Schengen III: Aðild að stofnunum og samningum
Aðild Íslands að Schengensamstarfinu hefur opnað íslenskum stjórnvöldum leið til samstarfs við önnur ríki á sviði löggæslu og refsivörslu sem annars hefði verið þeim lokuð. Hér verður gerð grein fyrir þessari hlið samstarfsins. Fyrst eru nefndar fimm stofnanir og síðan fjórir samningar.
EUROPOL
EUROPOL (European Police Agency) er löggæslustofnun Evrópu, Evrópulögregla, með aðetur í Haag, Hollandi. Meginverkefni hennar er miðlun og greining upplýsinga auk þess að stuðla að samvinnu ríkja og stofnana þeirra í baráttunni gegn hryðjuverkum og skipulagðri alþjóðlegri glæpastarfsemi.
EUROPOL má rekja til Maastrichtsáttmálans frá 1992 en starfsemi undir merkjum stofnunarinnar hófst í janúar 1994. ESB-ríkin staðfestu samning sín á milli um EUROPOL og tók hann gildi 1. október 1998. Ráðherraráð ESB bauð Íslandi að gera samstarfssamning við EUROPOL síðla árs 1999 og samþykkti ríkisstjórnin í október það ár að ganga til samningaviðræðna um þetta samstarf.
Þegar málið var kynnt í ríkisstjórninni var það meðal annars gert með þeim rökum, að með Amsterdamsáttmála ESB hefði Schengensamstarfið verið fært undir ESB auk þess sem Ísland hefði gert Brusselsamninginn við ESB. Einn af meginþáttum Schengensamstarfsins væri að styrkja öryggi aðildarríkjanna með nánari lögreglusamvinnu. Ástæða væri til að ætla að EUROPOL yrði í auknum mæli samstarfsvettvangur í þágu Schengen auk þess sem hlutverk EUROPOL gagnvart ólöglegum innflytjendum mundi leiða til samstarfs í þeim efnum þar, þá væri rætt um náin tengsl EUROPOL, SIS og SIRENE.
Samstafssamningur Íslands og EUROPOL var undirritaður 28. júní 2001 og er markmið hans að auka samvinnu aðildarríkja ESB, fyrir milligöngu EUROPOL, og Íslands í baráttunni gegn alþjóðlegri glæpastarfsemi, einkum með skiptum á upplýsingum um einstök mál. Embætti ríkislögreglustjóra kemur fram gagnvart EUROPOL fyrir Íslands hönd, íslenskur tengifulltrúi hefur verið hjá EUROPOL síðan 1. febrúar 2007.
Samstarfsaðilar EUROPOL eru ESB-ríkin 27 auk 24 annarra ríkja og alþjóðastofnana. Þar starfa um 600 manns, þar af eru 110 tengifulltrúar einstakra ríkja eða samstarfsaðila.
EUROPOL heldur samevrópska gagnagrunna um þá brotastarfsemi sem eru á borði stofnunarinnar og miðlar upplýsingum úr þeim til aðildarríkjanna og samstarfsaðila. Eðli og tengsl þeirra upplýsinga sem er að finna í þessum gagnagrunnum eru greind af sérfræðingum EUROPOL og skoðuð án tillits til landamæra. Slík greining getur reynst mjög gagnleg við úrlausn brotamála í einstökum löndum. Í skýrslu innanríkisráðherra um Schengensamstarfið frá júní 2012 (http://www.althingi.is/altext/140/s/1698.html), hér eftir nefnd ráðherraskýrsla 2012, segir (bls. 17): „Aðgangur að þessum grunnum hefur reynst Íslandi afar mikilvægur og oft á tíðum tengt íslenskar upplýsingar við erlendar sem hefur orðið grundvöllur sameiginlegra rannsókna.“
Í ráðherraskýrslunni 2012 kemur fram að Íslendingar hafa tekið virkan þátt í gerð hættumatsskýrslu EUROPOL Serious and Organised Crime Threat Assessment (SOCTA) sem birt er annað hvort ár. Þar er greind hætta sem talin er steðja að evrópskum þjóðfélögum vegna alþjóðlegrar glæpastarfsemi. Þá er gerð sambærileg skýrsla um hættuna af hryðjuverkamönnum og öfgahópum í Evrópu.
