið og nágrenni þess eigi að vera
samofið miðborgarlífinu og því þurfi
að huga að því að hafa þetta flæði
sem best.

„Hvað varðar önnur úrræði í mið-
borginni, þá má benda á að núver-
andi meirihluti í borgarstjórn hefur
ekki viljað ljá máls á ýmsu því sem
gæti styrkt miðborgina. Ákvörðun Bolla
Kristinssonar kaupmanns um að segja
sig úr miðborgarstjórn og auglýsa eignir
sínar við Laugaveg til sölu endurspeglar
ófremdarástandið í málefnum miðborgarinnar
undir stjórn R-listans auk þess að vera enn
eitt dæmið um virðingarleysið gagnvart
hagsmunum og viðhorfum hins almenna
borgarbúa.

Í störfum mínum undanfarin ár hef ég ekki
síst litið til miðborgarinnar með hagsmuni skólanna
í huga og til dæmis verið talsmaður þess að efla
Menntaskólann í Reykjavík, en talað
þar fyrir daufum eyrum gagnvart borgaryfirvöldum. Það hefur
líka dregist allt of lengi af hálfu
þeirra að taka ákvarðanir
varðandi framtíðarstað Kvennaskólans í
Reykjavík. Og svo gerði meirihlut-
inn þau mistök að breyta húsnæði
Miðbæjarskólans í skrifstofur. Mið-
borgarbragurinn væri annar ef þar
væri enn skólastarf.“

Þú hefur sagt að skerpa þurfi póli-
tískar línur milli framboðanna í
Reykjavík, svo kjósendur sjái borg-
armál ekki sem þras um tæknileg úr-
lausnarefni. Hvað átt þú við með
þessu?

„Viðfangsefni sveitarstjórna eru
að sjálfsögðu sum hver eingöngu
tæknileg úrlausnarefni. En fólk má
ekki gleyma því að vinnubrögðin hjá
stjórnmálamönnunum eru bæði hug-
sjónaleg og tæknileg og þeir nálgast
viðfangsefnin á ólíkan hátt eftir stjórnmálaskoðunum. Ég hef
þá grundvallarhugsjón, eins og aðrir
sjálfstæðismenn, að auka svigrúm
einstaklinganna, á meðan R-listinn og vinstrisinnar
vilja að hið opinbera hafi sem mest
svigrúm, á kostnað einstaklinga.
Svona andstæður hljóta að koma
skýrt fram þegar rætt er um hvernig
eigi að skipuleggja borgina til fram-
tíðar. Mér finnst miklu skipta, að kjósendur geti
gengið að því vísu hvaða stefnu
stjórnvöld munu fylgja í málum sem
snerta þeirra hag. En borgarstjóri
sem leiðir þriggja til fjögurra höfða þurs á auðvitað
ekki hægt um vik. Sá borgarstjóri
tekur helst þann kostinn að þegja
um pólitík, fremur en að vekja eitt
eða fleiri höfuð af værum svefni. Þess vegna
kom á óvart, þegar Ingibjörg Sólrún
Gísladóttir taldi það Framsóknarflokknum
að kenna, sem farið hefur illa í
skólamálum borgarinnar. Innan R-listans
er auðveldast að líta bara á úrlausn-
arefni sem tæknilegar þrautir, þar
sem grundvallarstefna kemur ekki
við sögu. Þar sem slík vinnubrögð
eru viðhöfð vakna íbúar upp við þann
vonda draum að borgaryfirvöld ætla
sér að framkvæma eitt og annað án
nokkurs samráðs við íbúanna eða tillits til þeirra.“

Þegar þú tilkynntir um framboð
þitt sagðir þú að hvarvetna kvörtuðu
borgarbúar undan því að ná engu
sambandi við borgarstjóra. Ef þú
verður næsti borgarstjóri, hvernig
ætlar þú að tryggja aðgang borgar-
búa að þér?

