Vonbrigði vegna kennaraviðbragða, tónleikar, skjöl, málrækt og gamlar minningar um utanríkis- og öryggismál
Ástæðulaust er að leyna því, að það olli vonbrigðum, hvernig Eiríkur Jónsson, formaður Kennarsambands Íslands brást við bréfi forsætisráðherra, þar sem hann svaraði að ósk kennarafélaganna fyrirspurnum um lífeyrismál, samningsmál og samningsrétt. Forsætisráðherra sendi bréf sitt 27. mars og strax sama kvöldið kom fram, að Eiríkur Jónsson teldi það ekki fullnægjandi, það er bréfið dygði ekki til að kennarar legðu að nýju lið sitt við að flytja grunnskólann til sveitarfélaganna.
Eftir að forsætisráðherra hefur svarað fyrir hönd ríkisstjórnarinnar verður ekki lengra gengið á þeirri braut. Forsætisráðherra hafði tekið af skarið í lífeyrismálum, sem var úrslitaatriði af hálfu kennara. Er ljóst, að í því efni hafa kennarar góða stöðu til samninga við viðmælendur sína. Enginn vafi er um formlega hlið lífeyrismálsins en hin efnislega niðurstaða hlýtur að ráðast í þeim viðræðum, sem enn fara fram. Menn þurfa ekki að vera mjög glöggskyggnir til að átta sig á því, að lífeyrismálinu verður ekki lokið á þeim vikum, sem eru til þingloka, nema fullt samkomulag takist milli aðila. Sveitarfélögin hafa lýst yfir, hvernig þau vilja standa að samstarfi sínu við sveitarfélögin í kjara- og réttindamálum. Þar með er komið fram, hvernig staðið verður að málum gagnvart ríkisstjórninni, ef ósk kæmi fram um breytingar á réttarstöðu kennara og skólastjóra eins og mælt er fyrir um hana í frumvarpi um það efni, sem nú liggur fyrir Alþingi. Ríkisstjórnin hefur heitið að hreyfa sig ekki í því máli nema að hafa fengið um það ósk frá sveitarfélögum eða kennurum eða hvorum tveggja sameiginlega. Nú blasir við, að um sameiginlega ósk yrði að ræða. Félagsmálaráðherra hefur ekki flutt frumvarp, sem skerðir samningsrétt kennara. Þegar þetta er skoðað, er það sem sé niðurstaða mín, að ríkisstjórnin hafi gefið kennurum skýr og fullnægjandi svör.
Hið sérkennilega er, að þessi mál snerta ekki flutning grunnskólans til sveitarfélaganna. Í bréfi forsætisráðherra er greint frá því, að flutt verði frumvarp á Alþingi, sem tryggir kennurum aðild að Lífeyrissjóði starfsmanna ríkisins. Með því frumvarpi og samþykkt þess yrði fullnægt þriðja og síðasta skilyrðinu fyrir gildistöku grunnskólalaganna og flutnings skólans til sveitarfélaganna 1. ágúst 1996. Samkomulag er um réttindamál kennara vegna flutningsins, samkomulag er um kostnaðarskiptingu og fjárhagsleg málefni milli ríkis og sveitarfélaga og ljóst er, að kennurum verður tryggð aðild að Lífeyrissjóði starfsmanna ríkisins. Alþingi tekur afstöðu til þessara mála, áður en það lýkur störfum í vor. Á ég ekki von á öðru en meirihluti þingmanna styðji framgang þessara mála. Alþingi samþykkti einróma 25. febrúar 1995 að flytja grunnskólann að uppfylltum þessum skilyrðum.
--------------------------------------------------------------------------------
Þriðjudagskvöldið 26. mars sótti ég tónleika hjá Fóstbræðrum í Langholtskirkju og laugardagskvöldið 30. mars var ég í sömu kirkju á útskriftartónleikum tveggja söngkvenna frá Tónlistarskólanum í Reykjavík þar sem hljómsveit skólans lék undir og einnig tvær sinfóníur, fimmtudagskvöldið 28. mars sótti ég tónleika Sinfóníuhljómsveitar Íslands, sem lék í fyrsta sinn undir stjórn Guðjóns Emilssonar. Þrátt fyrir þetta varð ég að afþakka boð á tónleika. Allt er þetta til marks um hið blómlega og fjölbreytta tónlistarlíf.
