Ríkisfjármál og ESB IV: François Hollande leggur áherslu á hagvöxt
Franska stjórnlagaráðið komst að þeirri niðurstöðu 9. ágúst 2012 að ekki þyrfti að breyta frönsku stjórnarskránni til að Frakkland gæti orðið aðili að ríkisfjármálasamningi ESB. Þessi niðurstaða var fagnaðarefni fyrir François Hollande forseta því að hún heimilaði honum og stjórn hans að leggja til við þingið að það samþykkti aðild Frakklands að samningnum án þess að forsetinn þyrfti að tryggja aukinn meirihluta til stuðnings lögunum.
Í frönskum fjölmiðlum og stjórnmálaumræðum ræða menn um „gullnu regluna“ þegar í Þýskalandi er talað um „skuldabremsu“, það er ákvæðið í ríkisfjármálasamningnum sem mælir fyrir um jafnvægi í ríkisfjármálum. Þjóðverjar hafa slíkt ákvæði í stjórnarskrá sinni og í ríkisfjármálasamningnum er gert ráð fyrir að aðildarríki hans búi þannig um hnúta að stjórnskipulega sé skylt að gæta þessa jafnvægis í ríkisfjármálum við gerð fjárlaga.
Franska stjórnlagaráðið hefur nokkrum sinnum krafist þess að stjórnarskrá Frakklands sé breytt til að laga hana að sáttmálum ESB. Að þessu sinni sagði ráðið að franska ríkið hefði skuldbundið sig á svipaðan hátt í ríkisfjármálum áður gagnvart ESB, ríkisfjármálasamningurinn væri í raun ekkert nýmæli. Í stað þess að festa ákvæði um jöfnuð í ríkisfjármálum í stjórnarskrá kaus Hollande að nota ákvæði um svonefnd grundvallarlög sem unnt er á samþykkja á þingi með einföldum meirihluta en stjórnarskrá Frakklands verður ekki breytt nema þrír fimmtu þingmanna samþykki breytinguna eða hún sé borin undir þjóðaratkvæði.
Vöxtur í stað aðhalds
François Hollande gagnrýndi ríkisfjármálasamninginn í kosningabaráttunni við Nicolas Sarkozy eftir að ritað var undir samninginn á leiðtogafundi ESB 2. mars 2012. Töldu Hollande og skoðanabræður hans að samningurinn staðfesti að ESB ætlaði að fylgja aðhalds- og niðurskurðarstefnu Angelu Merkel Þýskalandskanslara og annarra hægrimanna innan ESB.
Eftir að sósíalistar mynduðu ríkisstjórn að loknum forseta- og þingkosningum fyrri hluta árs 2012 breyttist afstaða forystu flokksins til ríkisfjármálasamningsins. Í stað þess að krefjast breytinga á samningnum hóf Hollande baráttu fyrir einskonar viðauka við hann þar sem fjallað yrði um hagvöxt og var tillaga hans um það efni samþykkt með 120 milljarða evru framlagi á fundi leiðtogaráðs ESB 28. og 29. júní 2009.
Hollande og menn hans þurftu aldrei að óttast að ríkisfjármálasamningurinn hlyti ekki brautargengi á þinginu. Þar var hið sama uppi á teningnum og í Þýskalandi að stjórnarandstaðan stóð með ríkisstjórninni í málinu.
Við atkvæðagreiðslu í franska þinginu um samninginn 9. október 2012 greiddu 477 þingmenn atkvæði með honum, 70 voru á móti og 21 skilaði auðu, níu þingmenn voru fjarverandi. Öldungadeild franska þingsins samþykkti samninginn 11. október 2012, 306 öldungadeildarþingmenn studdu samninginn en 32 voru á móti honum. Varð Frakkland 13. ESB-ríkið til að fullgilda samninginn og níuanda evruríkið, samningurinn tekur gildi þegar 12 af 17 evruríkjum hafa fullgilt hann.
Jean-Marc Ayrault, forsætisráðherra Frakklands, sagði í framsöguræðu með samningnum að hann skerti ekki fullveldi Frakklands og í honum fælust engar hömlur á ríkisútgjöld auk þess sem fjárveitingarvaldið yrði áfram í höndum franska þingsins.
