22.8.1998

Erfðarannsóknir og gagnagrunnur

22. ágúst 1998

Ráðstefna SUS um erfðarannsóknir og gagnagrunna

(Þessi texti er að mestu leyti endursögn af því, sem flutt var af lauslegum punktum í lok ráðstefnunnar.)

Hlutverk mitt hér á þessari ráðstefnu er að draga saman nokkrar niðurstöður. Það er ekki auðvelt verk eftir þau yfirgripsmiklu erindi, sem hér hafa verið flutt.

Við höfum fengið mikinn fróðleik um viðfangsefni, sem ekki verður undan vikist að sinna með skipulegum hætti og með afskiptum löggjafans, sem þó verður að taka mið af þeim viðvörunarorðum, að með óskynsamlegum og vanhugsuðum lagaákvæðum er unnt að stöðva og hindra þróun ekki síður en ýta undir framfarir. Hefur verið nefnt dæmi um það frá Þýskalandi hér á ráðstefnunni.

Ræðumenn voru á einu máli um, að nýta ætti upplýsingar úr íslensku heilbrigðiskerfi til að mynda gagnagrunn í því skyni að tryggja heilsufræðilegan ávinning og ekki ætti að útiloka fjárhagslegan ávinning eða banna hann, hvort sem grunnurinn leiddi til aukinnar hagkvæmni í rekstri heilbrigiskerfisins eða nýttist sjálfur til að skapa ný fjárhagsleg verðmæti.

Þá var það einnig niðurstaða, að búa ætti þannig um hnúta, að einstaklingar gætu komið í veg fyrir, að upplýsingar um þá kæmust inn í grunninn. Unnt væri að gera þetta með tiltölulega einföldum hætti með því að heimila tilkynningar til Hagstofu Íslands eða með því að merkja við reit á skattskýrslunni. Sérstaklega var tekið fram, að huga þyrfti að upplýsingum um látið fólk og hvernig tekið yrði á rétti þess. Læknisfræðin hlýtur að hafa glímt við þennan vanda og hafa þróað aðferðir til að leysa hann, þær á að nota í þessu tilliti. Varað hefur verið við upplýsingasöfnun varðandi geðræna sjúkdóma, þegar það er rætt, má minna á, að við Árósarháskóla í Danmörku hefur verið safnað upplýsingum um alla, sem hafa verið lagðir inn á dönsk sjúkrahús vegna geðklofa eða þunglyndis. Úr þessum gagnagrunni er miðlað við hvers kyns rannsóknir. Við Íslendingar höfum sætt okkur við mikla skráningu á einkamálaefnum okkar og gengið langt í því efni, þegar borið er saman við aðrar þjóðir. Hvers vegna skyldum við vera á móti því, að dulkóðaðar séu þessar upplýsingar notaðar til að finna lækningu við sjúkdómum? Hvers vegna skyldum við vera á móti því, að þessar upplýsingar séu notaðar til að skapa ný störf í hátæknigreinum? Hvers vegna skyldum við vera á móti því, að þessar upplýsingar séu notaðar til að skapa nýjar tekjur?

Bent var á, að miðlægur gagnagrunnur væri ekki skýrt hugtak, óljóst væri hvað í því fælist. Er ljóst, að þetta þarf að skýra nánar við meðferð málsins. Þá þarf að taka af skarið um það, að ekki sé með einkaleyfi á slíkum grunni verið að útiloka aðra frá því að stunda rannsóknir, einkaleyfið má ekki leiða til einokunar á rannsóknum, vísindi þróast ekki nema rannsóknir séu frjálsar. Fram kom að verkaskipting kynni að verða á milli þeirra, sem stunda rannsóknir, sem byggjast á grunninum.

Spyrja má, hvort sérstakt frumvarp um gagnagrunn á heilbrigðissviði sé flutt vegna þess, að ákvörðun um að heimila einum aðila að framleiða og reka slíkan grunn sé svo viðamikil og afdrifarík, að um það þurfi séstakan lagabálk. Fram kom, að það er stigsmunur á þessum miðlæga grunni en ekki eðlismunur í samanburði við aðra grunna, að eftirlitið með þessum grunni yrði flókið og erfitt vegna þess að það eru ekki aðeins heilsufarsupplýsingar, sem eru skráðar, heldur einnið lýðfræðilegar og þær, sem varða daglegt líf okkar.

Þegar litið er til framtíðar vil ég leggja áherslu á eftirtalin sex meginþætti:

