21.7.2001

Mál Árna Johnsens - DV-yfirheyrsla

Yfirheyrslan birtist í DV laugardaginn 21. júlí en Reynir Traustason blaðamaður stjórnaði henni,

Skilurðu þá ákvörðun Árna Johnsen að segja af sér?

-Hann var kominn í þá stöðu að annaðhvort var hjá honum að hrökkva eða stökkva. Ég skil þá ákvörðun sem hann tók.

Leið of langur tími frá mál hans komu upp og þar til hann sagði af sér?

- Það er afstætt. Aðalmálið er að menn taki ábyrgð á eigin gjörðum. Það hefur Árni gert.Hvort það er fyrr eða seinna skiptir ekki máli þegar upp er staðið.

Hefur mál Árna ekki komið illa við Sjálfstæðisflokkinn?

- Ég tel að þarna sé fyrst og fremst um að ræða persónulegt mál Árna Johnsen en ekki flokkslegt vandamál. En við störfum í pólítísku umhverfisem stjórnmálaflokkur.

Raddir eru uppi um að málið skaði allan þingheim fremur en Sjálfstæðisflokkinn einan. Er það þitt mat?

-Þetta er ekki spurning um að vera í einum flokki eða öðrum heldur um persónulega framgöngu. Framgangan er í raun óskiljanleg.

Er ekki stórkostleg brotalöm einhverstaðar í kerfinu þegar litið er til þess að nefndarformaður er með heimild til úttekta og uppáskrifta á reikningum?

-Brotalömin er fyrst og fremst hjá þeim sem fer svona með þá aðstöðu, sem hann hefur. Þarna er um að ræða er eins og fram kom hjá forstöðumanni Framkvæmdasýslu ríkisins, að hann og Árni komu sér saman um ákveðna skipan varðandi þessar framkvæmdir. Í því efni mun hafa verið byggt á reynslu sem á sér langan aðdraganda eða frá því Árni tók að sér að leiða stórframkvæmdir við Þjóðleikhúsið við mjög erfiðar aðstæður fyrir meira en 10 árum. Við almennt mat á störfum Árna verða menn að skoða annars vegar einstakar athafnir hans undanfarið og hins vegar nýtingu þeirra opinberu fjármuna sem veitt er til endurbóta á Þjóðleikhúsinu - við ráðstöfun þeirra
hefur ekki verið farið fram úr fjárveitingum á undanförnum árum.

-Getur forstöðumaður Framkvæmdasýslunnar átölulaust samið við alþingismann um einhverskonar fyrirkomulag sem síðan opnar leið til misferlis?

-Ég ætla ekki að setja mig í dómarastöðu gagnvart forstöðumanninum frekar en öðrum auk þess heyrir Framkvæmdasýslan undir fjármálaráðuneytið. Mín fyrirmæli til bygginganefndarinnar koma fram í erindisbréfi til hennar.

Bygginganefnd Þjóðleikhússins heyrir tvímælalaust undir menntamálaráðuneytið. Liggur ábyrgðin á Árna þá ekki hjá menntamálaráðherra?

-Það er ekkert launungarmál hvað við fólum nefndinni að gera, þegar ég setti hana á laggirnar.

Hversu stór er sú ábyrgð. Hvað gætir þú sem ráðherra þurft að gera í versta falli? Munt þú á endanum taka ábyrgðina?

- Ég tek ekki ábyrgð á gjörðum Árna Johnsen sem eru langt utan þess verksviðs sem honum er falið af mér. Þessir atburðir undanfarna daga eru svo fjarlægir því umboði sem hann fékk og langt frá því sem eðlilegt telst. Ég á ekki lokaorð um ábyrgð í þessu máli.

Er þetta mál þannig vaxið að þú hafir hugleitt að ráðherraembætti þitt kunni að vera í veði?

- Nei, ég er ekki með það efst í huga hvort ráðherraembætti mitt sé í húfi. Fyrst og fremst er ég með það í huga að málinu verði lokið með viðunandi hætti að mati allra sem fara með það. Ég á störf mín undir dómi kjósenda. Þetta er ekki mitt verk heldur Árna og allir sjá að það sem hann aðhafðist gat aldrei verið heimilað af nokkrum manni.

Hann er undirmaður þinn.

-Hann var formaður nefndar og átti að haga sér samkvæmt því umboði sem hann hafði samkvæmt erindisbréfi frá mér og samkomulagi við forstöðumann Framkvæmdasýslu ríkisins.

Hafði engum viðvörunarbjöllum klingt í kerfinu?

-Starf nefndarinnar er annað en framganga Árna. Nefndin stóð að endurbótum og áætlunum. Framkvæmd einstakra verka var unnin samkvæmt samkomulagi formanns nefndarinnar og forstöðumanns Framkvæmdassýslu ríkisins. Auðvitað var vitað að Árni Johnsen fór ekki alltaf hefðbundnar leiðir en í því felst ekki endilega að fara á svig við lögin. Það má ekki gleymast að hann skilaði í mörgu tilliti góðu verki og þeir atburðir sem leiddu til afsagnar hans eru á skjön við allt það sem menn hafa vænst af honum.

