6.6.1998

Heiðursstyrkir SPRON

Borgarleikhúsinu 6. júní 1998

Heiðursstyrkir SPRON

Sparisjóður Reykjavíkur og nágrennis staðfestir nú enn einu sinni, hve mikils hann metur framlag einstaklinga og samtaka þeirra til lista og umhverfis.

SPRON hefur notið mikillar velgengni á undanförnum árum. Er ég ekki í nokkrum vafa um, að hana má að verulegu leyti rekja til vinsamlegrar afstöðu sparisjóðsins til góðra listamanna og þeirra, sem vilja bæta mannlífið með hollri útivist, land- og gróðurvernd. Í þessu hvoru tveggja felst mikill stuðningur við íslenska menningu.

Hugtakið menningu á ekki að skilgreina á þann hátt, að það nái aðeins til þess, sem tiltölulega fáir njóta. Menning nær til alls hins góða og skapandi, sem maðurinn tekur sér fyrir hendur. Þar fara listamenn framarlega í flokki en ekki síður þeir, sem huga að umhverfismálum.

Æskilegt er, að fleiri fyrirtæki taki SPRON sér til fyrirmyndar í stuðningi við menningarstarf. Færist þó mjög í vöxt, að stjórnendur í atvinnulífi og eigendur fyrirtækja átta sig á gildi þess að veita fé til þessara mála, ekki aðeins vegna áhuga á að styðja gott málefni heldur ekki síður vegna hins, að fyrirtækin njóta sjálf góðs af slíkum stuðningi. Það tapar enginn á því að leggja góðum málstað lið.

Nokkrar umræður eru um það, hvort gera eigi ráðstafanir í skattamálum til að hvetja fyrirtæki til enn frekari stuðnings við menningu, menntir, rannsóknir og vísindi. Af hálfu ríkisstjórnarinnar hefur þeirri stefnu verið fylgt, að frekar beri að lækka skatthlutfallið sjálft en veita frekari undanþágur. Raunar samþykkti Alþingi nú í vikunni að lækka skatta á fyrirtæki, þannig að þau eiga almennt að hafa meira fé til eigin ráðstöfunar. Skattar á almenning lækka í samræmi við fyrri ákvarðanir Alþingis. Einnig samþykkti þingið, að frá og með 1. júlí næstkomandi verði skemmtanaskattur úr sögunni. Þessi skattur hefur með sínum hætti lagst sérstaklega á menningarstarfsemi og verið á forræði menntamálaráðuneytisins. Hann er hins vegar fyrir löngu orðinn barns síns tíma og innheimta hans hefur sætt vaxandi gagnrýni. Skatturinn er nú úr sögunni og hefði átt að hverfa fyrir löngu.

Góðir áheyrendur!

Við sem höfum lagt rækt við glæsilega og vel heppnaða Listahátíð í Reykjavík undanfarna daga þurfum kannski sum að fara í dálítið listabindindi til að skilja betur allt það góða, sem okkur hefur verið boðið síðustu þrjár vikur. Gróskan í íslensku listalífi er raunar orðin svo mikil, að henni má líkja við samfellda hátíð, þar sem vandinn er að velja og hafna vegna þess að sólarhringurinn nægir ekki til að kynnast öllu.

Er öllum ljóst, að vandi stjórnar Styrktar- og menningarsjóðs SPRON er ekki sá að leita að verðugum viðtakendum heiðursstyrkja. Hann er miklu frekar sá að gera upp á milli margra verðugra.

Vil ég nota tækifærið, þegar ég ávarpa bæði forráðamenn Ferðafélags Íslands og forystusveit íslenskra listamanna og minna á þá alkunnu staðreynd, að ekki er síður mikilvægt að kynna listina fyrir erlendum gestum en fegurð landsins. Þykir mér verðugt að halda íslenskri listsköpun meira á loft, þegar lagt er á ráðin um það, hvernig laða eigi fleiri ferðamenn til landsins.

Undir forystu menntamálaráðuneytisins hefur verið unnið að því undanfarin misseri að búa þannig um hnúta, að unnt sé að taka vel ígrundaða ákvörðun um tónlistarhús í Reykjavík, sem verði heimili Sinfóníuhljómsveitar Íslands. Þetta starf er nú komið á lokastig.

Eftir að fyrsta áfanga þess lauk fyrir um það bil einu ári samþykkti ríkisstjórnin tillögu mína um að kanna tvo meginþætti, hvar húsið ætti að rísa og hvort unnt væri að fella saman hugmyndir um ráðstefnumiðstöð og tónlistarhús. Ljóst er, að unnt er að sameina þessar tvær hugmyndir. Hef ég lagt áherslu á, að í því efni verði hvergi slakað á kröfum um hljómburð í tónlistarsalnum. Hefur verið leitað til fremstu ráðgjafa til að tryggja mestu gæði á heimsmælikvarða fyrir okkar frábæra tónlistarfólk.

Stjórnendur Reykjavíkurborgar þurfa að taka af skarið um það, hvar húsið á að rísa. Í mínum huga eru kostirnir tveir eftir athuganir síðustu mánaða, annars vegar við Hótel Sögu og hins vegar við Ingólfsgarð á nýju byggingarsvæði. Áhugi borgarstjórnar Reykjavíkur á því, að reisa tónlistarhús og ráðstefnumiðstöð er ótvíræður eftir heitstrengingar í nýlegri kosningabaráttu. Nú þarf að láta til skarar skríða.

Mannvirki af þessari stærð og nýtt hótel, ef það kemur einnig til sögunnar, verður ekki reist án þátttöku einkaaðila og samvinnu við öflugar lánastofnanir, sem bera hag lista, ferðamála og Reykjavíkur fyrir brjósti.

Góðir áheyrendur!

Með þessum orðum óska ég öllum, sem hér fá heiðursstyrki innilega til hamingju með viðurkenninguna. Hún er svo sannarlega verðskulduð. Ég óska Sparisjóði Reykjavíkur og nágrennis einnig til hamingju með framtakið.