Hótel- og veitingaskólinn hefur um nokkurt árabil verið starfræktur í húsakynnum Hótel Esju. Hann er nú á förum þaðan og flyst í Menntaskólann í Kópavogi samkvæmt fyrri ákvörðunum. Í þessum skóla geta nemendur ekki hlotið þjálfun né tekið próf án þess að elda mat og bera hann fram. Var mér og fleirum boðið til þátttöku í slíku prófi miðvikudagskvöldið 27. mars. Var það ánægjuleg sælkerastund.
Fimmtudaginn 28. mars heimsótti ég tvær stofnanir, sem lögum samkvæmt heyra undir menntamálaráðuneytið.
Þjóðskjalasafnið er til húsa í gömlu mjólkurstöðinni við Laugaveg. Þar er húsakostur mikill og ætti að duga fram á næstu öld. Nauðsynlegt er að ráðast í endurbætur á þessum húsum, áður en skjöl eru flutt þangað. Þurfa þær framkvæmdir að haldast í hendur við framtíð Safnahússins við Hverfisgötu, en það er nú í umsjá Þjóðskjalasafns og verður næstu ár, þar til húsið hefur verið tæmt. Auk gagna frá Þjóðskjalasafni eru aukaeintök bóka Landsbókasafns enn í Safnahúsinu og þarf að finna þeim traustan samastað.
Íslensk málnefnd er til húsa að Aragötu 9. Um starfsemi hennar vísa ég til heimasíðu málnefndarinnar, sem má finna undir heimasíðu menntamálaráðuneytisins. Málfendin hefur til dæmis tekið til við að setja inn á vefinn upplýsingar um notkun íslensks máls. Í störfum mínum sem blaðamaður sannfærðist ég um nauðsyn þess, að fyrir liggi skýrar og einfaldar ritreglur. Slíkar reglur eru til þess fallnar að auðvelda mönnum að beita tungumálinu. Í því ljósi verður starf málnefndarinnar aldrei metið til fulls. Við gleymum því gjarnan, að notkun tungumálsins kallar á stöðuga þjálfun og árverkni ekki síður en önnur verk okkar. Erindi, sem berast til ráðuneyta, eru oft skýr áminning um nauðsyn þess að kenna mönnum að setja mál sitt fram með skipulegum hætti og virðingu fyrir réttritun.
Þriðjudaginn 26. mars kom Daniel Tarschys, framkvæmdastjóri Evrópuráðsins, á fund minn í ráðuneytið. Hann var hér í opinberri heimsókn. Ég þekki hann frá því að ég var á þingi Evrópuráðsins og tók meðal annars þátt í að kjósa hann í framkvæmdastjórastarfið, sem hann hlaut með 4 atkvæða meirihluta. Raunar höfðum við kynnst áður, þegar ég sótti ráðstefnu á hans vegum í Uppsölum í maí 1983 um stefnu Sovétríkjanna gagnvart Norður-Evrópu á vegum Nordiska kommittén för Öststatsforskning, sem Tarschys veitti forstöðu. Flutti ég þar erindi um Ísland og stefnu Sovétríkjanna í öryggismálum. Má segja, að þetta hafi verið í þá gömlu góðu daga, þegar línurnar voru skýrar og við hittumst oft hópur manna og bárum saman bækur okkar. Sagan sýnir, að við höfðum í megindráttum rétt fyrir okkur. Á þeim árum var Ólafur Ragnar Grímsson fremstur í flokki þeirra, sem vildu ekki fallast á rök þeirra, sem mæltu með aðild að NATO og varnarsamningi við Bandaríkin. Ég er ekki viss um, að hann kjósi að minna á þau sjónarmið sín, þegar hann sækist nú eftir forsetaembættinu. Þetta var á þeim tíma, þegar APN-fréttastofa Sovétríkjanna talaði af velþóknun um Mr. Ó. Grímsson, þegar hún leitaðist við að gera stefnu Íslands í öryggis- og varnarmálum tortryggilega.
Hinn 30. mars var þess minnst, að þann dag 1949 samþykkti Alþingi aðild Íslands að Atlantshafsbandalaginu (NATO). Þá réðust kommúnistar á Alþingishúsið og reyndu með valdi að hindra störf þess. Er það eina árásin, sem gerð hefur verið á það hús. Tilburðir Samtaka herstöðvaandstæðinga í kringum 30. mars eru í samræmi við aðra fortíðarþrá 68-kynslóðarinnar, sem fór út af sporinu og þarf að efna til sjálfstyrkingarathafna til að halda áttum.