6.10.2001

Listmenntun - Fjársjóður til framtíðar

Fjársjóður til framtíðar
Ráðstefna um listmenntun í skólum
haldin í Borgarleikhúsinu 6. október 2001.



Beethoven, Jón Leifs, Van Gogh, Ásgrímur Jónsson, endurreisnartímabilið, impressionismi, dadaismi, Anna Karenina, Jökull Jakobsson.

Ég á von á því eftir þessa upptalningu að einhverjar bjöllur klingi í huga okkar allra og veki mismunandi sterk tilfinningaviðbrögð háð því hvað við þekkjum og hvers við höfum lært að njóta. En er hið sama hægt að segja um börnin okkar? Þekkja þau strauma og stefnur í listum? Hafa hæfileikar þeirra verið ræktaðir eða ýtt undir þá? Höfum við sem foreldrar og aðstandendur gert það – eða hafa skólarnir gert það?

Kenningar Howards Gardners, prófessors í sálar- og menntunarfræðum við Harvard-háskóla, um átta þætti mannlegrar greindar hafa hlotið mikla athygli og margir hafa hrifist af fjölgreindarkenningu hans. Gardner segir skólakerfið hafa lagt of mikla áherslu á of fáa hæfileika og þar með sniðgengið margþættar námsgáfur skólabarna. Greindirnar átta nefnast málgreind, rök- og stærðfræðigreind, rýmisgreind, hreyfigreind, tónlistargreind, samskiptagreind, sjálfsþekkingargreind og umhverfisgreind. Eitt af átta skilyrðum Gardners fyrir nafngiftinni “greind” er að hægt sé að finna höfuðstöðvar hennar í heilanum, t.d. má finna tónlistargreindina í hægra gagnaugageira.

Fjölgreindarkenningin stuðlar að því að fleiri einstaklingar en ekki fái notið sín í skólastofunni og hún varpar skýru ljósi á það sem margir skólamenn gerðu sér óljósa grein fyrir, að skólinn hafi lagt áherslu á alltof fáa hæfileika, þ.e. aðallega þætti sem flokkast undir málgreind og rök- og stærðfræðigreind. Erla Kristjánsdóttir, lektor við Kennaraháskóla Íslands, kynntist fjölgreindarkenningu Gardners er hún nam við Harvard-háskólann og hefur haldi henni á loft hérlendis. Hún segir meðal annars í viðtali við Morgunblaðið fyrr á þessu ári að sagan og samfélagið ákveði vissulega á hverjum tíma hvaða greind er mest metin. Vestræn samfélög hafi hampað mál- og rökgreind en til séu önnur samfélög þar sem t.d. tónlistar- og hreyfigreind séu í mestum metum. Erla segir ennfremur að kenning Gardners hafi orðið vinsæl meðal kennara vegna þess að þeir hafi alltaf vitað að börn hafi mismunandi hæfileika, að sum þeirra séu góð í stærðfræði og önnur í dansi eða fótbolta. Unnið er með kenningu Gardners í skólastofunni á þrennan hátt: Í fyrsta lagi með því að kenna þær hefðbundnu námsgreinar sem höfða til samsvarandi greinda, í öðru lagi með því að gefa nemendum kost á því að nota greind eða greindir þar sem þeir eru sterkir til að læra ýmis viðfangsefni, t.d. tónlistargreind til að læra stærðfræði og í þriðja lagi með því að fræða nemendur um greindirnar og hjálpa þeim við að þróa og þroska þær allar. Ég fagna því að fjölgreindarkenning Gardners er til umræðu á meðal skólafólks en það mun án efa leiða til þess að kennarar nálgist nemendur á nýjan hátt sem síðan leiðir til þess að einstaklingurinn fær sín betur notið í námi. Mér finnst það grundvallarskilyrði að þörfum nemenda sé mætt á sem fjölbreyttastan hátt og birtist það meðal annars í auknu valfrelsi nemenda og sveigjanleika í námi í nýrri aðalnámskrá.