Í ljósi þessa hættumats er komið á fót vinnuhópum til að huga nánar að einstökum þáttum og viðbrögðum á hverju sviði. Hóparnir eru 23 um þessar mundir og eiga fulltrúar Íslands fullan aðgang að starfi þeirra og taka virkan þátt í hópum um glæpastarfsemi mótórhjólahópa, glæpastarfsemi hópa frá A-Evrópu, einkum Eystrasaltslöndum, peningaþvætti og fjármunabrot og framleiðslu og dreifingu á fíkniefnum eins og amfetamíni og ecstasy. Án þess að bera af því sérstakan kostnað njóta íslensk stjórnvöld góðs af þessu sérfræðingastarfi.
Í ráðherraskýrslunni 2012 segir eftir Arnari Jenssyni, tengifulltrúa Íslands hjá EUROPOL (bls. 18):
„Óhætt er að fullyrða að öll barátta íslenskra lögregluyfirvalda við skipulagða glæpastarfsemi á Íslandi sé unnin í nánu samstarfi við tengslaskrifstofu Íslands hjá EUROPOL og sérfræðingahópa stofnunarinnar, sem hafa beinan aðgang að upplýsingum frá öllum samstarfsríkjum og stofnunum. Lykillinn er aðgangur að hinni sameiginlegu yfirsýn upplýsinga frá öllum aðildarlöndunum, sem eingöngu er mögulegur með þátttöku í EUROPOL og Schengen.“
EUROJUST
EUROJUST, Evrópska réttaraðstoðin, er samstarfsvettvangur ríkja ESB, sem komið var á fót árið 2002 en markmið samstarfsins er að greiða fyrir gagnkvæmri réttaraðstoð í sakamálum og vinna með skilvirkum hætti gegn alvarlegum afbrotum, sem teygja sig til tveggja eða fleiri aðildarríkja sambandsins með því að samhæfa rannsókn og saksókn vegna slíkra mála. Höfuðstöðvar EUROJUST eru í Haag.
Starfsemi EUROJUST er stjórnað af stjórnarnefnd sem er skipuð fulltrúa frá hverju aðildarríki Evrópusambandsins. Eru nefndarmenn ýmist dómarar, saksóknarar eða háttsettir lögreglumenn í heimalandi sínu. Stjórnarnefndinni er ætlað að vera vettvangur samráðs og upplýsingaskipta milli yfirvalda í aðildarríkjunum og greiða þannig samvinnu um rannsókn og saksókn mála. Er stofnuninni heimilt að óska eftir upplýsingum frá yfirvöldum í aðildarríkjunum um tiltekin atriði er varða rannsókn eða saksókn. Stofnunin getur hins vegar ekki tekið ákvarðanir um rannsókn eða saksókn mála, heldur er ákvörðunarvald í þeim efnum eftir sem áður í höndum réttbærra yfirvalda í aðildarríkjunum.
Hinn 2. desember 2005 var skrifað undir samstarfssamning Íslands og EUROJUST. Af Íslands hálfu annast embætti ríkissaksóknara samskiptin við Evrópsku réttaraðstoðina eins og þessi samvinna er nefnd á íslensku. Í samningnum felst m.a. að íslenskur sendisaksóknari vinni með stjórnarnefnd Evrópsku réttaraðstoðarinnar að málum sem upp kunna að koma og varða Ísland.
FRONTEX
Ég var í forsæti á fundi ráðherra í samsettu nefndinni um málefni Schengen fimmtudaginn 27. nóvember 2003. Aðalmálið á dagskrá fundarins var tillaga framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins um að setja á fót Frontex (skammstöfun úr frönsku orðunum Frontières extérieures það er ytri landamæri, lögbundið heiti:European Agency for the Management of Operational Cooperation at the External Borders of the Member States of the European Union) á íslensku Landamærastofnun Evrópu. Tillagan byggði á Schengengerðum, þannig að Ísland og Noregur urðu aðilar að stofnuninni.
Stofnunin var stofnuð í október 2004 og tók til starfa í Varsjá með stjórnarfundi undir lok maí 2005. Tilnefnir hvert ríki fulltrúa í stjórn, þar á meðal Ísland og Noregur. Ísland og Noregur hafa meiri réttindi í Landamærastofnuninni en þeim fagstofnunum sem falla undir EES-samninginn að því leyti að fulltrúar landanna hafa þar atkvæðisrétt í ákveðnum málum sem varða þau sérstaklega.
