10.2.2001

Menntakerfið á réttri braut - Morgunblaðsgrein

Menntakerfið
á réttri braut


Morgunblaðið 10. febrúar 2001

Þegar litið er á nýsköpun og þróun í íslensku skólastarfi undanfarin ár hlutlægum augum, hljóta allir sanngjarnir menn að komast að þeirrri niðurstöðu, að víð séum á réttri braut. Ábyrgð hefur verið skilgreind með nýjum hætti og lögð er rækt við að meta árangur með gegnsæjum hætti.

Meiri upplýsingum er miðlað um innra starf skóla en áður og foreldrar geta því á auðveldari hátt metið skóla barna sinna. Virk þátttaka foreldra í námi barna sinna skiptir ekki minna máli en alúð kennara í skólastofunni.

Gæðastarf í einstökum skólum byggist á gerð skólanámskráa, þar sem leitast er við að virkja sem flesta úr samfélagi skólans til þátttöku. Með sjálfsmati á grundvelli markmiða námskánna er síðan tekið á einstökum þáttum og lagt á ráðin um það, sem betur má fara.

Ef marka má grein, sem Ágúst Einarsson, prófessor og formaður framkvæmdastjórnar Samfylkingarinnar, ritaði í Morgunblaðið laugardaginn 3. febrúar, virðast allar breytingar á íslenska skólakerfinu síðustu ár hafa farið fram hjá honum.

Ágúst viðurkennir að minnsta kosti ekki hið mikla breytinga- og þróunarstarf, sem hefur verið unnið í menntamálum undanfarin ár. Hann lætur þess að engu getið, að háskólastigið hefur tekið stakkaskiptum og samkeppni milli skóla aukist nemendum til hagsbóta. Fjöldi íslenskra háskólanema hefur fjórfaldast síðan 1977. Lánasjóður íslenskra námsmanna er öflugri en áður og eykur sífellt þjónustu sína. Styrkir til framhaldsskólanema til að jafna námskostnað eftir búsetu hafa vaxið jafnt og þétt og settar hafa verið nýjar reglur um þá. Nú geta nemendur jafnt í dreifbýli sem á höfuðborgarsvæðinu sótt um þessa styrki, ef þeir ætla að stunda framhaldsskólanám utan heimabyggðar.

Ágúst minnist ekki einu orði á nýju námskrárnar fyrir leikskóla, grunnskóla, framhaldsskóla og tónlistarskóla, samfelluna milli skólastiga, aukið fé til námsefnisgerðar og endurmenntunar kennara, nýtt skipulag samræmdra prófa, ný innritunarskilyrði í framhaldsskóla, nýjar námsbrautir í framhaldsskólum, stóraukna samvinnu við atvinnulífið um starfsnám, bætta aðstöðu fatlaðra nemenda í framhaldsskólum, umfangsmiklar rannsóknir á öllum þáttum skólstarfs o.fl. o.fl.

Ágúst lætur þess að engu getið, að átta símenntunarmiðstöðvar hafa á skömmum tíma skotið rótum um land allt með þátttöku skóla, sveitarfélaga, verkalýðsfélaga og atvinnurekenda og stuðningi ríkisins á grundvelli samninga við menntamálaráðuneytið. Af Morgunblaðsgrein Ágústs verður helst dregin sú ályktun, að hann hafi ekki hugmynd um tilvist símenntunarmiðstöðvanna, þótt hann segist hafa sérstakar áhyggjur af þeim, sem eru lítið menntaðir á vinnumarkaðnum. Hefur átak í þágu símenntunar í raun farið fram hjá honum ? Kýs hann vísvitandi að þegja um það?

Framarlega í
upplýsingatækni


Ágúst lætur meira að segja í það skína, að Íslendingar standi illa varðandi nýtingu upplýsingatækninnar í skólastarfi, en birtir þó engar alþjóðlegar töflur um það efni, þótt þar sé verið að bera saman hluti, sem auðveldast er að skýra með tölum. Hlutfallslega flestir skólar á Íslandi voru tengdir við netið í könnun í 13 OECD-löndum. Árið 1998 voru 98% grunnskóla með 1.-7. bekk tengdir netinu, allir grunnskólar með 8.-10. bekk og allir framhaldsskólar landsins. Fartölvuvæðing framhaldsskólanna er hafin og fjarkennsla á framhaldsskólastigi vex jafnt og þétt eins og á háskólastiginu. Er leitað hingað frá útlöndum til að kynnast hinu framsæknasta á þessu sviði á heimsvísu.

