17.5.1998

Max Ernst - Listasafn Íslands

Max Ernst sýning í Listasafni Íslands

Á listahátíð, sem haldin er undir kjörorðinu "Þar sem straumar mætast", er einkar vel við hæfi að efna til sýningar á verkum eftir Max Ernst.

Hann var Evrópumaður en reis gegn ríkjandi straumum í álfunni á fyrri hluta aldarinnar. Á evrópskum forsendum skapaði hann nýja list með því að sækja fyrirmyndir til Afríku og Ameríku. Hann tefldi hinu frumstæða fram gegn hinu rótgróna. Hann kastaði af sér fortíðaroki og sótti inn á nýjar brautir - sauð og setti saman hluti, sem virtust með öllu ósamræmanlegir.

Átök og árekstrar leiða síður en svo alltaf til eyðileggingar. Ólíkir straumar valda skapandi ólgu og iðuköstum.

Listasafn Íslands kynnir okkur nú Max Ernst og verk hans í fyrsta sinn hér á landi. Enn sannast, að Listahátíð í Reykjavík verður tilefni þess, að nýjir straumar alþjóðlegrar menningar berast til landsins. Hér á þessari sýningu gefst okkur tækifæri til þess að kynnast verkum og lífi eins þekktasta listamanns 20. aldarinnar. Sagan kennir okkur að sýningar á borð við þessa verða oft kveikjan að nýrri list. Listfræðingar framtíðarinnar kunna að rekja til þessarar sýningar varanleg áhrif á einhvern ungan, leitandi og listfengan gest, sem síðan kynni að móta áhrifin frá Max Ernst og verkum hans með íslenskum höndum sínum.

Lengi hefur verið unnið að því að skapa aðstæður fyrir listnám á háskólastigi á Íslandi. Skortur á því hefur ekki aðeins sett mark sitt á menntakerfið heldur einnig þróun íslensks listalífs og samskipti okkar við aðrar þjóðir á þessu sviði. Nú hillir undir Listaháskóla Íslands. Honum hefur verið valin stjórn og mótaðar hafa verið raunhæfar hugmyndir um það, hvernig unnt er með skipulegu átaki að skapa skólastarfinu hæfilega umgjörð í Laugarnesi. Ég legg áherslu á, að Listaháskóli Íslands er nýr skóli, sem á að opna dyr sínar fyrir öllum listgreinum um leið og hann hlýtur að sækja styrk til rótgróinna skóla í tónlist, myndlist og leiklist.

Innan Listaháskóla Íslands gefst tækifæri til að skerpa íslenskar áherslur um leið og alþjóðlegir straumar verða áfram virkjaðir. Það hefur gildi í sjálfu sér. Þörfinni fyrir listnám á háskólastigi má ekki setja landfræðileg mörk.

Aldrei verður lögð nægileg áhersla á alþjóðlegt gildi listarinnar. Hún er brú á milli þjóða og manna. Hún er einnig sú mælistika, sem oft er notuð til að meta stöðu og samkeppnishæfni þjóða. Hagtölur eru lítils virði einar á blaði. Lífið og menningin á bakvið þær skiptir mestu. Íslendingar eru nú í fremstu röð, þegar efnahagur þjóða er metinn. Sá góði árangur á að vera okkur hvatning til að gera enn betur við að kynna öðrum þjóðum íslenska menningu og listsköpun. Menningarstraumar héðan styrkja almennt stöðu okkar gagnvart öðrum, ekki síður en góðar, almennar útflutningsvörur. Menningin er andlit okkar út á við og styrkur inn á við.

Ég óska Listasafni Íslands til hamingju með þessa glæsilegu sýningu á verkum eftir Max Ernst. Hún er merkilegt og verðugt framlag til Listahátíðar í Reykjavík 1998. Ég lýsi sýninguna opna.