29.6.2001

Til minningar um sigra


Til minningar um sigra,
Hótel Sögu,
29. júní 2001.


Þótt ég hafi ekki verið hár í loftinu, þegar þau afrek voru unnin, sem við minnumst í dag, fór það ekki fram hjá mér frekar en öðrum, að þjóðin fylltist stolti og auknu sjálfstrausti við hina frækilegu framgöngu manna sinna í frjálsum íþróttum og í knattspyrnu hinn 29. júní 1951. Er fagnaðarefni að sjá suma afreksmannanna hér með okkur í dag og geta enn á ný vottað þeim þakklæti fyrir ómetanlegt framlag þeirra á sviði íþróttanna. Það sannaðist vel fyrir 50 árum, hve miklu góður árangur í íþróttum skiptir fyrir sjálfsmynd þjóðarinnar. Sigrarnir þennan dag efldu þjóðinni þrótt með því að sýna henni og sanna, að fulltrúar hennar gátu borið sigurorð af milljónaþjóðum.

Er mér í barnsminni, þegar ég fór með föður mínum á þéttsetinn Melavöllinn hér við hliðina og fylgdist með frjálsíþróttaköppunum, sem höfðu haldið heiðri Íslendinga hátt á loft í alþjóðlegri keppni. Var þeim fagnað vel og innilega og við strákarnir eignuðumst fyrirmyndir og kepptum í hlaupum og stökkum, þegar heim var komið. Hinir stærri og sterkari reyndu við kúluna að fordæmi Husebys.

Ég er þakklátur Inga Þorsteinssyni og félögum fyrir að kalla okkur saman til að rifja upp hin góðu afrek og hylla afreksmenninna, minningu þeirra, sem gengnir eru, og hina, sem eru hér með okkur á þessari stundu. Ræktarsemi af þessu tagi er of sjaldgæf nú á tímum, þegar allt er talið sjálfsagt og hraðinn er svo mikill á öllu, að menn gefa sér ekki tíma til að þakka þeim, sem þakka ber, eða rifja upp, hvers vegna við höfum náð góðum árangri á flestum sviðum. Það tekst ekki nema byggt sé á traustum grunni.


Til að glöggva mig á því, hvernig um keppnina í Osló og knattspyrnuleikinn í Reykjavík var fjallað leit ég í Morgunblaðið frá þessum tíma. Ég staldraði ekki við íþróttafréttirnar sjálfar á forsíðu og baksíðu blaðsins heldur vildi, sem gamall leiðarahöfundur á blaðinu, rifja upp, hvernig það fjallaði um viðburðina í ritstjórnargreinum sínum.


Á forsíðu Morgunblaðsins laugardaginn 30. júní er einskonar feitletruð forystugrein í ramma. Þar segir:

„Dagurinn í gær, föstudagurinn 29. júní, er mesti sigurdagur, sem íslenskir íþróttamenn nokkru sinni hafa litið: Þeir unnu þá þrjá landsleiki.

Tæpum þremur klukkustundum eftir að frjálsíþróttamenn okkar höfðu sigrað bæði Dani og Norðmenn í Oslo, hafði knattspyrnumönnunum tekist það ótrúlega, að vinna Svía hjer í Reykjavík.

Það er mjög sjerstætt að slíkt komi fyrir og þætti stórviðburður meðal milljónaþjóða – hvað þá hjer hjá okkur.

Íslenska þjóðin samfagnar íþróttamönnum sínum og þakkar þeim unnin afrek."

Morgunblaðið fagnaði því í forystugrein daginn eftir, að fulltrúar 140 þúsund Íslendinga skyldu bera sigurorð af milljónaþjóðum í millilandakeppni í frjálsum íþróttum og sagði einnig, að sigur íslenska landsliðsins á Svíum í knattspyrnu væri heimsviðburður í íþróttalífinu og var þar vísað til þess, að sænska liðið hefði sigrað á síðustu Olympíuleikjum. Var það talið með hreinum ólíkindum, að íslenska liðið næði þessum árangri og var Akurnesingum þakkað að hafa hresst upp á knattspyrnuna í Reykjavík með því að sigra Íslandsmeistaramótið í fyrsta sinn auk þess að eiga góða leikmenn í íslenska liðinu en Akurnesingurinn Ríkarður Jónsson skoraði fjögur mörk í leiknum.

