Ársfundur Rannsóknarráðs Íslands, 2001
Ársfundur Rannsóknarráðs Íslands, 9. apríl 2001.
Ársfundur Rannsóknarráðs Íslands er nauðsynlegur og góður vettvangur til að líta í senn yfir farinn veg og til framtíðar. Á sviði rannsókna og þróunar er
sérstaklega brýnt að leitast við að átta sig á því, hvar við stöndum og hvert stefnir og í því efni megum við aldrei missa sjónar á hinu alþjóðlega samhengi og
minnir kjörorð fundarins í dag okkur á það.
Í ræðu minni að þessu sinni ætla ég að fara orðum um stöðu íslenska skólakerfisins. Þá ætla ég að kynna höfuðþætti í nýrri löggjöf um rannsóknarráð, fjalla
um samninga um rannsóknaþáttinn í starfi háskóla og aðgang að rannsóknagögnum.
Frá því að síðasti ársfundur ráðsins var haldinn hafa nýir fulltrúar komið til starfa í rannsóknarráði. Færi ég þeim, sem hurfu úr því á síðasta ári innilegar þakkir
fyrir gott starf og samvinnu ekki síst Þorsteini I. Sigfússyni prófessor, sem sinnti formennskunni af alúð og dugnaði. Jafnframt ítreka ég heillaóskir mínar til nýs
ráðs undir formennsku Hafliða Péturs Gíslasonar prófessors og vænti árangursríks og góðs samstarfs við hann og ráðið allt.
Í síðustu viku sótti ég menntamálaráðherrafund aðildarríkja OECD í höfuðstöðvum stofnunarinnar í París en þar ráða fulltrúar auðugustu landa heims ráðum
sínum. Segja tölur frá OECD síður en svo alla söguna um stöðu skólamála í einstökum löndum eins og fram kom á þessum fundi. Fulltrúi Ísraels skýrði til
dæmis frá því, að þar væri veitt mestu fé til menntamála á heimsvísu en samt hefðu nemendur fallið úr 20. sæti í hið 28. í alþjóðlegri samanburðarkönnun. Í
hinu alþjóðlega starfsumhverfi er hins vegar eðlilegt, að í þessu efni eins og endranær beri menn sig saman við hið besta og leitist við að ná því takmarki að
vera í fremstu röð. Er ekki lítið í húfi í menntamálum, þegar til þess er litið, að aðeins með þekkingu og markvissum vinnubrögðum við öflun og nýtingu hennar
ná einstaklingar og þjóðir árangri.
Eftir að hafa tekið þátt í umræðum á ráðherrafundinum og hlustað á það, sem starfsbræður mínir höfðu fram að færa, er ég þeirrar skoðunar, að við
Íslendingar stöndum vel að vígi, því að á öllum sviðum menntamála höfum við á undanförnum árum tekið ákvarðanir í takt við það, sem talið er gagnast best
jafnframt hefur auknu fjármagni verið veitt til skóla- og rannsóknastarfs.
Við höfum leitast við að setja námsmanninn, einstaklinginn sjálfan með kostum hans og göllum í fyrirrúm. Sú stefna hefur víða valdið miklum deilum, en hér
hefur verið unnið að framkvæmd hennar í náinni samvinnu við kennara. Nýjar námskrár fyrir þrjú fyrstu skólastigin eru samdar með nemandann að leiðarljósi
og hrundið hefur verið af stað ýmsum verkefnum til að koma betur til móts við hann en áður hefur verið gert. Þá hefur ytra skipulag skólastarfs tekið á sig nýja
mynd og jafnframt aðferðir við fjármögnun þess og viðleitni til að efla samvinnu skóla og einkaaðila. Með námskránum eru sett skýr markmið og auðvelt er
laga þau að aldri nemenda, til dæmis ef áhugi er á því að hefja tungumálanám í grunnskólum fyrr en nú er gert.
