Ársfundur RANNÍS 1998
Hótel Loftleiðum,
22. apríl 1998
Ársfundur Rannsóknarráðs Íslands
Íslenska þjóðfélagsgerðin breytist ört. Hugmyndaheimurinn, sem mótaðist á árunum eftir síðari heimsstyrjöldina, hvarf með gömlu heimsmyndinni í byrjun þessa áratugar. Viðhorf ungs fólks mótast af allt öðru nú en áður. Hitt hefur þó ekki breyst, að við höfum sömu skyldur og forverar okkar. Við eigum að skila betra búi til arftaka okkar. Eitt er víst, það tekst ekki nema með mikilli áherslu á menntun, vísindi og rannsóknir.
Í ræðu minni hér í dag ætla ég að rekja nokkrar meginforsendur þess, að þetta ætlunarverk takist. Þar vegur góð almenn menntun þyngst, í öðru lagi þarf að huga að alþjóðlegum straumum, í þriðja lagi að setja umhverfismál og upplýsingatækni í fyrirrúm, þá þarf að vinna að þverfaglegri vísindastarfsemi og loks að skapa ungu fólki ný tækifæri.
Víkjum fyrst að menntun og skólastarfi. Menntamálaráðuneytið hefur undanfarið staðið fyrir víðtækri kynningu undir kjörorðinu: Enn betri skóli. Með því hefur verið hvatt til umræðna um nýja skólastefnu. Er þetta gert áður en lokaáfangi endurskoðunar á aðalnámskrám grunnskólans og framhaldsskólans hefst. Hinar nýju námskrár sjá dagsins ljós næsta haust og þeim verður síðan hrundið í framkvæmd á næstu þremur árum.
Með stefnunni og framkvæmd hennar lýkur markvissu átaki á þessum áratug við að endurskipuleggja allt skólastarf í landinu. Við höfum þá lagt betri grunn en nokkru sinni fyrr að víðtækri æðri menntun, rannsóknum og þróun.
Lítum á þrjú fyrstu skólastigin, leikskóla, grunnskóla og framhaldsskóla. Alls staðar er byggt á löggjöf frá þessum áratug. Gildi grunnskólans felst ekki aðeins í þeirri þjónustu, sem hann veitir. Flutningur skólans til sveitarfélaganna hefur gjörbreytt starfsháttum á því stjórnsýslustigi. Sveitarfélög sameinast og búa sig þannig undir að standa betur að skólunum. Framhaldsskólinn á að opna dyr sínar meira en áður með símenntun og alhliða þátttöku í þróun atvinnulífs. Samfella milli þessara þriggja skólastiga eykst.
Hvað um fjórða skólastigið - háskólastigið?
Ný almenn háskólalög tóku gildi um síðustu áramót. Þá hóf Kennaraháskóli Íslands einnig störf undir nýjum formerkjum, þegar fjórir skólar sameinuðust í einn. Þrír framhaldsskólar: Fósturskóli Íslands, Íþróttakennaraskóli Íslands og Þroskaþjálfaskóli Íslands, voru lagðir niður en námið í þeim fært á háskólastig innan vébanda hins nýja Kennaraháskóla Íslands.
Frumvarp til nýrra laga um Háskólann á Akureyri, sem byggist á nýju háskólalögunum, hefur verið lagt fram á Alþingi. Unnið er að því að endurskoða lög um Tækniskólann og stofna Tækniháskóla Íslands í samræmi við nýju lögin. Innan Háskóla Íslands hafa farið fram umræður um aðlögun hans að breyttum starfsskilyrðum háskólastigsins. Eru vonbrigði, hve lengi þetta mál hefur verið að velkjast innan Háskóla Íslands án niðurstöðu. Stjórnarhætti þessa fjölmennasta skóla landsins verður að laga að nýjum kröfum.