„Ég mun haga mál-
um með svipuðum hætti og ég hef
gert í menntamálaráðuneytinu und-
anfarin sjö ár. Ég sæki fundi og mannamót, tek á móti fólki í
skrifstofu minni og á líka mikil sam-
skipti á tölvupósti. Sumir hafa jafn-
vel haldið því fram að ég sé nánast
aðgengilegur á nóttu sem degi. Ég
veit hins vegar að menn sem leita til
borgaryfirvalda komast ógjarnan í
gegnum kerfi millistjórnenda. Þetta
hefur versnað mjög eftir því sem valdaárum R-listans hefur fjölgað, enda hefur R-
listinn ekki við annað að styðjast en
eigið embættismannakerfi og styrkir
það því ótæpilega. R-listinn á ekkert óskipt
bakland og hefur engin bein tengsl
við borgarbúa, eins og Sjálfstæðis-
flokkurinn hefur með hverfafélögum
sínum.“

R-listinn segir að nú séu 93%
barna í Reykjavík í niðurgreiddri
dagvistun. Er hægt að gera mikið
betur?

„Þetta er talnaleikur hjá R-listan-
um, þegar litið er til kosningaloforða hans, þar sem hann telur saman öll
börn í leikskólum, einkaskólum og
hjá dagmæðrum. R-listinn hefur ekki staðið við loforð sitt
um leikskóla fyrir alla. Hann ber fyr-
ir sig að nú geri fólk allt aðrar kröfur
um leikskólavistun en voru uppi þeg-
ar þetta loforð var gefið fyrir átta ár-
um. En er það ekki hlutverk kjör-
inna fulltrúa að bregðast við
breyttum kröfum? Minnumst þess líka,
að fram hefur komið, að nú séu um
500 færri börn á leikskólaaldri í Reykjavík
en árið 1994, þegar R-listinn komst til
valda. Það segir vissulega mikla sögu
um íbúaþróun borgarinnar.

Ég beitti mér fyrir því hér í
menntamálaráðuneytinu að sett var
námskrá fyrir leikskólana í fyrsta
skipti. Áður störfuðu þeir sam-
kvæmt uppeldisáætl-
un, en nú eru þeir viðurkenndir sem fyrsta
skólastigið og gert er ráð fyrir að
leikir séu notaðir til að kenna og til
málörvunar. Það er mikilsvert að líta
á þetta og sjá til þess að þjónustan sé
sem víðtækust, til að koma til móts
við þarfir borgaranna. Núna hefur
Hagfræðistofnun Háskóla Íslands
lagt fram hugmyndir um leiðir til að
fækka námsárum til stúdentsprófs.
Það gætum við til dæmis gert með
því að taka 5 ára börn inn í grunn-
skólana, í stað þess að þau hefji nám
6 ára. Þar með myndum við fá aukið
rými á leikskólunum. Þetta finnst
mér áhugaverð hugmynd.
Rannsóknir sýna að ung börn geta
lært nánast takmarkalaust. Ef þessi
leið er farin er nauðsynlegt að huga vel að
skipulagi námskrár. Sex ára bekk-
urinn var á sínum tíma settur inn í
grunnskólann án þess að skilgreint
væri í námskrá hvað ætti að kenna
börnunum og slík mistök eigum við
ekki að láta endurtaka sig.“

Ef þú ert tilbúinn til að fallast á að
öll börn, 6 ára og eldri, eigi rétt á
skólavist, ertu þá að sama skapi
tilbúinn til að skilgreina það svo, að
öll börn frá t.d. 18 mánaða eða 2ja
ára aldri eigi skilyrðislausan rétt á
leikskólavist?

„Ég tel, að þetta eigi að skoða af alvöru og til hlítar.
Álitamálin eru spennandi og snerta að
sjálfsögðu fleiri þætti en lúta beint að
sveitarstjórnamálum, en nauðsynlegt er að frumkvæði
komi frá þeim, sem reka leikskólana,
sveitarstjórnunum. Ég hef beitt mér
fyrir margvíslegum breytingum í skólamálum
á grundvelli víðtæks samráðs við alla, sem
hlut eiga að máli, og mér þykir verðugt
viðfangsefni að nálgast málefni leikskólans
á þeim forsendum, sem þú nefnir í spurningu þinni.“

Verða leikskólamálin kosninga-
mál?