FRONTEX fer hvorki með lagasetningarvald né ber ábyrgð á framkvæmd landamæravörslu. Hlutverk hennar er að leiða samvinnu aðildarríkjanna á sviði landamæravörslu. Nánar tiltekið að samhæfa samvinnu landamæravarða; aðstoða ríkin við þjálfun landamæravarða; framkvæma áhættugreiningu; fylgja eftir hvers kyns rannsóknum í þágu landamæragæslu; aðstoða ríki við sérstakar aðstæður vegna álags á einstaka hluta ytri landamæra; aðstoða ríki við að framkvæma brottvísanir sameiginlega.
Stofnunin hefur stækkað í áranna rás og starfa þar nú 300 manns þá hafa verkefni hennar aukist og starfssviðið breikkað. FRONTEX hefur komið mjög við sögu vegna gæslu ytri Schengenlandamæra á Miðjarðarhafi, milli Grikklands og Tyrklands og undan strönd Afríku gagnvart Kanaríeyjum.
Landhelgisgæsla Íslands (LHG) hefur tekið að sér verkefni fyrir FRONTEX bæði með skipum og flugvél. Í ráðherraskýrslu 2012 (bls. 16) segir að starfsmenn LHG hafi unnið „frábært starf“ á vegum FRONTEX og undir handarjaðri stofnunarinnar hafi fleira fólki verið bjargað á sjó en áður hafi þekkst.
Auðunn Kristinsson, verkefnastjóri aðgerðasviðs LHG, sagði í ríkisútvarpinu 27. ágúst 2012 að áhöfn varðskipsins Ægis hefði bjargað 495 manns úr lífsháska árið 2011 á vegum FRONTEX. Flugvélin TF-SIF er mikið notuð við ýmiskonar eftirlit en áhöfn hennar fann um 600 manns árið 2011 sem síðan var bjargað af björgunar- og gæsluskipum. Þátttaka LHG í eftirlitsstörfum fyrir FRONTEX hófst eftir hrun. Greiðslur fyrir þessi verkefni létta undir með LHG og störfum hennar á Íslandi. Tækjum er haldið í rekstri, 40 til 50 starfsmenn vinna við eftirlitið.
Gestalandamæraverðir undir merkjum FRONTEX hafa starfað í Leifsstöð á Keflavíkurflugvelli. Stofnunin stendur að námskeiðum sem Íslendingar sækja.
FRONTEX stundar áhættugreiningu og rekur gagnabanka. Hún auðveldar aðildarríkjunum að takast á við landmæratengda glæpi tengda ólöglegum ferðamönnum, smygli á fólki og mansali. Ráðherraskýrsla 2012 (bls. 17) segir galla við FRONTEX-samstarfið frá íslensku sjónarmiði „að löggæslustofnanir á Íslandi hafa takmarkaðan mannafla til að sinna þessu samstarfi á vettvangi Evrópusambandsins sem verður æ umfangsmeira með hverju árinu sem líður“.
Landamærasjóður
Ísland gerðist árið 2010 aðili að evrópskum landamærasjóði sem tengist Schengensamstarfinu og kom til sögunnar árið 2007. Verkefni hans er að styrka eftirlit og öryggi á ytri landamærum svæðisins. Hefur Ísland nýtt sér þetta samstarf auk þess að greiða til þess.
CEPOL
Fulltrúar Lögregluskóla ríkisins, norska lögregluháskólans og evrópska lögregluskólastarfsins (CEPOL) undirrituðu 27. júní 2006 aðildarsamkomulag Íslands og Noregs að evrópska lögregluskólastarfinu.
Aðildin opnaði Lögregluskóla ríkisins nánara samstarf við evrópska lögregluskóla um þjálfun og upplýsingaskipti. Meginviðfangsefni CEPOL eru að efla samstarf og virkni lögregluliða, miðla upplýsingum um niðurstöður rannsókna og starfsvenjur og annast þjálfunarnámskeið fyrir háttsetta lögreglumenn. Viðfangsefnin tengjast jafnan baráttunni gegn afbrotum, s.s. afbrotum yfir landamæri innan Evrópu, viðnámi gegn hryðjuverkum, ólöglegum innflytjendum, landamæravörslu, mannsali og hvers konar alþjóðlegri glæpastarfsemi.
