Framtíð og staða íslenskra fjölmiðla
Framtíð og staða íslenskra fjölmiðla,
málþing námsbrautar í hagnýtri fjölmiðlun,
Háskóla Íslands.
9. ágúst 2001.
Ég fagna því, að efnt skuli til þessa málþings á vettvangi Háskóla Íslands um framtíð og stöðu íslenskra fjölmiðla. Umræður um þennan mikilvæga þátt samfélagsins fara of sjaldan fram á hlutlægum forsendum. Hið sama á við um þróun og framvindu í fjölmiðlun og á öðrum sviðum, að fræðilegar umræður og rannsóknir hafa hagnýtt gildi. Sérhæft nám er að vísu ekki forsenda þess að ná góðum árangri sem fréttamaður eða blaðamaður, en á hinn bóginn er hlutur fjölmiðla hvað mestur, þar sem unnt er að greina stöðu þeirra á grundvelli fræðilegra rannsókna og þeir hafa bæði stuðning og aðhald á akademískum forsendum.
Opinberar reglur um innra starf á fjölmiðlum eru hér litlar sem engar. Tilraunir til að setja slíkar reglur, til dæmis á vettvangi Evrópuráðsins, hafa mætt verulegri andstöðu eigenda fjölmiðla. Þeir vilja hafa óskorað vald yfir eign sinni. Í því efni eru mismunandi hefðir eftir löndum og er það síður en svo endilega talið fjölmiðlum til álitshnekkis, þótt eigendur þeirra láti verulega að sér kveða við mótun ritstjórnarstefnu. Er skemmst að minnast lofsamlegra ummæla, sem féllu um Katharine Graham, útgefanda Washington Post, þegar hún féll frá á dögunum. Í merkri ævisögu sinni lýsir hún því, hve víðtæk afskipti hennar voru af blaðinu, efni þess og rekstri.
Vitneskja okkar um innra starf á íslenskum fjölmiðlum er frekar lítil í samanburði við það, sem vitað er um ákvarðanir á ritstjórnum erlendis um stefnumörkun eða birtingu einstakra frétta. Að sjálfsögðu eru álitamálin oft mörg, þótt lokamarkmiðið sé jafnan að birta og upplýsa sem mest. Þá hefur löngum verið erfitt að afla upplýsinga um fjárhagslega stöðu íslenskra fjölmiðla, útbreiðslu einstakra blaða eða hlustun og áhorf. Hér verðum við í seinni tíð helst vör við samkeppni milli fjölmiðla að lokinni könnun á notkun þeirra, þegar deilt er um það með vísan til hlutfallstalna, hver sé vinsælastur og þá væntanlega jafnframt bestur, ef réttmætt er að leggja vinsældir og gæði að jöfnu í umræðum um fjölmiðla.
Örar breytingar á tækni valda því, að við þurfum að endurskoða viðhorf okkar til fjölmiðlunar. Það dugar ekki að beina athyglinni einvörðungu að dagblöðum og útvarpsstöðvum, sem ná til landsins alls. Staðbundnir miðlar gegna vaxandi hlutverki, þegar hugað er að þjónustugildi. Við viljum vita, hvað er að gerast í næsta nágrenni okkar, um leið og við höfum sýn yfir heiminn allan. Á tímum alþjóðavæðingar er fjölmiðlaneysla einstaklinga í þróuðum og upplýstum þjóðfélögum að verða mun persónubundnari en áður. Við skoðum vefsíður og fylgjumst jafnvel reglulega með skoðunum eins manns og fréttum af daglegu lífi hans, við fáum send yfirlit yfir fréttir af áhugamálum okkar eða veljum einstaka efnisþætti dagblaða, hvar sem er í heiminum, og fáum þá senda á netfangið okkar, um leið og þeir birtast á prenti. Net-verslanir velja bækur, hljóm- og mynddiska eða bönd eftir fyrirmælum frá okkur og tilkynna, þegar nýir titlar koma til sögunnar. Við getum stjórnað því meira en áður, hvaða fréttir við fáum, búið til einskonar einkamóttökustöð. Umræður um friðhelgi einkalífsins snúast ekki aðeins um það, hve nærri einkahag manna er gengið við miðlun frétta, heldur í vaxandi mæli um hitt, hve miklum upplýsingum hefur verið safnað um neysluvenjur og áhugamál okkar á netinu. Þessar upplýsingar verða að nýrri markaðsvöru og hún gengur kaupum og sölu. Vitneskja um einkahagi okkar og áhugamál er nýtt til að miðla til okkar enn meiri upplýsingum.
