17.1.2002

Símenntunarmál - starfsmannafélag ríkisstofnana


Símenntunarmál,
Starfsmannafélag ríkisstofnana,
17. janúar, 2002.


Ég þakka fyrir það tækifæri, sem mér er gefið hér í dag, til að ræða við ykkur um símenntunarmál og skýra mín sjónarmið til þeirra. Þetta er mikilvægt málefni, sem allir þurfa að íhuga, því að það snertir okkur hvert og eitt, hvort sem við nýtum okkur þær fjölmörgu leiðir, sem nú eru opnar fyrir alla til að auka menntun sína og færni.

Nýlega var greint frá skýrslu Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands um tekjujöfnun á Íslandi en þar kemur fram, að hún er meiri hér en í flestum löndum. Kemur þetta heim og saman við þann jöfnuð, sem nýleg samanburðarkönnun á vegum OECD sýndi í kunnáttu 15 ára nemenda í 32 löndum í lestri, náttúrufræði og stærðfræði, þar sem íslenska skólakerfið hafði sérstöðu að því leyti, að það hélt einna best utan um nemendahópinn. ef svo má að orði komast, það er að munurinn var hvað minnstur á hinum bestu og lökustu. Þetta leiddi á hinn bóginn til þess, að íslensku nemendurnir voru almennt rétt fyrir ofan meðaltal í könnuninni, því að okkur skorti fleiri í besta hópnum.

Líklega er það almennt svo, að jafnræði er meira á milli manna hér á landi en í flestum löndum, þótt mörgum þyki á stundum nóg um aðstöðu- og tekjumuninn. Vissulega hafa ýmsir dregist aftur úr á vinnumarkaðinum og þar með einnig í tekjum og Hagfræðistofnun telur eina leið áhrifamesta til að koma til móts við þann hóp, það er að auka menntun hans. Raunar er þess sérstaklega getið í samkomulagi ríkisvaldsins og aðila vinnumarkaðarins frá 13. desember síðastliðnum, sem kennt hefur verið við nýja þjóðarsátt, að gera skuli sérstakt átak til að efla starfsfræðslu, en einmitt með þeim hætti er auðvelt að bæta hag margra tækjulágra.

Í þeim kjarasamningum, sem hafa verið gerðir undanfarna mánuði, hefur veruleg áhersla verið lögð á að efla menntunarsjóði einstakra launþega og í framhaldi af því hefur verið stofnað til nýs samstarfs um menntamál. Má þar til dæmis nefna Fræðslusetrið Starfsmennt, sem Starfsmannafélag ríkisstofnana og fleiri stofnuðu með fjármálaráðuneytinu hinn 5. september síðastliðinn á grunni bókunar í kjarasamningi. Er hlutverk Starfsmenntar að vera hugmyndabanki, umsjónaraðili og framkvæmdaaðili fyrir utan að meta þörf fyrir fræðslu hjá einstökum stofnunum og stofnananhópum og að hafa frumkvæði að því að búa til námskeið sem svara þeirri þörf.

Mér er kunnugt um það, að Fræðslusetrið Símennt.is veitir frá síðasta hausti öllum félagsmönnum ykkar sérstaka þjónustu og hefur verið samið um hana næstu þrjú árin. Hafið þið frjálsan aðgang að námsefni sem birtist í formi hljóðs, texta og mynda á vef fræðslusetursins. Nú þegar eru þar inni um 200 tímar af margvíslegu námsefni. Mælingar sýna, að um 400 manns hafa sótt nám á simennt.is með reglubundnum hætti, og þó er starfsemin enn að slíta barnsskónum. Ætlunin mun vera að auka enn námsframboð, m.a. með tungumálanámskeiðum, og leita til menntamálaráðuneytisins um staðfestingu á náminu sem framhaldsskólanámi, þannig að þátttakendur eigi þessu kost að fá nám sem fram fer með þessum hætti metið á framhaldsskólastigi.