Lögregluskóli ríkisins er virkur þátttakendur í starfi CEPOL og fá aðgang að rafrænu netkerfi CEPOL ásamt námsneti evrópskra lögregluliða. Frá því að Ísland gerðist aðili að CEPOL hefur Lögregluskóli ríkisins efnt til CEPOL-námskeiða hér á landi og fjöli íslenskra lögreglumanna sótt námskeið erlendis undir merkjum CEPOL.
Með aðild Íslands og Noregs var löndum utan Evrópusambandsins í fyrsta sinn veitt aðild að evrópska lögregluskólastarfinu.
Samningar
Hér verða nefndir fjórir samningar sem tengjast Schengensamstarfinu.
Evrópska handtökuskipunin
ESB-ríki hafa undanfarin ár unnið að því að einfalda framsal sakamanna sín á milli. Til einföldunar má segja, að markmiðið sé að færa ákvarðanir um framsal úr höndum stjórnmálamanna í hendur dómara. Evrópska handtökuskipunin (European Arrest Warrant) fjallar um þetta efni en hún var samþykkt stuttu eftir 11. september 2001, þegar rætt var af meiri þunga en nokkru sinni fyrr um nauðsyn sameiginlegra aðgerða gegn hryðjuverkum.
Handtökuskipunin felur meðal annars í sér, að skilyrði um tvöfalt refsinæmi er afnumið auk þess sem ríkin skuldbinda sig til að framselja eigin ríkisborgara milli landa. Í skilyrðinu um tvöfalt refsinæmi felst að verknaður sem liggur til grundvallar framsalskröfu þarf að vera refsiverður bæði í því ríki sem krefst framsals og því ríki sem óskað er að viðkomandi verði framseldur frá. Með afnámi þess skilyrðis felst þar af leiðandi, að verknaður þarf einungis að vera refsiverður í því ríki sem óskar framsals. Meginbreytingin með evrópsku handtökuskipuninni felst þó í því að handtökuskipun sem gefin er út í einu aðildarríki ESB skal framfylgja, að tilteknum skilyrðum uppfylltum, á grundvelli gagnkvæmrar viðurkenningar í því aðildarríki þar sem viðkomandi (eftirlýstur einstaklingur) finnst.
Í upphaflegri tillögu framkvæmdastjórnar ESB að evrópsku handtökuskipuninni var gert ráð fyrir að hún yrði hluti af þróun Schengenreglna sem hefði þýtt að Ísland hefði þurft að taka hana upp á þeim grunni. Frá því var fallið, einkum vegna mikils áhuga Breta og Íra á þátttöku í henni, og var það talið útiloka aðkomu Íslands og Noregs að málinu. Engu að síður var það talið bráðnauðsynlegt fyrir Schengensamstarfið að sambærilegt fyrirkomulag yrði tekið upp á milli ríkja ESB og Íslands og Noregs, vegna Schengenaðildarinnar en ákvæði um framsal eru í Schengensamningnum.
Ísland gerðist aðili að handtökuskipuninni árið 2007. Í ráðherraskýrslu 2012 segir (bls. 20) að nú sé unnið að gerð frumvarps um innleiðingu á þessum samningi.
Gagnkvæm réttaraðstoð
Árið 2000 var gerður samningur milli Íslands og Noregs annars vegar og Evrópusambandsins hins vegar um gagnkvæma réttaraðstoð í sakamálum og síðan viðbótarbókun við hann árið 2001.
Þátttaka Íslands í samningi ESB um gagnkvæma réttaraðstoð í sakamálum gefur íslenskum lögregluyfirvöldum aukna möguleika á nánara samstarfi við lögregluyfirvöld í aðildarríkjum ESB að því er varðar rannsókn sakamála. Aðild Íslands að þessum samningi gerir íslenskum lögregluyfirvöldum kleift að hafa bein og milliliðalaus samskipti við lögregluyfirvöld í aðildarríkjum Evrópusambandsins við rannsókn sakamál. Auk þess er kveðið með skýrari hætti á um viðkvæmar rannsóknaraðferðir svo sem eins og hleranir sem, líkt og dæmin sanna, geta skipt sköpum við að upplýsa alvarlegustu sakamálin.
Samningurinn tryggir þannig nánara samstarf milli Íslands og aðildarríkja ESB á sviði réttaraðstoðar í sakamálum þar sem gengið er lengra en gert er á grunni samninga Evrópuráðsins frá 1957 og 1959.
