11.11.2000

Íslenska sem annað tungumálÍslenska sem annað tungumál,

Málræktarþing

11. nóvember, 2000.
Þegar efnt er til málræktarþings um íslensku sem annað tungumál og stöðu

móðurmálsins gagnvart nýbúum, er tekið á brýnu úrlausnarefni, því að við

blasir, að þeim fjölgar jafnt og þétt í landinu, sem eiga sér annað

móðurmál en íslensku en vilja mjög gjarnan ná tökum á henni. Sem

menntamálaráðherra er mér ljóst, að verkefni tengd þessu viðfangsefni eiga

aðeins eftir að vaxa á sviði menningar- og skólastarfs. Jafnframt er ég

eindregið þeirrar skoðunar, að á vettvangi stjórnarráðsins og annars staðar

í stjórnsýslunni þurfi að gera skipulegri ráðstafanir en til þessa í því

skyni að búa alla þætti stjórnkerfisins sem best undir að takast á við

viðfangsefni á þessu sviði. Við Íslendingar getum vænst þess, að hér verði

svipuð þróun og í nágrannalöndunum, þannig að málefni vegna útlendinga og

aðfluttra setji meiri svip á opinbera umræðu og stjórnmálastarf.Ef litið er sérstaklega á skólakerfið í þessu tilllit er rétt að geta þess

í upphafi, að í lögum um grunnskóla og framhaldsskóla eru fyrirmæli um

sérstaka íslenskukennslu fyrir nemendur með annað móðurmál en íslensku. Í

aðalnámskrá grunnskóla sem tók gildi í júní 1999 með þriggja ára

aðlögunartíma eru í fyrsta sinn sett ákvæði um sérstaka íslenskukennslu

fyrir nemendur með annað móðurmál en íslensku. Til sögunnar er komin

námsgrein fyrir þá sem hafa ekki nægilegt vald á íslensku til að geta

stundað nám í íslenskum skólum til jafns við aðra nemendur. Í aðalnámskrá

framhaldsskóla sem tók gildi 1999 með fimm ára aðlögunartíma er einnig í

fyrsta sinn sérstök námskrá í íslensku fyrir nemendur með annað móðurmál en

íslensku.Með kennslu í íslensku sem öðru tungumáli er stefnt að því að nemendur

verði hæfir til að taka fullan þátt í íslensku samfélagi sem tvítyngdir

einstaklingar með rætur og innsæi í tvo eða fleiri menningarheima og auðgi

með því íslenskt mannlíf. Markmiðið er að íslenska sem annað tungumál sé

lykill að íslensku skólastarfi, íslensku samfélagi, virku tvítyngi og

tveimur menningarheimum. Í aðalnámskrá grunnskóla, um kristin fræði,

siðfræði og trúarbragðafræði er ítrekað að með vaxandi fjölda nýbúabarna

frá ólíkum menningarsvæðum þurfi skólinn að huga að því, í samvinnu við

heimili þeirra, hvernig koma má til móts við óskir um að þau fái fræðslu um

eigin trú og menningu. Þá er sagt æskilegt að nýta þá kosti, sem blandaður

nemendahópur gefur til að kynna nemendum ólíka trú og siði og stuðla þannig

að auknum skilningi, virðingu og umburðarlyndi.Ekki er síst mikilvægt að Íslendingar tileinki sér umburðarlyndi gagnvart

þeirri viðleitni útlendinga að tala íslensku. Nýbúar ná ekki fullum tökum á

íslensku málkerfi og orðaforða nema með markvissu námi og málnotkun til

lengri tíma. Hvetja ætti útlendinga að nýta íslenskukunnáttu sína sem mest

í daglegum samskiptum við Íslendinga og nýta öll tækifæri til að hjálpa

þeim að tjá sig á íslensku og varast að finna að við þá fyrir orðanotkun,

framburð eða beygingar. Í þessum

efnum gildir umburðarlyndi og viðkvæðið að æfingin skapi meistarann.

Samkvæmt upplýsingum frá Hagstofu Íslands voru í árslok 1999 um 7300

einstaklingar með annað ríkisfangsland en Ísland búsettir hér á landi. Auk

þess hafa ýmsir einstaklingar af erlendum uppruna hlotið íslenskan

ríkisborgararétt á undanförnum árum, svo og börn fædd hér á landi. Í

fjölmennasta hópnum eru um 1200 Pólverjar. Meðal 10 stærstu hópanna eru auk

Norðurlandabúa og enskumælandi hópa um 400 frá Tælandi og 350 frá

Filippseyjum og fyrrverandi Júgóslavíu. Samkvæmt upplýsingum frá Hagstofu

Íslands voru 920 nemendur með erlent móðurmál í grunnskólum hér á landi að

hausti 1999, eða rúmlega 2% nemenda. Miðað er við að forráðamenn nemandans

(annar eða báðir) hafi annað tungumál en íslensku og noti það að staðaldri

í daglegum samskiptum við barnið. Þessi tala 2% er svipuð og í Finnlandi en

annars staðar á Norðurlöndunum eru 6 til 8% nemenda með erlent móðurmál.

