13.7.2001

23. landsmót UMFÍ, Egilsstöðum





Landsmótið
á Egilsstöðum,
13. júlí, 2001.

Ég óska íbúum Egilsstaða og Austfirðingum öllum til hamingju með þá glæsilegu umgjörð, sem þeir hafa búið landsmóti Ungmennafélags Íslands, þegar það er nú haldið í þriðja sinn hér á Austurlandi. Er ánægjulegt að vera með ykkur öllum á þessari hátíðarstundu á þessum fagra stað í þessu yndislega veðri.

Markmið ungmennafélagshreyfingarinnar er að efla þroska, getu og áræði Íslendinga á öllum aldri en ekki síst unga fólksins. Landsmótin eru kjörinn vettvangur til að sýna, hvernig unnt er að ná þessu markmiði, því að við framkvæmd mótanna og í keppninni sjálfri reynir á alla þessa þætti.

Mót með góðu íþróttafólki skerpa sjálfsmyndina og eru jafnan lengi í minnum höfð. Þess var til dæmis minnst hinn 29. júní síðastliðinn, að rétt 50 ár voru liðin frá einum mesta sigurdegi íslenskrar íþróttasögu, þegar frjálsíþróttamenn okkar sigruðu Dani og Norðmenn í landskeppni í Osló og knattspyrnumenn okkar báru sigurorð af Svíum í landsleik í Reykjavík.

Þegar þessir sögulegu atburðir gerðust var íslenska lýðveldið ekki nema sjö ára og ekki þótti öllum fullreynt, að Íslendingar gætu staðið á eigin fótum sem sjálfstæð þjóð. Er ekki minnsti vafi á því, að hinir sigursælu íþróttamenn efldu sjálfstraust þjóðarinnar og sönnuðu henni afdráttarlaust, að fulltrúar 140 þúsund manna gátu borið sigurorð af íþróttamönnum milljónaþjóða, ef vel var að verki staðið.

Ári síðar eða sumarið 1952 kom enn nýr íþróttakappi fram á sjónarsviðið, sem síðar fyllti þjóðina stolti með silfurverðlaunum á Olympíuleikunum í Melbourne árið 1956. Þessi afreksmaður er meðal okkar hér í dag, en það var einmitt á fyrsta landsmóti Ungmennafélags Íslands á Austurlandi, sem var á Eiðum árið 1952, að Vilhjálmur Einarsson hlaut þjóðarathygli fyrir framgöngu sína í þrístökki.

Gildi landsmóta UMFÍ er jafnmikið enn þann dag í dag og þegar hið fyrsta var haldið árið 1909. Tilgangurinn er að virkja sem flesta til starfa og leiks í því skyni að þeim gefist tækifæri til að sýna, hvað í þeim býr. Og það eru ekki aðeins íþróttamennirnir, sem fá þetta tækifæri, ekki reynir síður á þá, sem taka að sér að skipuleggja mótið hverju sinni.

Ég hef átt þess kost á undanförnum árum að fylgjast með því af hve miklum metnaði heimamenn hér á Egilsstöðum hafa unnið að því að gera allt sem best úr garði fyrir landsmótið. Snemma árs 1999 tókst samkomulag um fjárhagslegan stuðning ríkisvaldsins við að gera þennan íþróttavöll, Vilhjálmsvöll, sem bestan úr garði. Völlurinn bætir til frambúðar aðstæður til að iðka frjálsar íþróttir á Austurlandi.

Aðstæður eru aðrar en þegar æft var þrístökk og langstökk í sandgryfju og á planka í Egilsstaðaskógi, þótt árangurinn ráðist enn sem fyrr af því að njóta sín í leiknum og stilla saman heilbrigða sál og hraustan líkama. Á sínum tíma réð það úrslitum fyrir sigurgöngu Vilhjálms, að hann fékk styrk til háskólanáms í Bandaríkjunum og það er jafnnauðsynlegt nú og þá að veita íslensku afreksfólki í íþróttum stuðning til að það fái að reyna sig og þjálfa við alþjóðlegar aðstæður.

Í góðu samstarfi hafa ríkisstjórn og Íþrótta- og ólympíusamband Íslands unnið að því að efla afreksmannasjóð íþróttamanna og nú síðast að því að móta afreksstefnu í íþróttum, sem meðal annars tekur mið af því að ná sem fyrst til efnilegs ungs fólks og hvetja það til dáða. Á ég von á því, að á næsta ári verði hrundið af stað átaki í samræmi við afreksstefnuna.

Ég lýk máli mínu með því að fagna íþróttamönnunum, konum og körlum, sem hér keppa og bið þeim góðs gengis. Ég óska öllum sem hafa undirbúið mótið enn á ný til hamingju með vel unnið starf – megi það ekki síður skila glæsilegum árangri til framtíðar en framganga íþróttamannanna sjálfra.

Til hamingju með hið glæsilega landsmót UMFÍ á Egilsstöðum!