Áherslur Frakka
Hinn 19. september 2012 var birt opinber tilkynning í Frakklandi um að forsætisráðherrann hefði lagt tillögu fyrir ríkisstjórnina sem meðal annars fól í sér ríkisfjármálasamninginn.
Í tilkynningunni er höfuðáherslan á vaxtarsamninginn svonefnda það er viðaukann sem Françcois Hollande fékk samþykktan á leiðtogaráðsfundi ESB 28. og 29. júní 2012. Í tilkynningunni segir að vaxtar- og atvinnusamningur Evrópu Le Pacte européen pour la croissance et l'emploi sem samþykktur hafi verið í júní leiði hagvöxt til öndvegis í Evrópu. Þar sé að finna þrjú meginatriði: 120 milljörðum evra skuli varið til að stuðla að vexti og fjárfestingum, unnið skuli með hraði að því að koma bankasambandi innan evrusvæðisins til að tryggja stöðugleika á sviði fjármálaþjónustu og vernda skattgreiðendur og sparifjáreigendur auk þess sem lagður verði á evrópskur skattur á fjármagnsfærslur með aukinni samvinnu á því sviði.
Þá segir að ekki sé unnt að skilja ríkisfjármálasamninginn frá þessum þáttum. Í honum sé að finna nokkrar reglur varðandi fjárlagagerð sem séu ekki reistar á ytri þrýstingi en séu skilyrði þess að ríki geti haldið í við evrópska vaxtarstefnu.
Á þessum grunni megi síðan auka enn samruna innan Evrópu. Markmiðið sé að treysta grunn ESB og evrusvæðisins og sigrast á opinbera skuldavandanum sem hamli nú efnahagslífi víða í álfunni. Þá sé gert ráð fyrir meiri samruna til að treysta fullveldi ríkja gagnvart mörkuðunum.
Aukin samvinna kalli einnig á meira lýðræðislegt eftirlit innan ESB sem geri kleift að dýpka og styrkja efnahagsleg og stjórnmálaleg tengsl milli aðildarríkjanna.
Franska ríkisstjórnin lagði málið fyrir þjóð sína á þingmenn með öðrum áherslum en þýska ríkisstjórnin. Í Berlín nálguðust menn málið einkum með þeim rökum að ríkisfjármálasamningurinn væri tæki til að koma í veg fyrir að einstök ríki gætu dregið önnur út í skuldafen með ábyrgðarlausri stjórn á ríkisfjármálum.
Ólík viðhorf í Berlín og París
Angela Merkel nálgast málið frá sjónarhóli þess sem óttast að hann sitji uppi með skuldir óreiðumanna sé ekki komið á þá böndum. François Hollande og hans menn leggja hins vegar megináherslu á að auka bæri útgjöld og í raun fælust ekki neinar nýjar hömlur í ríkisfjármálasamningnum.
Þessi munur á viðhorfi þýskra stjórnmálamanna og franskra sósíalista til stjórnar á efnahagsmálum og ríkisfjármálum verður ekki skýrður á þann veg að Angela Merkel hallist til hægri en François Hollande til vinstri. Þýskir jafnaðarmenn eru ekki síður gagnrýnir á efnahagsstjórn Hollandes en kristilegir demókratar.
Hinn 1. nóvember 2012 birti franska blaðið Le Figaro tvær greinar um vaxandi tortryggni Þjóðverja í garð Frakka og vitnaði í fyrirsögn í þýska fjöldablaðinu Bild þar sem stóð: Er Frakkland að breytast í nýtt Grikkland? Fyrirsögnin í Le Figaro var: Opinberlega eru samskiptin góð. Á bakvið tjöldin gagnrýna ráðgjafar og fyrrv. forystumenn efnahagsákvarðanir í París.
Vitnað er í þýska jafnaðarmanninn Gerhard Schröder, fyrrverandi Þýskalandskanslara, sem hafi í nýlegri ræðu gagnrýnt flokksbræður sína, franska sósíalista, og borið Frakkland á líðandi stundu saman við Þýskaland árið 2003 þegar það var talið „veiki maðurinn í Evrópu“. Schröder greip þá til róttækra, frjálslyndra aðgerða sem gerðu Þjóðverjum kleift að rétta úr kútnum.