Trúir þú því að misferli Árna eigi sér ekki lengri sögu? Heldur þú að þetta sé einangrað tilvik þar sem eitthvað brestur hjá þingmanninum og hann fer að svíkja út vörur?

-Þar til annað sannast hlýt að líta þannig á að um einstakt tilvik sé að ræða.

Endurbótasjóður menningarbygginga stendur undir kostnaði við að endurbætur Þjóðleikhússins. Hafðir þú fengið viðvaranir þaðan um Árna?

- Á undanförnum árum hefur stjórn sjóðsins oftar en einu sinni fjallað um endurbætur á Þjóðleikhúsinu og lagt áherslu á, að um þær yrði gerð áætlun. Ég hef tekið undir þessa kröfu meðal annars eftir ábendingu sjóðsstjórnar. Stjórnin hefur vafalaust fengið vitneskju um vinnuaðferð Árna Johnsen. Þjóðleikhússtjóri og forstöðumaður Framkvæmdasýslunnar hafa lýst því að vegna dugnaðar Árna var honum treyst með óvenjulegum hætti. Árna er vel ljóst, hve mikla áherslu ég legg á nauðsyn þess að virða reglur hins opinbera kerfis.
.
Talaðir þú við Árna um þau mál?

-Ég gerði það.

Finnst þér að þú hefðir átt að ganga harðar fram í málinu á einhverju stigi?

-Ég ætla ekki að vera vitur eftir á, það er ekki til neins.
Forstöðumður Framkvæmdasýslunnar hefur sagt að það fyrirkomulag sem þeir Árni komu sér saman um sé ekki orsakavaldur í þessu máli.

-Ræddi formaður Endurbótasjóðsins málefni bygginganefndar Þjóðleikhússins við þig?

-Hermann Jóhannesson, formaður Endurbótasjóðsins, er starfsmaður ráðuneytisins og hann hefur rætt við mig oftar en einu sinni um skiptingu fjármuna og nauðsyn skipulegra vinnubragða við framkvæmdir, enda hef ég alltaf gert ríka kröfu um þau. Ég veit að Árni Johnsen hefur komið á fund stjórnar Endurbótasjóðins.

Var hann kallaður á fund stjórnarinnar?

- Stjórnin vildi fá vitneskju um stöðu mála í Þjóðleikhúsinu og fékk oftar en einu sinni skýrslu frá honum.

Er að þínu mati ekkert sem brást í kerfinu?

-Það var greinilega að minnsta kosti einn maður sem brást.

En Framkvæmdasýslan. Brást hún?

-Ég vil ekki varpa sök á neinn.

Hver er ábyrgð ´þjóðleikhússtjóra sem nefndarmanns við hlið Árna?

-Hann hefur alls ekki skorast undan ábyrgð. Hann hefur mótmælt því að DV sagði að hann hefði verið óvirkur. Hann hefur sagt að nefndin hafi starfað með óvenjulegum hætti en hann hafi tekið virkan þátt í starfi nefndarinnar. Hann segist hafa komið með ábendingarnar en Árni hafi annast framkvæmdina.

-Þið Árni eruð vinir. Hvernig kemur þetta mál við þig?

-Þetta er mjög sárt. Ég hef orðað það sem svo að hefði ég sest niður til að skrifa leikrit fyrir Þjóðleikhúsið hefði mig skort hugmyndaflug til að semja þann söguþráð sem við höfum orðið vitni að.

-Ragnar Aðalsteinsson hæstaréttarmaður segir í samhengi við Árnamálið að það undirstriki enn frekar þörf þess að opna bókhald flokkanna. Er þörf á því?

-Þetta er gamalkunnug krafa. Þetta mál á ekkert skilt við bókhald flokkanna.

Ertu andvígur því að opna bókhald stjórnmálaflokkanna?

-Ég sé enga þörf á því með hliðsjón af þessu máli.

Mun Árnamálið breyta einhverju um siðferðismat þjóðarinnar?

-Alveg tvímælalaust. Nú er komin ný mælistika. Þetta er í fyrsta sinn sem alþingismaður segir af sér á þessum forsendum.

Hverjar verða pólískar afleiðingar þessa máls?

-Mér sýnist að andstæðingar mínir og Sjálfstæðisflokksins ætli að gera þetta að flokkspólítísku mál. Slíkt er mjög vandmeðfarið, sérstaklega fyrir þá, sem eru í glerhúsi,

Steingrímur J. Sigfússon kallar eftir ábyrgð þinni í málinu. Hver er hún?

-Það kemur ekki á óvart - auðvitað axla ég mína ábyrgð, hvað sem Steingrímur J. Sigfússon segir. Hann vill koma pólitísku höggi á mig, ég er gamalreyndur í slíkum slag.

-Á Árni vinur þinn afturkvæmt í stjórnmál?

-Við höfum engin fordæmi um svona mál hér. En það eru dæmi frá útlöndum um að menn hafi snúið aftur eftir mjög erfið mál.

Hefur þú einhvern tímann sem stjórnmálamaður hagnast með óeðlilegum hætti?

-Mér hefur verið innprentað frá barnæsku að umgangast opinber störf af mikilli virðingu og gæta mín á þeim forboðnu ávöxtum sem oft eru innan seilingar.