Með nýgerðum kjarasamningum við kennara í leikskólum, grunnskólum og framhaldsskólum hafa laun þeirra hækkað og svigrúm skólastjórnenda til að
ráðstafa tíma starfsmanna sinna til hvers kyns þróunarstarfa aukist. Hljótum við að vona, að farsæl lausn finnist á launadeilu kennara við Háskóla Íslands og
Kennaraháskóla Íslands, án þess að til verkfalls komi, því að það yrði engum til góðs og spillti mest fyrir þeim, sem síst skyldi, nemendum. Mikilvægt er að
skapa kennurum almennt góð starfsskilyrði og hvetja þá til að ná sem best til nemenda sinna og örva þá til dáða á einstaklingsbundnum forsendum.
Á OECD-fundinum voru ekki lagðar fram niðurstöður neinna rannsókna um það, hver væru bestu úrræðin til að bæta innra starf skóla, og raunar er málum
þannig háttað, að miðað við, hve hið opinbera lætur mikið fé af hendi rakna til skólamála, er sérkennilegt, hve hlutfallslega litlum fjármunum er varið til
rannsókna á þessu sviði. Kannski er ein ástæðan fyrir því sú, að skólastarf er að mestum hluta kostað af skattfé almennings og haldið í horfinu, hvað sem
tautar og raular. Sú skoðun á sér einnig víða öfluga talsmenn, að hið opinbera geri allt best, að minnsta kosti í menntun og heilsugæslu, og það sé vísasti
vegurinn til að draga úr gæðum og þjónustu á þessum sviðum, að virkja einkaaðila til samstarfs. Þekkjum við þessi sjónarmið úr umræðum hér á landi.
Þegar ég lít á þróun íslenskra skólamála undanfarin ár í ljósi umræðnanna í París núna og ber hana saman við stöðuna á samskonar fundi, sem ég sat fyrir
fimm árum, tel ég ljóst, að síðan höfum við Íslendingar breytt ytri ramma skólastarfsins og innra starfi í skólunum í samræmi við það, sem talið er skila bestum
árangri. Og við höfum almennt stigið skrefi lengra í umræðum um framtíð skólastarfs en aðrir með því að líta meira til þess en þeir, hvernig nýja
upplýsingatæknin nýtist til kennslu og hvaða áhrif hún hefur á þróun skólanna sem stofnana. Efast ég til dæmis um, að innan nokkurs OECD-ríkis sé efnt til
ráðstefnu um upplýsingatækni fyrir kennara með sama hætti og menntamálaráðuneytið hefur gert þrjú undanfarin ár.
Á slíkri ráðstefnu, UT2001, kynnti ég fyrir fjórum vikum stefnu ráðuneytisins um dreifmenntun, það er skólastarf, sem byggist á því, að nemandinn geti
stundað nám í skólastofunni eða heima hjá sér og lokið áföngum á þeim tíma, sem honum hentar og með því að afla sér fræðslu í skólum eftir eigin höfði.
Var ég beðinn að kynna forsendur þessarar stefnu okkar á fundinum í París og niðurstaðan varð sú, að til náms af þessu tagi er vísað í lokaályktun
ráðherrafundarins. Miklar breytingar verða ört í þessu efni og í síðustu viku var til dæmis kynnt, að MIT í Boston hefði ákveðið að bjóða allt sitt nám ókeypis á
netinu og stjórnendur skólans teldu það ekki mundu draga úr áhuga á að sækja sjálfan skólann í Boston, þótt skólagjöld þar væru 26.000 bandaríkjadalir á
ári.
Þegar rætt er um ytra skipulag íslenska skólakerfisins er um þessar mundir einkum bent á tvo veikleika í samanburði við aðra, annars vegar lengd skólaársins
og hins vegar hve mörg ár það tekur að ljúka stúdentsprófi. Um lengd skólaársins er það að segja, að í nýgerðum kjarasamningi sveitarfélaga við
grunnskólakennara var ákveðið að fjölga skóladögum grunnskólans um 10 og hef ég flutt frumvarp á alþingi um breytingu á grunnskólalögunum, þar sem níu
mánaða skólaárið er sett sem lágmark. Að því er varðar þriggja ára nám til stúdentsprófs tel ég skynsamlegt fyrsta skref, að hvetja framhaldsskóla til að bjóða
það sem kost. Með því verður í senn unnið nauðsynlegt þróunarstarf innan skólanna og nemendur geta lagað sig að breytingunni á eigin forsendum. Í sömu
andrá og ég nefni þetta vil ég ítreka við stjórnendur háskóla, að þeir skilgreini sem best inntökuskilyrði á einstakar brautir eða deildir, svo að
framhaldsskólanemum sé ótvírætt ljóst til hvers er ætlast af þeim. Finnst mér miður, hve treglega hefur gengið að fá þessar kröfur á hreint frá skólum á
háskólastigi.
