7.11.2012

Ríkisfjármál og ESB III: Þjóðverjar samþykkja ESM og ríkisfjármálasamninginn



Þótt Angela Merkel Þýskalandskanslari hafi verið hvatamaður þess að ríkisfjármálasamningur ESB var gerður og undirritaður af 25 af 27 þáttakendum í fundi leiðtogaráð ESB 2. mars 2012 ríkti óvissa um framgang samningsins og lagafrumvarps um aðild Þjóðverja að stöðugleikasjóðnum (ESM) á þýska þinginu. Þegar gríska þjóðþingið hafði fyrst þinga samþykkti aðilid að ríkisfjármálasamningnum 10. maí 2012 glímdi Merkel við að mynda meirihluta innan eigin stjórnarflokka á þýska þinginu. Hún þurfti að tryggja aukinn meirihluta á þingi til að ljúka málinu.

Hinn 13. júní 2012 sagði Reuters-fréttastofan að Merkel leitaði eftir samkomulagi við stjórnarandstöðuna um framgang ríkisfjármálasamningsins og ESM á þingi og henni gengi það ekki of vel. Jafnaðarmenn (SPD) og græningjar í stjórnarandstöðu krefðust þess að kanslarinn féllist á óskir þeirra um að tekinn yrði upp skattur á fjármagnsfærslur auk þess sem meiri áhersla yrði lögð á hagvöxt við björgunaraðgerðir á evru-svæðinu en gert hefði verið til þessa.

Samkomulag tókst að lokum milli stjórnar og stjórnarandstöðu í Bundestag, neðri deild þýska þingsins, og hinn 29. júní 2012 voru greidd atkvæði um ríkisfjármálasamninginn og ESM-aðildina.

Fyrst voru greidd atkvæði um samninginn. 491 þingmaður studdi hann en 111 voru á móti, sex skiluðu auðu. Tveir þriðju þingmanna, 414 atkvæði, urðu að samþykkja samninginn. Skilyrðið um aukinn meirihluta var reist á kröfu í stjórnarskránni þar sem um alþjóðlega skuldbindingu um að halda ríkisútgjöldum Þýskalands í skefjum væri að ræða.

Síðan voru greidd atkvæði um ESM-sjóðinn. Aðild að honum var samþykkt með 493 atkvæðum gegn 106, fimm skiluðu auðu.

Eftir afgreiðslu í Bundestag fóru málin til Bundesrat, efri deildar þingsins þar sem fulltrúar sambandslanda Þýskalands sitja. Að kvöldi 29. júní samþykktu fulltrúar 15 af 16 sambandslöndum frumvörpin eins og þau komu frá Bundestag. Fulltrúar Brandenburgar í austurhluta Þýskalands sem stjórnað er af samsteypustjórn jafnaðarmanna og Vinstriflokksins (Die Linke að nokkru arftakar austur-þýska kommúnistaflokksins) studdu ekki frumvörpin.

Maraþonfundur í Brussel

Angelu Merkel var létt eftir að þessi niðurstaða fékkst á þýska þinginu en aðfaranótt föstudagsins 29. júní sat hún maraþonfund með leiðtogum ESB í Brussel þar sem í fyrsta sinn reyndi á samstöðu þeirra eftir að François Hollande var kjörinn forseti Frakklands í stað Nicolas Sarkozys.

Í tíð Sarkozys höfðu hann og Merkel jafnan efnt til tvíhliða funda fyrir leiðtogafundi ESB og komið þangað með sameiginlega niðurstöðu. Þetta breyttist eftir að Hollande náði kjöri hinn 6. maí 2012. Hann lagði áherslu á samstarf við Mario Monti, forsætisráðherra Ítalíu, og Mariano Rajoy, forsætisráðherra Spánar, sem kveinkuðu sér undan kröfum Merkel um aðhald og niðurskurð í ríkisrekstri. Vildu þeir að hagvaxtarstefna setti meiri svip á ályktanir leiðtogaráðs ESB. Í fjölmiðlum var látið liggja að klofningi innan ESB milli norðurs og suðurs.

Á þessum leiðtogafundi ESB 28. og 29. júní 2012 samþykktu fulltrúar evru-ríkjanna 17 að auðvelda ríkjum að fá stuðning frá ESM-sjóðnum. Evru-ríki sem fullnægði fjárlagaskilyrðum framkvæmdastjórnar ESB skyldi nú geta fengið aðstoð án þess að verða að beygja sig undir ströng aðhaldsskilyrði. Ríkið þyrfti ekki að lúta eftirliti þríeykisins, fulltrúa ESB, Seðlabanka Evrópu og Alþjóðagjaldeyrissjóðsins. Þá gæti sjóðurinn lagt bönkum beint til fé í stað þess að lána það til viðkomandi ríkis sem mundi leiða til hærri skulda þess. Það skilyrði fyrir þessu var sett að komið yrði á fót einu, samræmdu bankaeftirliti undir stjórn Seðlabanka Evrópu.