Svo getum við búið okkur til einkafjölmiðil án þess að hafa aðgang að blaði eða útvarpsstöð. Ég hef til dæmis stundað eigin fjölmiðlun á netinu síðan snemma árs 1995. Vefsíða mín hefur tekið litlum breytingum á þessum árum, því að þættirnir hafa alla tíð verið hinir sömu. Ég rita pistla, birti dagbók yfir opinber störf mín og set ræður, greinar eða viðtöl inn á síðuna. Tæknilega hefur vefsíðan þróast meira á þessum tíma en efnisþættirnir. Ég varð áður að styðjast við aðstoðarmenn sem milliliði við að færa upp síðuna en um nokkurt skeið hef ég notað forrit, sem gerir mér ekki aðeins kleift að uppfæra síðuna sjálfur heldur senda efni á póstlista en á honum eru mörg hundruð áskrifendur hér og erlendis.
Nýlegar fréttir úr íslenskum fjölmiðlaheimi benda til þess, að fjárhagur dagblaða og útvarpsstöðva hafi þrengst. Gripið hefur verið til sparnaðarráðstafana og dagblaðamarkaðurinn er aðeins svipur hjá sjón miðað við það, sem áður var. Nú er til dæmis ekki lengur gefið út neitt íslenskt dagblað, sem viðurkennir, að stefna þess byggist á vinstri sinnuðum sjónarmiðum.
Ég ætla ekki að dæma um það, hvað hefur valdið þessum sviptingum á fjölmiðlamarkaðnum. Er mér raunar ekki kunnugt um, að það hafi verið kannað til hlítar. Ný viðhorf eru að koma til sögunnar, sem byggjast á því, að ekki skuli lögð áhersla á að afla áskrifenda heldur tryggja sem mesta dreifingu í því skyni að ná til auglýsenda. Skjár einn og Fréttablaðið eru til marks um þessa þróun hér landi.
Leiðir til dreifingar skipta að sjálfsögðu miklu og þar til stafrænt dreifingarkerfi fyrir sjónvarp kemur til sögunnar, hafa Ríkisútvarpið, Stöð 2 og Sýn til dæmis til afnota allar rásir á VHF III tíðnisviðinu. Þau sjónvarpsloftnet, sem allur almenningur hefur þegar sett upp hjá sér, miðast við þetta tíðnisvið. Hefur þetta verið veruleg tæknileg samkeppnishindrun fyrir nýja aðila í sjónvarpsrekstri. Þegar rætt er um auglýsingar í sjónvarpi Ríkisútvarpsins má ekki horfa fram hjá þessari staðreynd, því að hyrfi Ríkissjónvarpið af auglýsingamarkaði yrði aðeins einn aðili eftir með aðgang að þessu almenna tíðnisviði.
Umræður um Ríkisútvarpið eru sígilt viðfangsefni og hafa allir skoðun á því, en erfitt reynist að finna samnefnara, sem dugir til að gera breytingar á lögunum um það. Meðal annars er deilt um hvort innheimta beri afnotagjöld, leggja á nefskatt til að afla Ríkisútvarpinu opinberra tekna eða veita einfaldlega fé til þess á fjárlögum. Ég hef látið skoða síðustu leiðina sérstaklega með hliðsjón af evrópskum rétti og virðist hún fær samkvæmt honum. Ef til vill er fjárlagaleiðin líklegust til sátta um þennan þátt við lausn á álitaefnum um Ríkisútvarpið.
Gagnrýni á þátttöku ríkisvaldsins í fjölmiðlastarfsemi hefur vaxið jafnt og þétt síðan ríkiseinokunin á útvarpsrekstri var afnumin árið 1985. Sumir telja almennt óeðlilegt, að ríkið sé að standa frekar í þessari atvinnustarfsemi en annarri, sem einkaaðilar séu fullfærir um að sinna.
