18.1.2011

Er Össuri alvara með norðurslóðastefnu? Verður Ísland strandríki?

Evrópuvaktin 18. janúar 2011


Össur Skarphéðinsson, utanríkisráðherra, hefur lagt tillögu fyrir alþingi um stefnu Íslands í málefnum norðurslóða. Hann ritar grein í Morgunblaðið 18. janúar til að árétta efni tillögunnar. Í grein Össurar er ekki vikið einu orði að aðildarumsókn Íslands að Evrópusambandinu. Af hálfu ESB er hins vegar marglýst yfir að helsti ávinningur þess af aðild Íslands yrði að þá geti það meira en áður hlutast til um málefni norðurslóða og orðið virkara á vettvangi Norðurskautsráðsins.

Í grein Össurar segir meðal annars:

„Forgangsverkefnið er að tryggja stöðu Íslands sem strandríkis innan norðurskautssvæðisins varðandi þróun þess, og alþjóðlegar ákvarðanir sem því tengjast, á grundvelli lagalegra, efnahagslegra, vistfræðilegra og landfræðilegra raka. Þar er mikil vinna óunnin.“

Ástæða er til að staldra við áherslu Össurar á að „tryggja stöðu Íslands sem strandríkis“. Í makríldeilunni höfum við Íslendingar kynnst gildi þess að njóta réttar strandríkis samkvæmt hafréttarsáttmála Sameinuðu þjóðanna. Í krafti hans ákveðum við veiðikvóta á makríl innan íslenskrar lögsögu. ESB fær ekki hróflað við kvótaákvörðun íslenskra stjórnvalda en kýs að sýna þeim vígtennurnar eins og Einar K. Guðfinnsson segir réttilega og birt er hér á Evrópuvaktinni.

Kæmi til aðildar að Evrópusambandinu afsöluðum við Íslendingar okkur rétti strandríkis í makríldeilunni. Við yrðum að lúta lokaákvörðunarvaldi framkvæmdastjórnar ESB um kvóta á Íslandsmiðum á sama hátt og gildir nú um Íra, Breta og Skota. Maria Damanaki, sjávarútvegsstjóri ESB, grískur séfræðingur í feminiskum bókmenntum, á síðasta orðið um fiskveiðikvóta þessara þjóða hvort heldur á makríl eða öðrum fisktegundum.

Í grein Össurar er ekki skýrt fyrir lesendum hvernig fer saman að sækja um aðild að Evrópusambandinu og hafa sem forgangsverkefni að „tryggja stöðu Íslands sem strandríkis“. Spyrja má, hvort Össur hafi í huga að gerður verði sérstakur samningur um norðurskautið sem tryggi rétt Íslands sem strandríkis, þrátt fyrir aðild landsins að ESB. Össur svarar þessari spurningu neitandi í grein sinni þegar hann segir:

„Fyrir Íslendinga er lykilatriði að ná samstöðu um að byggt verði á Hafréttarsáttmálanum, sem Ísland átti ríkan þátt í að semja, um úrlausn hvers konar álitaefna sem koma upp varðandi hafrétt á norðurslóðum. Hann er besta alþjóðlega tækið til ná lausn í ágreiningsmálum, hvort sem þau verða á sviði siglinga, fiskveiða, eða nýtingar jarðefna á borð við olíu og gas.“

Þarna fer ekkert á milli mála. Utanríkisráðherra vill að hafréttarsáttmáli Sameinuðu þjóðanna gildi um norðurskautssvæðið. Hann mælir fyrir um rétt strandríkja. Össur horfir hins vegar alfarið fram hjá þeirri staðreynd, að Evrópusambandið gerir kröfu um að verða strandríki í Norður-Atlantshafi í stað Íslands, gangi Íslands í ESB.

Spurningin er þessi: Telur Össur að unnt sé að skilgreina Ísland sem strandríki á ólíkan hátt samkvæmt hafréttarsáttmálanum eftir því hvort makríll á í hlut eða norðurskautið? Þessari spurningu verður utanríkisráðherra að svara undanbragðalaust. Hann verður einnig að sanna þjóðinni að hann geti tryggt stöðu Íslands sem strandríkis, þrátt fyrir að ESB-aðildarmarkmið hans náist. Að öðrum kosti er stefna hans í málefndum norðurslóða markleysa og sett fram í blekkingarskyni.