15.1.2011

Uppgjöf ríkisstjórnarinnar gagnvart refsiaðgerðum ESB

Evrópuvaktin 15. janúar 2011


Fréttir erlendra fjölmiðla af viðbrögðum Íslendinga við ákvörðun Mariu Damanaki, sjávarútvegsstjóra ESB, um að setja löndunarbann á makríl íslenskra skipa bera með sér, að Íslendingar ætli ekki að andmæla ákvörðun ESB. Þeir telji skipta höfuðmáli að semja um lausn makrílmálsins. Tónninn sá að íslensk stjórnvöld kyssi á vönd ESB og vilji sem fyrst og best koma sér í mjúkinn hjá sambandinu.

Eitt er að stjórnarerindrekinn Tómas Heiðar Hauksson, þjóðréttarfræðingur og formaður makrílviðræðunefndar ríkisstjórnarinnar, leitist við að að halda opnum leiðum gagnvart ESB þrátt fyrir að Íslendingar séu lamdir með refsivendi. Annað er að Bjarni Harðarson, talsmaður sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytisins, láti eins og ekkert sé. Refsing ESB komi honum ekki mjög á óvart, eins og hann segir við AFP-fréttastofuna, og hafi engin áhrif á Ísland. Íslendingar vilji aðeins ná samningi við ESB um makrílinn.

Íslensk stjórnvöld kjósa að túlka refsingu ESB sem tæknilegt viðfangsefni. Íslensk skip hafi aldrei landað makríl í ESB-höfnum og þess vegna skipti löndunarbann engu máli. Meira hangir þó á spýtunni, þegar ESB ákveður að grípa til viðskiptaþvingana gagnvart Íslandi. Þar er ekki um tæknilegt úrlausnarefni að ræða heldur stórpólitískt mál. Undir forystu ráðherranna Össurar Skarphéðinssonar og Jóns Bjarnasonar er embættismönnum sagt að líta fram hjá hinum pólitíska þætti. Á hann er hvergi minnst í yfirlýsingum talsmanna Íslands.

Jón Bjarnason hefur látið eins og hann sé alfarið á móti aðlögun að ESB. Spyrja má um heilindi hans í því efni. Þau birtast ekki í þeirri afstöðu að líta aðeins á makrílmálið sem tæknilegt úrlausnarefni en ekki tilraun ESB til að berja Íslendinga til hlýðni og til að falla frá lögmætum kvótaákvörðunum sem styðjast við vísindalega ráðgjöf.

Þögn íslenskra stjórnmálamanna um refsiaðgerðir ESB eru í hrópandi andstöðu við fögnuð sjávarútvegsráðherra Skotlands yfir því að nú sé tekið til við að lemja á Íslendingum. Hann lítur ekki á ákvörðun framkvæmdastjórnar ESB sem tæknilegt mál heldur fyrsta pólitíska skrefið á þeirri braut að berja Íslendinga til undirgefni undir vilja ESB. Þögn íslenskra ráðherra og viljaleysi ríkisstjórnar Íslands til pólitískrar fyrirstöðu gleður hann enn frekar.

Stefna ríkisstjórnar Jóhönnu Sigurðardóttur gagnvart hótunum og refsingum ESB brýtur í bága við allar íslenskar hefðir í landhelgismálum. Skýringin á stefnubreytingunni er einföld: Ríkisstjórnin vill að Ísland gerist aðili að Evrópusambandinu. Við það færast ákvarðanir um veiðikvóta færist úr íslensku ráðuneyti við Skúlagötu í Reykjavík til Berlaymont-byggingarinnar í Brussel þar sem framkvæmdastjórn ESB situr í öllu sínu veldi. Ríkisstjórn Íslands vill ekki styggja Mariu Damanaki eða aðra sem fara með völdin í Brussel – jafnvel þótt í húfi sé valdið yfir lífsbjörg þjóðarinnar.