Vissulega má með góðum rökum halda því fram, að nú á tímum sé óþarft að ríkið reki fjölmiðil eins og útvarp. Í flestum eða öllum Evrópuríkjum hefur ríkisvaldið þó um langan aldur staðið að útvarpsrekstri og á því hefur yfirleitt ekki orðið breyting enn sem komið er, þó að einkaaðilum hafi í seinni tíð einnig verið heimilaður útvarpsrekstur og ríkiseinokun á þessu sviði teljist ekki samrýmast fyrirmælum um tjáningarfrelsi. Eru ríkisreknar útvarpsstöðvar hugsaðar sem opinberar þjónustustofnanir. Þessum stöðvum er ætla að flytja vandað efni, sérstaklega af innlendum og menningarlegum toga, enda sé ekki víst, að útvarpsstöðvar, sem eingöngu eru reknar með viðskiptasjónarmið í huga, telji arðvænlegt að láta gera slíkt efni eða flytja. Einnig er sú krafa gerð til ríkisútvarpsstöðvanna, að þær tryggi vissa fjölbreytni í efnisvali og efnismeðferð og tryggi, að allar skoðanir og sjónarmið í þýðingarmiklum þjóðfélagsmálum, sem almenning varða, komist á framfæri, auk þess sem um mál sé fjallað málefnalega og af hlutlægni. Á seinni tímum er því meðal annars haldið fram, að almenningur eigi kröfu á því að geta gengið að einni opinni sjónvarpsrás að minnsta kosti. Þessi rök öll og önnur, sem færð eru fram til réttlætingar á ríkisrekstri á útvarpi, eru umdeilanleg. Víða eru einkareknar útvarpsstöðvar reknar af miklum metnaði, og sjálfsagt er líka á því allur gangur, hvernig ríkisstöðvar gegna því hlutverki, sem þeim er ætlað. Hvað sem því líður, er ekki vilji til þess enn sem komið er hjá Evrópuríkjunum að draga ríkið út úr útvarpsrekstri. Hér á landi á sú skoðun ekki heldur nægilegu brautargengi að fagna meðal ráðandi stjórnmálamanna, að ríkið hætti útvarpsrekstri, að minnsta kosti ekki eins og nú standa sakir.
Úr því að ríkið rekur útvarpsstarfsemi, verður að gera þá kröfu, að reksturinn sé eins hagkvæmur og við verður komið. Er ekki nokkur vafi á því í mínum huga, að þetta verði best gert þannig, að fjárhagslegum rekstri fyrirtækisins verði hagað sem líkast rekstri einkafyrirtækis og þá í hlutafélagsformi. Hlutafélög eru þrautreynt og þekkt rekstrarform hér á landi, sem vel hefur gefist í hvers konar fyrirtækjarekstri. Það er þekkt víða í Evrópu, að ríkisútvarpsstöðvarnar séu reknar í hlutafélagsformi. Af Norðurlöndunum má nefna, að í Noregi, Finnlandi og Svíþjóð hafa verið stofnuð hlutafélög um rekstur ríkisútvarpsstöðvanna.
Yrði Ríkisútvarpinu breytt í hlutafélag mundi ábyrgð stjórnenda þess verða aukin og þeir yrðu sjálfstæðari í störfum sínum. Stjórnendur í hlutafélagi geta brugðist skjótar við breyttum markaðsaðstæðum og öðrum breytingum á aðstæðum heldur en stjórnendur ríkisstofnunar og þar með á fyrirtækið að vera betur í stakk búið til þess að standast samkeppni og skila hagnaði. Ríkisútvarpið ætti sem hlutafélag að fá heimild til þess að taka upp samvinnu við aðra, standa að stofnun nýrra fyrirtækja og til að ganga inn í starfandi fyrirtæki. Aukið sjálfstæði Ríkisútvarpsins og svigrúm þess til athafna mundi skila sér til allra starfsmanna þess í fleiri tækifærum til framtaks í starfi og þar með áhugaverðari starfsvettvangi. Ég tel öll rök mæla með því að breyta Ríkisútvarpinu í hlutafélag, þó að ríkið verði áfram eigandi hlutafjárins í félaginu.
Góðir áheyrendur!
Það eru ekki aðeins eigendur einkarekinna fjölmiðla á Íslandi, sem þurfa að vera vel vakandi vegna hinna miklu breytinga í umhverfi sínu og átta sig á bestu leiðunum til að styrkja stöðu sína. Á meðan ríkisvaldinu er falið að stunda útvarpsrekstur verður einnig að vera vilji fyrir hendi hjá þeim, sem setja þeirri starfsemi skorður með lögum, að leyfa henni að þróast í samræmi við breyttar kröfur. Á stjórnmálavettvangi hefur hins vegar ekki reynst unnt að fá umboð til að haga ríkisrekstri á útvarpi með hagkvæmasta hætti. Þverstæðan er sú, að í raun eru það áköfustu talsmenn ríkisrekins útvarps, sem helst standa gegn því, að rekstur Ríkisútvarpsins sé nútímavæddur og innviðir þess styrktir í samræmi við breyttar kröfur.
Verði þetta málþing, sem nú er að hefjast, til að efla hlutlægar og upplýstar umræður um stöðu og framtíð íslenskra fjölmiðla á það eftir að nýtast langt út fyrir veggi Háskóla Íslands. Vil ég árétta mikilvægi þess, því að það er íslenskum fjölmiðlum einungis til styrktar að lagt sé fræðilegt mat á stöðu þeirra og aukin þekking notuð til að efla þá.