12.1.2002

Stólar Péturs


Stólar Péturs,
Hönnunarsafn Íslands,
12. janúar, 2002.



Sagnorðið að hanna og nafnorðið hönnun voru að ryðja sér rúms í íslenskri tungu á fyrri hluta sjöunda áratugarins, um þær mundir, sem Pétur B. Lúthersson var að ljúka prófi við Kunsthåndværkerskolen í Kaupmannahöfn, en ég minnist þess vel frá menntaskólaárum mínum, að við strákarnir vorum að velta þessum framandlegu orðum fyrir okkur og hvort þau mundu vinna sér sess í tungunni.

Við vitum nú, að það hefur gerst, og ekki nóg með að orðin eru ekki lengur framandi, heldur er sífellt að sannast betur, að aðeins með vandaðri og spennandi hönnun er þess að vænta, að menn slái í gegn með nýja vöru, sama hvers eðlis hún er, eða nýjar hugmyndir. Við lifum í heimi, þar sem góð hönnun er lykill að velgengni á flestum sviðum. Og í ljósi þess er ánægjulegt að fylgjast með því, hve mikill áhugi er á hönnunarnámi í íslenskum skólum og nú er unnt að stunda það hér á háskólastigi í Listaháskóla Íslands.

Allt frá því Pétur kom frá námi í Danmörku um miðjan sjöunda áratuginn hefur hann verið fremstur í flokki íslenskra húsgagnahönnuða og náð meiri árangri erlendis en flestir aðrir. Er því sérstakt gleðiefni að fá nú tækifæri til að kynnast hugmyndaflugi hans og handbragði hér á þessari sýningu.

Hin veglega sýningarskrá geymir ekki aðeins fróðlegar upplýsingar um ævi og verk Péturs B. Lútherssonar heldur er útlit hennar og prentun til marks um gott íslenskt handbragð og hönnun.

Þegar við kynnumst starfsferli Péturs fræðumst við ekki aðeins um mikinn og merkan árangur hans á starfssviði sínu heldur er þar að finna gagnlegan lærdóm um viðskipti íslenskra húsgagnafyrirtækja út á við, sem hófust með markvissum hætti með aðild Íslands að EFTA, fríverslunarsamtökum Evrópu, árið 1970. Reynslan, oft dýrkeypt, kenndi með árunum, að hönnun væri forsenda árangurs við sölu á íslenskum vörum á erlendum mörkuðum.

Aðalsteinn Ingólfsson safnstjóri spyr Pétur á einum stað í samtali þeirra í sýningarskránni: Var þessi reynsla til þess að þú misstir endanlega trúna á að hægt væri að framleiða íslensk húsgögn til útflutnings? Og Pétur svarar: Út af fyrir sig hef ég aldrei misst trúna á að það verði einhvern tíma hægt. En viðhorfin þurfa að breytast. Það verður tæplega fyrr en harðduglegir kaupsýslumenn fara að stunda útflutning á íslenskum húsgögnum og hönnun af sama krafti og þeir sem flytja inn vörurnar. Hönnun þarf líka að vera góð, það segir sig sjálft.

Já, góðir áheyrendur, viðhorfin verða að þróast og taka mið af nýjum kröfum, hvort heldur við bætum nýjum orðum við móðurmálið eða skilgreinum sóknarfæri á nýjan hátt. Sýning á munum, sem búa yfir metnaði í hönnun, er til dæmis óhjákvæmileg forsenda framtíðarsóknar. Er fagnaðarefni, að Hönnunarsafn Íslands efnir nú til fyrstu íslensku sýningar sinnar hér á þessum stað og ekki er aðeins unnt að dást að stólum Péturs B. Lútherssonar hér við Garðatorg því að þeir eru nú einnig til sýnis í Listasafni ASÍ í Ásmundarsal við Freyjugötu í Reykjavík.

Um leið og ég óska Pétri og Hönnunarsafni Íslands til hamingju með þessa tímabæru og metnaðarfullu sýningu vil ég þakka bæjarstjóra og bæjarstjórn Garðabæjar áhuga á því að efla safnið og gera það að tvíhliða samstarfsverkefni bæjarins og menntamálaráðuneytisins fyrir hönd ríkisins. Metnaður Garðabæjar í þessu efni er mikils virði og vil ég, að hann verði virkjaður sem best í þágu safnsins.

Ég lýsi sýninguna Stólar Péturs opna.