Fáar þjóðir hafa unnið jafnskipulega að því að þróa rafrænt menntakerfi og við en sérfræðingar í samkeppnishæfni þjóða telja sterka fylgni á milli tæknivæðingar í skólakerfinu, það er aðgangs að tölvum og neti, og framtíðarstöðu þjóða á alþjóðlegum samkeppnislistum. Samkvæmt skýrslu um þessa samkeppnishæfni er Ísland í öðru sæti á eftir Bandaríkjunum af 59 löndum hvað varðar notkun á netinu og í 11. sæti hvað varðar fjölda einkatölva á hvern íbúa, þriðja sæti yfir fljótan og ódýran aðgang að netinu. Alþjóðlegar samanburðartölur sýna með öðrum orðum, að Íslendingar standa mjög framarlega í notkun tölva og netsins, bæði í skólakerfinu og almennt í samfélaginu, sem ætti að gefa vísbendingu um samkeppnishæfni menntunar í landinu.

Villandi samanburður

Fjárframlög í alþjóðlegum samanburði segja síður en svo allt um stöðu menntunar á Íslandi. Grein Ágústs Einarssonar sýnir einmitt, hve varasamt er að bera einungis saman tölur en taka ekki tillit til annarra þátta og ólíkra aðstæðna í hverju landi.

Ágúst segir, að háskólastigið á Íslandi sé hornreka í alþjóðlegum samanburði miðað við tölur frá árinu 1997, þá séum við í 23. sæti af 28 þjóðum og útgjöld til háskólastigsins sé 0,7% af landsframleiðslunni, en meðaltalið sé 1%.

Ágúst lætur þess ekki getið, að tæp 29% þeirra Íslendinga, sem stunda háskólanám, eru innritaðir í erlenda háskóla. Þetta hlutfall námsmanna er miklu hærra hjá okkur en almennt í samanburðarlöndunum, þó verjum við sama hlutfalli af landsframsleiðslu til háskólastigsins og Bretar og Tékkar en hærra en Kóreumenn, Japanir og Ítalir. Aðeins frá Lúxemborg, einu auðugasta ríki OECD, stundar hærra hlutfall háskólanema nám erlendis, en þar í landi er varið 0,1% af landsframleiðslu til háskólastigsins, þótt efnahagslegur styrkur þjóðarinnar byggist á nýtingu þekkingar, einkum á fjármálasviðinu. Um það hefur verið samstaða hér, að ekki sé skynsamlegt markmið í háskólamenntun að bjóða hana alla innan lands, hvað sem fjárhagslegum sjónarmiðum líður. Ef menn láta undir höfuð leggjast, að minna á þessa staðreynd, þegar útgjöld okkar eru borin saman við þjóðir, sem bjóða mun víðtækara háskólanám, er tilgangurinn ekki að draga upp raunsanna mynd.

Á grundvelli talna sinna lýsir Ágúst áhyggjum sínum yfir því, að vegna skorts á menntun kunnum við að dragast aftur úr öðrum þjóðum, þótt hérlendis ljúki fleiri nemendur háskólanámi en annars staðar á Norðurlöndunum, að Noregi undanskildum. Fjöldi brautskráðra nemenda hér á háskólastigi hefur nærri tvöfaldast frá árinu 1980.

Vísindarannsóknir

Ágúst kemst að þeirri niðurstöðu, að Íslendingar séu mjög slakir í rannsóknum og þróunarvinnu og segir nýlega svissneska samanburðarskýrslu sýna, að þess vegna hafi Ísland fallið úr 18. sæti í 24. sætið við mat á samkeppnishæfni þjóða.