Þetta er aðeins eitt dæmi um vaxandi áhugi á að nýta sér ný tækifæri til endurmenntunar. Annað er, að í haust settum við Ögmundur Jónasson, formaður BSRB, viku símenntunar í Nýja tölvu- og viðskiptaskólanum í Hafnarfirði í tilefni af því, að fyrsta námskeiðinu í Tölvufræðslu BSRB var hleypt af stokkunum. Þykir þetta framtak hafa heppnast mjög vel og mikil aðsókn hefur verið að námskeiðunum bæði hér á höfuðborgarsvæðinu og á landsbyggðinni.

Er fróðlegt að lesa um viðhorf þeirra, sem sótt hafa námskeiðin í nýjasta tölublaði BSRB-tíðinda, en þar er einnig góð grein um símenntun eftir Garðar Gíslason, fræðslustjóra Kennslumiðstöðvar Háskóla Íslands, sem hefur verið ráðgjafi við þetta verkefni. Hann segir réttilega, að það þurfi sérstakt átak til að koma sér upp úr sófanum og setja sig í námsstellingar aftur, sérstaklega ef langt er liðið síðan síðast var setið á skólabekk.

Þetta reyndi ég fyrir tveimur árum, þegar mér gafst tækifæri til að setjast á skólabekk að nýju eftir þrjátíu ára hlé, og fara til Bandaríkjanna á stíft vikunámskeið fyrir stjórnendur í opinberum fyrirtækjum. Eftir að ég sneri heim að nýju var áhuginn á að bæta við sig meiru eða glíma við ný viðfangsefni mikill og ég veit, að sumir samnemendur mínir tóku ákvörðun um það eftir þessa einu viku að velja sér nýjan starfsvettvang, þótt þeir hefðu jafnvel í marga áratugi gegnt miklum trúnaðarstörfum hjá hinu opinbera. Allir öðlast mikla lífsfyllingu við að sækja námskeið um ólíka hluti og nýta nýja þekkingu sína í leik og starfi. Fátt er í raun meira gefandi en að takast á við nýja hluti og þjálfa sig í því skyni að ná sæmilegu valdi á þeim.

Ég vitna aftur í grein Garðars Gíslasonar í BSRB-tíðindum, þegar hann segir:

„Formleg menntun er nauðsynlegur grunnur, en sá tími er liðinn að hún ein og sér dugi til að tryggja árangur í lífi og starfi. Erlendar rannsóknir benda til að því meiri menntun sem einstaklingurinn hefur, því meiri líkur eru á því að símenntun verði hluti af lífi hans og starfi. Verkalýðsforystan hefur fyrir löngu áttað sig á þessu og starfsmenntunarsjóðir sjá til þess að auðvelda einstaklingum að viðhalda og bæta við sig í menntun. Ábyrgðin er hins vegar einstaklingsins. Hver og einn ber ábyrgð á að viðhalda þekkingu sinni og að vera vakandi yfir þeim tækifærum sem þegar bjóðast til að auka færni sína.”

Garðar bendir á, að samkvæmt könnunum virðist fólk einna helst sækja þau námskeið, sem leiða til kauphækkunar. Hann vill, að í því efni verði hugarfarsbreyting, því að fólk verði að átta sig á að með menntun og aukinni þekkingu sé það fyrst og fremst að fjárfesta í sjálfu sér. Við þessi orð Garðars vil ég bæta þeim alkunnu sannindum, að menntun er auður, sem aldrei verður frá neinum tekinn, hann minnkar í raun aldrei heldur vex í réttu hlutfalli við þann áhuga, sem menn hafa á því að auka þekkingu sína og færni, án tillits til þess hvaða svið þeir velja.

Fólk lærir þó ekki endilega á tölvu, af því að það veiti hverjum og einum ánægju og lífsfyllingu, heldur vegna þess að enginn kemst lengur sæmilega af í nútímasamfélagi án tölvukunnáttu. Hið sama má segja um tungumálanám. Menn stunda það ekki lengur til að geta lesið erlendar bókmenntir á frummálinu eða ferðast til fjarlægra landa og talað mál innfæddra. Tungumálakunnátta er núna forsenda þess, að menn geti notið sífellt meiri fjölmiðlunar á öllum tungum, sinnt æ fleiri störfum og skapað sér það frjálsræði, sem þeir kjósa við val á starfi eða búsetu.