Þið, sem hafið helgað ykkur störfum á sviði rannsókna og þróunar, eruð vön því, að lagt sé strangt mat á störf ykkar og fjárhagslegum stuðningi háttað í
samræmi við niðurstöður þess. Á hinn bóginn hefur reynst mjög erfitt að meta kennslustörf á sama hátt. Hafa þjóðir verið að fikra sig inn á þá braut, en
kennarar hafa almennt lagst gegn slíkri viðleitni og hún hefur oft leitt til harðra deilna. Ég tel þó, að slíkt árangursmat verði, þegar fram líða stundir, talið
meðal óhjákvæmilegra þátta til að tryggja góða kennslu. Skref hafa verið stigin hjá okkur til að efla mat á gæðum skólastarf, til dæmis með því að stofna
sérstaka mats- og eftirlitsdeild innan menntamálaráðuneytisins og hefur hún á fáum árum skilað góðu starfi. Spurning er hvort koma eigi á fót sjálfstæðri
stofnun til að sinna þessu mikilvæga hlutverki, eins og gert hefur verið víða um lönd.
Sífellt meiri áhersla er alls staðar lögð á að tengja saman rannsóknakennslu í háskólum og nýsköpun í atvinnulífi. Evrópskir háskólar hafa til þessa verið
tregari til þess en bandarískir að flytja þekkingu frá vísindum til fyrirtækja. Þetta er að breytast og hefur þróunin í einum elsta háskóla álfunnar í Louvain í
Belgíu verið nefnd sem gott dæmi um þessa breytingu, en í tengslum við rannsókna- og þróunasetur skólans hafa 20 sprotafyrirtæki orðið til á síðustu þremur
árum. Við vitum, að Silicon Valley í Kaliforníu er sprottinn af nálægðinni við Stanford-háskóla og leið 128 í Boston á upphaf í MIT, svo að nefnd séu tvö fræg
dæmi.
Sama þróun þarf að verða hér á landi og er ánægjulegt, að vaxandi áhugi er meðal þekkingarfyrirtækja og fjárfesta í fasteignum á því að sameinast um
mannvirkjagerð í þágu rannsókna í tengslum við háskóla. Til marks um þessa þróun er, að Íslensk erfðagreining reisir nú höfuðstöðvar sínar í nágrenni
Háskóla Íslands og fyrir dyrum stendur að bjóða út sem einkaframkvæmd rannsóknahús við Háskólann á Akureyri. Í umræðum um endurskipulagningu á landi
Reykjavíkurflugvallar hefur komið fram, að vænta megi aukins athafnarýmis fyrir þróunar- og rannsóknahús í tengslum við Háskóla Íslands. Af hálfu
menntamálaráðuneytisins hefur verið bent á nauðsyn þess, að á Keldnaholti og í landi Keldna verði tryggð framtíðaraðstaða í þágu rannsókna- og þróunar.
Ég held, að sá tími sé liðinn, að það hvíli alfarið á herðum opinberra aðila að hafa frumkvæði að byggingum á þessu sviði eða kosta þær.
Ég ætla nú að ræða þrjú svið, sem snerta starfsumhverfi íslenskra vísindamanna með öðrum en þó einnig beinum hætti. Í fyrsta lagi mun ég ræða
endurskoðun á lögum um Rannsóknarráð Íslands, í öðru lagi stöðu samningaviðræðna fulltrúa ráðuneyta við háskóla um fjárveitingar til rannsókna í
skólunum og í þriðja lagi aðgang að opinberum rannsóknagögnum.
