18.9.2014

Framtíð Skotlands ræðst af Skotum sjálfum

Skotland IV


 

 

Þeir hjóluðu á fimm manna hjóli um miðborg Glasgow undir kvöld þriðjudags 16. september og sungu undir blaktandi já-flöggum: Hafið þið séð einhvern úr nei-hópnum? Hvar eru nei-mennirnir? Spurningarnar áttu rétt á sér því að það sáust engir nei-menn á götum borgarinnar þennan dag. Mikið bar hins vegar á já-mönnum í helstu verslunargötu borgarinnar. Þeir afhentu bæklinga og ræddu við fólk. Á götunum báru margir barmmerki – allir blátt já-merki.

Ed Miliband, leiðtogi breska Verkamannaflokksins, ætlaði að ganga um verslanamiðstöð í Edinborg fyrir nei-menn en varð frá að hverfa þegar aðsúgur var gerður að honum. Skoðanakannanir sýna þó aðeins meiri stuðning við nei en já að morgni síðasta dags fyrir kjördag.

Hvernig fóru nei-menn að því að tapa 22% forskoti á fáeinum vikum? Áttuðu þeir sig ekki á að baráttan yrði hörð og sjálfstæðissinnar mundu sækja í sig veðrið?  

Úr stjórnarráðinu í London hefur verið lekið upplýsingum um að forsætisráðherrann og aðrir ráðherrar hafi ekki tekið mark á viðvörunum embættismanna um nauðsyn þess að gera ráðstafanir til að tryggja að breska ríkið brotnaði ekki í sundur. Til varnar ríkisstjórninni er bent á að George Osborne fjármálaráðherra hafi fyrir mörgum mánuðum hvatt til hræðsluáróðurs vegna pundsins. Spurningin um gjaldmiðilinn er versta þraut sjálfstæðissinna.

Einstakt tækifæri

Í bæklingum sem já-menn dreifa á götum Glasgow er kostunum sem blasa við kjósendum lýst á þennan hátt:

Með því að segja nei verði auði Skotlands áfram sóað af ríkisstjórnum í Westminster sem Skotar kjósi ekki; Skotar búi áfram í landi þar sem ójöfnuður sé hinn fjórði versti í þróuðum löndum; niðurskurður verði aukinn um 25 milljarða punda; allt að 100.000 fleiri skosk börn búi við fátækt árið 2020; gjöreyðingarvopn verði áfram á skoskri jörð; loforð um aukin völd í hendur Skota verði svikin.

Með því að segja já verði auður Skotlands nýttur til að auka jöfnuð meðal þjóðarinnar; heilbrigðiskerfi Skotlands verði varið gegn einkavæðingu; fé verði nýtt í þágu barna í stað Trident [kjarnorkukafbáta]; eftirlaunaaldur lækki og eftirlaun hækki; aldrei oftar íhaldsstjórnir án stuðnings Skota; ákvarðanir um Skotland verði teknar af fólki sem beri hag Skota mest fyrir brjósti, Skotum sjálfum.

Þarna er ekki síst höfðað til kvenna og eftirlaunaþega, hópanna sem taldir eru ráða úrslitum að lokum.

Heitstrenging um breytingu

Þriðjudaginn 16. september birtist á forsíðu dagblaðsins Daily Record í Glasgow opið bréf frá formönnum stóru flokkanna, David Cameron, Ed Miliband og Nick Glegg, undir risafyrirsögninni: The Vow – heitstrengingin. Þeir lýsa samkomulagi sínu um vinna að breytingu fyrir Skotland.

Þeir lofa meira valdi til þings Skotlands. Þeir lofa betri stjórnarháttum á komandi árum. Sameinaða konungdæmið (UK) tryggi tækifæri og öryggi fyrir alla með nýtingu sameiginlegra auðlinda í allra þágu. Þing Skotlands hafi vald til að afla tekna og það muni eiga síðasta orð um fjárveitingar til heilbrigðismála (NHS) og áfram gildi reikniregla hagstæð Skotum við skiptingu fjár innan UK. Sterku rök fyrir samstöðu innan UK eigi að ráða framtíð þjóðarinnar. Þeir hafi þessi grundvallaratriði í heiðri, ekki aðeins fyrir þjóðaratkvæðagreiðsluna heldur einnig eftir hana. Fólk vilji breytingar og þær verði örari, öruggari og betri segi Skotar nei og hafni aðskilnaði.

Sjálfsstæðissinnar hafna heitstrengingunni sem síðbúnu yfirboði vegna ofsahræðslu leiðtoganna. Á þinginu í Westminister sætir hún einnig gagnrýni, biðlað sé til Skota á kostnað annarra landa inna konungdæmisins: Englands, Wales og Norður-Írlands.

Valdið til fólksins

Atkvæðagreiðslan um sjálfstæði Skotlands í dag einstakur viðburður. UM 4,2 milljón Skota, 97% af kosningabærum, 16 ára og eldri, hefur skráð sig til að taka ákvörðun um eigin framtíð á lýðræðislegan hátt.

Augu allra þjóða heims beinast að Skotum. Ákveði þeir að rjúfa 307 ára sameiningu við England fer bylgja sjálfsákvörðunarkröfu um Evrópu og heiminn allan. Hafni þeir sjálfstæði verður Sameinaða konungdæmið, Stóra-Bretland, aldrei hið sama á ný.