Í aðalnámskrám fyrir leik,- grunn- og framhaldskóla sem tóku gildi árið 1999 eru skilgreind markmið í listum. Á leikskólastigi eru listir og sköpun samofin leik og daglegu starfi barna í myndlist, tónlist, hreyfingu og málrækt svo eitthvað sé nefnt. Mikilvægi leiksins fyrir þroska barnsins er löngu viðurkennt og sækja nemendur í leikskólaskor alla jafnan námskeið í tónlist, myndlist, framsögn og leikrænni tjáningu. Fjölbreytt listastarf fer fram í leikskólum landsins og má nefna að í leik- og listaskólanum Listakoti er boðið upp á margbreytilega kennslu, svo sem í mynd- og tónlist. Byggist kennslan á áhugahvöt og virkni barnanna og eru sérmenntaðir kennarar sem kenna þeim. Rannsókn sem Lilja Úlfarsdóttir, gerði m.a. á börnum í Listakoti árið 1999 styður mikilvægi tónlistarnáms. Sýndi rannsóknin ótvírætt að það er marktækur munur á færni í ákveðinni tegund af hugsun hjá börnum sem iðka tónlist í leikskóla miðað við önnur börn.

Mönnum hefur orðið tíðrætt um að ekki sé lögð nægileg áhersla á listmenntun í grunnskólum og vil ég nota tækifærið og geta þess að með nýrri aðalnámskrá hafa möguleikar til listkennslu og skapandi starfa aukist með auknum sveigjanleika og valfrelsi í námi. Í því sambandi má nefna að í grunnskóla eru 11% af bundnum stundum nemenda ætluð listum og tekur listasviðið til fimm listgreina. Áherslu á listir er einnig að finna í öðrum greinum s.s. bókmenntir og ljóðlist í íslensku. Auk bundinna stunda í tilteknum námsgreinum er gert ráð fyrir að einstakir skólar geti ráðstafað hluta lögbundins heildarstundafjölda og er skólum í sjálfsvald sett hvernig þeir verja þessum tíma. Aukinn sveigjanleiki í skólastarfi gefur nemendum ennfremur kost á því að fá metið nám utan grunnskólans til í tónlist eða í dansi sem hluta af valgreinum í 9. og 10. bekk.

Í aðalnámskrá framhaldsskóla er sérstaklega lögð áhersla á listir og skilgreind listnámsbraut, sem er þriggja ára braut ætluð nemendum sem hyggja á frekara listnám í sérskólum eða á háskólastigi. Einnig eru skilgreindir þrír valáfangar í listum í framhaldsskóla þ.e. í dansi, tónlist og sjónlist. Gefur þessi nýja uppsetning skólum margvísleg tækifæri til útfærslu á listnámi. Af þessu má ljóst vera að innan ramma aðalnámskráa og laga um menntun og skólastarf eru sköpuð skilyrði til góðrar listmenntunar.

Í hinu opinbera skólakerfi hefur þannig verið lagður grunnur að nýjum starfsháttum með nýjum námskrám. Þær segja þó ekki allt og ekki heldur þessir skólar, því að í áranna rás hafa einkareknir skólar, sem veita menntun í tónlist, myndlist og dansi látið verulega að sér kveða og starfað af mjög metnaðarfullum hætti. Þá er mikilvægt liststarf í skólum, sem birtist í leikhópum, kórum og hvers kyns listrænum metnaði nemenda og kennara. Vitum við öll, að til dæmis íslenskir skólakórar hafa náð árangri, sem er frábær á heimsmælikvarða.

Við getum vissulega verið stolt af mörgu, sem unnið er í listum í skólum landsins og nú er Listaháskóli Íslands kominn til sögunnar og vex hraðar, en vænst var. Er enginn vafi á því, að skólinn verður leiðandi afl á þessu sviði í skólastarfi okkar og á eftir að hafa mun meiri áhrif á allt menningarstarf þjóðarinnar, en við nú sjáum.