Samkvæmt lögum um Rannsóknarráð Íslands bar að endurskoða þau innan fimm ára frá því, að þau tóku gildi hinn 1. júlí 1994. Á vegum
menntamálaráðuneytisins hefur verið unnið að slíkri endurskoðun og fékk ég á sínum tíma umboð ríkisstjórnarinnar til að vinna að málinu í samráði við
forsætisráðherra og utanríkisráðherra. Hef ég kynnt þeim þá hugmynd, sem hér verður reifuð. Við úrvinnslu hennar hef ég haft að leiðarljósi, að stefna í
vísindum, rannsóknum og þróun setji ótvíræðan svip á almenna stefnu ríkisstjórnarinnar í efnahags- og atvinnumálum. Við Íslendingar munum ekki halda
stöðu okkar í fremstu röð þjóða, nema rannsóknir og þróun fái þann háa sess, sem þeim ber við gerð þjóðhagsáætlana.
Tillaga mín er þessi:
Í fyrsta lagi, að stefnumótun í vísindum og tækni verði í höndum á gjörbreyttu Rannsóknarráði Íslands, sem starfi undir formennsku forsætisráðherra með
þátttöku ráðherra, vísindamanna og fulltrúa atvinnulífs.
Í öðru lagi, að undir þessu stefnumótandi Rannsóknarráði Íslands
starfi tvær stjórnarnefndir, önnur á vegum menntamálaráðuneytis og hin iðnaðarráðuneytis. Þessar nefndir úthluti styrkjum og veiti lán á grundvelli umsókna..
Verði unnið samkvæmt þessari meginhugmynd sé ég hana útfærða nánar á eftirfarandi hátt:
1. Rannsóknarráð Íslands undir formennsku forsætisráðherra hittist a.m.k. tvisvar á ári. Auk forsætisráðherra sitji menntamálaráðherra,
iðnaðarráðherra, sjávarútvegsráðherra, landbúnaðarráðherra,
umhverfisráðherra og fjármálaráðherra í ráðinu með fulltrúum vísindamanna
og atvinnulífs.
2. Umsýsla fyrir ráðið verði annars vegar í höndum menntamálaráðuneytis vegna vísindarannsókna og iðnaðarráðuneytis vegna þróunar og nýsköpunar. Ekki
verði gert ráð fyrir því, að forsætisráðuneytið taki að sér verkefni fyrir ráðið, þrátt fyrir formennsku forsætisráðherra.
3. Á vegum hins nýja rannsóknarráðs starfi tvær stjórnarnefndir, sem stýrt verði af fulltrúum menntamálaráðherra annars vegar og iðnaðarráðherra hins vegar.
Leitast verði við að draga eins skýr skil og unnt er á milli vísindarannsókna annars vegar og nýsköpunar hins vegar varðandi fjárveitingar og úthlutun styrkja,
en heildstæð stefna verði mótuð fyrir bæði sviðin og þannig stuðlað að aukinni samræmingu og samstarfi allra, sem að þessum málaflokkum koma.
4. Rannsóknarráð Íslands móti stefnu í vísinda- og tæknimálum til þriggja ára í senn. Litið verði til þess, hvert sé gildi starfs á þessu sviði fyrir allt
efnahagslíf þjóðarinnar. Stefnu ráðsins fylgi framkvæmdaáætlun og
fjárhagsáætlun. þar sem meðal annars verði tekin afstaða til starfsemi
opinberra rannsóknastofnana og opinberra úthlutunarsjóða.
5. Stefna ráðsins verði lögð fyrir fyrir ríkisstjórn og alþingi til kynningar.
6. Ráðið skili ríkisstjórn árlega skýrslu um horfur í vísinda- og tæknimálum .
7. Vísindasjóður og tæknisjóður verði sameinaðir í einn sjóð undir yfirstjórn
menntamálaráðherra og hlutverk sjóðsins verði að styrkja grunnrannsóknir og hagnýtar rannsóknir. Styrkjum verði úthlutað til einstaklinga og fyrirtækja þeirra
en ekki til stofnana eða ríkisaðila.