Dublinsamningurinn
Dublinsamningurinn, Dyflinnarsamningurinn, Dublinreglurnar eða Dublinsamstarfið eru íslensk orð um samning og samstarf um meðferð hælisumsókna sem tengjast Schengensamstarfinu. Reglurnar kveða á um hvaða ríki skuli taka hælisumsókn til meðferðar. Frá því þátttakan í Dublinsamstarfinu hófst hafa íslensk stjórnvöld vísað stærstum hluta hælisumsækjenda til baka til annarra aðildarríkja sem fjalla eiga um umsóknir þeirra en för hingað er auðveld um hin opnu innri landamæri Schengenríkjanna. Í Dublinsamstarfinu felst einnig þátttaka í sameiginlegum fingrafaragrunni (EURODAC), sem auðveldar stjórnvöldum að bera kennsl á þá sem þegar hafa sótt um hæli í öðrum aðildarríkjum.
Í frumvarpi til útlendingalaga sem flutt var árið 2000 er fjallað um Dyflinnarsamninginn sem undirritaður var í Dyflinni 15. júní 1990. Þegar frumvarpið var lagt fram hafði Ísland ekki gerst aðili að samningnum sem varð 19. janúar 2001. Útlendingalögin tóku hins vegar mið af honum og ákvæðum hans um í hvaða ríki eigi að fjalla um umsókn um hæli þegar vafi leikur á hvar slík umsókn skuli tekin til meðferðar. Samningnum er ætlað að tryggja að umsókn hljóti meðferð í einu aðildarríkjanna og fyrirbyggja að umsækjandi verði sendur frá einu aðildarríki til annars án þess að nokkurt þeirra viðurkenni ábyrgð sína á meðferð umsóknar. Með samningnum er því bætt réttarstaða þeirra sem sækja um hæli á samningssvæðinu.
Kjarni þessara reglna er, að þeim, sem biður um hæli, skuli vísað til þess lands, þar sem hann kom fyrst inn á Schengensvæðið, hitt er derogation, frávik frá reglunum, að dvalarríki lands fjalli um hælisbeiðni. Hvert aðildarríki getur tekið umsókn til meðferðar þótt því sé það ekki skylt enda samþykki umsækjandi það. Þá færist ábyrgð á meðferð beiðni til þess ríkis.
Komi fram beiðni um hæli í ríki sem ekki ber ábyrgð á meðferð málsins getur það óskað eftir því að umsækjandi verði fluttur til ríkis þar sem taka ber málið til meðferðar. Skylt er að verða við slíkum tilmælum ef beiðni þar að lútandi berst innan sex mánaða frá því að beiðni um hæli var móttekin. Einnig ber ríki sem ber ábyrgð á máli að taka aftur við umsækjanda um hæli eða útlendingi sem synjað hefur verið um hæli ef sá sem í hlut á dvelur ólöglega í öðru aðildarríki.
Í skýrslu nefndar innanríkisráðuneytisins um málefni útlendinga utan EES (http://www.innanrikisraduneyti.is/utgefid-efni/utgefid-efni/nr/28135) sem kom út árið 2012 segir (bls. 85) að árið 2011 hafi það tekið útlendingastofnun að meðaltali 178 daga að afgreiða umsókn um hæli og er miðað við dagsetningu upphaflegrar hælisumsóknar þar til birting ákvörðunar hefur farið fram. Lengstan tíma tók það stofnunina að afgreiða umsóknir sem enduðu með synjun um hæli eða annars konar vernd eða að meðaltali 263 daga. Það tók að meðaltali 106 daga að afgreiða og birta ákvarðanir sem vörðuðu Dublinar-endursendingu og 251 dag að afgreiða umsóknir þegar veitt var réttarstaða flóttamanns.
Dublinreglurnar eru kjarni stefnu ESB í málefnum hælisleitenda en regluverk ESB á þessu sviði nær til fleiri þátta. Þótt reglurnar hafi ekki verið innleiddar hér hafa þær óbein áhrif á meðferð mála. Á þetta meðal annars við um hverja skuli telja flóttamenn eða hvernig meta skuli lágmarksskilyrði sem fullnægja þarf til að skylda sé til að taka á móti hælisleitanda og leggja mat á ósk hans. Íslensk löggjöf verður að taka mið af ESB-reglum eða öðrum alþjóðareglum um þetta efni.