Fyrir leiðtogafundinn hafði Merkel varað við því að þessi leið yrði farin og þess vegna var að honum loknum sagt að hún hefði orðið undir, forseta Frakklands hefði tekist að mynda bandalag gegn henni og beygja hana. Frá því að þessi samykkt var gerð 29. júní 2012 hefur verið þráttað um hvað í henni felst og hafa Þjóðverjar meðal annars túlkað hana á þann veg að hún nái ekki til banka sem höfðu verið endurfjármagnaðir með neyðarláni fyrir samþykktina eða gildistöku hennar. Hefur túlkunin valdið Spánverjum og Írum vonbrigðum. Þá hefur hinu sameiginlega bankaeftirliti ekki enn verið komið á laggirnar. Loks skal þess getið að fyrir leiðtogafundinn í lok júní 2012 hafði Hollande talað mikið um nauðsyn útgáfu evruskuldabréfa, það er skuldabréfa með ábyrgð allra evruríkjanna. Merkel er eindregið á móti slíkum bréfum og umræður um þau eru nú mun lágværari en áður.

Á leiðtogafundinum 28. og 29. júní 2012 var samþykkt tillaga frá François Hollande um að 120 milljörðum evra skyldi varið til að auka hagvöxt innan ESB. Hollande hafði lofað kjósendum sínum slíkum sjóði í kosningabaráttunni gegn Sarkozy og taldi han nauðsynlega viðbót við ríkisfjármálasamning Merkel sem Hollande gagnrýndi fyrir frönsku kosningarnar. Að þeim loknum sætti hann sig við samninginn og var samþykktin um vaxtarsjóðinn liður í að tryggja stuðning hans.

Kært til stjórnlagadómstóls

Föstudagurinn 29. júní 2012 skipti miklu máli í baráttu Merkel fyrir framgangi ríkisfjármálasamningsins og ESM-sjóðsins. Björninn var þó ekki unninn. Andstæðingar þess að þýska þingið afsalaði sér fjárveitingarvaldi á þennan hátt vildu vita hvort það samræmdist þýsku stjórnarskránni. Þeir ákváðu að leita álits þýska stjórnlagadómstólsins sem hefur aðsetur í tiltölulega afskekktri borg, Karlsruhe, á því. Staðarvalið á að undirstrika fjarlægð dómaranna frá hringiðu hins pólitíska valds og minnka pólitískan þrýsting á þá.

Joachim Gauck, forseti Þýskalands, ákvað að skrifa ekki undir lögin um ríkisfjármálasamninginn og ESM-sjóðinn fyrr en niðurstaða dómaranna í Karlsruhe lægi fyrir.

Þýsku stjórnlagadómararnir birtu niðurstöðu sína 12. september 2012. Þeir sögðu að við fullgildingu samningsins um ESM-sjóðinn yrði í fyrsta lagi að gæta þess á þjóðréttarlegan hátt að Þýskland yrði ekki skuldbundið til að ábyrgjast meira en 190 milljarða evra án þess að þýska þingið ætti þar síðasta orð. Í öðru lagi yrði að tryggja að þagnarskylda sem hvíldi á þeim sem starfa við ESM hindraðii ekki að þingmenn í Bundestag og Bundesrat fengju þær upplýsingar sem þeir óskuðu um starfsemi sjóðsins.

Dómstóllinn hefur ekki sagt síðasta orð sitt um stöðu ESM og ríkisfjármálasamningsins gagnvart þýsku stjórnarskránni. Hinn 12. september ákvað hann hins vegar að verða ekki við óskum þeirra sem kærðu til hans vegna þessara mála um að leggja stein í götu staðfestingar og fullgildingar af hálfu Þjóðverja. Joachim Gauck Þýskalandsforseti skrifaði undir lögin og unnið var að því að koma ESM formlega á fót. Miðað hafði verið við 1. júlí 2012 en sjóðurinn tók ekki til starfa fyrr en 5. október 2012.

Þegar hann kynnti ákvörðun dómaranna sagði Andreas Vosskuhle, forseti stjórnlagadómstólsins: „Athuganir okkar hafa sýnt að mjög líklegt er að lögin brjóti ekki í bága við þýsku stjórnarskrána. Þess vegna höfum við hafnað þessum kröfum um lögbann.“ Dómararnir ætla sér lengri tíma til að komast að endanlegri niðurstöðu um stjórnarskrárþátt málsins en flestir spá því að hún verði í samræmi við niðurstöðuna sem var kynnt 12. september 2012.