8. Nýsköpunarsjóður undir yfirstjórn iðnaðarráðherra styðji tækninýjungar og vöruþróun hvers konar.
9. Í stað skrifstofu Rannsóknarráðs Íslands komi stofnun án
stjórnsýsluhlutverks til að annast úttektir á rannsóknum, upplýsingaöflun
um rannsóknir, ráðgjöf til rannsóknaraðila og skýrslugjöf, kynningu á vísinda- og rannsóknastörfum og ef til vill umsýslu fyrir stjórnarnefndirnar.
10. Skipulag menntamálaráðuneytis verði lagað að þeim skyldum, sem lúta að stefnumótun á vegum Rannsóknarráðs Íslands.
Ef spurt er, hvort leitað hafi verið fyrirmynda hjá öðrum þjóðum við smíði tillögunnar er því fljótsvarað, að einkum hefur verið litið til Finna auk þess sem
skipulag Dana var haft til hliðsjónar. Fyrir skömmu átti ég þess kost, að hitta forystumenn í finnska menntamálaráðuneytinu og fræðast um reynslu þeirra á
þessu sviði, en á síðasta ári fór stór hópur embættismanna og vísindamanna héðan til Finnlands í sömu erindagjörðum og skilaði fróðlegri skýrslu um ferðina.
Það er samdóma álit allra, að árangur Finna í rannsóknum og vísindum síðustu ár sé undraverður og megi að verulegu leyti rekja hann til markvissra
vinnubragða af hálfu ríkisvaldsins. Hér í dag verður fluttur fyrirlestur um rannsóknamenntun og öndvegissetur í Finnlandi en einnig á því sviði er gagnlegt að
fræðast af öðrum, áður en frekari skref verða stigin hér.
Þessi nýja skipan felur það í sér, að af hálfu menntamálaráðuneytisins verði höfuðáherslan lögð á að styrkja grunnrannsóknir og stuðla að menntun ungra
vísindamanna. Hlutverk ríkisins á þessu sviði yrði samkvæmt því annars vegar að fjármagna öfluga sjóði til að styrkja grunnrannsóknir og hins vegar að stuðla
að meistara- og doktorsnámi á háskólastigi. Aðrir þættir rannsókna- og þróunarstarfs mundu hvíla á herðum einkaaðila eða sjóða, sem veita fé til nýsköpunar,
vöruþróunar og áhættufjárfestinga. Þar er lagt til að starfi sjóður, sem styrki frumkvöðla við nýsköpun og vöruþróun hvers konar. Reynslan hefur sýnt, að
vaxandi þörf er á stuðningi, sem brúar bilið frá því að grunnrannsókn er lokið og þar til að áhættufjárfestar koma beint til sögunnar. Sýnist eðlilegt að sjóður,
sem sinnir þessu verkefni, lúti stjórn iðnaðarráðuneytisins til að árétta, að umsækjendur um stuðning úr honum þurfi ekki að sýna fram á rannsóknarstarf, til
að koma þar til álita. Fellur þetta vel að tillögu iðnaðarráðherra um breytingu á lögum um Iðntæknistofnun Íslands, sem ekki á lengur að vera einvörðungu
hefðbundin rannsóknastofnun, sem stundar rannsóknir og prófanir, heldur skal leggja ríkari áherslu á þjónustu við frumkvöðla og sprotafyrirtæki með það að
markmiði að breyta vísindalegri þekkingu í söluhæfar afurðir, eins og iðnaðarráðherra hefur orðað það.
Frá mínum sjónarhóli er eðlilegt, að sameinaður vísinda-og tæknisjóður styrki eingöngu einstaklinga eða fyrirtæki á þeirra vegum en opinberar
rannsóknarstofnanir fjármagni ekki starfsemi sína með styrkjum úr þessum sjóði. Einstaklingar keppi um styrkina en ekki stofnanir, sem á hinn bóginn hefðu
hag af því að laða til sín hæfa einstaklinga og búa þeim sem best starfsumhverfi.
Kröfur um vísindalegan framgang, birtingu eða skil á niðurstöðum eiga að vera skýrar og ná til allra, sem keppa um styrki án tillits til þess, hvort þeir starfa á
vettvangi skóla eða rannsóknastofnana.