Góðir áheyrendur!

Við skilgreiningu á námi vísar hugtakið símenntun ekki til neins eins þáttar skipulagðs fræðslustarfs heldur þátttöku fólks í margvíslegu skóla- og fræðslustarfi. Þegar rætt er um símenntun er ekki verið að lýsa menntakerfinu heldur þjóðfélaginu, hvort þar sé almennur áhugi á menntun eftir skóla. Ábyrgðin á símenntun skiptist á stjórnvöld, atvinnulífið og einstaklinga. Stjórnvöld bera allan eða meginþunga kostnaðar við nám í skólum en hin fjárhagslega byrði vegna símenntunar hvílir að mestu á öðrum.

Ríkisstjórnin ákvað á árinu 1998, að menntamálaráðuneytið skyldi bera ábyrgð á opinberri stefnumótun um símenntun og hefur verið unnið að henni og framkvæmd hennar með skipulegum hætti undanfarin ár. Haustið 1999 var í fyrsta sinn efnt til dags símenntunar en vorin 2000 og 2001 hefur vika símenntunar kallað sífellt fleiri til þátttöku í öflugu kynningarátaki á þessu sviði.

Símenntun og fjarkennsla með tölvum falla í sama farveg hjá öllum, sem sinna báðum þessum verkefnum. Þetta á ekki síður við um menntamálaráðuneytið en skóla eða hinar nýju, sjálfsprottnu menntastofnanir, símenntunar- og fræðslumiðstöðvar, sem hafa komið til sögunnar undanfarin ár.

Miðstöð símenntunar á Suðurnesjum reið á vaðið í ársbyrjun 1998 síðan kom Fræðslunet Austurlands til sögunnar og snemma árs 1999 voru stofnaðar fræðslumiðstöðvar á Vesturlandi og Norðurlandi vestra. Í september 1999 voru þrjár miðstöðvar opnaðar það er á Vestfjörðum, í Þingeyjarsýslum og á Suðurlandi. Loks var stofnuð síemnntamiðstöð í Eyjarfirði í mars árið 2000, þannig að þær eru nú alls átta. Framhaldsskólar og háskólar koma að starfi þessara miðstöðva með sveitarfélögum og aðilum vinnumarkaðarins. Alþingi hefur veitt fé til miðstöðvanna á grundvelli samninga, sem þær hafa gert við menntamálaráðuneytið, en ráðuneytið hefur einnig styrkt aðra aðila á þessu sviði eins og til dæmis Símennt.is, sem er einkarekin.

Símenntunarstöðvarnar á landsbyggðinni eru aðeins að nokkrum hluta kostaðar af skattfé almennings á grundvelli samninga. Miklu skiptir, að sveitarfélög, fyrirtæki á viðkomandi svæði og launþegasamtök skapi miðstöðvunum tekjur með því að láta þær sjá um endurmenntun starfsmanna sinna og styrki þannig rekstrargrundvöll þeirra. Miðstöðvunum hefur verið lýst þannig, að þær séu umboðsaðilar fyrir menntun, sem fengin er frá öðrum auk þess sem þær sérhanna námskeið fyrir þá, sem þess þurfa. Þannig veita þær bæði einstaklingum og fyrirtækjum þjónustu. Námskeiðagjöld og þóknun fyrir þessa þjónustu skapa stöðvunum sértekjur.


Samhliða því sem þessar miðstöðvar hafa verið að festast í sessi hefur orðið bylting í fjarnámi í landinu. Ég kveð svo fast að orði vegna þess, að á haustönn 2001 voru samkvæmt upplýsingum menntamálaráðuneytisins alls 1051 nemandi skráður í nám með fjarkennslusniði í framhaldsskólum og alls 1101 nemandi í háskólum eða samtals 2152 nemendur. Á haustönn 2000 voru alls 514 nemendur skráðir í nám með fjarkennslusniði á framhaldsskólastigi og 944 á háskólastigi. Nemendum í fjarnámi hefur því fjölgað um 694 á milli áranna eða um rúmlega 47%. Má geta þess, að síðastliðið haust voru um 100 manns á Vestfjörðum innritaðir í háskólanám með fjarkennslusniði.