Í Reykjavíkurbréfi þennan sama sunnudag kvað Morgunblaðið enn fastar að orði og sagði meðal annars:

„Til eru þeir menn enn í dag, með þjóð okkar, sem eru haldnir þeim einangrunar-anda, að þeim hættir til að telja Ísland einskonar miðpunkt heims, vegna þess að sjóndeildarhringur þeirra nær svo skammt út fyrir landsteinana. Þesskonar fyrirbrigði verður sjaldgæfara með hverju ári. Flestir vita, eða gera sjer grein fyrir hver erfitt það er, fyrir svo fámenna þjóð, sem okkur, að láta á sjer bera í heiminum. Um leið vita menn þá líka, að á engan hátt nær orðstír þjóða[r] betur eyrum almennings, meðal stórþjóða, en með því móti, að íþróttakappar hennar veki heimsathygli.

Menn vita sem er, að fyrir smá þjóðina Íslendinga er það ómetanlegur styrkur, að eiga frækna íþróttakappa.

Stundum heyrist þó, að við Íslendingar eyðum of miklum tíma og fje í íþróttaiðkanir og íþróttaáhuga. Sennilega á sú skoðun ennþá erfiðara uppdráttar eftir 29. júní 1951, með tilliti til þess, sem þá gerðist í íslenskum íþróttamálum. Óhætt er að fullyrða, að öll íslenska þjóðin þakkar íþróttamönnum okkar fyrir unnin afrek þennan dag. Því hún veit, að þessi afrek þeirra eru henni ómetanleg.

Þegar íþróttamenn vinna afrek sín, ekki síst í samkeppni við aðrar þjóðir, þá er það fyrst og fremst einstaklingskappið, þjóðarstoltið og ábyrgðartilfinningin, sem þar er aflvakinn. Ræktun manngildisins, í sambandi við íslenskan þjóðaranda, sem þar býr undir. Það er þessi þjóðarandi, sem smá þjóðin okkar, má með engu móti nokkru sinni missa. Hann er og verður fjöregg hennar."

Góðir áheyrendur!

Nú á tímum tala fjölmiðlamenn ekki um þjóðaranda á þennan veg og í eyrum ungs fólks kann texti af þessum toga að hljóma eins og aftan úr grárri forneskju, því að menn tjá nú tilfinningar sínar og þjóðarstolt með öðrum hætti. Á hinn bóginn er áhugi á framgangi afreksmanna okkar í íþróttum ekki minni núna en fyrir fimmtíu árum og það snertir enn viðkvæma taug og eykur stolt að sjá Íslending standa á verðlaunapalli og heyra þjóðsönginn leikinn um leið og íslenski fáninn er hafinn til himins.

Okkur er jafnbrýnt og fyrir hálfri öld að rækta með okkur heilbrigðan þjóðaranda, sem byggist á kappi, stolti og ábyrgð. Við eigum óhikað að standa við bakið á okkar góða íþróttafólki og leggja því það lið, sem við megum, um leið og við vonum, að sem flest ungmenni líti til afreksmannanna sem góðra fyrirmynda.

Mikið hefur áunnist í viðleitni til að skapa íþróttamönnum viðunandi aðstöðu hér á landi síðustu hálfa öld. Í góðu samstarfi hafa ríkisstjórn og Íþrótta- og ólympiusamband Íslands unnið að því að efla afreksmannasjóð íþróttamanna og nú síðast að því að móta afreksstefnu í íþróttum, sem meðal annars tekur mið af því að ná sem fyrst til efnilegs ungs fólks og hvetja það til dáða. Á ég von á því, að á næsta ári verði hrundið af stað átaki á því sviði.

Ekkert af þessu hefði tekist nema af því að unnt er að skírskota til góðs árangurs í áranna rás og þar ber afrekin 29. júní 1951 enn hvað hæst, Þá vakti það ekki síst athygli erlendra keppinauta Íslendinga, hvað við áttum sterka og alhliða toppmenn, þótt þeir væru ekki margir, nægði það til sigurs í landskeppni. Enn þann dag í dag þarf íslenska þjóðin að treysta á fjölbreyttan styrk sinn til að standast alþjóðlega keppni á öllum sviðum. Megi afrek þeirra, sem við heiðrum hér á þessari stundu, lengi verða í minnum höfð þjóðinni til hollrar eftirbreytni.