Krafa um skýran árangur hefur af þessum sökum verið ofarlega á baugi í viðræðum fulltrúa menntamálaráðuneytis, fjármálaráðuneytis og Háskóla Íslands um
rannsóknir, en þær hafa farið fram undanfarna mánuði og stefnt er að niðurstöðu í þeim um miðjan maí.
Í viðræðunum er tekið mið af eftirfarandi grundvallaratriðum, sem munu setja svip sinn á rannsóknasamninga við alla háskóla í landinu:
1. Allir skólar fá grunnfjárveitingu, sem miðast við fjölda virkra nemenda, við hana bætist árangurstengd fjárveiting, það er fé með hliðsjón af rannsónavirkni.
2. Menntamálaráðuneytið setur reglur um gæðaeftirlit gagnvart öllu háskólastiginu til að fylgjast með öllum starfsmönnum skólanna, sem eru ráðnir til að sinna
rannsóknum. Með þessu verði tryggt samræmi í mati á rannsóknavirkni skólanna.
3. Lögð er áhersla á, að rannsóknastofnanir tengist háskólum meðal annars í því skyni að efla rannsóknir og þjálfun ungra vísindamanna auk þess sem
sömu kröfur um gæði og virkni á að gera til starfsmanna stofnana, sem keppa um fé á þessum vettvangi, og starfsmönnum skóla.
Rannsóknasamningar við háskóla snúast ekki aðeins um ráðstöfun á opinberu fé. Samningarnir eiga að knýja á um að háskólarannsóknum séu sett skýr
markmið. Í viðræðum við fulltrúa Háskóla Íslands hafa ráðuneytismenn meðal annars óskað eftir upplýsingum um rannsóknastefnu skólans. Þá þurfa skólar
að þróa og taka í notkun formlegt gæðakerfi og mælikvarða á gæði.
Ég tel miklu skipta að, að litið verði til sem flestra þátta við gerð þessara samninga um rannsóknir innan háskóla og leitast við að eyða öllum vafaatriðum og
skilgreina sem best alla þætti, áður en frá samningum er gengið.
Þriðja sérgreinda atriðið, sem ég nefni að þessu sinni og snertir starf vísindamanna beint, lýtur að aðgangi að rannsóknagögnum. Rúm tvö ár eru liðin síðan
vinnuhópur á vegum Rannsóknarráðs Íslands sneri sér til forsætisráðuneytisins með óskum um að stjórnvöld mörkuðu stefnu varðandi aðgengi og
verðlagningu opinberra rannsóknagagna. Í umræðum um þetta mál á alþingi fyrir skömmu sagði Davíð Oddsson forsætisráðherra, að hann hallaðist að þeirri
reglu, sem hefði verið mótuð í Bandaríkjunum, að rannsóknagögn, sem kostuð væru af almannafé, skyldu að meginreglu til vera aðgengileg og ekkert gjald
kæmi fyrir slíkan aðgang. Önnur regla gildir hins vegar innan Evrópusambandsins, þar sem aðgengi að slíkum gögnum hefur almennt verið takmarkaðra og
upplýsingarnar seldar.
Menntamálaráðuneytinu hefur nú verið falið að leiða þetta mál fyrir hönd ríkisstjórnarinnar og er unnið að því innan ráðuneytisins að skipuleggja, hvernig best
sé tekið á málinu, sem er flókið og viðkvæmt að mörgu leyti, því að það snertir samninga um rannsóknir, höfundarétt, einkaleyfismál, alþjóðlegar
skuldbindingar og margt fleira.
Hið sama á við um þetta mál og hin tvö, sem ég nefndi á undan, að séu stigin vanhugsuð skref í upphafi, getur verið erfitt og dýrkeypt að komast á rétta
braut. Menntamálaráðuneytið mun hafa samráð við önnur ráðuneyti um meðferð rannsóknagagnanna og leiðir til að veita sem greiðastan aðgang að þeim.