Schröder telur að kosningaloforð hins nýja forseta Frakklands muni verða að engu þegar kaldar efnahagslegar staðreyndir komi til sögunnar. Lendi Frakkar í erfiðleikum með að endurfjármagna opinberar skuldir sínar verði það upphaf raunverulegs vanda fyrir þá. Schröder telur það ranga stefnu hjá Hollande að lækka eftirlaunaaldur og það verði ekki unnt að afla fjár til þess. Spenna í ríkisfjármálum Frakklands verði ekki aðeins til að ýta undir fjármagnsflótta heldur muni þrengja að leiðum til að fjármagna störf í Frakklandi. „Eftir tvö eða þrjú slæm tilvik munu franskir vinir okkar átta sig á staðreyndum lífsins að nýju,“ segir Schöder við flokksbræður sína í París.
Bild dregur upp svarta mynd af stöðunni í Frakklandi „25% atvinnuleysi ungs fólks“, „5% halli á ríkissjóði“, „núll vöxtur“, „minnstu efnahagsumsvif í þrjú ár“ og þá er minnt á „hina alvarlegu kreppu bílaiðnaðarins“. Í blaðinu segir: „Frakkar fjármagna sig enn á góðum markaðskjörum en hagtölur þeirra minna á kreppuríkin í suðri“. Hollande er hvattur til að grípa til „stórhuga umbóta“. Bild telur að þær séu nauðsynlegar til að „hin mikla þjóð verði ekki eins fátæk og hinir aðþrengdu Grikkir“.
Le Figaro sem er andvígt stjórn sósíalista segir að Schröder, fyrrverandi kanslari, hafi sagt það sem Merkel. núverandi kanslari, þori ekki að segja opinberlega. Ekki takist að fá nein opinber viðbrögð í Berlín við þróun mála í Frakklandi en í einkasamtölum segi menn að Bild gangi alltof langt í málflutningi sínum, Frakkland sé hvorki Grikkland, Spánn né Ítalía, hins vegar sé full ástæða til að hafa áhyggjur af stöðu mála. Hollande líkist helst Lísu í Undralandi. Hann sé hugmyndafræðilega einangraður frá nágrönnum sínum sem hafi ráðist í kerfisbreytingar og fylgi aðhaldsstefnu. Hann muni þó fyrr eða síðar átta sig á Frakkland standi ekki utan „lögmála eðlisfræðinnar“.
Í Le Figaro er vitnað til þýskra hagfræðinga sem standa nærri stjórnvöldum í Berlín, þeir séu á einu máli. Blandan af háum sköttum og of litlum niðurskurði ríkisútgjalda muni kæfa vöxt í Frakklandi og leiða til atvinnuleysis. Þýskir hagfræðingar segja að Frakkland verði ekki samkeppnishæft nema dregið sé úr „fastakostnaði á vinnustund“, það verði að „afnema 35 tíma regluna“, það er regla sem sósíalistar komu á um 35 tíma vinnuviku og stjórnir hægrimanna höfðu ekki afl til að afnema. Auka verði „sveigjanleika“ á vinnumarkaði draga úr „sérréttindum“ opinberra starfsmanna, „minnka ríkisafskipti“, „lækka skatta“ og „breyta félagslega kerfinu, einkum varðandi eftirlaun“.
Enn er vitnað í Gerhard Schröder, nú frá haustinu 1997 þegar hann var enn forsætisráðherra í Neðra-Saxlandi. Eftir að hafa hitt Dominique Strauss-Kahn sem þá var fjármálaráðherra í stjórn sósíalista undir forsæti Lionels Jospins og andlegur faðir færri vinnustunda á Schröder að hafa sagt: „Ég vona að Frakkar ákveði að fækka vinnustundum á viku í 35 án þess að lækka launin, það yrði gott fyrir þýskt atvinnulíf.“ Schröder varð að ósk sinni. Volkswagen-verksmiðjurnar eru í Neðra-Saxlandi og blómstra á sama tíma og franskur bílaiðnaður á í vök að verjast.
Þegar rætt er um samanburð á milli Frakklands og Þýskalands er bent á að bilið milli efnahagsþróunar í ríkjunum hafi aldrei orðið meira en eftir að þau tóku upp sameiginlega mynt hinn 1. janúar 1999, skömmu eftir að Schröder varð kanslari. Markið hafi verið alltof lágt skráð á móti evrunni og þetta hafi spillt mjög samkeppnisstöðu Þjóðverja fyrir utan kostnað þeirra af sameiningu Austur- og Vestur-Þýskalands. Þýskir stjórnmálamenn hafi hins vegar tekið á vandanum bæði Schröder og síðan Angela Merkel frá 2005.