Athygli vekur að í grunnskólum á Íslandi eru töluð 20 tungumál, auk

íslensku, af fleiri en 10 nemendum. Í þessum hópi eru allmargir nemendur

sem eiga móðurmál sem er fjarskylt íslensku, t.d. tælensku, pólsku,

filippeysk mál, serbó króatísku, víetnömsku, albönsku og rússnesku svo

nokkur dæmi séu tekin.Engin ákvæði eru í grunnskólalögum um að nemendur með annað móðurmál en

íslensku eigi rétt á að stunda nám í eða á eigin móðurmáli í íslenskum

grunnskólum. Hins vegar segir í reglugerð (nr. 391/1996) um íslenskukennslu

nemenda með annað móðurmál en íslensku að í skólum þar sem því verður við

komið og með samþykki viðkomandi sveitarstjórnar, skuli nemendur með annað

móðurmál en íslensku fá kennslu í og á eigin móðurmáli í samráði við

forráðamenn. Með kennslunni skal stefnt að virku tvítyngi þessara nemenda.

Nemendur skulu hvattir til að halda móðurmáli sínu við og rækta það. Einnig

segir í reglugerð ( nr. 387/1996) um valgreinar í grunnskólum með stuðningi

í 35. grein grunnskólalaga að heimilt sé að bjóða nemendum með annað

móðurmál en íslensku eigið móðurmál sem valgrein í grunnskóla að uppfylltum

ákveðnum skilyrðum. Þá er skólum heimilt að viðurkenna skipulagt nám

þessara nemenda í móðurmáli, utan grunnskóla, sem valgrein. Oft er

nauðsynlegt, að veita nemendum með annað móðurmál en íslensku undanþágur,

svo að samræmd próf verði þeim ekki hindrun í íslenskum skólum.


Í framhaldsskólum er um tvær leiðir að ræða fyrir nemendur með annað

móðurmál en íslensku. Fyrri leiðin miðar að því að kenna þeim sem mesta

íslensku á sem skemmstum tíma. Þessi leið er fyrir nemendur sem koma til

Íslands með góða undirstöðu í námi og læsi. Síðari leiðin er fyrir

nemendur sem kunna eitthvað fyrir sér í íslensku en eru illa í stakk búnir

til að takast á við nám í framhaldsskólum. Aðaláhersla í íslenskunámi

þessara nemenda er á eflingu læsis, námsleikni, og á undirstöðu í

námsgreinum meðfram þjálfun í íslensku.Aðeins lítill hluti þeirra erlendu unglinga, sem útskrifast úr 10. bekk

grunnskólans reynir við framhaldsnám. Án þess að um formlegar ákvarðanir

hafi verið að ræða hefur verið litið á Iðnskólann í Reykjavík sem einskonar

móttökuskóla fyrir erlenda framhaldsskólanemendur, sem ekki tala íslensku

en vilja læra hana. Þróunin sýnir, að stíga verður markvissari skref í

þjónustu við þessar nemendur og tel ég æskilegt, að í því efni verði áfram

treyst á forystu Iðnskólans um leið og hugað verði að því að fleiri skólar

komi að verkefninu. Í Iðnskólanum í Reykjavík er áhugi á því að fjölga

kennslustundum fyrir erlenda unglinga og stefna að tveggja ára námi fyrir

þá. Hér er um aðkallandi þróunarstarf að ræða og vil ég styrkja hlut

menntamálaráðuneytisins á þessu sviði enda fái þetta starf nauðsynlega

viðurkenningu fjárveitingarvaldsins og falli að stefnu ríkisstjórnarinnar

varðandi málefni útlendinga og aðfluttra.Að undanförnu hefur menntamálaráðuneytið veitt þeim aðilum styrki sem halda

námskeið í íslensku fyrir fullorðna nýbúa. Hér er aðallega um að ræða

Námsflokka Reykjavíkur og símenntunarmiðstöðvar sem starfræktar eru í öllum

landshlutum. Gera má ráð fyrir að þessar styrkveitingar nemi alls um 20

milljónum króna á þessu ári.


Nú í dag kemur út á vegum menntamálaráðuneytisins leiðarvísir eða

kennsluleiðbeiningar „Íslenska sem annað tungumál fyrir fullorðna"
Markmið með útgáfunni er að gefa kennurum og leiðbeinendum á

íslenskunámskeiðum almennar leiðbeiningar um það hvernig æskilegt er að

haga námi og kennslu í íslensku fyrir fullorðna útlendinga.Góðir áheyrendur!

Ég hef fjallað hér um íslenskukennslu á grunn- og framhaldsskólastigi en ekki vikið sérstaklega að því góða starfi, sem lengi hefur verið unnið hér innan Háskóla Íslands í íslenskukennslu fyrir útlendinga eða háskólakennslu í íslensku víða um heim. Um það verður rætt sérstaklega síðar á þinginu.

Ég lýk máli mínu með því að þakka þetta góða tækifæri til að gera grein

fyrir viðhorfi mínu. Eins og ég sagði í upphafi munu verkefni á þessu sviði aðeins aukast á komandi árum. Við eigum að nálgast úrlausn

þeirra af víðsýni en á vel skilgreindum forsendum, sem byggist á sátt í

þjóðfélaginu og eðlilegri verkaskiptingu, en þó undir samræmdri forystu af

hálfu stjórnvalda, en hana tel ég að þurfi að skipuleggja betur. Hér er um mikið alvörumál að ræða, sem snertir alla þjóðina og lýtur að viðkvæmum hagsmunum fjölda manna. Er þetta vissulega verðugt viðfangsefni málræktarþings og til mikils gagns að kynnast sjónarmiðum þess ágæta fólks, sem hér mun tala síðar í dag.