Námskrá og nýir skólar duga hins vegar ekki nema skynsamlega sé staðið að kennsluháttum og útfærslu á námi, sem hvílir á skólastjórnendum og kennurum og öðrum þeim sem koma að daglegu skólastarfi. Spyrja má: Hvernig er hægt að nýta listir sem alhliða skapandi þátt í öllu skólastarfi? Listir þurfa ekki eingöngu að vera bundnar listgreinum. List er snar þáttur í íslenskunámi í bókmenntum, ljóðlist og leiklist. Jafnvel í stærðfræði og má þar nefna hönnun og húsagerðarlist. Þetta eru viðfangsefni sem við þarf að ræða og bind ég miklar vonir við að skólafólk og listafólk taki höndum saman og móti leiðir í þessum efnum. Er brýnt að auðvelda listamönnum að láta að sér kveða innan skólanna sjálfra, góðar fyrirmyndir eru ekki síst til þess fallnar að vekja áhuga ungs fólks.


Góðir áheyrendur,

Tildrögin að ráðstefnu þeirri er við sitjum hér í dag eru þau að fyrir rúmlega ári vakti Bandalag íslenskra listamanna athygli á því við menntamálaráðuneytið að ein af höfuðáherslum bandalagsins væri að auka vægi listkennslu og listuppeldis í skólum. Í kjölfar þess ákvað ráðuneytið að efna til þessarar ráðstefnu í samvinnu við Bandalag íslenskra listamanna, Samband íslenskra sveitarfélaga og Kennarasamband Íslands undir heitinu Fjársjóður til framtíðar, listir og skapandi starf í skólum. Markmiðið er fyrst og fremst að vekja okkur til umhugsunar um gildi listmenntunar í skólum og hvernig við getum aukið tengsl lista og skólastarfs. Við höfum fengið til liðs við okkur sérfræðinga og fyrirlesara frá Bretlandi og Noregi auk íslenskra sérfræðinga, bæði kennara og listamanna að ógleymdum ungum listamönnum úr röðum nemenda í almennu skólastarfi og sérskólum. Færi ég þeim sem komið hafa að undirbúningi öllum kærar þakkir fyrir óeigingjarnt starf og ennfremur þátttakendum fyrir að koma hér í dag og gefa sér tíma og rúm til að taka þátt í lifandi umræðum og sýna okkur list sína. Er einstaklega skemmtilegt, hve margir nemendur í skólum láta að sér kveða í tilefni af ráðstefnunni og hún verður þannig hvati til nýrrar listsköpunar.

Í listnámi þarf að beita rökhyggju og ímyndunarafli til að ná árangri. Listnám eflir sköpunargáfu og við getum verið sammála um mikilvægi sköpunargáfu til þess að mæta síbreytilegum kröfum nútímasamfélags. Á tímum alþjóðavæðingar og upplýsingatækni er krafan sú að einstaklingurinn hafi sem fjölbreyttasta hæfileika. Krafist er eiginleika sem eru þroskaðir í listkennslu frumkvæðis og nýsköpunar. Við getum aldrei látið staðar numið við hið skapandi starf innan skólanna. Okkur ber stöðugt að hafa nýjar hugmyndir til skoðunar og laga námskrár að þeim, sem reynast bestar til að gera góða skóla enn betri. Nú er verið að leggja síðustu hönd á námsrkár fyrir tónlistarskólanna og þannig hefur hefur verið mótuð heildarmynd af þeim í fyrsta sinn með nýjum námskrám. Stjórnvöldum ber að bregðast við breyttum kröfum, enda er aðalnámskráin í sífelldri endurskoðun.

Ég vona að dagskráin hér í dag veki þátttakendur til umhugsunar og verði okkur öllum hvatning í starfi. Mikilvægt er að vakning og skilningur á mikilvægi lista í daglegu lífi skili sér inn í skólastarfið með árangursríku samstarfi. Það er von mín að með frjórri umræðu og skapandi hugsun verði þessu markmiði náð hér í dag.

Ráðstefnan Fjársjóður til framtíðar er sett.