„Já, þau verða það. Ástæðulaust er að þrátta um
tilvist biðlistanna, þeir blasa við öllum, og eins
hitt, að R-listinn hefur svikið kosningaloforð sín
vegna leikskólanna. Ég vil, að í kosningabaráttunni
ræði menn meginsjónarmið um gildi og markmið
leikskólastarfsins og aukna þjónustu á þessu skólastigi.
Reykvíkingar geta mikið lært af öðrum í þessu efni
og í borginni hafa menn verið ótrúlega seinir að
nýta sér þau tækifæri, sem gefast, eins og til dæmis
sést af því, hve Leikskólar Reykjavíkur hafa verið
seinir að laga starfsemi sína að breytingum á
reglugerð, sem ég gerði 9. maí á síðasta ári og
heimilar, að fleiri börn nýti rými í leikskólum en
áður. Breytingin auðveldaði til dæmis bæjaryfirvöldum
á Akureyri að bjóða öllum tveggja til sex ára börnum
leikskólarými síðasta haust, en þar hafa sjálfstæðismenn
haft forystu um að eyða biðlistum leikskólabarna á
þremur árum, en á átta árum R-listans í Reykjavík
hafa biðlistarnir lengst. Seingangurinn hér er svo
mikill, að það var sagt frá því í Fréttablaðinu
29. janúar 2002, að nú væru Leikskólar Reykjavíkur
að taka til við að nýta sér tækifærin, sem felast
í reglunum frá því í maí 2001. Í Garðabæ hefur
verið farið inn á skynsamlegar brautir í leikskóla-
rekstri í samstarfi við einkaaðila. Þannig get ég
lengi nefnt dæmi um, hve illa hefur verið staðið
að þessum málum hér í Reykjavík. Vissulega er
þörf á að leggja þetta mál með skilmerkilegum
hætti undir dóm kjósenda.“

Þú hefur bent á að biðlistar eftir
félagslegu húsnæði og hjúkrunar-
rými í Reykjavík hafi aldrei verið
lengri en nú. Hvað er til ráða?

„R-listinn valdi þá leið í félagslega
íbúðakerfinu að stofna sérstakt félag
um skuldasúpuna og láta eins og þar
með hefði hann þvegið hendur sínar
í þessu máli. Kraftarnir hafa meira
farið í að verja þær bókhaldsæfingar
en huga að þjónustu við borgarbúa.
Fréttir af vanda húsnæðislausra
eru sorglegur blettur á borgarlífinu.
Auðvitað þarf að finna lausnir á
vandanum en ekki sópa honum
undir teppið.“

Hver eru sjónarmið þín í málum
Orkuveitunnar og Línu.Nets?

„Mér blöskrar hvernig staðið hef-
ur verið að Línu.Neti. Frá upphafi hefur verið
staðið að þessu máli af hálfu borg-
arstjórnarmeirihlutans eins og menn
hafi eitthvað að fela. Ég er að sjálf-
sögðu ekki andstæðingur þess að
leiðir eftir upplýsingahraðbrautinni
séu greiðar, en hér starfa öflug fyrirtæki
sem hafa fulla burði til að sinna
þessu hlutverki. Borgin á ekki að
vera í samkeppnisrekstri á sviði fjar-
skipta og yfirlýsingar um að starf-
semin komi neytendum til góða í
lækkaðri gjaldskrá standast ekki. Borgin
hefði getað skilgreint verkefni á þessu
sviði og leitað tilboða í úrlausn þeirra.
Þeir sem að þessu standa hafa verið
á hröðum flótta og aldrei lagt öll spil-
in á borðið. Upphaflega átti að bjóða
upp á gagnaflutninga um rafdreifi-
kerfið, en nú virðist það úr sögunni.
Svo reynir meirihlutinn að drepa
málinu á dreif með því að tala um
sölu Perlunnar.“

Meirihlutinn segir að sala Perl-
unnar hljóti að vera í samræmi við
stefnu sjálfstæðismanna um að borg-
in skuli ekki vera í samkeppnis-
rekstri. Ert þú fylgjandi sölu Perl-
unnar?

