Listasafn Einars Jónssonar - 75 ára
23. júní 1998
Safnhús Einars Jónssonar
Í Minningum sínum lýsir Einar Jónsson myndhöggvari miklum áhyggjum yfir öllum frágangi og vinnubrögðum við smíði Safnhússins hér á Skólavörðuholti. Hann óttaðist, að illa yrði staðið að byggingunni og verk sín fengju ekki nægilega örugga umgjörð. Til að friða sál sína gerði hann sér ferð til Jóns Magnússonar forsætisráðherra og bað hann að gefa sér umboð til að gera bygginguna að efni og verki svo úr garði, að honum líkaði. Ráðherra, sem Einar fann úti á gangi í Stjórnarráðshúsinu, stóð kyrr og þagði um stund, en gekk síðan þegjandi inn til sín. Síðan segir Einar: „Ég sá, að þar var ekkert meira fyrir mig að gera og vildi ekki eiga á hættu, að gera hann óþolinmóðan.”
Leyfi ég mér að rifja þetta upp nú á þessari stundu, þegar við fögnum 75 ára afmæli Safnhússins og heiðrum minningu hins mikla listamanns. Þurfa stjórnvöld ekki að kveinka sér undan íþyngjandi ónæði af hálfu þeirra, sem hér hafa starfað.
Það var á árinu 1909 sem Einar ákvað að gefa íslensku þjóðinni öll verk sín, enda yrði sæmilegt hús reist yfir þau. Ráðist var í þær framkvæmdir árið 1916. Lagði Alþingi fram 10 þúsund krónur en 20 þúsund krónum var safnað meðal velunnara Einars. Eru nöfn gefenda geymd í læstum töflum hér í aðalsal safnsins.
Snemma árs 1996 varð að sammæli milli mín og stjórnar safnsins, að gerð yrði gangskör að fyrstu alhliða endurbótunum á Safnhúsinu og skyldi að því stefnt, að verkinu lyki fyrir 75 ára afmæli þess.
Hefur það allt gengið eftir. Á sínum tíma þurfti 30 þúsund krónur til að ráðast í smíði hússins. Nú hefur rúmum 30 milljónum króna verið varið úr Endurbótasjóði menningarbygginga til þessara miklu viðgerða.
Skylda okkar var og er ekki aðeins að veita listaverkunum húsakjól heldur einnig að viðhalda umgjörðinni og hinni listrænu reisn með þeim hætti, sem best gerist og fellur að kröfum listamannsins.
Við opnum nú safnið með formlegum hætti að nýju eftir gagngerar endurbætur. Hin kröfuharða umhyggja Einars Jónssonar gagnvart eigin verkum setur enn svip sinn á allt viðhorf safnstjórnar og forstöðumanns.
Listamaðurinn ólst upp á Suðurlandi í ótta við jarðskjálfta og þrátt fyrir áhyggjur hans og orð um járnlaust og missteypt hrófatildur, stendur húsið enn og lofar meistara sinn. Hefur það verið styrkt með ýmsum hætti í tímans rás og ætti hæglega að geta staðið í önnur 75 ár. Í hinum ströngu reglum Einars um meðferð listaverka sinna víkur hann hvergi beint að því, hvernig staðið skuli að framkvæmdum á borð við þær, sem nú er lokið. Hann segir á hinn bóginn, að aðeins örsjaldan megi rykhreinsa listaverkin, á 10 til 20 ára fresti og með fjaðraskúfi. Við viðgerð innan dyra skal fyllstu varkárni gætt, ekki síst þegar málarar eiga í hlut, ekki vegna óvarfærni þeirra heldur vegna hjálpargagnanna, stiga og palla.
Hann vildi sem sagt ekki, að menn væru oft að hrófla við umgjörð verka sinna. Í anda reglna hans dugði það eitt við viðgerðina að fá hina hæfustu menn til verksins. Vil ég þakka öllum, sem þar komu við sögu fyrir alúð þeirra og vandvirkni.
Hrafnhildur Schram hefur undanfarin ár farið fyrir þeim, sem gæta listaverka Einars Jónssonar daglega hér á Skólavörðuholti. Á hennar herðum hvíldi einnig ábyrgð á listaverkunum í umróti síðustu mánaða. Umhyggjan hefur verið góð og mikil.
Virðing fyrir fyrirmælum Einars Jónssonar um meðferð listaverka hans er nauðsynleg. Á hinn bóginn verður safnið að þróast með eðlilegum hætti og dafna í samræmi við allt aðrar aðstæður en voru á tíma Einars. Stjórn safnsins undir formennsku dr. Ármanns Snævars tekur að sjálfsögðu mið af því í störfum sínum. Hér er ekki um minningarreit að ræða heldur lifandi þátttakanda í íslenskri listsköpun.
Á 75 ára afmælinu gengur Safnhúsið í endurnýjun lífdaganna. Listaverkunum hefur verið veittur betri umbúnaður en áður. Hvet ég eindregið til þess, að þetta einstæða tilefni verði notað til að vekja rækilega athygli á hinni ómetanlegu þjóðareign, sem er að finna hér í Hnitbjörgum og hinum fagra garði við húsið.
Sérstök ástæða er til að hvetja ungt fólk til að kynna sér list Einars og beina áhuga þess að hinum margbrotna hugmynda- og hugsjónaheimi hennar. Frá höfundinum eru ekki til neinar leiðbeiningar um þennan heim, en hann er ekki síður heillandi nú en fyrr á öldinni.
Verk Einars Jónssonar eru ótæmandi brunnur fyrir þann, sem vill auðga anda sinn. Megi stórbrotin list hans lengi standa hér á þessum stað.