Tölvur og samskiptanet gera okkur kleift að safna og miðla upplýsingum og þekkingu með nýjum og byltingarkenndum hætti.
Hin nýja tækni nýtist á öllum sviðum og vegna hennar verða til ný verðmæti. Þau setja æ meiri svip á athafna- og viðskiptalíf. Vegna þessa eru þjóðfélög skilgreind með nýjum hætti og við ræðum um þekkingar- eða upplýsingaþjóðfélög. Staða einstaklingsins er einnig skilgreind á annan hátt en áður, sjálfstæði hans eykst og menn ræða nú um hinn fullvalda einstakling, sem býr sjálfur yfir miklum verðmætum, það er eigin hugmyndaauðgi og henni megi á tiltölulega auðveldan hátt breyta í fjárhagslegan ávinning, ef rétt er að málum staðið.
Þróun í þessa átt er hröðust í þeim löndum, sem við Íslendingar teljum helstu samstarfs- og samkeppnisþjóðir okkar. Við getum ekki setið með hendur í skauti í trausti þess, að náttúruauðlindir til sjávar og sveita dugi til að tryggja okkur áfram sess í fremstu röð, þegar lagt er mat á efnahagslegan styrkleika þjóða og lífskjör þeirra.
Hinar nýju aðstæður eru að mörgu leyti mjög hagstæðar fámennum ríkjum. Þau geta náð utan um verkefni fyrir tilstilli hinnar nýju tækni, sem þykja of risavaxin meðal fjölmennari þjóða. Lausnir á heimavelli má síðan á tiltölulega auðveldan hátt færa yfir á stærri heildir.
Best er brugðist við þessari þróun með því að stuðla að rannsóknum og vísindum og með því að skapa frumkvöðlum á öllum sviðum þekkingariðnaðarins sem best starfsskilyrði.
Með því að styrkja forsendur fyrir starfsemi kröfuharðra fyrirtækja í þekkingariðnaði er jafnframt verið að treysta innviði mennta- og rannsóknastofnana. Skapaður er starfsvettvangur fyrir vel menntað fólk, sem keppir við hið besta á heimsvísu.
Þegar rætt er um viðfangsefni þessarar ráðstefnu er nauðsynlegt að hafa þessi sex meginatriði að leiðarljósi. Við erum hér að takast á við mikilvægan þátt hins nýja þekkingarþjóðfélags, þegar upplýsingatækni og líftækni samienast og hvernig eigi að fara með upplýsingar um heilsufar og sjúkdóma, þegar unnt er að breyta þeim í ný verðmæti með hinni nýju tækni.
Við stöndum frammi fyrir því, hvort setja þurfi um efnið sérstök lög eða hvort unnt er að byggja á almennum reglum um gagnagrunna og þá vernd, sem þeir eiga að njóta og einstaklingar gagnvart þeim með tilliti til persónuverndar. Frumvarp um sérstaka löggjöf liggur fyrir. Það hefur verið kynnt hér og er til umsagnar hjá sérfróðum aðilum. Málinu verður að ljúka með skipulegum og skynsamlegum hætti, deilur um það eiga ekki að vera langvinnar.

Þegar rætt er um sérstakt frumvarp um miðlægan gagnagrunn á heilbrigðissviði er rétt að minna á, að unnið er að því í ríkjum á evrópska efnahagssvæðinu að semja almenna, innlenda löggjöf um réttarvernd gagnagrunna á grundvelli tilskipunar Evrópusambandsins 96/9/EC frá 11. mars 1996. Er þessi vinna unnin á vegum menntamálaráðuneytisins hér á landi en höfundaréttarlöggjöfin heyrir undir það og er frumvarp um efnið væntanlegt nú í haust. Sé ég ekki vísað til þessarar tilskipunar í greinargerðinni með frumvarpinu um miðlægan gagnagrunn á heilbrigðissviði.

Gagnagrunnur er samkvæmt skilgreiningu Evrópusambandsins safn sjálfstæðra verka sem er raðað á ákveðinn skipulagðan hátt og unnt er að nálgast hvert fyrir sig. Samkvæmt tilskipuninni ber ávallt að vernda rétt framleiðanda gagnagrunns, en framleiðandi er sá, sem hefur frumkvæði að gerð grunnsins og tekur fjárhagslega ábyrgð vegna þess. Þannig er leitast við að tryggja að fjárfesting til að afla, sannreyna eða setja efni í gagnagrunn sé varin í ákveðinn tíma, það er í 15 ár frá því að smíði grunnsins lauk. Felst verndin í því að koma í veg fyrir óleyfilega nýtingu á því, sem í grunninum er. Þar sem samin hefur verið löggjöf á grundvelli tilskipunarinnar á Norðurlöndunum er ekki gerður munur á réttarvernd höfundar og framleiðanda, báðum er veittur einkaréttur til að leyfa tiltekin afnot.

Tek ég undir með forsætisráðherra, að einkaleyfi á gagnagrunni brýtur ekki í bága við hefðir okkar, þegar litið er til höfundarréttar og verndar á hvers kyns hugverkum og uppfinningum. Ég ítreka, að einkaleyfi er ekki sama og einokun og frelsi til rannsókna verður að tryggja.

Fyrirtæki sérhæfa sig í því að reka gagnagrunna og tileinka sér þá tækni, sem er nauðsynleg til að uppfylla kröfur um persónuvernd hverju sinni. Þau hafa síðan tekjur af því að selja aðgang að grunninum. Lykilatriði til að tryggja öryggi ætti að vera að ekki sé á sömu hendi að safna upplýsingum, til dæmis úr heilbrigðiskerfinu, dulkóða þær til að tryggja persónuvernd og nýta upplýsingarnar. Sé þannig um hnúta búið ætti að vera unnt að tryggja persónulega vernd og sjá til þess að allir sitji við sama borð í rannsóknum á gögnum úr grunninum.

Hlutverk ríkisstjórnar og löggjafarvalds er að setja almennar leikreglur á þessu sviði eins og öðrum. Markmiðið á að vera að tryggja í senn frelsi og rétt einstaklinga, frelsi þeirra til að nýta hug sinn og hönd til að skapa ný verðmæti og rétt þeirra til friðhelgis um einkamál. Takist okkur að ná sátt um slíka niðurstöðu erum við ekki aðeins að vinna eigin þjóð mikið gagn heldur öllu mannkyni.