Frakkar hafi hins vegar hagnast á upptöku evru og gripið til þess að taka upp 35 stunda vinnuviku. Þetta hefði áreiðanlega ekki verið unnt með franka sem mynt því að slíkur félagslegur aukakostnaður á fyrirtæki hefði að lokum haft áhrif á gengisskráninguna. Minnt er á að við upptöku evru hafi hlutfall atvinnulausra verið hið sama í löndunum tveimur 10,7%, það sé enn yfir 10% í Frakklandi en 6,5% í Þýskalandi.
Hollande í vanda
Sama dag, 1. nóvember 2012, og Le Figaro birti þennan samanburð á stöðu mála í Þýskalandi og Frakklandi birti The New York Times úttekt á þróun stjórnmála og efnahagsmála í Frakklandi frá því að sósíalistar komust þar til valda undir forystu Hollandes. Myndin er ekki fögur. Sundrung eykst í röðum sósíalista. Deilt er um hvort skynsamlegt sé að hækka skatta og frysta ríkisútgjöld í stað þess að skera útgjöldin niður og fara hægar í skattahækkanir. Blaðið vitnar í forsíðufyrirsögn á Le Monde sem er hlynnt sósíalistum og stjórn þeirra en spurði yfir þvera forsíðuna: Hefur Hollande vanmetið kreppuna?
Þá er vakin athygli á að engu sé líkara en ráðherrar sósíalista fari hver sínu fram og segi það sem þeim detti í hug. Ayrault forsætisráðherra hafi til dæmis valdið miklu uppnámi undir lok október þegar hann gaf til kynna að hin „heilaga“ stefna flokksins frá 2000 um 35 tíma vinnuviku kynni að verða endurskoðuð. Hann sat á fundi með lesendum blaðsins Le Parisién þegar hann var spurður hvort ekki ætti að taka upp 39 stunda vinnuviku að nýju og svaraði: „Hvers vegna ekki? Það er ekkert bannað.“
Uppnám varð innan flokksins. Michel Sapin atvinnumálaráðherra sem er handgenginn Hollande gekk fram fyrir skjöldu og sagði: „35 tíma vikan verður ekki afnumin.“
Kannanir undir lok október 2012 sýna miklar óvinsældir Hollandes. Um 64% Frakka lýsa óánægju með stjórn hans og aðeins 10% telja að ástandið hafi batnað í Frakklandi frá því að hann komst til valda. Þá sögðust 69% óánægð með að ekki hefði tekist að fækka atvinnulausum, þeir hafa ekki verið fleiri í 13 ár. Þegar spurt var um stefnuna í ríkisfjármálum lýstu 66% óánægju sinni. Einnig var leitað álits á stjórnarháttum Hollandes og töldu 68% að hann kynni ekki að fara með forsetavaldið og 63% að hann gæti ekki tekið erfiðar ákvarðanir.
Frönskum sósíalistum tókst að ljúka afgreiðslu ríkisfjármálasamnings ESB. Þróun mála í Frakklandi undir þeirra stjórn sýnir hins vegar að samþykkt slíks samnings á ekkert skylt við efnahagsstefnu sem reist er stefnu franskra sósíalista og kann að kalla nýjan og enn meiri vanda yfir evrusamstarfið og Evrópusambandið.
Breikki bilið milli Frakka og Þjóðverja í efnahagsmálum og stjórnmálum eftir upptöku evru er ekki við því að búast að það styrki evrusamstarfið í bráð og lengd. Stjórnmálaágreiningur milli ráðamanna í Berlín og París ræður ekki úrslitum í því efni heldur kaldar efnahagslegar staðreyndir eins og Gerhard Schröder hefur nefnt. Í ólgusjó af þessu tagi verður ríkisfjármálasamningurinn í raun algjört aukaatriði.
Í lokakafla þessa greinaflokks verður rætt um stöðu ríkisfjármálasamningsins og næstu skref sem hafa verið boðuð í anda hans til samruna innan ESB.