Slíkt nám hefur komið sér vel fyrir marga, sem sinna opinberum störfum, ekki síst í grunnskólum og leikskólum en í Kennaraháskóla Íslands eru til dæmis álíka margir í fjarnámi og á hefðbundnum skólabekk. Hefur menntamálaráðuneytið lagt á það verulega áherslu síðasta ár að kynna það, sem við köllum dreifnám, það er blöndu að staðbundnu námi í skóla og fjarnámi. Í því felst, að hefðbundin stundatafla er brotin upp og nemendur eru ekki endilega á sama stað á sömu stundu samkvæmt fyrirfram ákveðnu skipulagi. Ekkert er því til fyrirstöðu að stunda dreifnám við fleiri en einn skóla samtímis. Dreifskóli verður ekki til í einni svipan heldur er hér um þróun að ræða, sem byggist á samverkan ólíkra þátta, og mun vafalaust taka nokkur ár að stilla þá strengi saman. Þessi nýi skóli mun hins vegar enn frekar stuðla að því að skilin milli hins formlega náms og símenntunar verða minni.

Ég legg áherslu á það, að hvort sem menn kalla endurmenntun símenntun eða starfsfræðslu, missi þeir ekki sjónar á menntunargildi þess, sem í boði er, það er líti ekki á menntunina sem félagslegt úrræði heldur viðfangsefni með tilgang í sjálfu sér til að styrkja þann, sem námið stundar. Er áherslan á þennan þátt áréttuð með því að fela menntamálaráðuneytinu yfirstjórn símenntunarmála.

Síðan 1998 hefur ráðuneytið unnið að því að efla símenntun undir forystu sérstakrar verkefnisstjórnar, sem setti sér markmið til fimm ára í ellefu liðum. Hefur þetta starf þegar skilað góðum árangri og verður því haldið áfram og þróað í samræmi við nýjar og breyttar kröfur.

Góðir áheyrendur!

Ég hef haft það fyrir reglu þau tæpu sjö ár, sem ég hef gegnt embætti menntamálaráðherra, að efna öðru hverju til funda með starfsmönnum einstakra deilda eða skrifstofa ráðuneytisins til að ræða önnur málefni en þau, sem krefjast daglegrar afgreiðslu, það er hið almenna starfsumhverfi og það, sem má betur fara í því og höfum við einmitt verið að slíkum fundum nú í þessari viku.

Að þessu sinni er mér mikið í mun að ræða við samstarfsmenn mína um þekkingarstjórnun og leiðir til að efla almenna upplýsingamiðlun innan ráðuneytisins til að skapa sem öflugasta liðsheild. Í hugtakinu þekkingarstjórnun felst að mínu mati viðleitni til að virkja sem mesta þekkingu og reynslu innan viðkomandi stofnunar eða fyrirtækis við úrlausn mála, þannig að tryggt sé að öll sjónarmið fái notið sín í því skyni að ná sem bestum árangri.

Ég er þeirrar skoðunar, að það stuðli ekki aðeins að góðri og vandaðari stjórnsýslu að embættismenn tileinki sér þessar starfsaðferðir, heldur felist í því tækifæri til endurmenntunar, því að öllum hættir okkur til þess að sitja ekki aðeins föst í sófanum heldur einnig í þeirri trú, að við vitum allt best og þurfum ekki endilega að fara í smiðju til annarra við úrlausn einstakra verkefna.

Á vinnustað okkar gefast fjölmörg tækifæri til menntunar og þekkingaröflunar og miðlunar, ef við skilgreinum viðfangsefni á þeim forsendum. Þess vegna er oft gott að stíga fyrstu skrefin á endurmenntunarbrautinni þar og sjá síðan hvert sú ganga leiðir okkur.