1.5.2001

Víkingar frá Jórvík í Hafnarfirði




Víkingasýning
frá Jórvík,
Hafnarfirði 1. maí 2001.



Í Egilssögu segir frá því, að Egill Skallagrímsson kom að kvöldi dags til Jórvíkur, hafði síðan hatt yfir hjálmi sínum og var með alvæpni. Vildi hann leynast fyrir mönnum Eiríks konungs blóðaxar, þegar hann bað vegfarendur að vísa sér leiðina að húsi Arinbjarnar hersis vinar síns. Átti Egill í illdeilum við konung vegna erfðamála konu sinnar. Til að ná sáttum fóru þeir Egill og Arinbjörn þó á fund kongungs og bað Arinbjörn Agli griða með þeim orðum, að hefði Egill mælt illa til kongungs mætti hann bæta það í lofsorðum þeim, sem mundu standa um aldur og ævi. Gunnhildur drottning vildi ekki heyra lof Egils og hvatti konung til að láta höggva hann. Konungur sagði hins vegar, að Egill skyldi lifa nóttina og hvatti Arinbjörn Egil til þess að vaka og yrkja lofkvæði um Eirík. Um miðja nótt gekk Arinbjörn til Egils og spurði, hvað kvæðinu liði, en Egill sagði, að hann hefði ekkert ort því að svala hefði setið við gluggann og truflað sig með klaki sínu alla nóttina. Fór þá Arinbjörn og settist við gluggann og fuglinn hvarf eins og galdrakona. Um morguninn fóru þeir að nýju í konungsgarð og Egill flutti hið ódauðlega kvæði sitt til heiðurs Eiríki, sem gaf Agli höfuð sitt.

Þessi frásögn um kvæðið Höfuðlausn kemur í hugann, þegar við stöndum hér í dag við upphaf sýningar á lífi víkinganna í Jórvík. Hún sýnir okkur annars vegar lífið í bænum eins og það var hinn 25. október 948 og minnir hins vegar á blóðug samskipti manna á víkingatímanum.

Ég hef hvorki séð né heyrt skýringu á því, hvers vegna nefndur er þessi dagur eða árið 948, en það er kannski engin tilviljun, að þetta ár er valið, því að Sigurður Nordal prófessor færir að því sterk rök í formála sínum að Egilssögu í útgáfu Fornritafélagsins, að Egill Skallagrímsson hafi einmitt ort Höfuðlausn í Jórvík árið 948, þannig að kannski sjáum við mann með alvæpni og síðan hatt yfir hjálmi sínum hér einhvers staðar á sveimi eða heyrum svölu klaka við glugga.

Í Jórvík hefur verið unnið einstakt afrek til að halda minningunni um víkingatímann hátt á loft og er ánægjulegt, að okkur Íslendingum gefst nú tækifæri til þess að sjá hluta af hinni frægu og vinsælu sýningu þar hér á landi og óska ég Byggðasafni Hafnarfjarðar innilega til hamingju með þetta góða framtak og verða fyrsti áningarstaður hinnar merku Jórvíkur-sýningar utan heimilis hennar.

Áhugi á víkingunum og því, sem þeir gerðu vex víða um lönd og hafa Hafnfirðingar verið duglegir við að nýta sér tækifærin, sem í því felast. Mikil víkingasýning er nú á ferð um Bandaríkin og hlýtur hún alls staðar góða aðsókn. Þar er lögð áhersla á að draga upp mynd af víkingunum, sem miklum sæförum, menningar- og verslunarmönnum. Í Evrópu hallast menn frekar að því, að þeir hafi verið ribbaldar, sem engu eirðu. Hér á þessari sýningu fáum við að sjá þessar tvær hliðar.

Sagan af Agli í Jórvík bregður hins vegar því ljósi á þá, sem þar voru árið 948, að með skáldlegu listfengi og lofi, mátti ná sáttum við konung og bjarga lífi sínu.

Ég lýsi sýninguna opna og ítreka heillaóskir mínar til Byggðasafns Hafnarfjarðar.