Nú er unnið að endurskoðun á innflytjenda- og hælisleitendastefnu ESB og þar á meðal Dublinreglunum og mun niðurstaðan hafa bein áhrif hér á landi. Árið 2010 stofnaði ESB stuðningsskrifstofu á sviði hælismála – European Asylum Support Office – (EASO). Hún mun gegna lykilhlutverki innan Dublinsamstarfsins við meðferð málefna hælisleitenda. Yfirlýst markmið ESB er að EASO skapi meiri einsleitni við afgreiðslu á hælisbeiðnum með því að Dublinríkin taki mið af sömu upplýsingum um stöðu í einstökum löndum og sameinist um túlkun á þessum upplýsingum, það er við mat á óskum hælisleitenda sem reistar eru á lýsingu á ástandi í landinu sem þeir segjast hafa flúið.
Í Noregi eru uppi áform að samið verði um norska aðild að EASO og fyrir liggja yfirlýsingar af hálfu ESB að fyrir því séu lögformlegar forsendur og hafa norskir sérfræðingar verið kvaddir til samvinnu. Gangi áform um aðild Íslands að ESB ekki eftir hafa Norðmenn skapað fordæmi fyrir Schengenríki utan ESB.
Prümsamstarfið
Vorið 2005 hófu sjö Evrópusambandsríki nána lögreglusamvinnu, þar með um gagnkvæman aðgang að gagnabönkum sem geyma lífkennaupplýsingar (DNA og fingraför) og bifreiðaskrám. Þjóðverjar höfðu frumkvæði að samstarfinu en önnur þátttökuríki voru Frakkland, Austurríki, Spánn og Benelux ríkin þrjú. Samstarfið varð síðan bundið í Prüm-samningnum, sem undirritaður var af framangreindum ríkjum 17. nóvember 2006. Prüm er borg í Þýskalandi.
Þjóðverjum var kappsmál, að öll ESB-ríki yrðu aðilar að samningnum og beittu sér fyrir því í formennskutíð sinni í ESB og náðu markmiði sínu eins og staðfest var á ESB-ráðherrafundi í Lúxemborg í júní 2007.
Aðdragandi og gerð Prümsamningsins minnir óneitanlega á ferlið, sem leiddi til Schengensamningsins, sem ekki er hluti af EES-samstarfinu heldur er samið um aðild þriðju ríkja að Schengen sérstaklega og verður hið sama uppi á teningnum varðandi Prüm-samninginn, enda eru lögreglu- og dómsmál ekki hluti af EES-samstarfinu.
Á árinu 2008 féllst ríkisstjórnin á tillögu mína um að sækja um aðild að Prüm, málið hafði ég þá rætt við Frakka sem fóru með formennsku í ráðherraráði Evrópusambandsins og ég ræddi það hinn 26. ágúst 2008 við Wolfgang Schäuble, þv. innanríkisráðherra Þýskalands, sem tók erindinu vel.
Ragna Árnadóttir dómsmála- og mannréttindaráðherra undirritaði í Brussel 30. nóvember 2009 undir samning við Evrópusambandið um eflingu lögreglusamstarfs yfir landamæri, einkum í baráttunni gegn hryðjuverkum og glæpastarfsemi, það er Prüm-samninginn.
Í tilkynningu ráðuneytisins af þessu tilefni sagði:
„Prüm-samningurinn, felur m.a. í sér gagnkvæman uppflettiaðgang aðildarríkja ESB, Íslands og Noregs að fingrafara- og erfðaefnisskrám lögreglu, sem og að ökutækjaskrám. Með samningnum eru ákvæði tveggja gerða ESB tekin upp á Íslandi og segir Ragna að með þessu samstarfi séu lögreglu veittar nýjar og auknar heimildir í baráttunni gegn glæpastarfsemi yfir landamæri og um sé að ræða mikilvægt framfaraskref í alþjóðlegu lögreglusamstarfi. Gert er ráð fyrir að öll aðildarríki ESB verði tæknilega tilbúin til að skiptast á upplýsingum úr gagnabönkum á síðari hluta árs 2011.“
Í ráðherraskýrslu 2012 (bls. 20) segir að óvíst sé hvenær Ísland verði „tæknilega tilbúið til að skiptast á upplýsingum úr gagnabönkum í samræmi við ákvæði samningsins“.
Í næstu grein ræði ég mat íslenskra stjórnvalda á Schengenaðild.