„Fasteign er alls ekki sambærileg
við þjónustu, sem er í samkeppni við
einkaaðila. Mér finnst athugandi að
selja Perluna, ef góður kaupandi
fæst. Hins vegar sýnist mér R-list-
inn ekki einu sinni hafa skilgreint
hvað eigi í raun að selja. Þetta mál
minnir mig á, að sumir menn voru sífellt
að tala um Flugstöð Leifs Eiríkssonar
sem óþarfa bruðl og óráðsíu, nánast
bagga á þjóðfélaginu. Til að réttlæta
þetta viðhorf létu þessir sömu menn
undir höfuð leggjast að nýta tækifæri
til tekjuöflunar í flugstöðinni, sem varð til þess
að flugstöðin safnaði skuldum
þar til allt var komið í óefni. En hvar
værum við án flugstöðvarinn-
ar? Að sama skapi væri Reykjavík
svipminni borg ef Perlunnar nyti
ekki við. Þessi bygging, eins og önn-
ur glæsileg mannvirki í borginni, er
liður í því að búa hér til samfélag sem
gerir okkur kleift að standast samkeppni við aðrar þjóðir. Það á ekk-
ert skylt við bruðl að skapa slíkt ástand.“

Gagnrýnendur R-listans hafa
stundum talað um að hann sinni ein-
göngu 101 Reykjavík. Hafa úthverf-
in verið afskipt hjá núverandi meiri-
hluta?

„Ekki þarf að fara í neinar grafgötur um það, að fólk sem býr í
úthverfum borgarinnar telur sig af-
skipt og að ekki sé tekið nóg tillit til
sjónarmiða þess. R-listinn sagðist
ætla að eiga gott samstarf við alla
borgarbúa, en annað hefur komið á
daginn. Meirihlutinn á í stríði við al-
menning í stóru og smáu, eins og
sést til dæmis í Suðurhlíð, þar
sem allt í einu gnæfa byggingakran-
ar við himin án þess að íbúar fái
haldgóða vitneskju um fyrirhugaðar
byggingar þar og hafi því síður nokkuð um þær að segja. Ef R-listinn ræður
ekki við að sætta sjónarmið íbúanna í
smærri málum, hvernig getur hann
þá ráðið við stærri mál? Svo eru sett-
ar á svið sýningar, eins og atkvæða-
greiðslan um flugvöllinn, sem kost-
aði borgarbúa meira en 30 milljónir króna, án
þess að nokkuð kæmi út úr þeim. Auk þess sem
borgarstjóri túlkaði niðurstöðuna síðan með óábyrgum hætti.
Sjálfstæðisflokkurinn á betra bak-
land í borginni en hinn sundurleiti R--
listi, hann er byggður upp á allt ann-
an hátt og boðleiðirnar eru aðrar,
meðal annars vegna hverfafélag-
anna. Sjálfstæðisflokkurinn á öflugar
og skipulagðar rætur í öllum hverfum
borgarinnar og er ánægjulegt að
fylgjast með því, hve vel félög hans þar dafna.“

Hver verða helstu baráttumál
Sjálfstæðisflokksins í komandi kosn-
ingum?

Átakalínurnar í þessum kosningum eru skýrar.
Meginatriðið er að sjálfsögðu að sýna fram á
nauðsyn þess, að R-listinn fari frá völdum vegna þess
að undir hans stjórn hefur ríkt stöðnun í Reykjavík.
Við viljum skattalækkanir í stað skattahækkana.
Við viljum aðgerðir í stað athafnaleysis og
aukið val borgaranna í stað miðstýringar og
regluveldis. Ég vil, að staðið verði að stjórn
borgarsjóðs með jafnábyrgum hætti og
sjálfstæðismönnum hefur tekist að ná tökum
á útgjöldum ríkisins. Dregið verði úr álögum
til að auka svigrúm borgaranna. Leitað sé
lausna í samvinnu við borgarana en ekki
andstöðu, framtak þeirra sé virkjað í stað
þess að drepa allt í dróma.

Ég hef skýra framtíðar-
sýn um miðborg Reykjavíkur,
nauðsynlegt er að gera stórátak til að
greiða fyrir umferð og
við eigum að taka á skóla-
málum með því t.d. að efla innra starf skólanna
og afnema hverfaskiptingu, fylgja markvisst eftir nýjum
námskrám í grunnskólum, koma til móts við
góða nemendur ekki síður en að hjálpa þeim,
sem slakir eru og kalla foreldra og einkaaðila
til náins samstarfs auk þess að hefja umræður á nýjum forsendum
um leikskólana. Í þessum málum er R-listinn
ráðþrota vegna vinstrimennskunnar.
Ég vil sjá stóra íbúðabyggð í Geldinganesi sem er eitt
fallegasta byggingarland í Reykjavík.
Ég vil líka setja upplýsingatæknina í
fyrirrúm, en ekki með því að halda
áfram að moka peningum í Línu.Net.
Reykjavíkurborg á ekki að vera í neinum
rekstri sem einkaaðilar geta leyst af
hendi, og það betur en borgin.“

Skuldastaða borgarinnar hefur
verið ykkur sjálfstæðismönnum
þyrnir í augum.