Aðalnámskrár snúast um það, sem gerist í skólastofunni sjálfri. Verið er að setja kennurum og nemendum skýr markmið og móta kröfur um árangur í starfi þeirra. Ætlunin er, að auka sjálfstæði nemenda þannig að þeir læri að afla sér menntunar jafnt í skóla og utan hans. Við viljum gera einstaklinga sterkari með því að þjálfa þá í lífsleikni, kenna þeim að nýta sér öll tækifæri nútímaþjóðfélags og vara sig á hættum þess. Úr grunnskólum eiga að koma nemendur með góða almenna grunnmenntun. Samkvæmt nýju skólastefnunni er upplýsingatækni eðlilegur þáttur í kennslu og vinnu nemandans.
Allir þessir eiginleikar stuðla að auknum rannsóknum og vísindum. Enginn nær árangri án sköpunargáfu og áræðni. Ungir vísindamenn taka áhættu til að ná árangri, sýna þrautseigju og gefast ekki upp, þótt þeim þyki umhverfið óvinsamlegt. Náist markmið nýju skólastefnunnar ættu fleiri Íslendingar að verða þessum kostum búnir.
Hinni nýju skólastefnu hefur almennt verið vel tekið. Er greinilegt, að það fellur í góðan jarðveg að stofna til almennra umræðna um skólamál á jákvæðum forsendum í því skyni að virkja krafta allra til nýrra átaka. Hefðu ýmsir vafalaust spáð því, að ekki þýddi að ætla sér að ræða skólamál á þessum forsendum, fundir myndu aðeins snúast um peningaleysi og lág laun. Raunin hefur orðið allt önnur.
Ég vil einnig beita mér gegn úrtöluröddum, að sama þróun verði í umræðum um rannsóknir, þróun og háskólamenntun. Þar náum við ekki heldur árangri nema með því að setja markið hátt og ræða af hreinskilni leiðir að því. Hræðsla við breytingar, tortryggni í garð keppinauta á fræðasviðum, varðstaða um ímyndaða hagsmuni eða fastheldni í gamaldags stjórnkerfi og skipulag mega ekki tefja fyrir framförum.
Er ég þá kominn að öðrum meginþættti máls míns, alþjóðlegri umræðu og áhuga á Íslandi vegna rannsókna og þróunar.
Undir lok síðasta árs beindist athygli alls mannkyns að borginni Kyoto í Japan og að umræðum þar um loftslagsbreytingar og áhrif þeirra á andrúmsloft og líf á jörðunni.
Í Kyoto leituðu stjórnmálamenn leiða til að bregðast sameiginlega við vanda, sem ekki verður leystur af einu ríki heldur öllum. Niðurstaðan varð óljós málamiðlun, þar sem byrðar voru aðeins lagðar á fáar þjóðir. Verkinu er ekki lokið. Hræðsluáróður dugar ekki hér frekar en endranær til að ná settu marki.
Íslendingar eiga að vera eins virkir og kostur er í rannsóknum á loftslagsbreytingum. Hér á Norður-Atlantshafi eru einstakar aðstæður til þess að stunda slíkar rannsóknir. Þess vegna hvatti ég Rannsóknarráð Íslands til að kalla vísindamenn frá Norður-Ameríku og Evrópu til fundar um þessi mál hér á landi. Samþykkti Alþingi fjárveitingu í því skyni í fjárlögum þessa árs og verður mikil ráðstefna haldin hér í september næstkomandi. Einnig höfum við unnið að því meðal Evrópuríkja og á norrænum vettvangi, að fé sé veitt til alþjóðlegra loftslags- og umhverfisrannsókna á Norður-Atlantshafi. Hefur það víða gengið eftir.
Hér er um verkefni að ræða, þar sem Ísland er ákjósanlegur vettvangur til rannsókna á heimsvísu.
Fleiri þættir draga alþjóðlega athygli að okkur í rannsóknum og þróun.
Líklegt er, að mánudagsins 2. febrúar 1998 verði lengi minnst, þegar rætt er um sögulega áfanga í rannsókna- og þróunarstarfi á Íslandi. Þann dag var, svo að segja á sömu stundu, ritað undir tvo merka samninga.