Menntamálaráðuneytið gaf í apríl 2000 út skýrsluna Grunnvísindi á Íslandi eftir Ingu Dóru Sigfúsdóttur og Þórólf Þórlindsson. Þessi skýrsla rennir engum stoðum undir þá skoðun Ágústs, að Íslendingar standi illa að vígi í alþjóðlegum samanburði, þegar borinn er saman árangur í grunnrannsóknum. Þvert á móti hefur náðst mjög góður árangur. Fjármagn til rannsókna skilar sér ótrúlega vel á Íslandi. Þegar litið er til birtinga á ritgerðum íslenskra vísindamanna í alþjóðlegum fræðiritum hafa þær aukist svo, að Ísland hefur farið úr 17. sæti meðal OECD-ríkja árið 1981 í 7. sæti árið 1998 og er næst á eftir Sviss, þar sem starfsmenn alþjóðakjarneðlisfræðistofnunarinnar CERN eru stórframleiðendur á vísindaritgerðum, fyrir framan Ísland á listanum eru einnig Svíþjóð, Danmörk, Finnland, Holland og Nýja-Sjáland.

Ágúst lætur þess ógetið, að frá árinu 1985 hafa heildarframlög til rannsókna aukist úr 0,8% af þjóðarframleiðslu í 1,8% árið 1997 og hefur ekki orðið samdráttur síðan. Í ár hækkar fjárveiting til Vísindasjóðs til dæmis um 40 milljónir króna eða um 23,5% og til Rannsóknanámssjóðs um 10 milljónir króna eða um 33% á milli ára.

Ummæli Ágústs um hina svissnesku könnun, en hún er gerð á vegum World Economic Forum, byggjast ekki á því, að hann vilji hafa það, sem sannara reynist. Í fyrsta lagi nefnir hann rangar tölur um sæti Íslands, sem er greinilega fljótfærnisleg yfirsjón, hitt er verra, að Ágúst tekur ekki mið ábendingum Vilhjálms Lúðvíkssonar, framkvæmdastjóra Rannsóknarráðs Íslands vegna könnunarinnar. Vilhjálmur athugaði, hvaða tölur um fé til rannsókna á Íslandi World Economic Forum notaði við mat á samkeppnishæfni þjóðarinnar, eftir að greint var frá því, að Ísland hefði dalað úr 17. sæti í hið 23. og mætti einkum rekja það til slakrar stöðu á sviði tækni og við fjárfestingar í rannsóknum. Athugun Vilhjálms leiddi í ljós, að tölurnar héðan voru úr UNESCO-skýrslu frá 1995, en frá 1996 til 2000 hefur orðið 26% aukning á árlegri framleiðslu hér á landi og hefur verið bent á, að það hafi stundum tekið aðrar þjóðir 10 ár eða jafnvel 20 ár að ná slíkum árangri. Gengur þetta þvert á svartsýni Ágústs.

Framhaldsskólastigið -
útskriftarhlutfall 92%.


Ágúst Einarsson prófessor segir, að eitt helsta vandamálið í íslensku menntakerfi sé, hve fáir hafi lokið framhaldsskólaprófi í samanburði við önnur lönd. Fullyrðing Ágústs um þetta efni stenst ekki gagnýni. Útskriftarhlutfall íslenskra nemenda á framhaldsskólastigi er með því hæsta sem gerist á meðal OECD-ríkja. Samkvæmt ritinu Education at Glance, sem OECD gefur út, var útskriftarhlutfall framhaldsskólanema á Íslandi skólaárið 1997-98 alls 92% en meðaltal OECD-ríkjanna var þá 79%. Þá má geta þess, að á Íslandi er útskriftarhlutfall úr háskóla 25.1% en meðatalið í OECD-löndunum er 23.1%.

Fjöldi og aldur þeirra, sem útskrifast úr framhaldsskólum hér, endurspeglar sveigjanleika íslenska framhaldsskólakerfsins, sem enn hefur aukist með nýjum námskrám.