Í upphafi máls míns ræddi ég þróun íslenskra skólamála í alþjóðlegu samhengi á grundvelli umræðnanna á ráðherrafundi OECD-ríkjanna. Vil ég við lok máls
míns árétta gildi alþjóðavæðingarinnar. Hún er í raun ráðandi afl í öllu vísindastarfi og rannsóknanámi. Er það okkur Íslendingum mjög til hagsbóta við þessar
aðstæður, hve margir íslenskir námsmenn og vísindamenn hafa starfað erlendis við hina bestu skóla og stofnanir. Við eigum ekki að letja nokkurn íslenskan
menntamann til að reyna fyrir sér á erlendum vettvangi um leið og við leggjum okkur fram um að búa vísindamönnum sem bestar starfsaðstæður hér heima
fyrir, ef á annað borð eru forsendur fyrir þá til að nýta krafta sína við þau skilyrði, sem við getum skapað. Íslenskt þjóðlíf hefur styrkst mjög hin síðari ár vegna
þess að hér hafa sprottið upp fyrirtæki í krafti vísindastarfs á ólíkum sviðum.
Reynslan af þátttöku íslenskra vísindamanna í evrópsku rannsókna- og þróunarsamstarfi er mjög góð. Nú er unnið að því að móta 6. rammaáætlun
Evrópusambandsins á þessu sviði og höfum víð Íslendingar komið sjónarmiðum okkar á framfæri við þá, sem vinna að þessari stefnumörkun og munum við
fylgja þeim eftir á hverju stigi málsins fyrir sig. Við höfum einnig formbundið samstarf okkar í vísindamálum við Bandaríkjamenn með samningi, sem ritað var
undir af Madeleine Albright, þáverandi utanríkisráðherra, þegar hún kom hingað síðastliðið haust. Er full ástæða að vænta mikils af þessu samstarfi, þegar fram
líða stundir, ef rétt verður á málum haldið.
Fyrir skömmu hitti ég Brian Tobin, iðnaðar- og rannsóknamálaráðherra
Kanada, í Ottawa og ræddi við hann um frekara samstarf landa
okkar á sviði rannsókna- og þróunar. Lýsti hann miklum áhuga á því og er þegar hafinn undirbúningur undir viðræður milli embættismanna um málið.
Kanadamenn hafa lagt mikla áherslu á þennan málaflokk á undanförnum árum og má þar til dæmis nefna, að árið 1997 stofnuðu þeir The Canadian
Foundation for Innovation, sem hefur milljarði dollara til ráðstöfunar í því skyni að styrkja gerð mannvirkja og kaup á tækjum í þágu rannsókna. Sjóðurinn
hefur tekjur úr ríkissjóði en aflar mótframlaga frá einkaaðilum og hefur á fáum starfsárum sínum stuðlað að mörgum nýjungum.
Góðir fundarmenn!
Ég gæti lengi enn rætt um þau mál, sem snerta starfsemi Rannsóknarráðs Íslands og mikilvæga hagsmuni okkar Íslendinga innan lands og utan. Ég ætla þó
ekki að gera það heldur ljúka máli mínu með því að hvetja ykkur öll til að halda merki vísinda, rannsókna og þróunar hátt á loft. Í samtali við kanadískan
þingmann, sem ég hitti í Ottawa, lýsti ég hrifingu minni yfir því, hve kanadísk stjórnvöld hefðu sett vísindamál ofarlega á dagskrá sína. Hann sagði, að
vissulega skiptu þessi mál miklu, þótt þau væru að vísu ekki endilega til þess fallin að kalla á mörg atkvæði í sínu kjördæmi.
Við nálgumst þessi viðfangsefni þannig hvert frá okkar eigin bæjardyrum en aðeins með því að stilla saman strengina og átta okkur á því, hvert ber að
stefna, miðar okkur fram á veginn. Ég vona, að þær hugmyndir, sem ég hef kynnt hér um framtíðarskipan íslenskra rannsóknamála, verði ræddar í ykkar hóp
og þið látið í ljós skoðun á þeim í heild eða einstökum þáttum. Ég tel æskilegt, að næsta haust fái alþingi málið til umfjöllunar sem lagafrumvarp.
Ég ítreka óskir mínar um gott samstarf við Rannsóknarráð Íslands.