7.8.1998

Kennaraskortur - Morgunblaðsgrein

Grein í Morgunblaðinu 7. ágúst 1998

Mikil þörf fyrir kennara
MARGIR skólastjórnendur gera nú úrslitatilraun til að ráða kennara til starfa. Öll höfum við orðið vör við auglýsingar, þar sem gripið er til ýmissa úrræða til að ná athygli þeirra, sem hafa réttindi til að kenna í grunnskólum og framhaldsskólum, í því augnamiði að fá að njóta starfskrafta þeirra. Af hálfu menntamálaráðuneytisins skal stuðlað að því að unnt sé að starfrækja skóla.

Sæki enginn grunnskólakennari eða framhaldsskólakennari um auglýst kennslustarf þrátt fyrir ítrekaðar auglýsingar getur skólastjóri eða skólameistari sótt um heimild til undanþágunefnda grunnskóla eða framhaldsskóla við menntamálaráðuneytið um að lausráða tiltekinn starfsmann til kennslustarfa til bráðabirgða, þó aldrei lengur en til eins árs í senn. Undanþágunefnd metur umsóknir og úrskurðar hvort heimila skuli að lausráða umsækjanda. Unnt er að skjóta ákvörðun undanþágunefndar til menntamálaráðherra, sem tekur lokaákvörðun í málinu.

Nokkrar umræður hafa orðið um, hvort of strangar kröfur um menntun í kennslufræðum hafi fælt menn frá því að starfa í skólum, einkum framhaldsskólum. Ný lög um þetta efni voru samþykkt á Alþingi síðastliðið vor. Samkvæmt þeim er krafist færri eininga í kennslufræðum en áður, 15 eininga í stað 30, ef menntun í faggrein eða á fagsviði í framhaldsskóla jafngildir að minnsta kosti 120 einingum ásamt fullgildum lokaprófum. Þetta á einnig við, þegar einstaklingur hefur lokið námi í tæknifræði eða meistaranámi í iðngrein, enda hafi hann starfsreynslu og hafi haft nema í samningsbundnu námi hjá sér. Nú eru gerðar kröfur um 15 einingar í kennslufræði hjá þessum einstaklingum í stað 30 eininga áður. Ættu þessar breytingar að auðvelda að fá fólk með góða framhaldsmenntun til starfa í skólunum.

Í samræmi við hin nýju lagaákvæði er nú unnið að því að setja nánari reglur um framkvæmd þeirra, þar með starfsreglur fyrir undanþágunefndirnar, sem fjalla um óskir skólastjórnenda um heimild til að ráða einstaklinga án kennsluréttinda til starfa. Við meðferð mála þurfa nefndirnar að sjálfsögðu að fara að stjórnsýslulögum.

Mat vegna grunnskóla

Töluverðar umræður hafa verið um skort á kennurum með full réttindi, einkum í grunnskólum. Til þess að meta stöðuna eftir miklar breytingar á rekstrarumhverfi grunnskólans hef ég ákveðið að skipa nefnd sem er ætlað að kanna hve marga kennara þurfi í grunnskólunum fram til ársins 2010. Er það von mín, að nefndarskipanin leiði til þess að umræður um skort á grunnskólakennurum fari í þann farveg að fram komi tillögur er leysi vandann til langs tíma. Þrátt fyrir að menntamálaráðuneytið hafi heimilað Háskólanum á Akureyri að taka upp kennaranám og þótt fjarnám kennara fari vaxandi eru enn of fáir sem útskrifast árlega til að hægt sé að mæta vaxandi þörf fyrir kennara á grunnskólastigi. Þessi þörf helgast meðal annars af lengri skóladegi og því að ýmis sveitarfélög eru að fækka nemendum í bekkjum.

Nefndinni verður meðal annars ætlað að hafa hliðsjón af eftirfarandi í störfum sínum:

Ný grunnskólalög komast að fullu til framkvæmda á næstu árum, meðal annars með einsetningu í öllum skólum.
Sveitarfélög hafa nú rekið grunnskólann í tvö ár og eftir nýlegar sveitarstjórnarkosningar liggur stefna þeirra betur fyrir en áður, m.a. að því er varðar hagræðingu og sameiningu skóla og fjölda nemenda í bekkjum.
Næsta haust líta nýjar námskrár fyrir grunnskóla og framhaldsskóla dagsins ljós.
Reynsla hefur fengist af kennaranámi við Háskólann á Akureyri.
Kennaraháskóli Íslands tók til starfa undir nýjum formerkjum 1. janúar 1998.
Fyrir liggur úttekt á kennaranámi, þar sem rík áhersla er lögð á gildi endurmenntunar.
Auk þess að leggja mat á áhrif ofangreindra atriða er þess óskað að nefndin kanni raunverulega þörf fyrir nýmyndun í kennarastétt; árlega þörf á endurnýjun að meðaltali; hve stórt hlutfall réttindakennara er við kennslu; hve stór hluti útskrifaðra kennara fer í kennslu á hverju ári; þróun nemendafjölda; aldursdreifingu í kennarastétt og hvaða áhrif hár meðalaldur kennara hefur á fjölda stöðugilda.
Menntamálaráðuneytið hefur beitt sér fyrir auknu eftirliti með gæðum skólastarfs en fyrir utan fulltrúa ráðuneytisins hefur verið óskað eftir tilnefningum um nefndarmenn frá Kennaraháskóla Íslands, Háskólanum á Akureyri, Sambandi íslenskra sveitarfélaga og samtökum kennara, en í störfum sínum mun nefndin að sjálfsögðu einnig fjalla um öll önnur atriði, sem hún telur koma til álita við mat á kennaraþörfinni.

Mikilvægi kennarastarfsins

Í nýrri skólastefnu, sem ég kynnti síðastliðið vor, er lögð mikil áhersla á mikilvægi kennarastarfsins og skilvirkt innra starf í skólum, svo að menntun íslenskra nemenda standist strangar körfur. Stefnunni verður ekki hrundið í framkvæmd nema menntun kennara taki mið af henni. Þá er brýnt að gera skipulagt átak í endurmenntun kennara í samræmi við stefnuna og hinar nýju námskrár, sem birtast nú í haust.

Ný upplýsingatækni á einnig eftir að setja mikinn svip á starfið í kennslustofu framtíðarinnar og hafa áhrif á vinnubrögð og samskipti kennara og nemenda. Þegar litið er fram til ársins 2010 er nauðsynlegt að hafa þetta í huga.

Þörf fyrir vel menntaða kennara er mikil. Störf þeirra á að meta að verðleikum og auðvelda þau með góðu námsefni, skýrum markmiðum og skilgreindum kröfum um árangur.