Þegar Ágúst fjallar um þetta efni og birtir töflu máli sínu til stuðnings, lætur hann undir höfuð leggjast að geta þess, að í töflunni er sleppt hópi Íslendinga, sem útskrifaðist með gagnfræðaskólapróf fyrir miðjan áttunda áratuginn vegna þess að það var ekki fyrr en þá, að skólaskipan breyttist hérlendis í kjölfar nýrra grunnskólalaga, þar sem barna- og unglingastig voru felld saman í einn heildstæðan grunnskóla og breytti það flokkun nemenda eftir skólastigum héðan samkvæmt alþjóðlegum stöðlum. Er með ólíkindum, að Ágúst viti ekki um þennan ágalla á töflunni Íslandi í óhag eins oft og hann flaggar henni.

Lengd náms til stúdentsprófs

Við gerð námskránna fyrir grunnskóla og framhaldsskóla var tekið mið af því, að unnt yrði að skipuleggja þriggja ár nám til stúdentsprófs, án þess að kollvarpa námskránum. Þá hefur verið opnuð leið fyrir nemendur til að taka grunnskólapróf úr níunda bekk. Í áfangaskólum er tiltölulega auðvelt að ljúka stúdentsprófi á þremur árum, standi hugur nemanda eindregið til þess. Fjölbrautaskólinn í Garðabæ hefur til dæmis skipulagt þriggja ára nám til stúdentsprófs. Í Menntaskólanum við Hamrahlíð er boðið IB-nám, þriggja ára námsbraut til stúdentsprófs, sem opnar dyr hundruð háskóla um heim allan. Loks hafa verið kynntar hugmyndir um tveggja ára hraðbraut til stúdentsprófs.

Kannanir menntamálaráðuneytisins, sem byggðar eru á ákvæðum um fjölda kennslustunda samkvæmt lögum, reglugerðum og öðrum opinberum gögnum, sýna, að fjöldi kennslustunda á bakvið stúdentspróf er töluvert meiri hér en annars staðar á Norðurlöndunum, þótt skólaárið sé lengra þar. Samanburður af þessu tagi er bundinn jafnmiklum erfiðleikum og annar, en sé hann gerður á þann veg að reiknað sé með níu ára grunnskóla og fjögurra ára framhaldsskóla hér en 10 ára grunnskóla og þriggja ára framhaldsskóla annars staðar á Norðurlöndum er niðurstaðan gróflega sú, að 13.908 kennslustundir séu alls til stúdentsprófs í Danmörku, 12.868 í Finnlandi, 14.464 á Íslandi, 12.763 í Noregi og 13.223 í Svíþjóð. Íslenskir nemendur fá meiri kennslu bæði í grunnskóla og framhaldsskóla en nemendur annars staðar á Norðurlöndunum. Sé eitt ár tekið aftan af íslenska framhaldsskólanum og engu öðru breytt verður heildartalan 13.449 og yrðu þá aðeins fleiri kennslustundir í Danmörku á bakvið stúdentsprófið en hér.

Allt þetta er haft til hliðsjónar, þegar menntamálaráðuneytið vinnur að hugmyndum um styttra nám til stúdentsprófs.

Á réttri braut

Íslenska skólakerfið lýtur eigin lögmálum, hvað sem líður öllum samanburði við útlönd um einstaka fjárlagaliði. Er tímabært, að Ágúst Einarsson prófessor og sporgöngumenn hans innan Samfylkingarinnar líti upp úr hinum alþjóðlegu samanburðartöflum og sjái það, sem er í raun að gerast á öllum skólastigunum fjórum í leikskólum, grunnskólum, framhaldsskólum og háskólum. Nýgerðir kjarasamningar við kennara ættu enn að ýta undir sókn í góðu skólastarfi. Alls staðar erum við á réttri braut.

Tölurnar hans Ágústs Einarssonar úr alþjóðlegu skýrslunum lýsa ekki íslenska skólakerfinu, þótt hann endurtaki þær ár eftir ár. Þær sanna ekki heldur kenningu hans um, að Íslendingar séu að dragast aftur úr öðrum þjóðum í almennum samanburði. Íslendingar eru nú taldir fimmta ríkasta þjóð í heimi og hafa bætt stöðu sína hin síðari ár.