Um ríkisfjármálasamninginn sagði dómstóllinn að aðild að honum bryti ekki gegn heildarábyrgð þýska Bundestag á fjárlögum landsins. Dómararnir sögðu að samningurinn væri í að stærstum hluta í samræmi við kröfur þýsku stjórnarskrárinnar um jöfnuð í ríkisfjármálum og ríkisfjármálaskuldbindingar í samræmi við sáttmálann um starfsemi Evrópusambandsins (SSE). Þá taldi dómstóllinn að í ríkisfjármálasamningnum væri ekki að finna ákvæði sem veittu stofnunum Evrópusambandsins völd sem hefðu áhrif á heildarábyrgð þýska Bundestag á afgreiðslu fjárlaga þýska ríkisins.

Hæstiréttur Írlands leitar álits

Sérfræðingar sem fjalla um niðurstöðu þýska stjórnlagadómstólsins minna á að Hæstiréttur Írlands taldi ekki að fullgilding írsku ríkisstjórnarinnat á ESM-samningnum bryti í bága við írsku stjórnarskrána og lagðist dómstóllinn því ekki gegn fullgildingu. Dómstóllinn ákvað hins vegar að leita álits ESB-dómstólsins á því hvort ákvörðun leiðtogaráðs Evrópu frá 25. mars 2011 um breytingu á 136 gr. SSE til að stofna mætti ESM hafi verið lögmæt og hvort evruríkjum sé skylt að skrifa undir og fullgilda alþjóðasamning á borð við ESM-saminginn með hliðsjón af fyrirvörum ESB-sáttmálanna.

Þýski prófessorinn Markus Kerber taldi að hvorki þýski stjórnlagadómstóllinn né þýski forsetinn gætu tekið endanlega afstöðu til ESM eða ríkisfjármálasamningsins fyrr en ESB-dómstóllinn hefði gefið írska hæstaréttinum álit sitt. Til þess er hins vegar tekið að þýski stjórnlagadómstóllinn hefur aldrei leitað álits ESB-dómstólsins og þess vegna hafi verið borin von að hann biði eftir að hann gæfi írska hæstaréttinum álit sitt.

Mario Draghi gefur loforð

Ljóst er að málareksturinn fyrir þýska stjórnlagadómstólnum skapaði óvissu á fjármálamörkuðum. Til að draga úr henni litu menn sumarið 2012 æ meira til Seðlabanka Evrópu (SE) og vakti mikla athygli daginn fyrir Olympíuleikana í London þegar Mario Draghi, forseti stjórnar SE, sagði á ráðstefnu á vegum Davids Camerons forsætisráðherra að evran yrði varin hvað sem það kostaði.

Hinn 6. septeber 2012 kynnti Draghi síðan niðurstöðu bankaráðs SE sem samþykkt var í andstöðu við þýska bankaráðsmanninn um að SE mundi kaupa ríkisskuldabréf á almennum fjármálamörkuðum. Hann lagði jafnframt ríka áherslu á að ríki sem vildu selja bankanum bréf yrðu að sæta ströngum skilyrðum þar sem þau yrðu að sækja um stuðning til björgunarsjóða evrusvæðisins, bráðabirgðasjóðsins ESFS eða varanlega sjóðsins ESM. Taldi Draghi að umboð bankaráðsins heimilaði því að taka ákvarðanir um þessi skuldabréfakaup sem kynnt voru undir enska heitinu outright monetary transactions (OMT). Seðlabankinn kaupir ekki bréfin sjálfur heldur seðlabankar einstakra landa með ávísun á SE. Af þessu hafa menn dregið þá ályktun að þýski seðlabankinn, Bundesbank, mundi annast stærsta hluta kaupanna ef evruríki vildi nýta sér OMT. Af þessu leiddi að Þjóðverjar eða borgarar annarra landa sætu að lokum uppi með ábyrgðina hvað sem þing þeirra segðu.

Í Þýskalandi töldu margir að með ákvörðun bankaráðs SE væri komið aftan að Þjóðverjum og farið í kringum ákvarðanir um að þýska þingið, Bundestag, ætti síðasta orðið vegna fjárskuldbindinga Þjóðverja. Þýski stjórnlagadómstóllinn hefur sagt að hann muni líta til þessarar ákvörðunar bankaráðs SE þegar hann tekur afstöðu til þess hvort aðild að ESM og ríkisfjármálasamningnum samrýmist þýsku stjórnarskránni.

Í næstu grein verður fjallað um afstöðu Frakka til ríkisfjármálasamningsins.