13.1.2011

Verður Íslandi bjargað frá ESB-flökunarvélinni?

Evrópuvaktin 13. janúar 2011


Allt frá því að alþingi samþykkti aðildarumsókn Íslands að Evrópusambandinu 16. júlí 2009 hefur þeim sem þekkja til mála verið ljóst að í samþykktinni fælist að íslensk stjórnvöld væru til þess búin að laga sig að skilyrðum sambandsins. Þessi skilyrði hafa verið nefnd aðlögunarskilyrði á íslensku. Þau fela í sér að umsóknarríkið breytir því sem breyta þarf í stjórnarháttum sínum að kröfu ESB.

Alþingi lagði af stað í umsóknar- og aðildarleiðangurinn á fölskum forsendum. Áróður umsóknarsinna byggðist á þeirri blekkingu að halda mætti til Brussel eins og inn í fataverslun, þar sem menn kaupa ekkert nema fötin henti þeim, þau séu eins og klæðskerasniðin. Ef ekkert passaði sem ESB-búðin byði gætu Íslendingar snúið aftur frá Brussel eins og ekkert hefði í skorist.

Nú um 18 mánuðum síðar vakna blekkingasmiðir aðildarumsóknarinnar upp við vondan draum. Evrópusambandið krefst þess af þeim sem ætlar inn í Brussel-búðina að hann sé forsniðinn að kröfu kaupmannsins.Viðskiptavinurinn á ekkert val, honum ber að fara í sömu föt og aðrir innan ESB, hann verður að sníða af sér alla vankanta samkvæmt máli ESB.

Skilaboð um þessar kröfur ESB hafa borist Íslendingum og íslenskum stjórnvöldum á mismunandi skýran og ótvíræðan hátt frá 16. júlí 2009. Hvað eftir annað hafa stjórnendur ESB áréttað að engar sérreglur gildi um aðildarferli Íslands, þótt margt sér auðvelt í samskiptum Íslands og ESB vegna aðildar Íslands að EES. Aðlögunarkröfurnar séu til dæmis aðrar gagnvart Íslandi en Króatíu.

Öll þessi skilaboð hafa ESB-aðildarsinnar og áhangendur þeirra látið sem vind um eyru þjóta eða þau hafa einfaldlega verið rangtúlkuð. Ef til vill má afsaka að einfaldir alþingismenn láti blekkjast af þrá eftir ráðherrastóla. Hitt er verra að íslenskir embættismenn taki þátt í blekkingariðju í því augnamiði að draga íslenska stjórnkerfið sífellt lengra inn í flökunarvél ESB.

Árni Þór Sigurðsson, þingmaður vinstri-grænna og formaður utanríkismálanefndar alþingis, gegnir lykilhlutverki hjá stuðningsmönnum ESB-umsóknarinnar. Hann hefur fram til þessa lagt sig mest fram um að rangtúlka eðli hennar. Spurning er hvort hann átti sig á því að hann kemst ekki lengra á blekkingarbrautinni.

Árni Þór sagði í Fréttablaðinu 12. janúar að slíta mætti ESB-viðræðunum áður en þeim lyki. Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, telur þessa yfirlýsingu réttilega „mikil tíðindi“. Hún gengur þvert á allt talið um að þjóðin eigi rétt á að taka afstöðu til ESB-aðildar á grundvelli samnings í þjóðaratkvæðagreiðslu.

Hafi það runnið upp fyrir Árna Þór Sigurðssyni að enginn samningur verður gerður við ESB án þess að fallast á allar kröfur ESB og laga sig að þeim áður en samningurinn er gerður, er greinilegt að einhvers staðar innan íslenska stjórnkerfisins leynist vilji til að upplýsa alþingismenn um óhjákvæmilega afleiðingu samþykktar þeirra frá 16. júlí 2009.