Í fyrsta lagi fimm ára samning milli Íslenskrar erfðagreiningar hf. og svissneska lyfjafyrirtækisins Hoffmann-La Roche um samstarf og fjármögnun til rannsóknar á tólf sjúkdómum. Vöxtur og umsvif Íslenskrar erfðagreiningar hf. eru með ólíkindum, sérstaklega fyrir okkur Íslendinga, sem eigum því ekki að venjast, að einkaaðilar sýni svo stórhuga framtak á sviði rannsókna og þróunar. Fagna ég því, að Rannsóknarráð og Útflutningsráð skuli í ár veita fyrirtækinu viðurkenningu með nýsköpunarverðlaunum sínum.
Í öðru lagi var ritað undir samning milli Hugvits hf. og hins alþjóðlega tölvu-fyrirtækis IBM um sölu á skjalavistunar- og verkefnisstjórnunarhugbúnaði Hugvits í 120 löndum. Ólafur Daðason hjá Hugviti sagði, þegar hann kynnti samninginn, að smæð íslenska markaðarins hefði ráðið úrslitum um gæðin í úrlausn Hugvits. Hér á landi hefði verið unnt að greina þarfir fyrirtækja og stofnana mun betur og með færri aðilum en þurft hefði erlendis. Er mér sérstaklega ljúft að skýra frá þessu vegna þátttöku menntamálaráðuneytisins í því að þróa þennan búnað og vil endurtaka það hér, sem ég sagði á fundi með fulltrúum IBM, að hugbúnaðurinn hefur reynst ákaflega vel í ráðuneytinu.
Verkefnin eiga það sameiginlegt, að hinir alþjóðlegu samstarfsaðilar leita hingað vegna þess að við séríslenskar aðstæður hefur tekist að skapa ný verðmæti á auðveldari, hagkvæmari og öruggari hátt en í fjölmennari þjóðfélögum.
Á Alþingi fara nú fram umræður um frumvarp til laga um gagnagrunna á heilbrigðissviði. Starfsemi Íslenskrar erfðagreiningar knýr á um að slík lög séu sett. Ég tel æskilegt, að sem fyrst fáist niðurstaða í málinu. Sagt hefur verið, að frumvarpið beri að með of skjótum hætti fyrir aðila utan Alþingis til að átta sig á efni þess. Þótt ástæðulaust sé að gera lítið úr aðfinnslum af þessu tagi, eru það auðvitað alþingismenn, sem bera ábyrgð á afgreiðslu málsins. Þingmenn eru einnig best í stakk búnir til að meta, hvort gagnrýni er sett fram á efnislegum forsendum eða til þess eins að drepa góðu máli á dreif.
Hin nýja upplýsingatækni gerir okkur kleift að búa til þessa nýju gagnagrunna.
Upplýsingar, sem mynda slíka grunna á heilbrigðissviði hafa lengi verið fyrir hendi. Nú er unnt að breyta þessum upplýsingum í ný verðmæti, sem sum verða aldrei metin til fjár, ef markmiðin í baráttu við sjúkdóma og um forvarnir nást. Þetta tækifæri á að sjálfsögðu að nýta.
Góðir áheyrendur!
Ég hef hér gert grein fyrir nýrri skólastefnu og dregið athygli að þeim tækifærum, sem við okkur Íslendingum blasa til alþjóðlegs samstarfs um rannsóknir og þróun. Í því efni skipta umhverfismál og upplýsingatækni miklu. Þess vegna snýst þriðji höfuðþáttur í máli mínu um það, hvernig kraftar Rannsóknarráðs Íslands nýtast best í þessu tillliti.
Hinn 6. febrúar síðastliðinn sendi ég Rannsóknarráði bréf og mæltist til þess, að ráðið semdi markvissa áætlun, þar sem lögð væri áhersla á tvö meginsvið, upplýsingatækni og umhverfismál. Stefnt yrði að mælanlegum árangri með áætluninni og sérstök áhersla lögð á að auka þátttöku ungs vísindafólks í þessu starfi og þverfaglega samvinnu vísindamanna.