„Og ekki að ástæðulausu. Skuldir
borgarinnar hafa áttfaldast frá 1993
og aukast um 8-9 milljónir á
hverjum degi mitt í góðærinu. Skuldaaukningin
verður því um milljarður fram að
kosningum. Við verðum að fara vel
yfir hvert allir þessir peningar fara,
en það er þegar ljóst að allt of háar
fjárhæðir fara í þunglamalegt
stjórnkerfi og millistjórnendur. Ingibjörg Sólrún gerir lítið
úr þeim áhyggjum sem fólk hefur af
skuldasöfnun borgarinnar; þeirri
hækkun sem hefur verið á sköttum,
löngum biðlistum eftir þjónustu
borgarinnar og flótta fólks og fyrirtækja
úr borginni. Hún gerir lítið úr því að við
viljum gera betur og teljum að Reykvíkingar
eigi betra skilið. Fyrir mér eru þetta raunverulegar
áhyggjur sem verður ekki undan vikist. Borgin hefur
alla burði til að gera miklu betur við fólk,
fyrirtæki og fjölskyldur. Til þess þarf breytta
stjórnarhætti, nýjar áherslur og nýtt fólk.
Til þess þurfum við að koma R-listanum frá.“

Ætlarðu að segja af þér sem ráð-
herra á næstunni?

Þegar framboðslisti Sjálfstæðisflokksins
hefur verið ákveðinn mun ég skýra frá brotthvarfi
mínu úr menntamálaráðuneytinu. Ég get tekið mér
leyfi frá störfum eða sagt af mér embættinu.
Hvað sem framboði mínu til borgarstjórnar
líður, hafði ég ákveðið að starfa ekki lengur
en átta ár sem menntamálaráðherra..
Mér finnst ég hafa náð fram
flestu sem ég vil hér í ráðuneytinu og að
vel fari á því að nýr ráðherra, með
nýjar hugmyndir, taki við. Kosið er
til Alþingis á fjögurra ára fresti og
sú regla gerir í raun ráð fyrir end-
urnýjun. Tvö kjörtímabil eru nægur
tími í starfi sem þessu, sem er til
dæmis allt annars eðlis en starf for-
sætisráðherra. Að tveimur kjörtíma-
bilum loknum í fagráðuneyti er þörf á endurnýjun.
Hið sama á við um embætti borg-
arstjóra. Nú er verið að kalla á Ingi-
björgu Sólrúnu til að bjarga Samfylk-
ingunni á landsvísu og ekkert
óeðlilegt að hún svari því kalli, það myndi
gefa Samfylkingunni nýjan svip og gagnast
Reykvíkingum, því að hugmyndasjóður hennar
í borgarmálum er tæmdur. Það er frekar
óspennandi að spóla þannig alltaf í sama
farinu. Margir virðast uppteknir af því
hvort ég hætti hér í ráðuneytinu vikunni
fyrr eða síðar, en að sama skapi er réttmætt að spyrja Ingibjörgu Sólrúnu hversu lengi hún ætlar að sitja, nái hún endurkjöri sem
er alls óvíst.“

Ætlar þú að sitja í borgarstjórn
sem oddviti minnihlutans, fari svo að
R-listinn sitji áfram að völdum?

„Að sjálfsögðu. Ég er að bjóða mig
fram til starfa í borgarstjórn og hef
ekki hugsað mér að tjalda til einnar
nætur.“

Hvaða hugmyndir hefur þú um
endurnýjun á framboðslista Sjálf-
stæðisflokksins?

„Það þarf ákveðna endurnýjun á
listanum, en ég ætla ekki að telja
upp neinn óskalista, enda ekki mitt
að velja á listann heldur kjörnefndar. Skoðanakönnun innan fulltrúaráðsins um nýja og vænlega frambjóðendur lýkur 6.
febrúar og ég reikna með að línur
fari að skýrast um miðjan mánuð-
inn.“