16.9.2014

Þjóðleg gildi vega þyngra en peningarnir

Skotland II




 

Eftir að skoðanakönnun í Skotlandi sýndi sunnudaginn 7. september að meirihluti kynni að styðja sjálfstæði landsins í þjóðaratkvæðagreiðslunni 18. september greip ritstjórn vikuritsins The Spectator í London til þess óvenjulega ráðs að senda ákall til lesenda sinna. Fór ritstjórnin þess á leit á netinu að lesendurnir skrifuðu bréf til Skota og hvettu þá til að halda áfram sambandinu við England, Wales og Norður-Írland undir merki Stóra-Bretlands eða Sameinaða konungdæmisins með því að merkja við nei á kjördag.

Rúmlega fjórar milljónir manna eru á kjörskrá í Skotlandi. Í leiðara The Spectator fimmtudaginn 11. september sagði að atkvæði þessa fólks mundi hafa áhrif á þær 64 milljónir manna sem búa í Sameinaða konungdæminu. Um 60 milljónir þeirra fengju ekki að kjósa um það en þeir gætu látið rödd sína heyrast meðal annars á síðum blaðsins. Birtist lítið brot af hundruð bréfa í þessu hefti vikuritsins.

Þeir sem berjast gegn sjálfstæði Skotlands og ráða för í samtökunum Better Together leggja mesta áherslu á neikvæðar fjárhagslegar afleiðingar þess segi Skotar já. Allt verði dýrara, fyrirtæki flytjist á brott, óvissa verði um gjaldmiðilinn, olíuvinnsla dragist saman, skattar hækki o.s.frv. o.sfrv.

Þegar bréfin í The Spectator eru lesin vekur sérstaka athygli að bréfritarar vekja ekki máls á efnahagslegum eða fjárhagslegum atriðum. Ritstjóri The Spectator segir: „Enginn þeirra sem skrifaði okkur fullyrti að Skotar gætu ekki staðið á eigin fótum og enginn virtist hafa áhuga á tilboði um aukna heimastjórn [Skota]. Fólk hafði áhyggjur af Bretlandi, gildum þess, og því sem kynni að verða eyðilagt yrði landið brotið í tvennt.“

Hræðsluáróður

Þegar Íslendingur kynnist hræðsluáróðrinum sem flæðir yfir Skota kemur Iceasave-málið í hugann. Stuðningsmenn Icesave-samninganna lögðu mesta áherslu á fjárhagslega hlið málsins og stjórnendur stórfyrirtækja fluttu mál sitt á svipaðan hátt og forstjórarnir sem leggjast gegn sjálfstæði Skota.

Í Icesave-málinu myndaðist elítustuðningur við samningana, án þeirra yrðu Íslendingar litnir hornauga í samfélagi siðaðra þjóða. Samhljómur var milli talsmanna samninganna hér og ráðamanna í London. Þetta ýtti örugglega undir andstöðuna við Icesave meðal íslenskra kjósenda.

Sjaldan tekst Ólafi Ragnari Grímssyni, forseta Íslands, betur upp við gæslu hagsmuna þjóðarinnar út á við en þegar hann tekur sjónvarpssyrpu gegn Gordon Brown og Alistair Darling, stjörnu-stjórnmálamönnum Verkamannaflokksins, höfuðandstæðingum Alex Salmonds, forsætisráðherra Skotlands. Sjálfstæðissinnar í Skotlandi gætu nýtt sér stóryrði forsetans til að sýna hvernig ráðamenn í London níðast á norðlægri smáþjóð, þjóni það hagsmunum þeirra.

Afstaða blaða

Eins og jafnan í harðri baráttu skiptir afstaða fjölmiðla máli. Alex Salmond telur BBC draga taum sambandssinna og gagnrýndi harðlega fimmtudaginn 11. september að breska fjármálaráðuneytið hefði lekið því til BBC að Royal Bank of Scotland ætlaði að flytja höfuðstöðvar sínar yrði Skotland sjálfstætt. Hann sagði einnig að slíkur flutningur á messingplötu breytti engu!

Eins og við var að búast af elítublaði tók The Financial Times afstöðu gegn sjálfstæði Skotlands og sagði í leiðara fimmtudaginn 11. september: „Sagan geymir dæmi um uppbrot heimsvelda og þjóðríkja en fá fordæmi eru fyrir því að stöðugt, nútíma lýðræðisríki splundrist á friðartímum þegar leiðin til efnahagslegrar endurreisnar er hálfnuð. Þetta er ekki tíminn fyrir gagnkvæmar ásakanir. Á þessu stigi er nóg fyrir þetta blað að segja að óráð sé að fara braut aðskilnaðar, hún er bæði hættuleg og óviss.“

Sama dag lýsti annað elítublað, The Scotsman sem hefur komið út síðan 1817 og gefið er út í tæplega 29.000 eintökum, yfir andstöðu við sjálfstæði í leiðara sínum og sagði:

„Varpar sambandið svörtum skugga yfir okkur? Svo virðist ekki vera. Skotland er blómlegt, friðsælt, árangursríkt land. Við erum viss um þjóðareinkenni okkar og samfélag okkar hefur sín sérkenni. Við eigum okkur sögu og menningararfleifð.

Þegar litið er á kostina sem við blasa er niðurstaðan að okkur vegni betur sameinuð, að bestu hagsmunir Skotlands felist ekki í að skapa sundrungu heldur að halda áfram innan sambandsins og nýta styrk þess til að halda áfram að ná árangri.“