Er ljóst, að áætluninni verður ekki hrundið í framkvæmd án sérstaks fjármagns. Mun ég beita mér fyrir því, að þess verði aflað. Í því sambandi minni ég á reglur, sem Friðrik Sophusson, þáverandi fjármálaráðherra, setti 7. mars 1995 um ráðstöfun hluta tekna vegna sölu ríkisfyrirtækja til rannsókna- og þróunarstarfs. Þar er miðað við, að 20% af greiddu andvirði seldra fyrirtækja og hlutabréfa sé ráðstafað til rannsóknar- og þróunarverkefna. Það er mikilvægt að ekki verði horfið frá þessu markmiði nú, þegar áformum um stórfellda einkavæðingu er hrundið í framkvæmd.
Íslensk hagstjórn stenst vel allan samanburð við hið besta. Nú er Ísland í fimmta sæti á lista OECD yfir þau ríki, þar sem efnahagur er bestur. Okkur er því vandi á höndum að gera enn betur. Til þess verðum við að leggja meira fjármagn til rannsókna og þróunar, ef við ætlum að örva hagvöxt okkar með hátæknigreinum.
Hér á þessum fundi eigum við að strengja þess heit að skapa betri starfsaðstæður fyrir íslenska vísindamenn með jákvæðum og málefnalegum umræðum. Í því skyni er nauðsynlegt að miðla sem mestum upplýsingum um áhrif rannsókna og þróunar á lífskjör alls almennings.
Menntamálaráðuneytið og Rannsóknarráð Íslands eiga að taka höndum saman í þessu efni.
Ég nefni þrjú sameiginleg verkefni:
Í fyrsta lagi ber að gæta þess, að við gerð þjóðhagsáætlana leggi Þjóðhagsstofnun mat á hlut menntunar, rannsókna og þróunar. Til lítils er að klifa á því, að skynsamlegasta leiðin til að örva hagvöxt sé að fjárfesta í þessum þáttum, ef þeir, sem gera þjóðhagsáætlanir leggja ekki mat á þá heldur einskorða sig við hinar hefðbundnu greinar. Hef ég óskað eftir því, að Rannsóknarráð Íslands taki upp viðræður við Þjóðhagsstofnun um, að rannsóknir, þróun og vísindi fái sömu meðferð og hefðbundnar atvinnugreinar í áætlunum og spám stofnunarinnar.
Í öðru lagi hefur ráðuneytið lagt Rannsóknarráði fjárhagslegt lið til að gera úttekt á grunnrannsóknum á Íslandi. Úttekt af þessu tagi hefur aldrei verið gerð en hún mun í senn veita upplýsingar um árangur til þessa og verða til leiðbeiningar um, hvert skuli stefnt.
Í þriðja lagi er eðlilegt, að gerð sé úttekt á áhrifum þátttöku Íslands í rammáætlun Evrópusambandsins um stuðning við rannsóknir og þróun. Við þurfum að átta okkur á inntaki samstarfsins síðan 1994 og hverju það skilar. Þá er nauðsynlegt, að við búum okkur sem best undir þátttöku í fimmtu rammaáætluninni, en hún kemur til sögunnar 1. janúar 1999.
Í bréfi mínu hinn 6. febrúar síðastliðinn til Rannsóknarráðs var áhersla lögð á þverfaglega samvinnu vísindamanna. Í gær var stigið mikilvægt skref til slíkrar samvinnu, þegar ríkisstjórnin samþykkti tillögu mína um að beina því til Rannsóknarráðs, að það útfæri sameiginlega stefnu rannsóknastofnana atvinnuveganna um almennan rekstur þeirra, það er stjórnun, þjónustu, rannsóknir og þróunarstarf.
