17.9.2014

Að segja skilið við ráðamenn í London og ganga í faðm Brusselmanna

Skotland III



 

Í Buchanan-stræti í hjarta Glasgow syngja já-menn baráttusöngva og dreifa áróðursmiðum tæpum tveimur sólarhringum áður en kjördagurinn gengur í garð. Róttækir sósíalistar hvetja vegfarendur til að losa Skota við Íhaldsflokkinn í eitt skipti fyrir öll. Konur í þágu sjálfstæðis segja að það muni tryggja gjaldfrjálsan leikskóla í 30 tíma á viku fyrir tveggja til fögurra ára börn að slíta sambandið við Englendinga. Hvergí sést neinn sambandssinni flytja nei-boðskap sinn.  Einmana maður situr á bekk og heldur á spjaldi þar sem segir: Síðasti hlátur fyrir borgarastríðið!

Hvergi er minnst að Evrópusambandið.  Sumir telja meiri líkur á að Skotar verði áfram aðilar að ESB stigi þeir skrefið til sjálfstæðis en verði þeir áfram í sambandi við Englendinga. Enginn viti hver verði niðurstaða Englendinga um aðild að ESB. Boðað hafi verið að þeir greiði atkvæði um hana árið 2017 vinni Íhaldsflokkurinn þingkosningar árið 2015.

Ástæðuna fyrir dálæti Skota á ESB er afskiptaleysi stjórnvalda í London af jaðarbyggðum í Skotlandi. Skotar hafa einfaldlega fengið meiri stuðning frá framkvæmdastjórn ESB í Brussel til innviða samfélagsins en úr breska ríkissjóðnum.

Í skjali sem utanríkisráðuneyti Íslands sendi til Brussel í umsóknarferlinu segir meðal annars að Ísland sé „fámennt og afar strjálbýlt eyríki, staðsett á norðurslóðum, þar sem vegalengdir eru langar, bæði innanlands og til næstu Evrópuríkja og aðstæður áþekkar og á ystu svæðum Evrópusambandsins sem njóta sérstakrar stöðu“.

Í þessu íslenska skjali er greinilega vísað til Skotlands en einnig heimskautasvæða í Finnlandi og Svíþjóð. Breskir fjölmiðlar  gagnrýndu hins vegar ESB harðlega fyrir að hafa styrkt verkefnið Katla jarðvangur þar sem Íslendingar væru mun ríkari en Bretar. Spurning er hvort Skotar verði ríkari en Englendingar.

Ríkidæmi Skotlands

Meginsvar skoskra sjálfstæðissinna við fullyrðingum sambandssinna um að Skotar hafi ekki fjárhagslega burði til að standa á eigin fótum er að hagur þeirra muni blómstra undir eigin stjórn. Skotland verði orkubúr Englands og ESB. Arður af nýtingu auðlinda renni ekki til London heldur skapi ný verðmæti í skoskum höndum.

Gangi spádómar sjálfstæðissinna eftir verða Skotar meðal auðugustu þjóða Evrópu og þess vegna er jafnhæpið að þeir verði áfram styrkþegar ESB og að Íslendingar kæmust á byggðastyrkjaspena sambandsins rættist aðildardraumurinn.

Fyrir þá sem eru andvígir aðild að ESB felst óskiljanleg þversögn í þrá skoskra sjálfstæðissinna eftir að losna undan stjórn ráðamanna í London til að fara milliliðalaust undir yfirþjóðlegt vald ESB-kerfisins. Í raun má þó líta á þetta sem þyngsta áfellisdóminn yfir hve illa ráðamenn í Westminster hafa haldið á málum Skotlands.  

ESB-aðildarferli á gráu svæði

Í nokkrum ríkjum Evrópusambandsins óttast ráðamenn að sjálfstæðisfordæmi frá Skotum leiði til sambærilegra hreyfinga í eigin löndum. Framkvæmdastjórn ESB hefur lagt þessum ráðamönnum lið og sagt að Skotar verði ekki sjálfkrafa áfram í ESB heldur verði þeir að semja um aðild eins og umsóknarríki.

Um miðjan júlí kynnti Jean-Claude Juncker, verðandi forseti framkvæmdastjórnar ESB, stefnu sína. Hann sagði að ESB stækkaði ekki næstu fimm árin. Þetta gripu sambandssinnar í Skotlandi á lofti og sögðu ljóst að sjálfstætt Skotland yrði eitt og einangrað utan ESB til 2019.

Sjálfstæðissinnar sögðu þetta útúrsnúning á orðum Junckers og talsmaður hans sagði að hvergi hefði Juncker minnst á Skotland. Það væri „algjörlega aðskilið mál“. Þetta væri innramál Sameinaða konungdæmisins (UK) og hann mundi virða niðurstöðu skosku þjóðaratkvæðagreiðslunnar.

Augljóst er að þarna er grátt svæði. Sjálfstæðissinnar segja að þeir muni eyða öllum vafa um ESB-aðildi á 18 mánuðum sem líða frá 18. september 2014 þar til Skotland verður sjálfstætt, vilji þjóðin sjálfstæði.

Verða að fara út til að komast inn

Olli Rehn, fyrrverandi stækkunarstjóri og efnahagsmálastjóri ESB, blandaði sér í skosku sjálfstæðisumræðurnar með bréfi til varafjármálaráðherra Breta nú í september. Hann sagði sjálfstæði Skota leiða til ESB-úrsagnar og þeir yrðu að sækja um til að komast inn að nýju.

Umsókn krefðist þess að þeir hefðu eigin mynt og seðlabanka. Þeir gætu því ekki notað sterlingspund sem gjaldmiðil og Englandsbanka sem seðlabanka að fengnu sjálfstæði, vildu þeir aðild að ESB. Þeir gætu ekki heldur leyst vandann með einhliða upptöku evru. Það væri bannað eins og Íslendingar vissu eftir samskipti sín við ESB: umsóknarríki yrði að halda úti eigin seðlabanka.