Samstarfshópur ráðuneyta um rannsóknar- og þróunarstarf hefur síðan 1996 unnið að tillögum um endurskipulagningu rannsóknastofnana atvinnuveganna. Komið hefur í ljós, að innan stofnananna eru ólík sjónarmið og mismunandi áherslur. Er talið skynsamlegt, að breytingar á skipulagi þeirra eigi sér aðdraganda í náinni samvinnu þeirra og er Rannsóknarráði falið að beita sér fyrir henni. Miði starfið að því að skýra, hvernig stofnanirnar ætli að sameina krafta sína, skipta með sér verkum og eiga samstarf um aðstöðu þar sem því verður við komið. Ætlunin er, að stofnanirnar efni til formlegs samstarfs um einstök rannsóknarsvið og þjónustu í þeim tilgangi að efla tengsl við atvinnulífið, auka hagræði, draga úr skörun og koma í veg fyrir tvíverknað. Jafnframt verði lögð áhersla á, að auka samstarf við skólastofnanir, sem stunda rannsóknir á fræðasviðum þessara stofnana.
Ég hvet eindregið til þess, að vel verði tekið í viðleitni Rannsóknarráðs til að ná þessu markmiði. Tillögur ráðsins um næstu skref að loknu þessu þróunarferli verða síðan teknar til afgreiðslu í ríkisstjórninni.
Góðir fundarmenn!
Í ágúst á síðasta ári var nýtt Rannsóknarráð skipað. Þeir, sem þá hurfu frá störfum í ráðinu, höfðu mótað starfsreglur á grundvelli nýrra laga og rutt brautina. Er mér ljúft að þakka Sigmundi Guðbjarnasyni og samstarfsmönnum hans hér á þessum vettvangi fyrir góð og vönduð störf þeirra. Einnig fagna ég samstarfi við nýja menn í forystu Rannsóknarráðs. Eins og menn hafa heyrt bíða mörg og spennandi verkefni úrlausnar.
Í upphafi máls míns minnti ég á hina nýju skólastefnu og góðar undirtektir, sem hún hefur fengið. Ég ítreka þá skoðun mína, að nauðsynlegt sé að gera verulegt átak til að kynna gildi rannsókna og þróunar með jákvæðum hætti, orðum og dæmum, sem höfða til alls almennings. Því hefur of lengi verið haldið fram af of mörgum, að aðstæður til rannsókna og þróunar séu óvinsamlegar á Íslandi. Á því sviði eins og öðrum hljótum við að sníða okkur stakk eftir vexti. Við sköpum aldrei sömu aðstæður hér og hjá fjölmennari þjóðum. Fámennið nýtist okkur hins vegar til að bæta samkeppnishæfnina, eins og dæmin sanna. Á þessu sviði ber ekki frekar en öðrum að treysta á opinbera forsjá í stóru og smáu heldur þarf að ýta undir einkaframtakið. Hér eru mörg fyrirtæki, sem ná ekki lengra nema þau njóti aðstoðar vísindamanna. Þess vegna á vísindasamfélagið að vera opið og taka virkan þátt í úrlausn allra verkefna, þar sem þekkingar og kunnáttu er krafist.
Ungt fólk í vísindum og tækni er sérstaklega kynnt í tengslum við þennan ársfund. Gróskan er meiri meðal þessa fólks en nokkru sinni fyrr. Innan Háskóla Íslands og á vegum Rannsóknarráðs, sem fer með stjórn Rannsóknanámssjóðs, hefur verið gert sérstakt átak undanfarin misseri til að efla stuðning við rannsóknanám og þá, sem það stunda. Áhugi fyrirtækja á samvinnu við Rannsóknanámssjóð er gleðilegur vitnisburður um það, hvernig unnt er að virkja nýja aðila til að leggja góðu málefni ómetanlegt lið.
Ágætu fundarmenn!
Látum áræði og dugnað unga fólksins í vísindum og tækni verða okkur leiðarljós við störf að rannsóknum og þróun.
Gerum Ísland að landi tækifæranna fyrir unga fólkið. Komum til móts við viðhorf og væntingar nýrra kynslóða.